Hoppa yfir valmynd

4/2020 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2020, 22. desember, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður málinu 

 

nr. 4/2020

A

gegn

Háskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með bréfi, dags. 2. júlí 2020 sem barst nefndinni 29. júlí s.á. Kærð er ákvörðun forseta B sviðs Háskóla Íslands („“) 8. júlí 2020 um að áminna kæranda fyrir að hafa nýtt utanaðkomandi aðstoð í prófi í EFN406G Lífræn efnafræði II. Einnig er kærð ákvörðun deildarforseta raunvísindadeildar 18. júní 2020 um að gefa kæranda núll í einkunn í sama prófi og fella niður rétt kæranda til að taka endurtökupróf. Kærandi krefst þess aðallega að hann verði „sýknaður“ af ásökunum um að hafa notið utanaðkomandi aðstoðar við úrlausn á prófinu sem um ræðir. Þá er þess krafist að ákvörðun deildarforseta verði hrundið og að nefndin skyldi kennara námskeiðsins EFN406G Lífræn efnafræði til þess að meta prófúrlausn kæranda og gefa honum einkunn fyrir umrætt próf. Til vara krefst kærandi þess að nefndin hrindi fyrrnefndri ákvörðun deildarforseta og kærandi fái engin stig fyrir lið 5a í prófi námskeiðsins en kennara sé gert að gefa gilda einkunn fyrir prófið að frátöldum þeim lið. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun deildarforseta verði hrundið og málið sent að nýju til efnismeðferðar deildarforseta. Til þrautaþrautavara er þess krafist að ákvörðun forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs verði ógilt.

Viðbrögð HÍ við kærunni bárust 8. september 2020. Í erindinu hafnaði skólinn öllum kröfum kæranda. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við afstöðu skólans. Þær athugasemdir bárust með erindi dagsettu 23. september 2020 þar sem kærandi ítrekaði fyrri kröfur. Með tölvupósti HÍ frá 25. september 2020, var tekið fram að forseti B sviðs hafi ekki haft neina aðkomu að ákvörðun deildarforseta í málinu. Að öðru leyti taldi HÍ að þeim viðbótarathugasemdum sem fram komu í bréfi kæranda, dags. 23. september 2020, hefði þegar verið svarað af hálfu skólans. Fundur var haldinn með málsaðilum þann 23. nóvember 2020. Á þeim fundi komu aðilar sjónarmiðum sínum á framfæri munnlega fyrir nefndinni auk þess sem HÍ boðaði að von væri á viðbótargögnum til nefndarinnar. Þau gögn bárust með tölvupósti þann 1. desember 2020. Með tölvupósti lögmanns kæranda frá 2. desember 2020 var síðastnefndri gagnaframlagningu HÍ mótmælt sem of seint fram kominni auk þess sem frekari athugasemdum var komið á framfæri í tilefni af framlagningu gagnanna. Rétt er að taka fram að afgreiðsla málsins hefur dregist vegna heimfarsaldurs Kórónaveiru og sökum þess að ný gögn bárust nefndinni allt fram til desembermánaðar 2020.

II.

Málsatvik

Kærandi er nemandi á B sviði Háskóla Íslands. Þann 30. apríl 2020 þreytti kærandi próf í námskeiðinu EFN 406G Lífræn efnafræði II. Þann 25. maí 2020 barst kæranda tölvupóstur um að grunur væri um að kærandi hefði brotið reglur skólans í námskeiði á vormisseri 2020. Þann 27. maí 2020 var kærandi kallaður á fund deildarforseta, umsjónarkennara námskeiðsins og kennslustjóra B sviðs. Á fundinum var kæranda tilkynnt að hann lægi undir grun um ætluð brot gegn lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 með því að hafa nýtt sér utanaðkomandi aðstoð, nánar tiltekið aðstoð af netsíðunni chegg.com, við úrlausn á lið 5a í prófi í áðurnefndu námskeiði. Í lok fundarins var kæranda afhent bréf þar sem tilkynnt var um brot á framangreindum reglum og um 7 daga frest til að skila andmælum.

Með bréfi, dags. 3. júní 2020, kom kærandi andmælum sínum á framfæri og vísaði umræddum ásökunum á bug. Í andmælabréfinu benti kærandi á að ákvörðun um agaviðurlög í opinberum háskólum teldust til stjórnvaldsákvarðana í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að háskólinn væri bundinn af grundvallarreglum um rannsóknarskyldu, að sönnunarbyrðin hvíldi alfarið á HÍ og að grunsemdir kennara uppfylltu ekki þá ríku sönnunarbyrði sem á skólanum hvíldi.

Með tölvupósti HÍ frá 4. júní 2020 var óskað eftir gögnum og frekari rökstuðningi af hálfu kæranda í tengslum við andmælabréf hans. Kærandi sendi sama dag afrit af dæmum úr kennslubók, sýnidæmi og glærupökkum í því skyni að renna stoðum undir tilhæfuleysi ásakana um ætluð brot. Þann 18. júní 2020, eða 9 dögum fyrir útskrift kæranda, var honum tilkynnt skriflega sú ákvörðun deildarforseta að hann hafi gerst brotlegur við 2. mgr. 58. gr. reglna nr. 569/2009 með því að hafa notið utanaðkomandi aðstoðar við próftöku. Einkunn kennara 0,0 fyrir prófið yrði því látin standa. Kærandi hefði því ekki staðist kröfur til þess að ljúka námskeiðinu í EFN406G.

Málið var sent til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands en með úrskurði nefndarinnar 26. júní 2020 var talið að málið heyrði ekki undir nefndina. Var málinu því vísað frá nefndinni og tekið til meðferðar að nýju hjá forseta fræðasviðs.

Niðurstaða forseta fræðasviðs lá fyrir þann 8. júlí 2020. Þar kom fram að ekki færi fram endurmat á ákvörðun deildarforseta heldur einungis ákvörðun um viðurlög. Þá segir að brot kæranda hafi falið í sér „afritun svara við prófverkefni sem finna mátti á vefsíðu sem var ótengd námskeiðinu, en lokaprófið hafði verið sent til vefsíðunnar á meðan prófinu stóð og starfsmenn hennar fengnir til þess að svara prófinu.“ Í framangreindu hafi falist skýr ásetningur til brots og var kæranda veitt áminning með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008.

III.

Málsástæður kæranda

Kærandi byggir í fyrsta lagi á að ákvarðanir deildarforseta og forseta fræðasviðs séu ósamrýmanlegar og þannig óskýrar um það hvað kærandi eigi að hafa gerst brotlegur við. Ómögulegt sé að verjast slíkum ásökunum. Kærandi eigi að njóta vafans og því verði ákvarðanir ekki byggðar á þeim ásökunum sem fram hafi komið við meðferð málsins.

Þá byggir kærandi á því að gríðarleg brotalöm hafi verið á málsmeðferð háskólans frá upphafi. Kærandi hafi þurft að sæta miklum álitshnekki vegna þessa og aldrei getað varist ásökunum af fullum þunga þar sem eðli þeirra hafi breyst með hverri ákvörðun. Umræddar ásakanir séu óskýrar og með öllu ósannaðar. Af framangreindum ástæðum beri að fella úr gildi ákvarðanir forseta deildar og fræðasviðs og gera kennara að gefa einkunn fyrir umrætt próf.

Í öðru lagi byggir kærandi á því að meint brot hans lúti að eftirritun á umræddum hluta 5a úr prófinu af síðunni chegg.com. Kærandi bendir á að þegar stjórnvald taki íþyngjandi ákvörðun sem beinist gegn rétti einstaklings beri stjórnvaldið sönnunarbyrðina um að hafið sé yfir allan vafa að einstaklingur eða nemandi hafi viðhaft þá háttsemi sem hann sé sakaður um. HÍ hafi ekki axlað þá byrði og ekki sýnt fram á með öðru en getgátum að kærandi hafi gerst brotlegur umrætt sinn.

Í niðurstöðu HÍ sé hvergi sýnt fram á notkun umræddrar síðu heldur aðeins bent á líkindi lausna og því sé með öllu ósannað að kærandi hafi gerst brotlegur í umrætt sinn. Aðeins sé um hreinar getgátur að ræða og saknæmisskilyrði 3. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskola nr. 85/2008 sé því ekki uppfyllt og heimild til refsikenndra agaviðurlaga ekki fyrir hendi. Forseti fræðasviðs geti af þeim sökum ekki ákvarðað refsingu.

Í þriðja lagi byggir kærandi á óskýrleika reglna við töku prófa. Vísar hann til þess að fyrir próftöku hafi reglur um fyrirkomulag prófa verið uppfærðar og tilkynning þess efnis send til nemenda. Í reglunum sé vísað til þess að um heimapróf sé að ræða sem nemendum beri að leysa í einrúmi. Þá komi einnig fram að „nemendur munu hafa aðgang að kennslubók, fyrirlestrarnótum og öðrum þeim gögnum er tengjast námskeiðinu“. Kennari „treystir nemendum fyrir því að ekkert svindl eða prettir verði viðhöfð í tengslum við próftökuna og nemendur verða góðfúslega beðnir um skriflega yfirlýsingu því til staðfestingar“. Yfirlýsingin sem um ræðir sé svohljóðandi: „Ég staðfesti með skilum þessa prófs að ég hef unnið af heilindum í þessu prófi og ekki beðið um, þegið eða veitt öðrum aðstoð við úrvinnslu prófsins“. Ekki hafi verið sýnt fram á annað en að kærandi hafi fylgt og virt þessar reglur og gengist við þeirri skriflegu yfirlýsingu sem að framan greinir.

Einnig bendir kærandi á að þær réttarreglur sem kærandi sé talinn hafa gerst brotlegur við séu 2. mgr. 58. gr. reglna nr. 569/2009 og 2. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Þessar lagareglur séu víðtækar matskenndar reglur sem ekki sé hægt að byggja viðurlög á enda reglur Háskóla Íslands nr. 569/2009 í ósamræmi við lög og geti því ekki staðið 2. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla til fyllingar. Agaviðurlög verði því ekki byggð á þessum ákvæðum og geti kæranda ekki verið ákvörðuð agaviðurlög af þeim sökum.

Þá byggir kærandi á því að ákvörðun deildarforseta í málinu um að beita viðurlögum, þ.e. að gefa nemanda 0,0 í einkunn fyrir lokapróf í námskeiðinu EFN406 Lífræn efnafræði II sem og að fella niður rétt kæranda til að taka endurtökupróf, sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og gildi um hana lágmarks málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, þ.e. rannsóknarreglan, meðalhófsreglan, andmælaregla o.s.frv.

Kærandi bendir á að deildarforseti hafi byggt niðurstöðu sína á greinargerð kennara námskeiðsins, andmælum kæranda, minnisblaði lögfræðings HÍ sem og áliti Dr. C. Það veki furðu að þrátt fyrir að í andmælum kæranda, sem og niðurstöðu minnisblaðs lögfræðings HÍ, um að lágmarks málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga gildi um málið, hafi deildarforseti byggt niðurstöðu sína á gögnum sem voru kæranda í óhag og honum var ókunnugt um, þ.e. álit Dr. C. Í rökstuðningi deildarforseta fyrir niðurstöðunni sé sérstaklega vísað til umrædds álits og sjónarmið þess reifuð í niðurstöðu málsins og álitið hafi því haft verulega þýðingu við úrlausn málsins. Það sé meginregla í stjórnsýslurétti að þegar aðila er ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafi bæst við í máli hans og telja verði að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins beri að veita honum aðgang að þeim gögnum. Þá sé jafnframt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en aðilanum hafi verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 640/1992 og dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 329/2012. Deildarforseti hafi ekki fylgt þessu heldur aflað gagna sem voru kæranda í óhag og lagt þau til grundvallar niðurstöðu sinnar án þess að gefa kæranda færi á að andmæla gögnunum. Deildarforsetinn hafi því farið á svig við lágmarks málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og brotið á andmælarétti og upplýsingarétti samkvæmt 13. og 15. gr. laganna, sbr. og 2. mgr. 51. gr. reglna nr. 569/2009. Ákvörðun deildarforseta sé af framangreindum sökum ógild. Ákvörðun deildarforseta sé að sama skapi ólögmæt enda byggi hún á ákvörðun sem uppfylli ekki meginreglur stjórnsýsluréttar og hafi ekki verið endurskoðuð.

Verði ekki fallist á að ákvörðun deildarforsetans hafi falið í sér brot gegn stjórnsýslulögum er á því byggt að álitið sem aflað var sé ólögmætt. Í fyrsta lagi hafi álitsins verið aflað kæranda óafvitandi og honum ekki gefið færi á að andmæla álitinu við meðferð málsins sem teljist alvarlegt brot á stjórnsýslulögum, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 329/2012. Í öðru lagi hafi álitsins verið aflað með einhliða ákvörðun deildarforseta og án heimildar. Í þriðja lagi verði að telja öflun umrædds álits sérstaklega ámælisverða og skýrt brot á lögum um persónuvernd, enda hafi prófverkefni kæranda haft að geyma persónugreinanlegar upplýsingar.

Einnig bendir kærandi á að vegna þess hve hæg málsmeðferðin var af hálfu HÍ, hafi kæranda ekki verið unnt að fá endurskoðun stjórnvaldsákvörðunarinnar hjá óháðum aðila fyrir áætlaða útskrift. Ákvörðun deildarforseta hafi því í raun verið endanleg fyrir útskrift og kærandi látinn bera hallann af því hve hægt HÍ vann í málinu. Bent sé á að próftaka hafi verið þann 30. apríl 2020 en ákvörðun deildarforseta ekki legið fyrir fyrr en þann 18. júní 2020 eða meira en einum og hálfum mánuði eftir próftöku sem sé í andstöðu við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

 

Verði ekki fallist á að ákvörðun deildarstjóra hafi verið ólögmæt, eða að verknaður sá sem kærandi er sakaður um sé ósannaður, sé þess krafist af hálfu kæranda að gætt verði meðalhófs við ákvörðun viðurlaga í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Stjórnvaldi beri aðeins að taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til, beitt sé vægasta úrræði sem völ sé á og ekki beitt agaviðurlögum nema annað komi ekki til greina. Þá sé jafnframt bent á að samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga beri að gæta þess að kæranda verði ekki refsað umfram það sem aðrir hafi þurft að sæta vegna sambærilegra brota.

 

Í viðbótarathugasemdum kæranda eru fyrri athugasemdir áréttaðar og ennfremur á það bent að hvergi komi fram hvenær prófúrlausnin birtist á umræddri vefsíðu. Hvorki liggi fyrir dagsetning né tími og ekki sé ljóst hvort það hafi verið fyrir eða eftir að kærandi skilaði sinni úrlausn.

 

Þá bendir kærandi á ummæli forseta fræðasviðs um að ákvörðunin hafi verið „erfið“ fyrir forseta deildarinnar. HÍ hafi ekki mótmælt því sem staðfesti að forseti fræðasviðs hafi komið að þeirri ákvörðun og hafi þar af leiðandi verið vanhæfur til að koma að ákvörðun viðurlaga. Af gögnum málsins virðist mega ráða að kærandi vísi hér til þess að forseti B sviðs hafi þannig haft aðkomu að ákvörðun deildarforseta um að kærandi hafi brotið af sér.

 

IV.

Málsástæður Háskóla Íslands

HÍ krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

HÍ vekur á því athygli að forseti B sviðs hafi enga aðkomu haft að málinu þegar það var til umfjöllunar hjá viðkomandi deildarforseta. Eins og fram komi í ákvörðun sviðsforseta, dags. 8. júlí 2020, hafi engar vanhæfisástæður samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið fyrir hendi af hans hálfu við meðferð málsins. Það að sviðsforseti hafi tekið fram í samtali við lögmann kæranda að ákvörðun deildarforseta hafi verið erfið breyti engu þar um. Eftir að niðurstaða deildarforseta hafi verið kynnt kæranda hafi málið verið sent til forseta fræðasviðs í samræmi við 2. mgr. 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sviðsforseti hafi ekki haft nákvæmari útlistun á málinu en fram komi í gögnum málsins, sem hann hafi fengið send frá deildarforseta í samræmi við reglur þar um.

HÍ mótmælir því að ákvarðanir deildarforseta annars vegar og forseta fræðasviðs hins vegar séu ósamrýmanlegar. Bent sé á að HÍ hafi aldrei haldið því fram að kærandi hafi sent sitt eintak af umræddu lokaprófi í námskeiðinu til vefsíðunnar chegg.com. Brotið hafi hins vegar falist í því að nýta úrlausn við dæmi á prófinu sem finna mátti á vefsíðunni, við að leysa úr umræddu dæmi á eigin lokaprófi. Farið hafi verið yfir meint brot á fundi með kæranda þann 27. maí 2020 sem og í skriflegri ábendingu kennara námskeiðsins sem kærandi fékk afhent á fundinum. Þá hafi meint brot verið útlistað í bréfi til kæranda, dags. 27. maí 2020. Brotið hafi síðan verið staðfest með ákvörðun deildarforseta, dags. 18. júní 2020.

HÍ bendir á að það sé hlutverk sviðsforseta að taka ákvörðun um agaviðurlög nemenda, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna beri deildir hins vegar faglega ábyrgð á námi. Í samræmi við framangreint sé kveðið á um það í 2. mgr. 51. gr. reglna nr. 569/2009 að það sé á forræði deildar að taka ákvörðun hvort um brot nemanda sé að ræða en að því búnu sé málið sent sviðsforseta til ákvörðunar um agaviðurlög. Eins og tekið sé fram í bréfi sviðsforseta til kæranda, dags. 8. júlí 2020, hafi niðurstaða deildarforseta í málinu því verið endanleg innan HÍ og aðkoma sviðsforseta ekki falið í sér endurskoðun á ákvörðun deildarforseta. Það hafi hins vegar verið hlutverk sviðsforseta að taka ákvörðun um agaviðurlög að teknu tilliti til alvarleika brots á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

HÍ telur að fullnægjandi sannanir hafi verið færðar fyrir háttsemi kæranda. Kærandi hafi sent upphaflega andmæli til deildarforseta með bréfi, dags. 3. júní 2020. Eftir yfirferð andmælanna hafi deildarforseti talið rétt, að eigin frumkvæði, að veita kæranda aukinn frest til andmæla. Ástæða þessa hafi verið sú að andmælum kæranda fylgdi enginn rökstuðningur sem laut að umræddum úrlausnum á prófinu, né voru í andmælunum færð mótrök gegn röksemdafærslu í skriflegri ábendingu kennara námskeiðsins eða lögð fram gögn máli kæranda til stuðnings. Í tölvupóstinum hafi deildarforseti hvatt kæranda til þess að senda honum gögn sem sýndu fram á að grunur um brot ætti ekki við rök að styðjast. Með tölvupósti frá 5. júní 2020 hafi kærandi sent deildarforseta skjáskot af glærupakka frá árinu áður, afrit af dæmum úr kennslubók og eitt sýnidæmi úr kennslubók sem sýndi sama hvarf og prófað var í því verkefni sem um ræði (verkefni 5a). Eins og fram komi í niðurstöðu deildarforseta hafi hann farið yfir andmæli kæranda og þau gögn sem þeim fylgdu. Hafi það verið niðurstaða deildarforseta að þau gögn renndu ekki frekari stoðum undir framsetningu kæranda í verkefninu.

Þá bendir HÍ á að í kæru sé lögð áhersla á að aðeins eitt rétt svar hafi verið við umræddu verkefni og af því leiði að mati kæranda að útskýringar verði ávallt keimlíkar. Tekur HÍ fram að vissulega sé aðeins ein rétt lausn við umræddu verkefni en hins vegar megi setja hana fram á óteljandi vegu. Í lausn kæranda sé hins vegar um að ræða beina eftirritun og þýðingu á þeirri lausn sem finna mátti á vefsíðunni chegg.com. Í rökstuðningi deildarforseta hafi verið farið ítarlega í samanburð á lausn kæranda og þeirri lausn við verkefninu sem opinber var á vefsíðunni chegg.com. Þar hafi meðal annars verið rakið og borið saman hvernig öll uppsetning lausnar kæranda á verkefninu hafi í minnstu smáatriðum verið sú sama og í lausninni af chegg.com, að því undanskildu að einu sinni í öllu dæminu hafi verið vikið frá rithætti og uppsetningu lausnarinnar af umræddri vefsíðu. Hafi það verið niðurstaða deildarforseta að tilviljun gæti ekki hafa ráðið því að líkindi umræddra lausna hafi verið með þeim hætti sem raun bæri vitni og að prófverkefnið hafi verið leyst með eftirritun netlausnar verkefnisins, sem finna mátti á vefsíðunni chegg.com. Með vísan til framgreinds og gagna málsins sé það mat Háskóla Íslands að fullnægjandi sannanir séu fyrir háttsemi kæranda.

HÍ vísar ennfremur til þess samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla, sbr. einnig 1. mgr. 51. gr. reglna nr. 569/2009, skuli nemandi forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu sinni innan og utan skólans sem sé honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað geti rýrð á nám hans eða skóla. Í 3. mgr. segi svo að gerist nemandi sekur um háttsemi samkvæmt 2. mgr. eða sem sé andstæð lögum um opinbera háskóla eða reglum settum samkvæmt þeim skuli taka mál hans til meðferðar. Reglur Háskóla Íslands nr. 569/2009 séu settar með heimild í framangreindum lögum. Í 2. mgr. 58. gr. reglnanna segi eftirfarandi:

Stúdentum, sem í prófi eru, er óheimilt að aðstoða aðra prófmenn við prófúrlausn eða leita aðstoðar annarra. Skrásettum stúdent, sem ekki er í prófi, er einnig óheimilt að veita slíka aðstoð. Prófmönnum er óheimilt að tala saman og þeir mega ekki hafa aðrar bækur, gögn eða tæki með sér en þau, sem kennari heimilar nema sérstaklega sé kveðið á um annað í reglum deilda. Sama gildir um aðra verkefnavinnu stúdenta nema kennari ákveði annað. Brot gegn ákvæðum þessum og öðrum prófreglum, sem háskólaráð setur, varða vísun úr prófi og eftir atvikum viðurlögum. samkvæmt 19. gr. laga um opinbera háskóla.

HÍ bendir á að líkt og fram hafi komið í gögnum málsins hafi kennari námskeiðsins sent fyrirmæli um próftökuna fyrir prófið þar sem fram kom að nemendur hefðu aðgang að kennslubók, fyrirlestrarnótum og öðrum þeim gögnum er tengdust námskeiðinu. Ekki sé hægt að fallast á það með kæranda að vefsíðan chegg.com geti flokkast undir gögn sem tengist námskeiðinu, enda aldrei vísað til hennar í námskeiðinu auk þess sem kennari námskeiðsins hafi ekki vitað af vefsíðunni fyrr en um miðjan maí 2020. Þá hafi kærandi ekki óskað eftir nánari útskýringu á framgreindu orðalagi fyrir próftökuna, líkt og eðlilegt hefði verið hefði hann talið orðalagið óskýrt. Þessu til viðbótar hafi kærandi staðfest eftirfarandi yfirlýsingu sem finna mátti á prófsvuntu: „Ég staðfesti með skilum þessa prófs, að ég hef unnið af heilindum í þessu prófi og ekki beðið um, þegið eða veitt öðrum aðstoð við úrvinnslu prófsins“.

Með vísan til framangreinds hafnar HÍ því að lög og aðrar reglur um próftökuna hafi verið ónákvæmar og óskýrar og telur að kærandi hafi fyllilega mátt gera sér grein fyrir því hvaða gögn væru heimil við töku prófsins.

Þá byggir HÍ á því að það sé alfarið rangt að reglur nr. 569/2009 séu í ósamræmi við lög.Þá vísar HÍ til þess að kærandi telji að málsmeðferð skólans í máli sínu hafi verið ólögmæt og nefnir þar einkum álit Dr. C sem kærandi telji að hafi haft verulega þýðingu við úrlausn málsins. HÍ bendir á að almennt sé viðurkennt í stjórnsýslurétti og staðfest með álitum umboðsmanns Alþingis að stjórnvöldum sé frjálst að leita eftir upplýsingum, umsögnum og álitum áður en það taki ákvörðun í máli. Sé því ekki fallist á að ólögmætt hafi verið að afla álitsins. Líkt og fram komi í kæru beri stjórnvaldi vissulega að upplýsa aðila máls ef ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli, svo framarlega sem upplýsingarnar séu málsaðila í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins. Vegna þessa þyki HÍ rétt að benda á að það álit sem deildarforseti aflaði við meðferð málsins hafi engu bætt við þegar fram komnar upplýsingar kennara og einungis staðfest það sem þar kom fram. Álitið hafi því ekki haft að geyma nýjar upplýsingar í málinu. Andmælaréttur við álitið hefði því ekki haft neina þýðingu, enda hafi kærandi þá þegar verið búin að andmæla þeim upplýsingum sem komið hafi fram í álitinu. Þar að auki hafi álitið ekki haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Niðurstaða deildarforseta beri skýrlega með sér að hún grundvallist fyrst og fremst á ítarlegri og sjálfstæðri rannsókn hans á gögnum málsins. Brýnt hafi verið að ákvörðun deildarforseta lægi fyrir áður en til brautskráningar kæmi og hafi það verið mat HÍ að atvik málsins væru nægjanlega upplýst þannig að hægt væri að taka ákvörðun í málinu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. HÍ telji því að ekki hafi borið að veita kæranda andmælarétt vegna umrædds álits og að gætt hafi verið að andmælarétti og öðrum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Þá fellst HÍ ekki á að öflun álits Dr. C hafi falið í sér brot gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna sé vinnsla persónuupplýsinga heimil ef hún er nauðsynleg vegna verks sem unnið sé í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fari með. Með „beitingu opinbers valds“ í merkingu ákvæðisins sé meðal annars átt við vinnslu upplýsinga á vegum stjórnvalda við töku stjórnvaldsákvarðana, sbr. athugasemdir við frumvarpið sem varð að lögum nr. 90/2018. Að mati HÍ hafi miðlun persónuupplýsinga til C því fyllilega samræmst ákvæðum laganna.

Loks tekur HÍ fram að ekki sé unnt að fallast á að óhóflegur dráttur hafi verið á málinu. Umrætt próf hafi verið haldið 30. apríl 2020. Kennari hafi lokið prófayfirferð um miðjan maí og gefið einkunnir. Áður en þær voru birtar í Uglu, innri vef HÍ, hafi borist upplýsingar frá skrifstofu Verkfræði- og náttúrvísindasviðs um að lokaprófið hefði hefði verið sett í heild sinni á vefsíðuna chegg.com. Þar hafi mátt finna lausnir á öllum verkefnum prófsins, að verkefni 3 undanskildu. Kennari hafi skoðað netlausnirnar og borið saman við lausnir allra nemenda sem tóku prófið, samtals 68 lausnir. Í kjölfarið hafi deildarforseti verið upplýstur um málið. Með tölvupósti frá 25. maí 2020 hafi deildarforseti boðað kæranda á fund þann 27. maí. s.á. Á þeim fundi hafi kæranda verið afhent bréf þar sem tilkynnt var um meint brot og frestur veittur til athugasemda auk þess sem kærandi hafi fengið afhenta skriflega ábendingu kennara um ætlað brot. Andmæli kæranda hafi borist með bréfi, dags. 3. júní 2020. Eftir að deildarforseti hafði farið yfir andmæli kæranda hafi deildarforseti gefið honum frekari kost á andmælum, sem bárust 5. júní 2020. Þann 18. júní, eða 13 dögum eftir móttöku andmæla, hafi niðurstaða deildarforseta legið fyrir. Málið hafi þá verið sent til sviðsforseta til ákvörðunar um agaviðurlög. Með bréfi, dags. 22. júní 2020, hafi sviðsforseti veitt kæranda frest til athugasemda, sem bárust sviðsforseta 2. júlí 2020. Ákvörðun um agaviðurlög hafi legið fyrir 8. júlí og verið send lögmanni kæranda sama dag. Með vísan til þessa sé því mótmælt að óhóflegur dráttur hafi verið á meðferð málsins hjá HÍ.

 

V.

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa snýr að þeirri ákvörðun HÍ að gefa kæranda núll í einkunn í prófi EFN406G Lífræn efnafræði II við B svið skólans og þeirri ákvörðun forseta fræðasviðs að áminna kæranda. Að mati nefndarinnar eru ekki efni til að fallast á þá málsástæðu kæranda að „ásakanir“ séu óskýrar eða að ákvarðanir deildarforseta og forseta fræðasviðs séu ósamrýmanlegar og þannig óskýrar um hvað kærandi eigi að hafa gerst brotlegur við. Þvert á móti telur nefndin skýrt af gögnum málsins að ætlað brot kæranda fólst í því að nýta úrlausn á vefsíðunni chegg.com við að leysa úr dæmi 5a á umræddu lokaprófi. Þá er ekki fallist á að forseti B sviðs hafi verið vanhæfur til að koma að ákvörðun um viðurlög við meintu broti kæranda. Ekkert í framlögðum gögnum eða rökstuðningi kæranda bendir til þess að vanhæfisástæður skv. 3. gr. stjórnsýslulaga hafi verið fyrir hendi við meðferð málsins. Tekur nefndin fram að ekki nægi í því sambandi að forseti B sviðs hafi upplýst lögmann kæranda um að ákvörðun deildarforsetans hafi verið „erfið“.

Nefndin fellst ekki heldur á þá málsástæðu kæranda að reglur um námsgögn við próftöku í umræddu prófi hafi verið ónákvæmar og óskýrar. Í gögnum málsins kemur fram að kennari námskeiðsins hafi sent nemendum fyrirmæli um próftökuna fyrir prófið þar sem fram kemur að nemendur hefðu aðgang að kennslubók, fyrirlestrarnótum og öðrum þeim gögnum er tengdust námskeiðinu. Að mati nefndarinnar er ekki hægt að túlka þessi fyrirmæli með þeim hætti að nemendum hafi við próftökuna verið heimilt að nýta sér aðgang að vefsíðum, sér í lagi ekki þeirra sem sérhæfa sig í því að svara spurningum sem til þeirra er beint af hinum ýmsu fræðasviðum gegn greiðslu.

Þá fellst nefndin ekki á þá málsástæðu kæranda að ekki sé unnt að byggja viðurlög á reglum nr. 569/2009 þar sem þær séu í ósamræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglur Háskóla Íslands nr. 569/2009 eru settar með heimild í framangreindum lögum. Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008, sbr. einnig 1. mgr. 51. gr. reglna nr. 569/2009, kemur fram að nemandi skuli forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu sinni innan og utan skólans sem sé honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað geti rýrð á nám hans eða skóla. Í 3. mgr. 19. gr. kemur svo fram að gerist nemandi sekur um háttsemi samkvæmt 2. mgr. eða sem sé andstæð lögum um opinbera háskóla eða reglum settum samkvæmt þeim skuli taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvarleika brots geti forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skuli gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Í 2. mgr. 58. gr. reglna nr. 569/2009 kemur svo m.a. fram að stúdentum, sem eru í prófi, sé óheimilt að aðstoða aðra prófmenn við prófúrlausn eða leita aðstoðar annarra. Prófmönnum sé óheimilt að tala saman og þeir megi ekki hafa aðrar bækur, gögn eða tæki með sér en þau sem kennari heimilar nema sérstaklega sé kveðið á um annað í reglum deilda. Þá kemur fram að brot gegn ákvæðum þessum og öðrum prófreglum, sem háskólaráð setji, varði vísun úr prófi og eftir atvikum viðurlögum samkvæmt 19. gr. laga um opinbera háskóla.

Ennfremur er þeirri málsástæðu kæranda hafnað að óhóflegur dráttur hafi verið á málinu.

Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, endurmetur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Nefndin metur þannig ekki þá efnislegu niðurstöðu að kærandi skuli fá 0,0 í einkunn í prófi EFN406G Lífræn efnafræði II. Nefndin tekur hins vegar ekki afstöðu til þess hvort að umrætt prófverkefni í lið 5a hafi verið leyst með eftirritun netlausnar verkefnisins, sem finna mátti á vefsíðunni chegg.com, enda ekki sérþekking til staðar innan nefndarinnar til að leggja mat á slíkt með óyggjandi hætti. Kemur einkunn kæranda í námskeiðinu þannig ekki til frekari skoðunar af hálfu nefndarinnar. Þá er það heldur ekki á valdsviði nefndarinnar að skylda kennara námskeiðsins EFN406G Lífræn efnafræði til þess að skila kæranda einkunn fyrir umrætt próf eða að leggja fyrir kennara að skila gildri einkunn fyrir prófið að frátöldum lið 5a.

Í máli þessu eru kærðar tvær stjórnvaldsákvarðanir, annars vegar ákvörðun deildarforseta raunvísindadeildar 18. júní 2020 og hins vegar ákvörðun forseta B sviðs 8. júlí 2020. Í ákvörðun deildarforseta var komist að þeirri niðurstöðu að í lokaprófi í námskeiðinu Lífræn efnafræði II hefði kærandi leyst eitt prófverkefnið með eftirritun netlausnar verkefnisins, sem finna mátti á vefsíðunni chegg.com. Var sú háttsemi grundvöllur að þeirri ákvörðun að gefa kæranda einkunnina 0,0 fyrir prófið í heild sinni og fella niður rétt hans til endurtökuprófs. Deildarforseti sendi málið í kjölfarið til sviðsforseta B sviðs sem tók ákvörðun um að veita kæranda áminningu 8. júlí 2020.

Ljóst er að seinni ákvörðunin, um agaviðurlög, byggði að öllu leyti á þeim málsatvikum sem slegið var föstum í fyrri ákvörðuninni. Er því ljóst að sú niðurstaða deildarforseta raunvísindadeildar, að kærandi hefði eftirritað lausn sem finna mátti á vefsíðu, var grundvöllur beggja þeirra íþyngjandi ákvarðana sem teknar voru í málinu. 

Þegar málið var til meðferðar hjá deildarforseta fékk kærandi kost á að tjá sig um það á fundi og með skriflegum athugasemdum. Síðustu athugasemdir kæranda bárust til deildarforseta með tölvupósti 5. júní 2020. Að fengnum þeim athugasemdum óskaði deildarforseti eftir áliti Dr. C, PhD í lífrænni efnafræði, á því hvort líkindi væru með lausn kæranda á verkefni 5a í lokaprófinu og lausn á sama dæmi af heimasíðunni chegg.com. Niðurstaða álitsgjafa lá fyrir 14. júní 2020 og ákvörðun deildarforseta var eins og áður greinir tekin 18. júní 2020.

Ekki verður á það fallist með kæranda að öflun álits Dr. C hafi falið sér brot gegn ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eða að óheimilt hafi verið að afla álitsins enda sé stjórnvöldum frjálst að leita eftir upplýsingum, umsögnum og álitum áður en það tekur ákvörðun í máli.

Á hinn bóginn er ljóst að mati nefndarinnar álit Dr. C hafði verulega mikla þýðingu fyrir efnislega niðurstöðu málsins. Af því leiðir einnig að álit Dr. C hafði verulega mikla þýðingu fyrir ákvörðun forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs því eins og áður segir var niðurstaða deildarforseta um málsatvik ekki endurskoðuð heldur lögð til grundvallar ákvörðun um áminningu. Óumdeilt er að báðar ákvarðanirnar voru íþyngjandi fyrir kæranda. 

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Ríkari kröfur eru gerðar til þess að þessi réttur sé veittur ef taka á íþyngjandi ákvörðun. Kærandi kom að andmælum við málsmeðferð deildarforseta en eftir að síðustu athugasemdir kæranda bárust ákvað deildarforseti að óska eftir áliti sérfræðings. Eins og áður segir komst sérfræðingurinn að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði afritað lausnina af vefsíðu. Að mati nefndarinnar er ljóst að álitið hafði mikið vægi í ákvörðun deildarforseta og málsatvikin sem sérfræðingurinn sló föstum voru lögð til grundvallar í báðum ákvörðununum.

Þótt kærandi hafi komið að andmælum á fyrri stigum fékk kærandi ekki að gera athugasemdir við álit sérfræðingsins. Þegar aðila máls er ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Að mati nefndarinnar er varhugavert að slá því föstu að augljóslega hafi verið óþarft að afla afstöðu kæranda áður en byggt var á áðurnefndu sérfræðiáliti en allur vafi um það hvort þörf hafi verið á að veita réttinn verður að skýra kæranda í hag. Á það einkum við í ljósi þeirra íþyngjandi ákvarðana sem byggðu á umræddu áliti. Með hliðsjón af framangreindu var brotið gegn andmælarétti kæranda, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar honum var ekki gefinn kostur á að koma að athugasemdum við sérfræðiálit sem hafði á endanum mikla þýðingu fyrir báðar ákvarðanirnar í málinu. Slíkt brot telst verulegur annmarki á málsmeðferð íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun deildarforseta raunvísindadeildar frá 18. júní 2020, um að gefa kæranda 0,0 í einkunn í lokaprófi í EFN406G Lífræn efnafræði II og fella niður rétt kæranda til að taka endurtökupróf, felld úr gildi. Af sömu ástæður verður ákvörðun forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs frá 8. júlí 2020 um áminningu kæranda felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun deildarforseta raunvísindadeildar frá 18. júní 2020, um að gefa A, 0,0 í einkunn í lokaprófi EFN406G Lífræn efnafræði II og fella niður rétt hans til að taka endurtökupróf, er felld úr gildi. Jafnframt er felld úr gildi ákvörðun forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands 8. júlí 2020 um að veita A áminningu

 

 

Einar Hugi Bjarnason

 

 

Daníel Isebarn Ágústsson                                 Eva Halldórsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta