Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 199/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 199/2023

Fimmtudaginn 29. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. apríl 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. apríl 2023, um að staðfesta fyrri ákvörðun frá 21. desember 2022 þar sem réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 8. september 2020 og var umsóknin samþykkt 12. október 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. desember 2022, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði hafnað atvinnutilboði hjá B. Í kjölfar skýringa kæranda og nýrra gagna var mál hans tekið fyrir á ný og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. apríl 2023, var honum tilkynnt að fyrri ákvörðun frá 21. desember 2022 væri staðfest en á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 í ljósi þess að hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni um skerta vinnufærni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2023. Með bréfi, dags. 19. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 8. júní 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er greint frá því að kærandi hafi að undanförnu glímt við atvinnuleysi og notið svokallaðra atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Þann 11. október 2022 hafi kæranda verið boðið starf hjá B sem hann hafi hafnað þar sem hann glímdi við mjög svæsið og slæmt hundaofnæmi. Kæranda hafi borist bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 6. desember 2022, þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á ástæðum höfnunar hans. Kærandi hafi ekki skilað skýringum þar sem hann sé ekki mæltur á íslenska tungu og sé afar lélegur í ensku.  Hann hafi því ekki skilið almennilega innihald umrædds bréfs. Vinnumálastofnun hafi sent kæranda annað bréf, dags. 21. desember 2022, þar sem honum hafi verið tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta yrði felldur niður frá og með 21. desember 2022 í þrjá mánuði með vísan til ákvæða 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi hafnað boði um starf. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun samdægurs skýringar á afar lélegri ensku þar sem hann hafi reynt að gera grein fyrir að hann gæti ekki starfað í kringum hunda heilsu sinnar vegna. Vinnumálastofnun hafi tekið málið upp aftur 22. desember 2022 og staðfest ákvörðun sína.

Lögmaður kæranda hafi kallað eftir gögnum málsins frá Vinnumálastofnun 4. febrúar 2023 með vísan til 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindið hafi verið ítrekað 14. febrúar 2023 og aftur 16. mars 2023 þar sem beiðnin hafi þá enn ekki verið afgreidd. Gögn málsins hafi borist lögmanni kæranda 17. mars 2023.

Með tölvupósti 23. mars 2023 hafi lögmaður kæranda gert kröfu um að málið yrði tekið til nýrrar meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en með beiðninni hafi fylgt læknisvottorð sem staðfesti að kærandi sé með hundaofnæmi. Vinnumálastofnun hafi fjallað um mál kæranda að nýju þann 5. apríl 2023. Vinnumálastofnun hafi tekið nýja ákvörðun þess efnis að staðfesta fyrri ákvörðun en í það skipti með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og þeim skýringum að kærandi hefði brotið gegn tilkynningarskyldu sinni með því að upplýsa ekki stofnunina að hann hefði ofnæmi sem takmarkaði möguleika hans á atvinnu.

Kærandi krefjist þess að viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar, þess efnis að kærandi skuli sæta biðtíma, verði felld úr gildi, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali sé hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segi að sá sem hafni starfi sem honum bjóðist með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar sé tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama eigi við um þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum bjóðist með sannanlegum hætti eða sinni ekki atvinnuviðtali. Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi eftirfarandi fram:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Fyrir liggi í málinu læknisvottorð sem staðfesti að kærandi sé með hundaofnæmi. Það liggi því í augum uppi og í hlutarins eðli að kærandi geti ekki starfað við umhirðu og umönnun hunda. Kærandi hafni því að hafa leynt Vinnumálastofnun því að vera með hundaofnæmi. Í því samhengi sé vakin athygli á að Vinnumálastofnun hafi ekki leiðbeint kæranda, á því tungumáli sem hann skilji, um réttindi hans og skyldur í samræmi við leiðbeiningarskyldu sem lögfest sé meðal annars í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Honum hafi aldrei verið gert ljóst að það gæti skipt máli að hann upplýsti Vinnumálastofnun að fullu um heilsufar sitt, að því leyti sem það gæti takmarkað atvinnumöguleika hans. Við kæranda sé því ekki að sakast í þeim efnum. Þá sé athygli vakin á því að samkvæmt almennri orðskýringu á athöfninni „að leyna einhverju“ felist að það sé gert vísvitandi og með fullri vitund þess sem það geri. Fyrir því sé ekki að fara hér.

Skýringar kæranda á höfnun hans á starfi hjá B og læknisvottorð hans þeim til stuðnings séu þess eðlis að þær teljist gildar ástæður með vísan til 1. og 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar sé því haldin alvarlegum annmörkum. Því beri að fella ákvörðun Vinnumálastofnunar úr gildi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar með umsókn, dags. 8. september 2022. Með erindi, dags. 12. október 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 11. október 2022 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Um hafi verið að ræða starf við ýmis tilfallandi verkefni innan fyrirtækisins, svo sem hellulögn, aðstoð við smíðar og fleira en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf af Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnurekanda hafi kærandi sagst ætlað að hugsa málið en hann hafi þó ekki haft samband aftur við atvinnurekanda.

Með erindi, dags. 6. desember 2022, hafi Vinnumálastofnun óskað skýringa á ástæðum þess að kærandi hafi hafnað starfi hjá B. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma að skýringum sínum. Vinnumálastofnun hafi þó ekki borist neinar skýringar frá kæranda innan tilgreinds frests. Kæranda hafi því með erindi, dags. 21. desember 2022, verið tilkynnt að réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta væri felldur niður í þrjá mánuði. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

Þann 21. desember 2022 hafi kærandi átt í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar í síma. Kærandi hafi greint frá því að hann gæti ekki unnið með hunda þar sem hann væri hræddur við þá. Kæranda hafi verið leiðbeint að skila stofnuninni skriflegum skýringum. Sama dag, þann 21. desember 2022, hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði verið beittur viðurlögum tveimur til þremur mánuðum áður því hann hafi ekki mætt til viðtals hjá stofnuninni sökum fjölskylduvandamála. Nú hafi hann verið beittur viðurlögum aftur því hann væri hræddur við hunda. Kærandi hafi sagt ástæðu þess að hann hafi hafnað umræddu starfi einungis vera þá að hann væri hræddur við hunda. Þá hafi hann átt samtal við ráðgjafa Vinnumálastofnunar þar sem hann hafi sagst ætla í nám til að læra íslensku. Í kjölfarið hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju. Með erindi, dags. 22. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hans, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöður þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist í máli hans.

Þann 23. desember 2022 hafi kærandi hringt í ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi sagt að hann væri ekki sáttur með þau viðurlög sem honum hafi verið gert að sæta. Kærandi hafi greint frá því að hann hefði verið bitinn af hundi og væri mjög hræddur við hunda.

Þann 23. mars 2023 hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá umboðsmanni kæranda. Umboðsmaður kæranda hafi greint frá því að enskukunnátta kæranda væri takmörkuð og að það birtist meðal annars í þeim skýringum sem hann hafi áður veitt Vinnumálastofnun. Umboðsmaður kæranda hafi sagt að kærandi væri hræddur við hunda vegna slæms hundaofnæmis. Kærandi gæti því ekki unnið á B við að sinna hundum. Því hafi það verið fullkomlega réttlætanlegt að hafna umræddu starfi. Meðfylgjandi erindinu hafi verið læknisvottorð, útgefið 22. mars 2023, þar sem fram komi að kærandi glími við hundaofnæmi. Umboðsmaður kæranda hafi vísað til ákvæðis 4. mgr. 57. gr. þar sem meðal annars sé kveðið á um að heimilt sé að taka tillit til aðstæðna þess sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Að auki hafi umboðsmaður kæranda vísað í úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 177/2022. Þess hafi verið krafist að mál kæranda yrði tekið til meðferðar að nýju.

Í kjölfar ofangreinds erindis hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju. Með erindi, dags. 5. apríl 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að fyrri ákvörðun í máli hans væri staðfest, þó með þeim breytingum að viðurlagaákvörðun væri nú byggð á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið greint frá því að atvinnuleitendum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun um öll þau atriði sem hafi áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta. Þar sem kæranda hafi láðst að tilkynna stofnuninni um ofnæmi sem takmarki þá vinnu sem hann gæti tekið væri um að ræða brot á upplýsingaskyldu.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrri starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma.

Í a-i. lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um hvað felist í virkri atvinnuleit. Þar segi meðal annars að einstaklingur teljist í virkri atvinnuleit sé hann fær til flestra almennra starfa, hafi heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sé reiðubúinn að taka hverju því starfi sem greitt sé fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum og hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara.

Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi hjá B. Honum hafi í kjölfarið verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Síðar hafi kærandi veitt þær skýringar að hann hefði hafnað umræddu starfi sökum slæms hundaofnæmis. Mál kæranda hafi þá verið tekið fyrir að nýju og honum tilkynnt með erindi, dags. 5. apríl 2023, að það væri mat stofnunarinnar að hann skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr., í stað 1. mgr. 57. gr., í ljósi þess að hann hefði ekki upplýst stofnunina um skerta vinnufærni sína.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé rík áhersla lögð á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda gagnvart Vinnumálastofnun. Upplýsingaskylda atvinnuleitenda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknar þeirra um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skulu allar upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda koma fram í umsókn um atvinnuleysisbætur og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Þá skuli hinn tryggði samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Jafnframt sé í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveðið á um að hinn tryggði skuli tilkynna um allar þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. Upplýsingaskylda atvinnuleitenda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknar þeirra um atvinnuleysisbætur. Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur atvinnuleitenda. Þá þurfi umsækjendur að staðfesta í lok umsóknarferlisins að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt læknisvottorði sé kærandi með slæmt hundaofnæmi. Ofnæmi kæranda takmarki þau störf sem hann geti unnið og þar með atvinnumöguleika hans. Alvarleiki ofnæmis kæranda birtist meðal annars í því að hann hafi ekki getað tekið starfi hjá B en samkvæmt atvinnuauglýsingu hafi verið um að ræða starf við ýmis tilfallandi verkefni á B, svo sem hellulögn, aðstoð við smíðar og fleira. Þá hafi kærandi jafnframt greint frá því að hann sé hræddur við hunda því hann hafi áður verið bitinn af hundi. Kærandi hafi í skýringum til Vinnumálastofnunar vísað til 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og telji að höfnun hans á starfinu sé réttlætanleg meðal annars vegna aðstæðna sem tengist skertri vinnufærni. Fallast megi á með slíkt með kæranda en aftur á móti sé fortakslaust skilyrði þess að Vinnumálastofnun geti tekið slíkar skýringar gildar að atvinnuleitandi hafi áður tilkynnt stofnuninni um skerta vinnufærni sína, þar á meðal hvaða störf viðkomandi geti ekki sinnt. Kæranda hafi borið samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og sömuleiðis samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. sömu laga, að upplýsa Vinnumálastofnun um öll þau atriði er varði vinnufærni hans. Mikilvægt sé að Vinnumálastofnun sé upplýst um öll þau atriði er hafi áhrif á vinnufærni atvinnuleitanda, enda sé slíkt forsenda þess að stofnunin geti sinnt hlutverki sínu og aðstoðað atvinnuleitendur við að fá starf við hæfi. Því sé afar þýðingarmikið að upplýsingar þess efnis að atvinnuleitandi geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna heilsufarsástæðna liggi fyrir í umsókn um atvinnuleysisbætur. Að öðrum kosti byggi miðlun í störf og önnur úrræði stofnunarinnar á ófullnægjandi upplýsingum.

Í ljósi framangreinds hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. apríl 2023. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. sé svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni að hann væri með slæmt hundaofnæmi sem takmarkaði atvinnumöguleika hans. Eins og áður hafi komið fram hvíli á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með því að hafa ekki, hvorki við umsókn um atvinnuleysisbætur né á því tímabili er hann hafi verið skráður í atvinnuleit hjá stofnuninni, veitt nauðsynlegar upplýsingar um hagi sína og vinnufærni. Það hafi leitt til þess að hann hefði hafnað starfi sem stofnunin hafi mátt telja, með hliðsjón af upplýsingum frá kæranda, hann hæfan til að gegna. Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kæranda hafi borið að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Máli sínu til stuðnings vísi Vinnumálastofnun til niðurstaðna úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 460/2021, 177/2022 og 102/2010.

Jafnframt þyki Vinnumálastofnun rétt að árétta að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ekki skilyrði að upplýsingum sem hafi áhrif á rétt atvinnuleitanda til greiðslu bóta hafi vísvitandi verið leynt líkt og haldið sé fram í kæru. Ein meginskylda atvinnuleitanda sé að sjá til þess að Vinnumálastofnun búi yfir nauðsynlegum og réttum upplýsingum um vinnufærni og hagi viðkomandi. Það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja slíkt. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. sé ætlað að taka til þeirra tilvika þar sem atvinnuleitandi hafi brugðist þeirri upplýsingaskyldu sinni.  Sérstaklega sé kveðið á um þau tilvik þegar atvinnuleitandi vísvitandi láti hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar á högum í ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 15. ágúst 2022 hafi kærandi verið beittur viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafi ekki mætt á boðaðan fund hjá Vinnumálastofnun. Kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði með ákvörðun stofnunarinnar. Í 1. málsl. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57. til 59. gr. eða biðtíma samkvæmt 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað að nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggi fyrir, enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili samkvæmt 29. gr. Kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til nýs tímabils samkævmt 29. gr. laganna og því kom til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga hans þegar hann hafi verið beittur viðurlögum að nýju með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 22. desember 2022, sbr. ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. apríl 2023. Kærandi eigi því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að þremur mánuðum liðnum, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru séu gerðar athugasemdir við það að Vinnumálastofnun hafi ekki leiðbeint kæranda um réttindi hans og skyldur á tungumáli sem hann skilji. Í því samhengi sé vísað til 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk 2. gr., sbr. 1. gr. Norræna tungumálasáttmálans. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að almennt sé gengið út frá því að það sé meginregla að íslenska sé tungumál stjórnsýslunnar. Þó sé ljóst að ákveðnar skyldur hvíli á stjórnvöldum að sjá  til þess að skjólstæðingar þeirra geti kynnt sér réttindi sín og efni ákvarðana. Það leiði meðal annars af meginreglu stjórnsýsluréttar um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sú regla taki þó almennt til þeirra tilvika þegar einstaklingur leiti sjálfur eftir aðstoð eða upplýsingum en þó kunni að hvíla skyldur á stjórnvaldinu til að veita leiðbeiningar að eigin frumkvæði. Ef stjórnvald verði þannig þess áskynja að aðili máls geri sér ekki grein fyrir réttindum sínum geti hvílt skylda á því að vekja athygli á þeim atriðum. Samskipti stofnunarinnar við kæranda hafi að meginstefnu átt sér stað á ensku, enda hafi kærandi tilgreint á umsókn sinni um atvinnuleysisbætur að hann byggi yfir þekkingu á ensku tungumáli. Kærandi hafi ekki áður gert athugasemd við það að erindi og tilkynningar stofnunarinnar séu á ensku og því hafi stofnuninni ekki verið kunnugt um að kærandi kynni að eiga í vandræðum með að kynna sér efni þeirra. Að mati Vinnumálastofnun hefði kæranda verið í lófa lagið að óska eftir aðstoð stofnunarinnar í þeim efnum. Vinnumálastofnun hefði þá gefist kostur á að eiga í samskiptum við kæranda á hans eigin tungu, sbr. 1. mgr. 2. gr. Norræna tungumálasáttmálans. Forsenda þess sé eðli máls samkvæmt að Vinnumálastofnun sé kunnugt um að kærandi ætti í tungumálaerfiðleikum við stofnunina og hvaða tungumál hann óski að stofnunin notist við í samskiptum við hann, sé um annað tungumál en ensku eða íslensku að ræða.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að sæta viðurlögum í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber atvinnuleitanda að vera í virkri atvinnuleit til þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Um virka atvinnuleit er fjallað í 14. gr. laganna. Þar kemur fram í 1. mgr. að sá teljist vera virkur í atvinnuleit sem uppfylli nánar tilgreind skilyrði. Skilyrðin eru meðal annars að atvinnuleitandi sé fær til flestra almennra starfa og hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. a-lið og d-lið 1. mgr. 14. gr. laganna. Í 2. málsl. 4. mgr. 14. gr. laganna er að finna undanþágu frá þessum skilyrðum þar sem fram kemur að heimilt sé að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.

Fyrir liggur að kærandi var beittur viðurlögum á þeirri forsendu að hann hefði ekki tilkynnt um hundaofnæmi sem að mati Vinnumálastofnunar takmarki þá vinnu sem hann getur tekið. Að mati Vinnumálastofnunar lét kærandi hjá líða að tilkynna stofnuninni um nauðsynlegar upplýsingar og því um að ræða brot á tilkynningarskyldu, sbr. 59. gr. laga nr. 54/2006.

Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á að hundaofnæmi leiði til þess að atvinnuleitandi sé þá ekki fær til flestra almennra starfa, þ.e. að það valdi almennt skertri vinnufærni. Er því að mati nefndarinnar ekki um að ræða upplýsingar sem kæranda bar að upplýsa Vinnumálastofnun sérstaklega um þegar hann lagði inn umsókn um atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. apríl 2023, um að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 21. desember 2022 þar sem réttur A, til atvinnuleysisbóta var felldur niður í þrjá mánuði, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta