Hoppa yfir valmynd

Nr. 55/2018 - Úrskurður

Mál nr. 55/2018

Miðvikudaginn 20. júní 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. nóvember 2017, á umsókn hennar um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna (foreldragreiðslur).

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 1. nóvember 2017, sótti kærandi um foreldragreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna sonar síns sem fæddist í X. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. nóvember 2017, á þeirri forsendu að sonur hennar félli ekki undir þau sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind væru í 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 15. mars 2018, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2018, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 31. mars 2018 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. apríl 2018. Athugasemdir bárust frá Tryggingastofnun 16. apríl 2018 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. apríl 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á foreldragreiðslum verði felld úr gildi. Kærandi tekur fram að sonur hennar hafi fæðst með skarð í gómi og því þurft mikla umönnun fyrir og eftir aðgerð á gómnum. Þá geti sonur hennar ekki verið á leikskóla vegna endurtekinna sýkinga og meðfædds galla í ónæmiskerfinu. Kærandi vísar til þess að skilyrðið um að foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né stundað nám vegna þess að barn þarfnist verulegrar umönnunar, sé uppfyllt í þeirra tilviki. Kærandi telur að veikindi sonar hennar falli undir öll sjúkdómsstig 26. gr. laga nr. 22/2006. Hann sé langveikt barn og foreldrarnir fái greiddar umönnunarbætur frá Tryggingastofnun. Því sé synjun Tryggingastofnunar með öllu óskiljanleg.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Tryggingastofnunar er vísað til þess að sonur hennar falli undir 2. og 3. sjúkdómsstig 26. gr. laga nr. 22/2006, líkt og fram komi í læknisvottorðum. Þrátt fyrir að ekki sé um alvarlega sjúkdóma að ræða séu þeir langvinnir og tekjutap foreldra umtalsvert. Ekki hafi verið önnur úrræði fyrir hendi þar sem áunninn veikindaréttur til launa hafi verið uppurinn. Kærandi tekur einnig fram að það hafi verið álit fjögurra mismunandi lækna að best hafi verið fyrir son hennar að hætta í dagvistun vegna síendurtekinna veikinda sem höfðu áhrif á hann. Þá ítrekar kærandi að synjun Tryggingastofnunar sé með öllu óskiljanleg og óskar eftir rökstuðningi fyrir því að álit læknanna sé virt að vettugi.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 22/2006 þar sem fram komi að foreldri sem leggi niður launað starf vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp komi þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, geti átt sameiginlega rétt á tekjutengdum greiðslum samkvæmt 1. mgr. 11. gr. í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Í 19. gr. laga nr. 22/2006 sé kveðið á um heimild til almennrar fjárhagsaðstoðar til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Í ákvæðinu sé talað um að veikindi eða fötlun barns þurfi að falla undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig til þess að foreldri geti átt rétt á greiðslum. Í 26. gr. laganna sé skilgreining á sjúkdómsstigum. Þar komi fram að börn sem þurfi langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma, falli undir 1. sjúkdómsstig. Börn með tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjist ónæmisbælandi meðferðar miðist við 2. sjúkdómsstig. Undir 3. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, t.d. börn með alvarlega bæklunarsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingafærasjúkdóma og geðsjúkdóma.

Tryggingastofnun tekur fram að kærandi hafi sótt um launatengdar greiðslur frá 1. ágúst 2017 til ótilgreinds tíma. Í öðrum gögnum komi fram að kærandi hafi lagt niður störf og verið frá vinnumarkaði frá 1. maí 2017 og hafi átt rétt úr sjúkrasjóði stéttarfélags til 29. júní 2017. Ekki sé að sjá í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra að um aðrar launatengdar greiðslur hafi verið að ræða fyrr en í janúar 2018. Einnig hafi það verið staðfest að drengurinn hafi ekki verið í leikskóla frá 1. maí 2017. Tryggingastofnun hafi yfirfarið þau gögn sem legið hafi til grundvallar í málinu en af þeim sé ljóst að barnið þurfi umönnun, eftirlit og stuðning sem kærandi veiti honum. Hins vegar telji stofnunin að ekki sé um að ræða svo alvarlegan sjúkdóm að unnt sé að fella erfiðleika barnsins undir eitthvert þeirra sjúkdómsstiga sem tilgreind séu í 26. gr. laga nr. 22/2006. Því sé ekki til staðar réttur til greiðslna samkvæmt lögunum.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um foreldragreiðslur á grundvelli laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna.

Með lögum nr. 22/2006 er kveðið á um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafa greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun, sbr. 1. gr. laganna. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er nánar kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði greiðslnanna er að barn hafi greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. og 27. gr. laganna, samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Þá eru önnur skilyrði lagagreinarinnar þau að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi. Þessi skilyrði eru í senn ströng og óundanþæg og miða í raun við að foreldri sé að fullu bundið yfir barni.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 22/2006 segir að undir 1. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma. Undir 2. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjist ónæmisbælandi meðferðar. Undir 3. stig falli hins vegar börn sem þurfi innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með alvarlega bæklunarsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma og geðsjúkdóma.

Í gögnum málsins liggja fyrir læknisvottorð vegna sonar kæranda. Í læknisvottorði B, dags. 18. október 2017, er heilsufars- og sjúkrasögu barnsins lýst á eftirfarandi hátt:

„C hefur verið mikið veikur frá fæðingu. Hann er fæddur með skarð í góm og fór ungur í sína fyrstu aðgerð. Hann er einnig með slæman astma og ónæmisgalla, lágt MBL prótein og lág gildi á lgG 2 og 4. Það veldur því að hann er að fá endurteknar öndunarfærasýkingar og eyrnabólgur mun oftar en gengur og gerist með börn á sama aldri. Hann hefur farið á fjöldann allan af sýklalyfjakúrum og var um tíma á fyrirbyggjandi meðferð. Hann er einnig á daglegri astmalyfjameðferð. Hann er í reglulegu eftirliti hjá undirrituðum en einnig er hann í reglulegu eftirliti astma og ofnæmislæknis og háls, nef og eyrnalæknis. Hann er nýlega kominn með rör í eyru vegna þrálátrar vökvasöfnunar og endurtekinna eyrnasýkinga. Vegna veikinda var foreldrum ráðlagt að taka hann úr dagvist sem þau gerðu. Við það hefur dregið úr sýkingum og hann hefur þurft færri sýklalyfjakúra og minna af astmalyfjum og læknisheimsóknum á stofur, bráðmóttöku og skyndivaktir hefur fækkað. Foreldrum hans hefur því verið ráðlagt að hafa hann ekki í dagvist amk. næsta árið. Heilsugæsla í heimabyggð hefur ekki getað sinnt honum sem skyldi og því hafa veikindi drengsins valdið því að móðir hans hefur ekki getað stundað vinnu með tilheyrandi tekjutapi og kostnaður við læknisheimsóknir til D og lyfjakostnaður hefur verið töluverður. Það er von mín að hægt verði að koma til móts við fjölskylduna með foreldragreiðslum.“

Í læknisvottorði E, dags. 30. október 2017, segir svo um heilsufars- og sjúkrasögu barnsins:

„C er X ára drengur sem fæddist með klofinn góm. Gekk brösulega með næringu fyrstu vikur/mánuði. Um 5 mán aldur byrjaði hann að veikjast og fá öndunarfærasýkingar og var veikur í hverjum mánuði með endurteknar eyrnabólgur, lungnabólgu, barkabólgu og náði sér ekki á strik á milli sýkinga. Var ekki að þyngjast eðlilega. Fór í aðgerð vegna klofins góms í X og fékk þá rör í eyru í sömu aðgerð. Eftir það síst betra ástand og áfram mikil veikindi, var nánast veikur allan janúar á þessu ári og var vísað til B barnalæknis vegna þessa í febrúar sl. Þá kom í ljós stór lungnabólga og þurfti hann inj. sýklalyf. Fór í framhaldinu í rannsóknir og kom í ljós að hann er með skort á mótefnum og því verulega viðkvæmur fyrir sýkingum. Var ráðlagt að taka hann af leikskóla í maí 2017 og hefur móðir tekið leyfi frá störfum til að vera með hann heima. Hann fór í heimsókn í leikskólann í sumar og veiktist í kjölfarið með lungnabólgu og þurfti 3 sýklalyfjakúra. Nú í haust minna um sýkingar og hann er að dafna betur. Var mælt með að hann færi ekki á leikskóla aftur fyrr en eftir áramót.“

Að mati úrskurðarnefndar á lýsing 26. gr. á 1. og 2. sjúkdómsstigi, um að barn þurfi annars vegar langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og hins vegar tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi, ekki við um þann sjúkdóm sem barn kæranda hefur greinst með samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins. Þrátt fyrir að sjúkdómur barns kæranda sé langvinnur og einkenni þrálát þá telst hann enn fremur ekki mjög alvarlegur, sbr. 2. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 22/2006, en það skilyrði telst ófrávíkjanlegt til að njóta greiðslna samkvæmt skýru orðalagi tilvitnaðra ákvæða.

Þar sem sjúkdómur barns kæranda fellur ekki innan 1. eða 2. sjúkdómsstigs 2. mgr. 26. gr. laganna er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði til greiðslna samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er ekkert í lögskýringargögnum með þessum ákvæðum sem bendir til þess að mati úrskurðarnefndarinnar að hægt sé að fella ástand barns kæranda undir tilgreind lagaákvæði. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. nóvember 2017, um að synja umsókn A, um foreldragreiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta