Hoppa yfir valmynd

Nr. 181/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 181/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020042

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. febrúar 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi er varðar brottvísun og endurkomubann, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara gerir kærandi kröfu um að hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. janúar 2019. Þann 16. janúar 2019 dró kærandi umsókn sína til baka. Með með tilkynningu Útlendingastofnunar sama dag var honum veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið og jafnframt tilkynnt um hugsanlega brottvísun frá Íslandi yfirgæfi hann landið ekki innan veitts frests. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd að nýju þann 30. janúar 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 31. janúar 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, þann sama dag, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 15. febrúar 2019. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. febrúar 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 26. febrúar 2019. Þá lagði kærandi fram frekari gögn þann 2. apríl 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi [...]. Þá óttist kærandi aðila tengda stjórnvöldum í heimaríki sem hann kveður hafa rænt sér og hótað honum.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga.

Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið hingað til lands vegna ofsókna í heimaríki. Ofsóknirnar mætti m.a. rekja til aðildar kæranda að minnihlutahópi [...] í heimaríki. En aðallega óttist kærandi ofsóknir af hálfu aðila sem vinni fyrir stjórnvöld eða njóti verndar stjórnvalda. Kærandi hafi verið [...] í heimaríki en hafi verið [...]. Kærandi kveðst hafa [...] að stærstum hluta í [...]. Kærandi hafi alla tíð haldið fram [...]og stafi ofsóknir í hans garð af baráttu hans til að sanna [...]. Kærandi hafi talað við fólk og safnað skjölum eftir að honum hafi verið [...] og þegar ákveðnir einstaklingar hafi heyrt af gjörðum kæranda hafi ofsóknir í hans garð hafist að nýju. Kærandi kveður gagnaöflun sína hafa gengið vel þrátt fyrir nokkrar hindranir. Ofsóknir í garð kæranda hafi þó aukist og hafi hann nafngreint þá einstaklinga sem hafi staðið að baki þeim í viðtali hjá Útlendingastofnun. Kærandi kveður jafnframt að þau gögn sem hann hafi aflað sýni með beinum hætti fram á [...] og hafi hann gert grein fyrir skjölunum í viðtali hjá Útlendingastofnun. Kærandi kvaðst einnig geta lagt fram frekari gögn máli sínu til stuðnings en fulltrúi Útlendingastofnunar hafi veitt kæranda sólarhringsfrest til að leggja fram frekari gögn. Kærandi hafi mótmælt þeim stutta fresti þar sem hann hafi verið óraunhæfur. [...]. Kærandi hafi farið aftur í viðtal hjá Útlendingastofnun eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd að nýju, þar hafi hann greint frá því að hann hafi hætt við fyrirhugaða heimför sökum þess að þeir aðilar sem ofsæki hann hafi komið á heimili hans og ráðist að aldraðri móður hans með líkamlegu ofbeldi. Móðir kærandi hafi í kjölfarið hringt í lögregluna og óskað eftir aðstoð en hún hafi aldrei látið sjá sig. Samkvæmt upplýsingum frá móður kæranda sé hann því enn í lífshættu og verið sé að leita að honum.

Í greinargerð kæranda er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála í [...]. Helstu vandamál tengd mannréttindum þar í landi séu m.a. spilling yfirvalda, verulegir annmarkar á réttarkerfinu og ófullnægjandi kerfi til að takast á við meinta misnotkun lögreglumanna á valdi sínu. Þá sé réttur sakborninga fyrir dómstólum ekki tryggður með fullnægjandi hætti og dómarar séu oft viðkvæmir fyrir pólitískum áhrifum þegar þeir dæmi í málum sem tengist ríkisstjórninni.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi hafi m.a. verið ofsóttur af fyrrum fulltrúum stjórnvalda í heimaríki og m.a. [...]. Þá búi kærandi yfir upplýsingum sem sýni fram á brot háttsettra aðila og hafi orðið fyrir ofbeldi og áreiti af þeim sökum. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi m.a. til frumvarps að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 þar sem fram komi að ómannúðleg og vanvirðandi meðferð geti m.a. falist í frelsissviptingu á borð við fangelsisrefsingu. Ennfremur vísar kærandi til lögskýringagagna að baki 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli að útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra félagslega aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að með mjög íþyngjandi félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og yfirvöld í heimaríki telji kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt verði ekki fallist á aðalkröfu hans.

Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi. Í greinargerð er ferill málsins hjá stofnuninni varðandi beitingu brottvísunar og endurkomubanns rakinn. Kærandi vísar til þess að kærunefnd útlendingamála hafi í fyrri úrskurðum sínum tiltekið hvernig túlka beri hugtakið bersýnilega tilhæfulaust. Þannig þurfi að vera ljóst við fyrstu sýn, t.d. vegna efnahagslegra ástæðna, að umsókn falli ekki undir flóttamannahugtakið eða skilyrði dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Miðað við frásögn kæranda um áreiti og ofbeldi á grundvelli stjórnmálaskoðana sé ljóst að umsókn kæranda sé ekki bersýnilega tilhæfulaus. Ennfremur hafi stofnuninni verið óheimilt að ákvarða kæranda brottvísun með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá hafi ákvörðun Útlendingastofnunar um endurkomubann verið í andstöðu við 1. mgr. 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Kærandi telji jafnframt að umrædd ákvörðun gangi gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda verði ekki séð að Útlendingastofnun hafi tekið tillit til hagsmuna og réttinda kæranda. Ljóst hafi verið að fleiri úrræði hafi verið í boði til að ná markmiði stofnunarinnar, sem talist geti vægari í garð kæranda. Þannig hafi stofnunin brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og því sé rétt að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi.

Kærandi gerir nokkrar athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi bendir í fyrsta lagi á að hann hafi greint frá því í upphafi viðtals hjá Útlendingastofnun þann 15. janúar sl., að hann tilheyri þjóðarbroti [...] í heimaríki en að fulltrúar stofnunarinnar hafi ekkert spurt nánar um aðstæður hans að þessu leyti. Í öðru lagi bendir kærandi á að í rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að Útlendingastofnun hafi talið rétt að árétta að kærandi hafi í viðtölum sýnt af sér ógnvekjandi hegðun, verið ósamvinnuþýður í hvívetna og hafi vikið sér ítrekað undan því að svara spurningum eða veitt yfirborðskennd og ónákvæm svör. Kærandi bendir á að hann hafi m.a. varið stærsta hluta [...] sem hafi mikil skaðleg andlega áhrif á einstaklinga sem þurfi að öllu jöfnu langan tíma og faglega meðferð til að vinna úr reynslu sinni. Þá þurfi að hafa í huga að kærandi hafi verið undir miklu álagi eftir að hann hafi [...]. Kærandi hafi sýnt miklar tilfinningasveiflur í viðtölum hjá Útlendingastofnun en honum hafi ekki verið veitt aðstoð sérfræðinga né hafi verið óskað eftir mati sérfræðings á andlegu ástandi hans. Með tilliti til alls sem kærandi hafi gengið í gegnum verði að telja varfærni hans í samskiptum við yfirvöld eðlileg og geri hann því athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar að þessu leyti. Þá bendir kærandi í þriðja lagi á að samkvæmt mati Útlendingastofnunar telji stofnunin ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi [...] og að ekkert bendi til annars en að [...] hafi grundvallast á lögum enda beri landaupplýsingar með sér að [...] sé réttarríki þar sem grundvallarmannréttindi séu tryggð. Gerir kærandi athugasemd við þennan rökstuðning þar sem stofnunin vísi ekki í landaupplýsingar frá þeim tíma er [...] . Sé jafnframt mikið ósamræmi í hinni kærðu ákvörðun þar sem kemur m.a. fram að helstu vandamál á sviði mannréttinda í [...] séu ágallar á réttarkerfinu, þ. á m. þrýstingur á dómsvaldið í tilteknum málum, ófullnægjandi eftirlit þingsins með löggæslustofnunum, árangurslítil úrræði við ætluðum brotum lögreglumanna í starfi, slæmur aðbúnaður í fangelsum og spilling meðal stjórnvalda. Þá gerir kærandi alvarlega athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki látið þýða framlögð gögn hans en ljóst sé af þeim gögnum að hann hafi verið dæmdur að ósekju. Stofnunin hafi því ekki kynnt sér efni þeirra og þar af leiðandi ekki metið mikilvægi þeirra upplýsinga með tilliti til framburðar kæranda. Kærandi gagnrýnir jafnframt að stofnunin hafi ekki aflað upplýsinga um þá aðila sem kærandi hafi nafngreint. Þá hafi kærandi fengið óhóflega stuttan frest til að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings og brjóti þessi skammi frestur gegn 47. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 þar sem mælt sé fyrir um hæfilegan frest til framlagningar gagna.

Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telji í ljósi frásagnar kæranda, gögnum málsins og framangreinds ósamræmis í rökstuðningi Útlendingastofnunar hafi stofnuninni borið að stuðla að öflun frekari gagna um mál kæranda í heimaríki. Þá sé það mat kæranda að Útlendingastofnun hafi ekki gefið sér nægjanlegan tíma til að komast að einstaklingsbundinni niðurstöðu í málinu. Að ofangreindu virtu sé það mat kæranda að kærunefnd beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og gera Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga, 2. mgr 23. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga til að tryggja að fjallað sé um öll atriði málsins á tveimur stjórnsýslustigum sbr. 6. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað[...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...]ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá [...] kveði á um jafnrétti allra fyrir lögunum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu sé refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Þá sjái tvær stofnanir aðallega um löggæslu og að halda uppi allsherjarreglu í [...], þ.e. innanríkisráðuneytið og öryggissveitir ríkisins. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi stjórnvöld skilvirka stjórn á innanríkisráðuneytinu, öryggissveitum ríkisins, varnarmálaráðuneytinu og þeim stofnunum sem hafi vald til að rannsaka og refsa fyrir misnotkun og spillingu. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að engar tilkynningar hafi borist um refsileysi í málum er varði aðila sem fara með löggæslu á árinu en þó hafi Umboðsmanni (e. Public Defender´s Office) borist nokkrar kvartanir varðandi óhóflega beitingu valds af hálfu lögregluþjóna.

Þá komi fram í framangreindum gögnum að spilling sé þó nokkur í [...] stjórnkerfinu. Yfirvöld hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu og hafi miklar framfarir átt sér stað á undanförnum árum. Stjórnvöldum beri að taka allar tilkynningar um misferli lögreglu til skoðunar og þeir aðilar sem telji brotið á réttindum sínum geti kært til æðra stjórnvalds eða farið með mál sitt fyrir dómstóla. Í skýrslunni utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna frá mars 2019 kemur jafnframt fram að saksóknarembætti þar í landi (e. Chief Prosecutor´s Office) hafi á árinu 2017 hafið rannsókn í 127 málum er varði misnotkun á valdi opinberra starfsmanna og af þeim málum hafi 17 einstaklingar sætt ákæru, þ. á m. þrír lögregluþjónar.

Í gögnunum kemur fram að Umboðsmaður hafi verið starfandi í [...] frá árinu 1997. Umboðsmaðurinn hafi eftirlit með mannréttindum og frelsi borgaranna í [...] innan lögsögu ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. stjórnarskrár [...] gangi alþjóðasamningar, sem fullgiltir hafi verið af hálfu [...]framar landslögum. Svo framarlega sem slíkir samningar gangi ekki gegn stjórnarskrá landsins sé hægt að beita þeim sem hluta af almennri löggjöf. Þá hafi mannréttindadeild saksóknaraembættisins eftirlit með ákærum og fylgist með því að alþjóðlegum stöðlum mannréttinda sé fylgt í þeim málum. Samkvæmt skýrslu Umboðsmanns um stöðu mannréttinda fyrir árið 2017 hafi Umboðsmaður tilkynnt saksóknaraembættinu um 72 mál vegna meintra pyntinga og illrar meðferðar á árunum 2013-17 til rannsóknar. Þær rannsóknir hafi þó ekki leitt til neinna ákæra. Þá kemur fram að þann 30. apríl 2014 hafi áætlun um vernd mannréttinda í [...] fyrir árin 2014 til 2020 verið samþykkt. Sú áætlun gefi til kynna að stjórnvöld séu reiðubúin til þess að fylgja hæstu stöðlum alþjóðasamfélagsins varðandi mannréttindi. Þrátt fyrir að áætluninni hafi ekki verið komið í framkvæmd að fullu veiti hún möguleika fyrir samfélagið að efla eftirlit með mannréttindum í landinu. Þá kemur fram í skýrslu öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) að forsetakosningar í landinu sem fram hafi farið í tveimur umferðum í [...] hafi verið vel skipulagðar og þar hafi ríkt mikil samkeppni á milli frambjóðenda. Frambjóðendur hafi getað stundað kosningabaráttu sína óhindrað en þó hafi komið upp tilfelli þar sem að opinbert fé hafi verið nýtt til stuðnings frambjóðanda stjórnarflokksins. Fjölmiðlaumfjöllun hafi ekki verið hlutlaus og kjósendur hafi þar af leiðandi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um frambjóðendur til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun. Einnig hafi verið uppi ásakanir á milli frambjóðenda um kaup á atkvæðum og ógnandi hegðun gagnvart kjósendum.

Í framangreindum gögnum kemur einnig fram að félagslega kerfið í [...] tryggi einstaklingum sem þurfi á að halda fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Fram komi að félagsleg aðstoð sé veitt til þeirra sem á þurfi að halda og eigi í miklum erfiðleikum og miði hún sérstaklega að því að styrkja efnahagslega stöðu þeirra sem séu verst settir. Ríkið hafi unnið að því á undanförnum árum að draga úr fátækt og auka hagvöxt í [...] og bæta þannig félagslegar aðstæður og lífskjör þjóðarinnar. Almannatryggingakerfi ríkisins greiði atvinnuleysisbætur og veiti félagslega aðstoð. Samhliða því séu einnig starfrækt frjáls mannúðar- og félagasamtök í [...] rekin af innlendum og erlendum aðilum, sem veiti einstaklingum m.a. mat, fatnað og aðrar nauðsynjar og séu þau aðgengileg öllum hópum samfélagsins.

Í skýrslu LandInfo frá árinu 2017 um stöðu þjóðernisminnihluta í [...] kemur fram að 13,2 % íbúa landsins tilheyri þjóðernisminnihluta. [...] séu stærstu hóparnir en aðrir hópar séu m.a. [...], [...]. Í skýrslunni kemur fram að [...] sé aðili að mannréttindasáttmála Evrópu og ýmsum samningum Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi ríkið sett á fót löggjöf sem banni mismunun í maí 2014. Stjórnarskrá ríkisins kveði á um tjáningar- og trúarfrelsi og 38. gr. [...] stjórnarskrárinnar kveði á um rétt allra ríkisborgara landsins til að iðka sína eigin menningu og að nota móðurmál sitt í einrúmi sem og opinberlega. Þá sé enga skýra og beina mismunun að finna í ríkinu gegn einstaklingum sem tilheyri þjóðernisminnihuta.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína um vernd á því að hann sé ofsóttur af hálfu aðila sem vinni fyrir og/eða njóti verndar stjórnvalda í [...]. Ofsóknirnar stafi m.a. af því að hann hafi undir höndum gögn um glæpi fyrrum varnarmálaráðherra [...]. Kærandi kveður m.a. að honum hafi verið rænt, hann hafi sætt hótunum símleiðis og að ráðist hafi verið á móður hans á meðan hann hafi dvalið hér á landi. Kærandi hefur m.a. nafngreint háttsetta aðila í [...] sem hann kveður tengjast ofsóknunum auk þess sem hann hefur afhent ýmis gögn í tengslum við [...]sem hann hlaut í heimaríki og gert munnlega grein fyrir þeim.

Eins og að framan greinir kveðst kærandi hafa sætt hótunum og ofbeldi frá aðilum tengdum yfirvöldum þar sem hann búi yfir upplýsingum um glæpi aðila tengdum fyrri ríkisstjórn. Jafnframt hefur kærandi haldið því fram að ofsóknirnar stafi af baráttu hans til að [...] en hann hafi verið [...]. Þá hefur kærandi lagt fram gögn er tengjast [...]. Kærandi gat þó ekki bent á hvort eða hvar í framlögðum gögnum væri að finna upplýsingar sem styðji við það að honum stafi í dag hætta af hálfu þeirra aðila sem hann kveður að hafi haft í hótunum við sig. Þá hefur hann ekki lagt fram önnur gögn til stuðnings frásögn sinni að þessu leyti. Kærunefnd tekur undir það mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda af ofangreindum ofsóknum og ástæðu þeirra sé óskýr og ónákvæm. Af framlögðum gögnum er ljóst að kærandi hafi verið [...] en samkvæmt frásögn kæranda er þeirri [...] nú lokið.

Þá telur kærunefnd jafnframt ekki útilokað að kærandi hafi orðið fyrir áreiti af hálfu ótilgreindra aðila í heimaríki. Kærandi nafngreinda nokkra einstaklinga í viðtali hjá Útlendingastofnun sem hann kveður að hafi haft eitthvað með það að gera að kærandi hafi verið dæmdur. Kærunefnd leitaði að upplýsingum um þessa aðila og virðist sem að flestir þeirra aðila sem kærandi nafngreindi sitji í fangelsi í [...] eða séu eftirlýstir af [...] yfirvöldum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu þessara aðila sem ná því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vísar til.

Þá var kærandi afar óljós með tengsl tiltekinna tveggja aðila við mál sitt. Annar þeirra situr nú á þingi í [...] fyrir einn stjórnarandstöðuflokkanna og hinn var í janúar sl. skipaður yfirmaður landamæralögreglunnar í [...]. Það er mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að ofangreindir aðilar standi á bakvið þær ofsóknir sem kærandi kveðst sæta í heimaríki eða tengist kæranda á þann hátt að það kunni að hafa áhrif á þetta mál. Kærunefnd telur að í ljósi framangreinds og annarra gagna málsins, þ.m.t. skýrslna um aðstæður í heimaríki kæranda, sé ekki unnt að byggja á frásögn kæranda um að hann sæti ofsóknum af hálfu aðila er séu valdamiklir eða hafi tengsl við stjórnvöld í heimaríki sínu.

Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi sætt eða eigi hættu á að sæta ofsóknum af hálfu [...] yfirvalda eða annarra aðila í [...] sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Kærandi hefur einnig byggt á því að hann verði fyrir mismunun sökum uppruna síns en samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir bendir hins vegar ekkert til þess að einstaklingar af því þjóðarbroti sem kærandi kveðst tilheyra verði fyrir ofsóknum eða mismunun af þeirri ástæðu að þeir tilheyri þjóðarbrotinu. Verður því ekki talið að kærandi eigi hættu á ofsóknum af þeim ástæðum sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar til, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að beiting ákvæðisins teljist heimil.

Í framangreindum athugasemdum við 74. gr. kemur jafnframt fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi greindi frá því í viðtali við Útlendingastofnun að hann hafi farið í aðgerð á maga í Þýskalandi, sé með opna sauma og þurfi að fara í aðra aðgerð til að loka þeim. Þá sé andlega heilsa hans slæm eftir að hafa verið í [...]í langan tíma í heimaríki. Af skýrslum um heimaríki kæranda má ráða að þurfi kærandi á heilbrigðisþjónustu að halda sé slík þjónusta aðgengileg þar. Þá er kærandi ekki í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt sé að rjúfa.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.  

Frávísun, brottvísun og endurkomubann

Með vísan til atvika málsins tekur kærunefnd undir forsendur Útlendingastofnunar varðandi frávísun kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 540/2017.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og ákvarðað endurkomubann, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ástæða þess er að Útlendingastofnun mat umsóknir kæranda bersýnilega tilhæfulausa í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að fella niður frest sem að jafnaði er veittur útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur í kjölfar ákvörðunar um að yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn.

Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við þegar:

a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,

b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og

c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé ofsóttur í heimaríki af aðilum tengdum stjórnvöldum þar í landi. Kærandi hefur lagt fram ýmis gögn við meðferð málsins í tengslum við þann [...] sem hann hlaut í heimaríki. Útlendingastofnun hefur jafnframt talið frásögn hans um að hafa [...] í heimaríki trúverðuga. Líkt og að framan greinir hefur kærandi þó ekki sýnt fram á að þau gögn styðji nægilega við frásögn hans um að hann eigi á hættu að sæta ofsóknum. Að þeirri niðurstöðu var hins vegar ekki komist án undangenginnar rannsóknar á tilgreindum aðilum, þeim gögnum sem kærandi lagði fram við meðferð málsins og aðstæðum í heimaríki kæranda.

Með vísan til ofangreinds og á grundvelli heilstæðs mats á aðstæðum kæranda er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið ljóst við fyrstu sýn að umsókn kæranda varðaði ekki þá þætti sem 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga tekur til. Umsókn kæranda telst því ekki bersýnilega tilhæfulaus.

Með vísan til ofangreinds eru ekki forsendur til að staðfesta þann hluta ákvörðunar Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar.

Kærandi gerði í greinargerð sinni athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Kærandi telur að stofnunin hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, m.a. hafi stofnunin ekki rannsakað sérstaka stöðu kæranda sem einstaklings af þjóðarbroti, [...] og þá hafi mikið ósamræmi verið í rökstuðning hennar varðandi stöðu mannréttindamála þar í landi. Ennfremur hafi stofnunin ekki látið þýða þau gögn sem kærandi hafi lagt fram og honum hafi verið veittur allt of stuttur frestur til að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Þá kemur fram í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ekki annað ráðið en að stofnunin hafi kynnt sér aðgengileg gögn opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka um heimaríki kæranda og komist að niðurstöðu í máli hans á grundvelli skoðunar á þeim. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástand í heimaríki kæranda við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Þá hefur kærandi haft tækifæri á því að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings á kærustigi en engin frekari gögn hafa borist. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í nægilegu samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 10. janúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd daginn eftir. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun. Kærandi kemur frá öruggu upprunaríki og ekki verður ráðið af gögnum að hann glími við alvarlegan heilsufarsvanda.

Kærandi skal yfirgefa landið innan þess tímamarks sem kveðið er á um í úrskurðarorði.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn um alþjóðlegri vernd, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og frávísun. Felld er úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um brottvísun og endurkomubann.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar umsókn um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og frávísun er staðfest. Felld er úr gildi ákvörðun um brottvísun og endurkomubann. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection, residence permit on humanitarian grounds and refusal of entry is affirmed. The Directorate’s decision on expulsion and re-entry ban is vacated. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta