Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 403/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 403/2023

Mánudaginn 11. desember 2023

A

gegn

barnaverndarþjónustu B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur

Með kæru, dags. 31. ágúst 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarþjónustu B frá 20. júlí 2023, varðandi aðgang að gögnum í barnaverndarmáli er varðar dóttur kæranda. Undir rekstri málsins þann 20. september 2023 kvað barnaverndarþjónusta B upp úrskurð vegna málsins þar sem synjað var um afhendingu gagna umfram þau er kæranda hafi þegar fengið afhent með bréfi, dags. 20. júlí 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 2. júní 2023 óskaði kærandi eftir að fá afhent afrit af gögnum sem til væru hjá velferðarsviði B og vörðuðu dóttur hans sem er fædd árið X. Kærandi fékk afrit af tilteknum gögnum en var synjað um persónulegar upplýsingar um móður barnsins og börn hennar, auk upplýsinga er komu til eftir að kærandi var sviptur forsjá dóttur sinnar. Kærandi staðfesti móttöku tiltekinna gagna með undirritun yfirlýsingar þess efnis, dags. 20. júlí 2023. Kæra barst úrskurðarnefndinni 31. ágúst 2023 þar sem kærandi krafðist allra gagna málsins.

Þann 12. september 2023 óskaði kærandi á ný eftir fyrirliggjandi gögnum málsins vegna dóttur hans. Með úrskurði dags. 20. september 2023 hafnaði barnaverndarþjónusta B aðgangi að frekari gögnum málsins en þegar höfðu verið afhent kæranda. Úrskurðarorð úrskurðar barnaverndarþjónustunnar, dags. 20. september 2023, var svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarþjónusta B hafnar aðgangi að frekari gögnum málsins en þegar hafa verið afhent með bréfi, dags. 20. júlí 2023“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 31. ágúst 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. september 2023, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustunnar barst nefndinni þann 22. september 2023 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. september 2023, var hún send kæranda til kynningar. Viðbótargögn bárust frá kæranda 18. október 2023 og 2. nóvember 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Ráðið verður af kæru að kærandi krefjist þess að fá afhent öll gögn er varðar mál dóttur hans hjá barnaverndarþjónustu B.

 

III.  Sjónarmið barnaverndarþjónustu B

Barnaverndarþjónustan krefst þess að þeim hluta kærunnar er varðar ákvörðun barnaverndarnefndarinnar C 22. Júlí 1993 verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá er þess krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti úrskurð barnaverndarþjónustunnar, dags. 20. september 2023.

Í greinargerð barnaverndarþjónustu B kemur fram að mál dóttur kæranda hafi verið til vinnslu hjá barnaverndarnefnd C frá árinu 1992. Með úrskurði barnaverndarnefndar C 22. júlí 1993 hafi kærandi verið sviptur forsjá stúlkunnar.

Kærandi hafi óskað eftir öllum gögnum er varða barnaverndarmálið frá barnaverndarþjónustu B með beiðni, dags. 2. júní 2023. Með bréfi, dags. 20. júlí 2023, hafi kæranda verið veittur aðgangur að nánar tilteknum gögnum barnaverndarmálsins en synjað um aðgang að gögnum er vörðuðu persónulegar upplýsingar um móður, börn hennar svo og um upplýsingar og gögn sem bárust barnaverndarnefnd C eftir að kærandi hafði verið sviptur forsjá dóttur sinnar.

Þann 20. september 2023 kvað barnaverndarþjónustan upp úrskurð sem fól í sér að hafnað var aðgangi kæranda að frekari gögnum málsins en þegar höfðu verið afhent með bréfi, dags. 20. júlí 2023.

Af kæru má ráða að kæran beinist að takmörkun á aðgangi kæranda að gögnum barnaverndarmáls uppkominnar dóttur hans, þar sem fram kemur að kærandi bíði eftir úrskurði og hann óski eftir aðstoð úrskurðarnefndar velferðarmála „við að ná öllum gögnum málsins". Rétt sé þó að geta þess að úrskurður, dags. 20. september 2023, hafði ekki verið kveðinn upp þegar kæran barst úrskurðarnefnd velferðarmála.

Af 3. mgr. 3. gr. bvl. leiðir að almennt séu það forsjáraðilar barna sem teljist aðilar að barnaverndarmálum og eiga þar af leiðandi rétt á aðgangi að gögnum málsins. Framangreint felur í sér forsjárlaust foreldri á að jafnaði ekki aðild að barnaverndarmáli barns síns og ekki rétt á aðgangi að gögnum barnaverndarmálsins.

Kærandi hafi með úrskurði barnaverndarnefndar C 19. júlí 1993 verið sviptur forsjá dóttur sinnar. Forsjáin hafi svo verið hjá nefndinni allt þar til barnið varð fullorðið eða til 18 ára aldurs barnsins. Með vísan til þessa taldi barnaverndarþjónustan rétt að takmarka aðgang kæranda að þeim gögnum barnaverndarmálsins sem bárust eftir að hann varð forsjárlaus, enda nýtur hann ekki aðilastöðu í málinu eftir það tímamark að mati barnaverndarþjónustunnar.

Í úrskurðinum sé einnig vísað til heimildar í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga til að takmarka aðgang að gögnum. Í þessu sambandi sé rétt að taka fram að um afar viðkvæm gögn sé að ræða og dóttir kæranda sé nú uppkomin. Barnaverndarþjónustan telur að verði veittur aðgangur að þessum gögnum geti það skaðað hagsmuni dótturinnar og samband hennar við foreldra eða aðra.

IV.  Niðurstaða

Með hinum kærðu ákvörðunum barnaverndarþjónustu B frá 20. júlí 2023 og 20. september 2023 voru teknar ákvarðanir um aðgang kæranda að gögnum er varða dóttur hans. Fallist var á afhendingu tiltekinna gagna en kæranda synjað um aðgang að upplýsingum er komu til eftir að hann var sviptur forsjá dóttur sinnar. Þá var kæranda synjað um upplýsingar og gögn sem talin voru fela í sér persónuupplýsingar um móður barnanna og börn hennar. Kæruheimild er í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um að kæra megi synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.

Varðandi kröfu barnaverndarþjónustu B um frávísun hluta málsins verður að líta svo á að kæra málsins lúti einvörðungu að afhendingu gagna en ekki að endurskoðun þeirra ákvarðana sem teknar voru á árinu 1993 varðandi forsjársviptingu. Kröfu um frávísun málsins að hluta er því hafnað.

Með hinum kærða úrskurði frá 20. september 2023 var kæranda synjað um aðgang að upplýsingum sem bárust í málinu eftir að hann var forsjársviptur þann 22. júlí 1993. Að mati barnaverndarþjónustunnar á kærandi ekki aðild eftir þann tíma með vísan til 3. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Ákvæði 3. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga hljóðar svo:

„Með foreldrum er átt við foreldra skv. I. kafla barnalaga. Í lögum þessum er með foreldrum einnig að jafnaði átt við þá sem fara með forsjá barns. Um inntak forsjár fer samkvæmt ákvæðum barnalaga.“

Í barnaverndarlögum er ekki mælt fyrir um hverjir eiga aðild að barnaverndarmáli fyrir utan sérákvæði í 3. mgr. 33. gr. og 55. gr. bvl. Af þessu leiðir að túlkun á aðildarhugtaki hvað varðar 45. gr. bvl. verður að byggja á þeim almennu reglum stjórnsýsluréttar sem gilda um aðild að stjórnsýslumáli. Almennt hefur verið lagt til grundvallar að sá eigi aðild sem eigi einstaklegra, verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekki unnt að meta aðild foreldris að barnaverndarmáli einungis á grundvelli þess hvort foreldri fari með forsjá hlutaðeigandi barns, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 5186/2007 frá 9. nóvember 2009. Þess í stað beri að meta hvert tilvik fyrir sig á grundvelli heildstæðs mats á hagsmunum og tengslum hins forsjárlausa foreldris við það úrlausnarefni sem til meðferðar er. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af gögnum málsins að ekki hafi farið fram heildstætt mat á hagsmunum og tengslum kæranda við það úrlausnarefni sem er til meðferðar.

Með hinni kærðu ákvörðun frá 20. júlí 2023 var kæranda veittur aðgangur að tilteknum gögnum en synjað um aðgang að gögnum er innihéldu persónulegar upplýsingar um móður og börn hennar með vísan til heimildar í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga til að takmarka aðgang að gögnum.

Í 45. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að barnaverndarþjónusta geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Þjónustan getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Í athugasemdum við það lagafrumvarp sem varð að barnaverndarlögum segir meðal annars að meginsjónarmiðið sé að stjórnsýslulögin mæli fyrir um lágmarkskröfur til málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Takmarkanir þær sem gert sé ráð fyrir í 2. mgr. séu aftur á móti í samræmi við það sem fram komi í 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Byggt sé á því sjónarmiði að ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. frumvarpsins mæli fyrir um. Í 17. gr. stjórnsýslulaga segir að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Eins og að framan greinir ber að túlka þær takmarkanir sem fram koma í 2. mgr. 45. gr. bvl. í samræmi við það sem fram kemur í 17. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga er byggt á því að stjórnvald meti sérstaklega í hverju tilviki þau andstæðu sjónarmið um sérhvert skjal sem til greina kemur að takmarka aðgang að. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum máls á þeim grundvelli að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga eða gögn í heild sinni séu almennt til þess fallin að valda tjóni. Sérstakt mat verður ávallt að fara fram á aðstæðum öllum í því máli sem til úrlausnar er og meta verður sérstaklega sérhvert skjal sem aðgangur aðila er takmarkaður að og eftir atvikum efnisatriði hvers skjals fyrir sig.

Fyrir liggur að með hinni kærðu ákvörðun var kæranda synjað um aðgang að gögnum sem innihéldu persónulegar upplýsingar um móður og börn hennar. Líkt og fram hefur komið þarf stjórnvald að meta sérhvert skjal sem til greina kemur að takmarka aðgang að. Stjórnvald getur því ekki synjað um aðgang að gögnum á þeirri forsendu að tiltekin gögn séu til þess fallin að valda tjóni. Í málinu liggja fyrir umrædd gögn sem kæranda var synjað um aðgang að og hefur úrskurðarnefndar farið yfir þau. Ljóst er að kæranda hefur verið synjað um aðgang að gögnunum í heild sinni. Samkvæmt framansögðu verður að telja að barnaverndarþjónusta B hafi ekki með fullnægjandi hætti lagt mat á það hvort þau gögn sem hér um ræðir, hafi að öllu leyti fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl., sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga þar sem sérstakt mat þarf að fara fram um sérhvert skjal með hliðsjón af framangreindu.

Með vísan til framangreinds er úrskurður barnaverndarþjónustu B frá 20. september 2023 og ákvörðun barnaverndarþjónustu B frá 20. júlí 2023 um að takmarka aðgang kæranda að gögnum felldir úr gildi. Málinu er því vísað aftur til barnaverndarþjónustu B til nýrrar meðferðar.

 


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarþjónustu B frá 20. september 2023 og ákvörðun barnaverndarþjónustu B frá 20. júlí 2023 varðandi aðgang A, að skjölum og öðrum gögnum, eru felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til barnaverndarþjónustu B til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta