Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 89/2022-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 19. janúar 2023

í máli nr. 89/2022

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen dósent og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða henni leigu vegna tímabilsins 6. til 30. september 2022 að fjárhæð 66.667 kr. ásamt dráttarvöxtum.

Með kæru, dags. 9. september 2022, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 21. september 2022, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Þar sem greinargerð barst ekki frá varnaraðila ítrekaði kærunefnd beiðni um greinargerð með bréfi, dags. 8. nóvember 2022. Engin viðbrögð bárust frá varnaraðila.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu munnlegan leigusamning um leigu sóknaraðila á herbergi í íbúð varnaraðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu leigu vegna tímabilsins 6. til 30. september 2022.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst hafa leigt herbergi hjá varnaraðila frá 27. maí 2022. Leigusamningur hafi verið munnlegur, enda hafi varnaraðili verið að leiga eign sem hann hafi ekki haft yfirráð yfir. Þann 1. september 2022 hafi sóknaraðili greitt leigu en hafi þó verið stödd erlendis en komið til baka 3. september eftir tíu daga fjarveru. Aðilar hafi ekki hist fyrr en 5. sama mánaðar og varnaraðili þá ásakað hana um að greiðslur hefðu borist seint en leiga hafi þó alltaf verið greidd fyrsta hvers mánaðar. Auk þess hafi hann ásakað hana um óþrifnað. Fram til þess hafi varnaraðili ekki kvartað undan neinu. Sóknaraðili skilji ekki hvers vegna þetta hafi farið svona og hafi hún fallist á að flytja út 5. september 2022. Hún hafi farið fram á að fá endurgreidda leigu fyrir september, að frádregnum fyrstu fimm dögum mánaðarins en varnaraðili hafi hafnað því.

III. Niðurstaða            

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka þrátt fyrir áskoranir þar um og verða því þau gögn sem sóknaraðili hefur lagt fram lögð til grundvallar niðurstöðu málsins.

Í 1. mgr. 10. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að hafi aðilar vanrækt að gera skriflegan leigusamning teljist þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning og gildi öll ákvæði laganna um réttarsamband þeirra.

Sóknaraðili kveður aðila hafa gert munnlegan leigusamning um leigu sóknaraðila á herbergi í íbúð sem varnaraðili var leigjandi að á 80.000 kr. á mánuði frá 27. maí 2022. Leggur hún fram reikningsyfirlit sem sýnir millifærslur hennar inn á reikning varnaraðila að fjárhæð 80.000 kr. frá 1. júní 2022 og var síðasta millifærslan framkvæmd 1. september sama ár. Sóknaraðili segir að 5. september hafi varnaraðili gert athugasemdir við að leigugjald hafi verið greitt eftir umsaminn gjalddaga og óþrifnað sóknaraðila en þessar athugasemdir hafi ekki átt rétt á sér. Hún hafi þó fallist á að flytja út 5. september og krafið varnaraðila um endurgreiðslu á leigu fyrir tímabilið 6. til 30. september en hann hafnað því.

Kærunefnd telur gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi rift leigusamningi aðila 5. september 2022 og að sóknaraðili hafi fallist á riftunina. Þar með bar sóknaraðila ekki að greiða frekari leigu eftir þá dagsetningu. Með hliðsjón af framangreindu ber að fallast á kröfu hennar um að varnaraðila beri að endurgreiða leigu vegna tímabilsins 6. til 30. september 2022. Sóknaraðili gerir kröfu um að leigan verði endurgreidd ásamt dráttarvöxtum. Í 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, segir að nú sé ekki samið um gjalddaga kröfu og sé þá heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn sé mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Með vísan til þessa ákvæðis telur kærunefnd að reikna beri dráttarvexti mánuði frá þeim degi sem kæra barst kærunefnd, þ.e. 16. september 2022. Ber varnaraðila því að endurgreiða leigu að fjárhæð 66.667 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2022 til greiðsludags.   

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að endurgreiða leigu að fjárhæð 66.667 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 17. október 2022 til greiðsludags.  

 

 

Reykjavík, 19. janúar 2023

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Víðir Smári Petersen                                     Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta