Hoppa yfir valmynd

Nr. 352/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 352/2018

Miðvikudaginn 14. nóvember 2018

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. september 2018, sem barst úrskurðarnefnd velferðarnmála með bréfi póstlögðu 4. október 2018, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar B frá 16. ágúst 2018 um umgengni hennar við börn hennar, D og E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Mál barna kæranda hefur verið til meðferðar Barnaverndarnefndar B frá X 2015 þegar tilkynning barst til nefndarinnar vegna gruns [...] Var þá gerð áætlun um frekari meðferð málsins og lagði Barnaverndarnefnd B áherslu á að börnin, einkum, stúlkan [...]

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B X 2016 og með úrskurði nefndarinnar X 2016 var ákveðið, með vísun til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), að stúlkan yrði vistuð utan heimilis í tvo mánuði. Ákvörðunin var borin undir héraðsdóm. Á fundi BarnaverndarnefndarB X 2016 var samþykkt, með vísan til 1. mgr. 28. gr. bvl., að gera þá kröfu fyrir héraðsdómi að vistun stúlkunnar yrði framlengd þar til viðtölum í Barnahúsi væri lokið eða í allt að sex mánuði til viðbótar. Með úrskurði Héraðsdóms F X 2016 var ákvörðunin staðfest og fallist á áframhaldandi vistun stúlkunnar í sex mánuði. Stúlkan hafði á þessum tíma takmarkaða umgengni við kæranda og þá undir eftirliti.

Þann X 2016 var kveðinn upp úrskurður um töku drengsins af heimili kæranda með vísan til 31. gr. bvl[...] Með vísan til 1. mgr. 28. gr. bvl. var gerð sú krafa fyrir dómi að sú ráðstöfun skyldi standa í sex mánuði en sú krafa var ekki sett fram áður en vistunartími rann út og var neytt úrræða 31. gr. bvl. og úrskurðað að drengurinn skyldi kyrrsettur á vistunarheimili. Með úrskurði Héraðsdóms F X 2016 var fallist á vistun drengsins til X mánaða. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands.

Með úrskurði X 2016 úrskurðaði Barnaverndarnefnd B að stúlkan skyldi kyrrsett á vistheimili í X mánuði. Með úrskurði HéraðsdómsF X 2017 var vistun stúlkunnar framlengd til X mánaða.

Með dómi Héraðsdóms G X 2017 [...]

Með dómi Héraðsdóms G X 2018 var kærandi, ásamt föður barnanna, svipt forsjá þeirra.

Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B frá X2018 var kveðið á um að umgengni kæranda við börnin skyldi vera einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn og þá undir eftirliti. Í forsendum úrskurðarins kemur fram að ef Landsréttur staðfesti forsjársviptingu kæranda muni verulega draga úr umgengni hennar við börnin. Komið hafi fram að þótt umgengni hafi gengið vel hafi hún valdið börnunum vanlíðan og hugarangri. Þá hafi umgengni verið óvenju oft, eða tvisvar í mánuði fyrir stúlkuna og einu sinni í viku fyrir drenginn.  

Þann 8. október 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarnmála kæra vegna málsins með bréfi, dags. 28. september 2018, sem hafði verið póstlagt 4. október 2018. Í kæru er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og ákveðið verði að umgengni kæranda við börn hennar á meðan málið er til meðferðar Landsréttar verði eigi sjaldnar en einu sinni í viku og að minnsta kosti fjóra tíma í senn. Auk þess verði ákveðin umgengni í tvo til fjóra tíma í senn tvisvar í mánuði þar sem annað barnið í einu nýtur umgengni við kæranda. Fram kemur að krafa kæranda sé byggð á því að hún og börn hennar eigi rétt á samvistum við hvert annað. Börnin séu ung að árum og hafi verið í vistun í meira eða minna tvö ár og þannig verið haldið frá kæranda, þrátt fyrir að hún hafi í engu brotið gegn þeim. [...]  Þá byggi kærandi á því að ekkert liggi fyrir í málinu frá hlutlausum aðila um að samvistir barnanna við hana séu skaðleg fyrir þau. Þvert á móti sýni skýrslur eftirlitsaðila að þeim komi vel saman og njóti samvistanna, ekki síst fyrst eftir að þau voru vistuð gegn vilja kæranda. 

II.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þessi lagaákvæði eiga við um hinn kærða úrskurð.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 16. ágúst 2018 og var hann sendur kæranda og lögmanni hennar, H, með ábyrgðarpósti þann 21. ágúst 2018.

Barnaverndarnefnd B fól Íslandspósti að afhenda kæranda og lögmanni hennar úrskurðinn. Í tilfelli kæranda tókst ekki að afhenda kæranda úrskurðinn og var því tilkynning skilin eftir á lögheimili hennar þann X 2018. Ítrekun var send kæranda X 2018. Kærandi sótti ekki ákvörðunina á pósthúsið og var hún því endursend Barnaverndarnefnd B X 2018.

Varðandi birtingu ákvörðunar fyrir lögmanni kæranda þá var hún, samkvæmt kvittun Íslandspósts, afhent skráðum viðtakanda þann X 2018. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála X 2018 eftir að fjögurra vikna kærufrestur var liðinn.

Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Í kæru kemur fram að úrskurður barnaverndarnefndar hafi verið tilkynntur kæranda og þáverandi lögmanni hennar, H, með bréfum. Kærandi hafi ekki móttekið slíka tilkynningu en ábyrgðarbréf hafi borist á nýtt heimilisfang lögmannsins að I. Lögmaður hafi þá verið staddur erlendis og því hafi verið tekið við sendingunni af öðrum sem er með skrifstofu á sömu hæð, án þess að innihaldið væri kannað. Lögmaðurinn hafi síðan komið að utan síðla dags X 2018 og hafi fyrst verið í aðstöðu til að kynna kæranda úrskurðinn þann X 2018.

Að því er varðar 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, hefur lögmaður kæranda gefið þær skýringar að þáverandi lögmaður kæranda hafi ekki verið í að aðstöðu til að kynna úrskurðinn fyrir kæranda fyrr en 1X 2018 þar sem hún hafi verið erlendis. Að mati lögmannsins beri því að miða frest við þann tíma þegar úrskurður var kominn til vitundar kæranda, þ.e. þann X 2018.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er ákvörðun bindandi eftir að hún er komin til aðila. Af ummælum í greinargerð með 20. gr. er ljóst að það er ekki skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar málsaðila. Því sé nægjanlegt að ákvörðun berist þangað sem almennt má búast við að aðili geti kynnt sér hana, til dæmis að bréf hafi verið afhent á heimili hans eða þegar aðili hefur falið lögmanni að koma fram fyrir sína hönd, en þá er nægjanlegt að senda ákvörðunina þangað sem lögmaður getur kynnt sér hana, til dæmis á skrifstofu lögmanns.

Að þessu virtu var hin kærða ákvörðun birt með fullnægjandi hætti á skrifstofu þáverandi lögmanns kæranda þann X 2018. Í samræmi við þetta verður að telja að kæranda hafi verið tilkynnt um úrskurðinn með fullnægjandi hætti er lögmanni hennar var sendur úrskurðurinn með ábyrgðarbréfi. Samkvæmt þessu getur dráttur lögmanns á því að vitja pósts ekki eitt og sér komið í veg fyrir að kærufrestur byrji að líða eða að afsakanlegt verði talið við þessar aðstæður að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá skiptir ekki máli að lögmaður kæranda hafi verið erlendis á þeim tíma er ákvörðun barst.

Varðandi 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber úrskurðarnefndinni að meta hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar, þrátt fyrir að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Við úrlausn málsins verður að líta til þess að í barnaverndarstarfi gildir sú meginregla að ávallt skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu. Hagsmunir barna eru því ávallt hafðir í fyrirrúmi og fari hagsmunir barna og foreldra ekki saman, skulu hagsmunir foreldra víkja. 

Samkvæmt hinum kærða úrskurði er ljóst að Barnaverndarnefnd B dró úr tíðri umgengni barnanna við kæranda þar sem hún olli þeim vanlíðan og hugarangri. Mikilvægt er að skapa ekki óróleika og truflun í fóstrinu og skiptir þetta máli þegar tekin er afstaða til þess hvort veigamikilar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar við þær aðstæður. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir ofangreint til þess að ekki verður talið að hér sé uppfyllt það skilyrði lagaákvæðisins að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A á úrskurði barnaverndarnefndar B 16. ágúst 2018, þar sem ákveðin var umgengni hennar við D og E, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Hrafndís Tekla Pétursdóttir                                                      Sigríður Ingvarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta