Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2013

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

skrifstofu Alþingis

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Skrifstofa Alþingis auglýsti þann 25. ágúst og 1. september 2012 laust starf þingvarðar. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að ráða karl í starfið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem ráðinn var. Kærunefnd féllst á með kærða að sá er ráðinn var í starfið hefði haft meiri reynslu af tveimur veigamiklum þáttum er starfið krafðist. Var því ekki talið að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 við ráðninguna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 29. maí 2013 er tekið fyrir mál nr. 1/2013 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með ódagsettri kæru, móttekinni 8. janúar 2013, kærði A ákvörðun skrifstofu Alþingis um að ráða karl í starf þingvarðar. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 14. janúar 2013. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 30. janúar 2013, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 1. febrúar 2013.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 4. febrúar 2013, með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 5. febrúar 2013. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 18. febrúar 2013, og voru sendar kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 25. febrúar 2013. Með bréfi, dagsettu 26. mars 2013, óskaði kærunefndin eftir nánar tilgreindum upplýsingum frá kærða og bárust þær með bréfi, dagsettu 12. apríl 2013. Bréf kærða var sent kæranda til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 15. apríl 2013.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR
  6. Þann 25. ágúst og 1. september 2012 auglýsti skrifstofa Alþingis eftir þingverði í fullt starf. Helstu verkefnum starfsins var lýst svo í auglýsingu: Öryggisgæsla, móttaka gesta, eftirlitsferðir, akstur bifreiða, útréttingar og sendiferðir, skráning og önnur verkefni. Menntunar- og hæfniskröfur voru eftirfarandi: Stúdentspróf eða sambærileg menntun, rík þjónustulund, hæfni í mannlegum samskiptum, snyrtimennska og fáguð framkoma, gott líkamlegt ástand og góð tungumálakunnátta. Umsækjendur um starfið voru 110, þar af voru 18 konur og 92 karlar.
  7. Allar umsóknir voru skoðaðar og bornar saman við menntunar- og hæfiskröfur samkvæmt auglýsingu. Samkvæmt rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni, dagsettum 14. nóvember 2012, var við mat á umsóknum einkum horft til þess hvort umsækjendur hefðu þannig reynslu og menntun að hún gæti nýst í starfi þingvarðar. Á þessum grundvelli var ákveðið að bjóða 17 umsækjendum að koma í viðtal og þáðu 14 þeirra það. Að loknu fyrsta viðtali var fimm einstaklingum boðið í annað viðtal og síðan var þeim tveimur sem best komu út úr öðru viðtali boðið í þriðja viðtal. Við innbyrðis mat á umsækjendum var samkvæmt fyrrgreindum rökstuðningi horft til þess hvort þeir hefðu marktæka starfsreynslu sem líkleg væri til þess að nýtast í starfi þingvarða og var þá litið til tímalengdar hennar, hversu nýleg hún væri og þeirra viðfangsefna sem umsækjendur höfðu sinnt í því sambandi. Í viðtölum var sérstaklega spurt um þætti eins og þjónustulund, færni í mannlegum samskiptum, reynslu af því að eiga við erfiða einstaklinga og reynslu af því að vinna við öryggiskerfi.
  8. Að loknu ráðningarferli var starfið boðið karlmanni og þáði hann það. Hann lauk námsleið I og II hjá Mími símenntun 2007 og prófi sem félagsliði 2011. Hann starfaði hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi síðastliðin átta ár sem verkefnastjóri, ráðgjafi, félagsliði og leiðbeinandi. Hann hefur fengið sérstaka þjálfun í að fást við erfiða einstaklinga, sótt námskeið um viðbrögð og varnaraðgerðir gegn ofbeldi, í sjálfsvörn og grunnendurlífgun og viðbrögðum við bráðauppákomum. Hann hefur jafnframt réttindi til að kenna á námskeiðum um slík viðbrögð. Hann hefur setið í stýrihópi um öryggismál á spítalanum frá árinu 2008 en sá hópur endurskoðar öryggismál. Hann hefur í starfi sínu sinnt eftirliti með kerfum eins og brunaboðunarkerfi og innbrotskerfi. Samkvæmt áðurnefndum rökstuðningi þótti námsferill þess sem starfið hlaut, starfsreynsla hans undanfarin ár, ásamt framkomu í viðtölum, vega þungt við ráðningu hans. Að öðrum umsækjendum ólöstuðum þótti hann bæta sérstaklega við þá þekkingu og reynslu sem fyrir er í hópi þingvarða á skrifstofu Alþingis.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  9. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og óskar eftir úrskurði kærunefndar jafnréttismála um ráðninguna. Kærandi gerir athugasemd við það sem fram kom í rökstuðningi fyrir ráðningunni um að langt sé um liðið frá því hún hafi tekið lögreglupróf og það sé ekki talið henni til tekna. Kærandi bendir á að við ráðningu sé sjaldnast spurt um aldur prófskírteinis.
  10. Kærandi vísar til þess að hún sé með lögreglupróf frá Lögregluskóla ríkisins og tíu ára starfsreynslu sem lögreglumaður í Reykjavík. Á þeim tíma hafi hún starfað við meðferð erfiðra einstaklinga og öðlast mikla reynslu á því sviði. Þá hafi hún einnig starfað að ýmis konar öryggisgæslu, meðal annars vegna heimsókna erlendra þjóðhöfðingja. Kærandi kveðst hafa starfað að þjófavörnum í verslunum og setið yfir geðveikum einstaklingum og öðrum sem hafi þurft gæslu. Í starfi sem lögreglumaður hafi hún meðal annars lært margs konar handtökuaðferðir, sjálfsvörn og fleira er viðkomi meðhöndlun erfiðra einstaklinga. Þá hafi hún lært fyrstu hjálp á slysstað á ítarlegan hátt ásamt því að hún hafi öðlast reynslu í meðferð ölvaðra einstaklinga, fíkniefnaneytenda og fleira þvíumlíku. Á árunum 1994–2010 hafi hún starfað sem forvarna- og öryggismálafulltrúi Y. Í því starfi hafi hún meðal annars veitt ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja um brunavarnir, vatnstjónsvarnir, innbrotavarnir og almennar slysavarnir. Þá hafi hún heimsótt fyrirtæki og stofnanir og lagt fyrir rýmingaráætlanir og kennt rýmingu húsnæðis á hættustund. Hún hafi sótt ýmis námskeið og ráðstefnur hér á landi sem erlendis er hafi fjallað um öryggismál og forvarnir, meðal annars ítarlegt námskeið hjá tryggingarfélaginu IF í Noregi sem sérhæfi sig í öryggismálum stofnana og fyrirtækja. Þá hafi hún verið í öryggisnefnd Y og því lært á öryggiskerfi hússins. Kærandi kveðst vera með próf í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands og hún sé nú að ljúka BA-prófi í íslensku. Hún hafi setið í mörgum nefndum á vegum Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Hún hafi mikla reynslu af ritstörfum, frágangi ritverkefna og hafi unnið við prófarkalestur í langan tíma. Þá þekki hún innviði Alþingis þar sem hún hafi eitt sinn verið varaþingmaður Alþýðuflokksins og setið í þingflokki hans. Loks kveðst kærandi vera einkar heilsuhraust, stunda fjallgöngur og líkamsrækt, hún sé einnig með hreina sakaskrá og vammlaus að öllu leyti.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  11. Kærði tekur fram að kæranda hafi ekki verið synjað um starf líkt og fram komi í bréfi kærunefndar, dagsettu 14. janúar 2013, heldur snúist mál þetta um ákvörðun um ráðningu í starf þingvarðar og hvort þar hafi verið gætt að ákvæðum 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
  12. Í athugasemdum kærða kemur fram að skv. 3. mgr. 11. gr. laga um þingsköp Alþingis ráði skrifstofustjóri starfsmenn á skrifstofu Alþingis. Slíkar ákvarðanir séu ávallt byggðar á málefnalegum sjónarmiðum að undangenginni fyrirframákveðinni málsmeðferð. Til þess að geta fengið umrætt starf hafi umsækjendur þurft að uppfylla skilyrði 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Meðal þeirra séu nauðsynleg heilbrigði, almenn menntun og þar að auki sú sérmenntun sem lögum samkvæmt sé krafist eða eðli málsins samkvæmt verði að heimta til óaðfinnanlegrar rækslu starfans, sbr. 3. og 5. tölul. 1. mgr. greinarinnar. Í auglýsingu um starfið hafi almennrar menntunar verið krafist en ekki sérstakrar, ekki hafi þótt rétt að krefjast sérstakrar menntunar vegna eðlis starfsins. Þess í stað hafi í auglýsingu verið lýst helstu verkefnum og hæfniskröfum og þannig gefin vísbending um þau sjónarmið sem yrði byggt á við mat á því hver yrði best til þess fallinn að sinna starfinu. Í 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 sé tekið fram að við mat á því hvort um mismunun sé að ræða við ráðningu í starf, sbr. 4. mgr. ákvæðisins, skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa sé gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði annars að komi að gagni í starfinu. Sjá megi af nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um breytingar á 4. og 6. mgr. 26. gr. frumvarpsins, sem hafi orðið að núverandi 5. mgr. 26. gr. laganna, að byggt sé á því að þau atriði sem talin séu upp í málsgreininni beri öll að meta heildstætt. Þá komi að auki fram í ræðu framsögumanns félags- og tryggingamálanefndar með nefndarálitinu að nefndin hafi ekki forgangsröðun á þeim atriðum. Samkvæmt framansögðu telur kærði að skrifstofustjóra beri sem ráðningaraðila að afmarka nánar þau málefnalegu sjónarmið sem til greina komi, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, og forgangsraða þeim með hliðsjón af því starfi sem um ræði. Gæta skuli þess að umsækjendur séu bornir saman innbyrðis með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lögð sé áhersla á og að þar fari fram heildstætt mat. Að mati kærða hafi þessa verið gætt við meðferð málsins eins og nánar sé lýst í rökstuðningi til kæranda, dagsettum 14. nóvember 2012.
  13. Til þess að geta lagt mat á réttmæti þeirra sjónarmiða sem byggt hafi verið á telur kærði nauðsynlegt að skýra nánar eðli starfsins og þau verkefni sem undir það heyri. Í auglýsingu hafi verið tekið fram að öryggisgæsla væri eitt af helstu verkefnum starfsins og þannig hafi komið fram það mat kærða að nauðsynlegt væri að styrkja frekar þennan þátt með því að bæta við starfi í þingvörslu. Í því sambandi hafi verið óhjákvæmilegt að líta til þess að á síðustu árum hafi komið upp atvik þar sem verulega hafi reynt á hæfni starfsmanna til samskipta við erfiða einstaklinga og til að bregðast við óvæntum aðstæðum. Kærði vísar meðal annars til IV. kafla dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2011 í málinu nr. S-149/2010 þar sem níu einstaklingar hafi verið ákærðir fyrir að ráðast gegn þingvörðum.
  14. Kærði tekur fram að fyrir liggi starfslýsing fyrir umrætt starf þar sem helstu viðfangsefni séu rakin: Tæknieftirlit, stjórnun á aðgangi, aðgangsstjórnun, eftirlitsferðir um vaktsvæði, margþætt verkefni sem snerti heill þingmanna og starfsmanna og öryggi húsa og búnaðar, verkefni sem tilgreind séu í handbók þingvarða og næturvarða og önnur verkefni sem þingverði sé falið að vinna. Enn fremur fylgi með lýsing á starfssviði þingvarða í 3. kafla handbókar þingvarða og næturvarða frá 2005 ásamt viðbót við þá starfslýsingu. Kærði telur ljóst af starfslýsingu að einn mikilvægasti þáttur í störfum þingvarða séu samskipti við þingmenn, ásamt því að gæta að öryggi þeirra og velferð, tryggja að sú starfsemi sem fram fari á vegum Alþingis verði ekki raskað, margvísleg samskipti við almenning og gæsla eigna þingsins. Á grundvelli þess sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið og í starfslýsingu hafi í viðtölum sérstaklega verið spurt um reynslu af vinnu við öryggiskerfi, viðtöku boða frá slíkum kerfum og reynslu af samskiptum við erfiða einstaklinga. Við mat á hæfni umsækjenda um umrætt starf hafi verið byggt á þeirri menntun og þekkingu sem umsækjendur höfðu aflað sér og hvernig starfsreynsla þeirra hafi verið talin nýtast í samanburði við þingvarðarstarfið. Val á sjónarmiðum um menntun, reynslu, þekkingu og hæfni til samskipta hafi því byggst á því að varpa ljósi á hvaða umsækjandi væri líklegastur til þess að sinna best starfinu með tilliti til þekkingar hans og reynslu borið saman við aðra umsækjendur.
  15. Kærði gerir athugasemdir við þá lýsingu sem kærandi dregur upp af reynslu og þekkingu sinni í kæru. Í fyrsta lagi sé ekki rétt að í rökstuðningi skrifstofustjóra hafi komið fram að langt sé liðið frá því hún hafi tekið lögreglupróf og það ekki talið henni til tekna. Í þeim hluta rökstuðningsins sé lýst því heildarmati sem fram hafi farið á hæfni umsækjenda og mati á starfsreynslu þeirra. Vissulega hafi menntun kæranda skipt máli en hún hafi hins vegar ekki getað vikið til hliðar öðrum málefnalegum sjónarmiðum þar sem niðurstaðan hafi byggst á heildarmati á mismunandi sjónarmiðum og vægi þeirra.
  16. Um tíu ára starfsreynslu kæranda segir kærði að í viðtali hafi komið fram að kærandi hafi hafið nám í lögregluskólanum árið 1976, lokið prófi árið 1979 og starfað sem lögreglumaður til ársins 1985. Fljótlega eftir að hún hafi lokið prófi hafi hún flust í umferðarfræðsludeild og síðar umferðarslysadeild þar sem hún hafi að eigin sögn sinnt nær eingöngu fræðslustörfum. Aðspurð í viðtali hafi kærandi í fyrstu sagst ekki hafa reynslu af því að eiga við erfiða einstaklinga en síðan hafi hún bætt við að hún hafi lent í ýmsu þegar hún hafi starfað sem almennur lögreglumaður. Þá hafi hún unnið á fjarskiptamiðstöð sem þá hafi að mestu falist í því að taka við símtölum.
  17. Varðandi fullyrðingu kæranda í kæru um að hún hafi setið yfir geðveikum einstaklingum og öðrum sem hafi þurft gæslu ásamt því að hafa öðlast reynslu í meðferð ölvaðra einstaklinga, fíkniefnaneytenda o.fl. bendir kærði á að þetta hafi ekki komið fram í viðtali þó kærandi hafi sérstaklega verið spurð um slíka reynslu. Auk þess hafi umsókn hennar ekki gefið tilefni til að kanna slíkt nánar. Kærði áréttar að í auglýsingu hafi komið fram að umsókn skyldu fylgja greinargóðar upplýsingar um reynslu og fyrri störf. Slíkt hið sama eigi við um reynslu kæranda af kennslu í rýmingu húsnæðis og setu í öryggisnefnd Y en í viðtali hafi þessar upplýsingar ekki komið fram jafnvel þó hún væri sérstaklega spurð um reynslu við að vinna við öryggis- og myndavélakerfi. Þá hafi ekki fylgt gögn eða upplýsingar um slíkt með umsókn. Í viðtali hafi kærandi tiltekið að hún hefði þekkingu á brunavörnum, vatnstjónsvörnum, innbrotavörnum og almennum slysavörnum. Aðspurð hafi hún þó sagst ekki hafa unnið beint við eftirlit með slíkum kerfum.
  18. Vegna fullyrðingar kæranda um þekkingu á innviðum Alþingis vegna varaþingmennsku hennar tekur kærði fram að í viðtali hafi komið fram að kærandi hafi fyrir um 30 árum verið í Alþýðuflokknum en fljótlega sagt skilið við hann. Við könnun í gagnasafni Alþingis hafi komið í ljós að kærandi hafi skipað X. sæti A-listans í Reykjavík árið 1991. Ekki verði séð að hún hafi verið kölluð á þing sem varamaður og hafi hún því ekki átt sæti í þingflokki líkt og haldið sé fram í kæru þótt hún kunni að hafa setið fundi þingflokksins. Kærði telur ekki ljóst hvort kærandi vísi til innviða Alþingis, þ.e. fulltrúasamkomunnar og þeirra starfa sem þar fari fram, eða innviða skrifstofu þingsins, sem sé tvennt ólíkt. Hvað sem því líði verði þó að líta til þess að rétt um 22 ár séu liðin frá því að kærandi hafi tekið sæti á lista Alþýðuflokksins og síðan þá hafi umtalsverðar breytingar orðið á skipulagi og innviðum skrifstofu Alþingis og einnig á starfsemi þingsins. Sem dæmi hafi starfsmönnum fjölgað umtalsvert, byggt hafi verið við Alþingishúsið og starfsemi skrifstofunnar hafi færst í önnur hús í grennd við þinghúsið. Þá megi einnig geta þess að þingsköpum hafi verið breytt og með þeim gerðar breytingar á störfum þingsins sjálfs.
  19. Þegar litið sé yfir efnisatriði kærunnar verði ekki með skýrum hætti ráðið að hvaða leyti kærandi telji að mat á umsækjendum hafi verið andstætt fyrirmælum 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 eða að öðru leyti verið leiddar líkur að því að byggt hafi verið á ómálefnalegum sjónarmiðum, sbr. 4. mgr. ákvæðisins. Að mati kærða séu staðhæfingar kæranda um reynslu hennar eða lýsing á henni ekki svo nákvæmar sem skyldi en æskilegt hefði verið að þær hefðu verið studdar frekari gögnum.
  20. Kærði vísar til rökstuðnings frá 14. nóvember 2012 þar sem meðferð málsins sé lýst og þau sjónarmið rakin sem legið hafi til grundvallar ráðningu. Sá er starfið hlaut hafi uppfyllt hinar almennu menntunarkröfur samkvæmt auglýsingu. Hann hafi lokið almennri menntun sem jafnað verði til stúdentsprófs. Enn fremur sé í rökstuðningi lýst hvaða reynslu og þekkingu hann hafi aflað sér. Kærði áréttar að sá er starfið hlaut hafi fengið sérstaka þjálfun í að fást við erfiða einstaklinga. Hann hafi enn fremur sótt námskeið um viðbrögð og varnaraðgerðir gegn ofbeldi í sjálfsvörn og í grunnendurlífgun og viðbrögð við bráðauppákomum. Þá hafi hann einnig réttindi til þess að kenna á námskeiðum um slík viðbrögð. Hann hafi setið í stýrihópi um öryggismál á Landspítalanum frá árinu 2008 en sá hópur hafi endurskoðað öryggismál geðdeilda spítalans. Þá hafi hann sinnt eftirliti með kerfum eins og brunaboðunarkerfi og innbrotskerfi.
  21. Þegar námsferill umsækjenda, fyrri reynsla þeirra, heilbrigði og framkoma í viðtölum hafi verið metin heildstætt hafi verið ljóst að sá sem starfið hlaut hafi staðið framar öðrum umsækjendum um starfið. Hafi þar mestu skipt að hann hafi aflað sér sérstakrar þekkingar og starfsreynslu á sviðum sem beinlínis hafi tengst þeim viðfangsefnum sem starfið tók til. Þegar litið sé til eðlis og viðfangsefna starfsins telur kærði ljóst að námsferili og starfsreynslu kæranda verði ekki jafnað til námsferils og starfsreynslu þess er starfið hlaut. Samkvæmt því hafi ekki reynt á óskráðar reglur um forgang á grundvelli kynjasjónarmiða. Jafnvel þó svo yrði talið verði að líta til þess að á skrifstofu Alþingis hafi í árslok 2011 starfað 52 karlar og 69 konur í rúmlega 119 stöðugildum.
  22. Kærandi hafi vísað til minnisblaðs frá 26. október 2012 þar sem finna megi upplýsingar um málsmeðferð, framkvæmd viðtala og samanburð á umsækjendum. Í minnislista vegna ráðningar þingvarðar í október 2012 sé lýst uppbyggingu viðtala og í tölvupósti til aðstoðarskrifstofustjóra frá 24. október 2012 sé að finna minnisatriði úr viðtali við kæranda. Það er afstaða kærða að málsmeðferð við ráðningu í starf þingvarðar á skrifstofu Alþingis hafi ekki farið gegn fyrirmælum 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, sbr. 5. mgr. sömu greinar.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  23. Kærandi gerir athugasemd við fullyrðingu kærða um að hún hafi nánast einungis unnið við fræðslustörf og fjarskiptastörf þann tíma sem hún hafi starfað í lögreglunni. Kærandi tekur fram að nánast allan starfsferil sinn hafi hún unnið á vöktum með starfi í umferðarfræðslu sem og á sumrin, ýmist í slysarannsóknardeild eða í almennu deildinni. Á þeim vöktum hafi hún sinnt útköllum vegna ölvunar, fíkniefnamála og annarra erfiðra mála. Á árunum 1976–1985 hafi hún unnið að meðaltali 80–100 aukavinnutíma á mánuði. Þá hafi hún unnið tvö sumur og einn vetur í umferðardeild lögreglunnar með námi á árunum 1992–1994 og því telji hún starfsreynslu sína í lögreglunni spanna samtals tíu ár.
  24. Þá gerir kærandi athugasemd við fullyrðingu kærða um að vaktir á fjarskiptastöð lögreglunnar feli að mestu í sér símsvörun en það sé alrangt. Starfið hafi falið í sér símsvörun, ákvarðanatöku um aðgerðir, samskipti við slökkvilið og sjúkralið, ráðgjöf í gegnum síma og talstöð, oft þegar líf hafi legið við, samskipti við björgunarsveitir og almannavarnir ásamt samskiptum við vaktmenn í stjórnarráðinu. Þá hafi fjarskiptamiðstöð tekið við boðum um innbrot á tiltekna mikilvæga staði, meðal annars sendiráð, og því um mikið ábyrgðarstarf að ræða. Kærandi taldi framangreind atriði meðal þess sem óþarfi væri að nefna sérstaklega þar sem um augljós atriði væri að ræða. Hið sama eigi við um reynslu kæranda af erfiðum einstaklingum enda hafi hún talið víst að viðmælendur hennar hafi vitað að lögreglumaður í Reykjavík hefði öðlast slíka reynslu.
  25. Kærandi mótmælir þeirri fullyrðingu kærða að hún hafi ekki rakið reynslu sína af öryggiskerfum og myndavélum. Þvert á móti hafi hún útskýrt ítarlega reynslu sína af setu í öryggisnefnd Y, eftirliti með öryggiskerfinu í B götu nr. Z, úttektir á öryggisþáttum á vinnustöðum og stofnunum í viðskiptum við Y, rýmingaræfingar í skólum og stofnunum, innbrotavarnir og ráðgjöf vegna kaupa og notkunar á öryggiskerfum. Þá hafi hún nefnt námsferð til Osló þar sem hún hafi sótt námskeið í öryggismálum og bent á áralanga reynslu af hvers kyns tjónavörnum.
  26. Kærandi tekur fram að samkvæmt gögnum málsins hafi sá er starfið hlaut lokið 32 einingum sem kærði kveði jafngilda stúdentsprófi en sem kunnugt sé spanni stúdentspróf um 140 einingar. Lausleg athugun sýni að námskeið þau sem hann hafi sótt séu 100 klukkustundir í heild og fær kærandi ekki séð að þar hafi verið tekin próf nema að einhverju leyti í félagsliðanáminu. Til samanburðar megi nefna að nám við Lögregluskóla ríkisins hafi verið tveggja ára nám þar sem kærandi hafi stundað öflugt nám í handtökum og meðferð erfiðra einstaklinga, lært allt um sprengjur, stundað skotæfingar, lært meðferð skotvopna, lært og tekið próf í lögum um meðferð opinberra mála, hegningarlögum o.fl. Þá bendir kærandi á að í tölvupósti til aðstoðarskrifstofustjóra frá 24. október 2012 hafi því ranglega verið haldið fram að hún hafi ekki lokið prófi í hagnýtri fjölmiðlun. Kærandi hafi lokið prófinu árið 1994 með fyrstu einkunn. Þá hafi hún lokið 165 háskólaeiningum til BA-prófs í íslensku þegar hún hafi sótt um starf þingvarðar og hafi hún getið þess að hún muni ljúka prófi í íslensku vorið 2013. Þegar kærandi hafi sótt um starfið hafi hún því verið með alls 231 einingu að baki í háskólanámi.
  27. Kærandi ítrekar að þó hún hafi ekki sest á þing hafi hún setið þingflokksfundi og fylgst náið með störfum þingmanna á þessum tíma. Hún hafi einnig setið í nefnd á vegum þingsins og kynnst vel störfum þess. Þá hafi hún staðið heiðursvörð við hin ýmsu tækifæri og þannig kynnst vel Alþingi, forsetaembættinu og forsætisráðuneytinu. Kærandi hafi öðlast mikla reynslu af akstri í störfum sínum sem lögreglumaður en hún hafi oft og tíðum þurft að aka á forgangshraða um götur borgarinnar. Umferðaröryggismál hafi verið hennar hjartans mál undanfarin 36 ár og því ætti hún að teljast með öruggari ökumönnum en eitt af störfum þingvarðar sé að aka starfsmönnum þingsins. Þá telur kærandi það skipta verulegu máli að hún sé vel kunnug störfum lögreglunnar og innviðum þess embættis. Kærandi telur að kynjasjónarmið hafi ráðið valinu og einnig hafi aldur hennar skipt máli. Af fjölda þingvarða halli á konur þótt konur séu fleiri af heildarfjölda starfsmanna.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  28. Kærði áréttar að í auglýsingu hafi verið gerð krafa um almenna menntun, þ.e. stúdentspróf eða sambærilega menntun. Ekki hafi verið gerð krafa um sérstaka menntun. Þá sé ekki gerður ágreiningur við kæranda um mikilvægi menntunar hennar eða starfsreynslu. Við heildarmat og innbyrðis samanburð á umsækjendum hafi hins vegar skipt mestu máli reynsla og þekking, hversu langt hafi verið liðið frá því að hennar hafi verið aflað sem og hvernig henni hafi verið viðhaldið. Kærði fellst ekki á fullyrðingar kæranda um að kynjasjónarmið og aldur hennar hafi skipt máli.
  29. Í svari kærða við fyrirspurn kærunefndar, dagsettri 26. mars 2013, kemur fram að með tilvísun kærða til minnislista sé verið að vísa til minnislista Ólafar Þórarinsdóttur, forstöðumanns rekstrar- og þjónustusviðs. Listinn hafi upphaflega verið handskrifaður þann 10. október 2012 en tekinn saman fyrir viðtöl við umsækjendur daginn eftir. Listinn hafi verið sleginn inn á rafrænt form þann 23. október 2012.
  30. Kærði bendir á að öll gögn um menntun og staðfestingu á námi, sem send hafi verið með greinargerð kærða hafi legið fyrir við ráðningu. Einkunnayfirlit úr framhaldsskóla hafi ekki legið fyrir við ráðningu en þess hafi verið aflað við meðferð kærumálsins og sé nú lagt fram. Í auglýsingu hafi verið gerð krafa um stúdentspróf eða sambærilega menntun. Sá sem starfið hlaut hafi ekki haft stúdentspróf frá framhaldsskóla. Því hafi reynt á hvort hann hefði menntun sem gæti talist sambærileg stúdentsprófi eða hefði sambærilegt markmið. Við það mat hafi verið litið til námsferils hans, tímalengdar hans og inntaks námsins sem hann hafi aflað sér í framhaldsskóla, í félagsliðanámi sínu hjá viðurkenndum fræðsluaðila, starfsreynslu hans frá 2005, svo og annarra námskeiða sem hann hafi lokið. Kærði rekur að sá sem starfið hlaut hafi stundað nám við Menntaskólann í Kópavogi skólaárið 1993–1994. Í viðtali hafi komið fram að hann hafi einnig stundað nám við skólann skólaárið 1994–1995. Hann hafi hins vegar hætt í námi í kjölfar verkfalls kennara árið 1995. Hann hafi stundað félagsliðanám vorið 2007 (námsleið I), vorið 2008 (námsleið II) og skólaárið 2010–2011 (félagsliðabrú). Félagsliðanám sé í dag skilgreint sem 78 eininga nám í framhaldsskóla. Náminu ljúki með starfsréttindum. Til samanburðar sé stúdentspróf 140 einingar. Til að geta tekið félagsliðabrú (32 einingar) hafi sá er starfið hlaut þurft að hafa lokið námsleið I og II hjá viðurkenndum aðila (jafngildir 230 klukkustundum), hafa náð 22 ára aldri og hafa minnst þriggja ára starfsreynslu. Kærði vísar til 18. gr. laga um framhaldsskóla þar sem segi að stúdentspróf miði meðal annars að því að undirbúa nemendur undir nám á háskólastigi. Í aðalnámskrá framhaldsskóla sé við það miðað að námstími til stúdentsprófs geti verið breytilegur milli námsbrauta og skóla. Almennt sé þó gert ráð fyrir því að framlag nemenda skuli aldrei vera minna en 200 framhaldsskólaeiningar, sbr. 9. kafla aðalnámskrárinnar. Sé þá miðað við að öll vinna nemenda í fullu námi veiti 60 framhaldsskólaeiningar á einu skólaári eða 30 einingar á önn. Kærði bendir á að litið sé á að sá sem veiti opinbert starf hafi nokkurt svigrúm um mat á því hvort og hvernig afmarka skuli skilyrði um menntun í auglýsingu, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 22. júlí 1999 í máli nr. 2408/1998, og jafnframt um að leggja mat á hvað skuli telja sambærilega menntun þeirri sem krafist er. Það hafi verið mat kærða að námsferill þess er starfið hlaut að hann hefði hlotið menntun sem hefði sambærileg markmið og nám til stúdentsprófs. Þannig hafi verið um að ræða að minnsta kosti þriggja og hálfs árs nám sem jafnað yrði til náms á framhaldsskólastigi, þ.e. að minnsta kosti 200 framhaldsskólaeiningar. Enn fremur hafi verið litið til starfsreynslu þess er starfið hlaut sem og námskeiða sem hann hafi lokið.
  31. Kærði tekur fram að með „góðri tungumálakunnáttu“ í auglýsingu hafi verið vísað til kunnáttu í íslensku og erlendum tungumálum, einkum ensku. Tungumálakunnátta sé hins vegar metin út frá þeim viðfangsefnum sem á reyni í starfinu og ætti því almennt að rúmast innan þess sem þurfi til stúdentsprófs eða sambærilegrar menntunar. Áhersla sé meiri á mælt mál en ritað. Litið sé til þess að þingverðir geti í störfum sínum átt samskipti við utanaðkomandi gesti og svarað fyrirspurnum og veitt leiðsögn um Alþingishúsið þegar svo beri undir. Við mat á tungumálakunnáttu hafi verið byggt á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum um námsferil þess er starfið hlaut. Ekki hafi þótt ástæða til að kanna tungumálakunnáttu kæranda sérstaklega eða afla gagna um hana, en hún hafi stundað háskólanám. Bæði hafi þótt koma vel fyrir í viðtölum og bæði ferðast erlendis vegna starfa sinna og þurft að notast við tungumálakunnáttu sína í þeim ferðum.
  32. Kærði vísar til þess að í auglýsingu hafi ekki verið krafist tölvukunnáttu. Þá sé í starfslýsingu ekki vikið sérstaklega að slíkri kunnáttu. Rétt sé að árétta að meginþáttur starfsins felist í öryggisgæslu. Í því felist aðallega eftirlit með öryggiskerfum, öryggisgæsla innanhúss og að fást við erfiða einstaklinga, vinna við öryggiskerfi og viðtaka boða frá slíkum kerfum. Til slíkra kerfa teljist brunavarnarkerfi, þar á meðal að fylgjast með vatnsnemum, innbrotakerfi og myndavélakerfi. Á grundvelli þess er fram hafi komið í auglýsingu um starfið og í starfslýsingu hafi sérstaklega verið spurt um reynslu af vinnu við öryggiskerfi og viðtöku boða frá slíkum kerfum. Almenn kunnátta á tölvur geti vissulega nýst við slíka vinnu en hún komi ekki í staðinn fyrir nokkurra ára reynslu af því að vinna við slík kerfi. Þegar umsækjendur hafi verið bornir saman að þessu leyti hafi komið í ljós í viðtölum að hvorki kærandi né sá er starfið hlaut hafi unnið við eftirlitsmyndakerfi. Sá er starfið hlaut hafi setið í stýrihópi um öryggismál á geðdeildum Landspítala - háskólasjúkrahúss frá árinu 2008 ásamt því að vera í varnarteymi geðdeildarinnar. Hann hafi haft leyfi frá geðsviði Landspítalans til að kenna öðrum starfsmönnum í varnarteymi geðsviðsins aðferðir til að róa reiða og yfirspennta einstaklinga og yfirbuga þá. Hann hafi starfað við brunaboðunarkerfi og innbrotakerfi frá árinu 2005. Frá árinu 2010 hafi hann haft öryggiskerfin undir sinni umsjón. Í því hafi ekki einungis falist að taka við boðum og koma þeim áfram heldur einnig að hafa umsjón með öryggiskerfunum, fylgja eftir boðum frá þeim og endurstilla kerfin. Reynsla hans og þekking á þessu sviði hafi gert það að verkum að hann hafi gengið beint inn í samskonar störf þingvarða, en stór hluti af starfstíma þingvarða fari í að fylgjast með þessum kerfum. Í umsókn kæranda og viðtali við hana hafi komið fram að hún hefði öðlast yfirgripsmikla þekkingu á öryggismálum, meðal annars brunavörnum, þjófavörnum, vatnstjónsvörnum og almennum slysavörnum. Þá hefði hún rekið fyrirtæki sem hefði sérhæft sig í fyrirlestrum um forvarnir og öryggismál. Enn fremur hafi hún fylgst með á sviði öryggis- og forvarnarmála á alþjóðavettvangi, meðal annars með því að sækja ráðstefnur. Í viðtali við hana hafi komið fram að hún hefði ekki sjálf unnið við eftirlit með innbrotakerfum eða brunavarnarkerfum, þar á meðal að taka við boðum frá slíkum kerfum og vinna með þau. Að mati kærða hafi reynsla kæranda á sviði öryggismála ekki jafnað til þeirrar reynslu sem sá er starfið hlaut hafi aflað sér með vinnu við áðurnefnd öryggiskerfi.
  33. Að sögn kærða var ekki tekið saman sérstakt minnisblað um viðtal við þann er starfið hlaut, umfram það sem greini í minnisblaði um ráðningu þingvarðar, dagsett 26. október 2012, og þess er fram komi í tölvupósti deildarstjóra þingvörslu frá 22. október 2011. Þá hafi þau minnisblöð sem vísað sé til í greinargerð kærða frá 30. janúar 2013 hvorki verið kynnt kæranda né þeim er starfið hlaut.
  34. Fram kemur að aðstoðarskrifstofustjóri kærða hafi þann 25. október 2012 aflað upplýsinga hjá Valþóri Hlöðverssyni hjá Athygli sem hafi staðfest að kærandi hafi unnið að verkefnum með Athygli sem lotið hafi að útgáfu- og kynningarmálum. Hann hafi jafnframt gefið henni hin bestu meðmæli. Deildarstjóri þingvörslu hafi þann 22. október 2012 átt samtal við Maríu Einisdóttur, mannauðsstjóra geðsviðs Landspítala, til að leita umsagnar um þann sem starfið hlaut. Framlögð samantekt kærða undir yfirskriftinni meðmæli sé í raun minnispunktar frá því samtali.
  35. Kærði tekur fram að þann 1. nóvember 2012 hafi 45 starfsmenn verið í 44 stöðugildum á rekstrar- og þjónustusviði. Konur hafi verið 24 og karlar 21. Af 9 þingvörðum sem gangi vaktir hafi verið sex karlar og þrjár konur.
  36. Kærði bendir enn fremur á að við val á umsækjendum hafi áhersla verið lögð á megininntak starfsins sem hafi falist í öryggisgæslu. Hafi þá sérstaklega verið horft til reynslu og þekkingar umsækjenda af slíku starfi. Í því sambandi hafi skipt mestu hvernig þessi atriði hafi samræmst þingvarðarstarfinu. Því hafi eðlilega og í samræmi við almenn sjónarmið um val á hæfasta umsækjandanum verið lagt aukið vægi á þessi sjónarmið og umsækjendum forgangsraðað með tilliti til þeirra. Auk þessara sjónarmiða hafi skipt máli framkoma í viðtölum og líkamlegt atgervi. Athugun kærða á umsækjendum og umsóknum þeirra hafi beinst að því að upplýsa sem best hvaða umsækjendur hafi uppfyllt þessar kröfur starfsins. Það sé mat kærða að réttar ályktanir hafi verið dregnar af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum.

    NIÐURSTAÐA
  37. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  38. Í auglýsingu um starf þingvarðar er því lýst að helstu verkefni starfsmannsins séu öryggisgæsla, móttaka gesta, eftirlitsferðir, akstur bifreiða, útréttingar og sendiferðir, skráning og önnur verkefni. Gerðar voru kröfur um stúdentspróf eða sambærilega menntun, ríka þjónustulund, hæfni í mannlegum samskiptum, snyrtimennsku og fágaða framkomu, gott líkamlegt ástand auk góðrar tungumálakunnáttu.
  39. Kærandi hefur lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, kveðst hafa lokið prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands og hafa verið langt komin með nám í íslensku til BA-prófs frá Háskóla Íslands þegar hún sótti um starf þingvarðar. Sá er ráðinn var í starfið hafði stundað nám við framhaldsskóla en hætt námi og yfirlit yfir próftöku lá ekki fyrir við ráðningu. Hann hafði lokið námi í félagsliðabrú hjá Mími símenntun en um er að ræða nám sem kennt er samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla og er metið til 32 eininga. Er því ekki unnt að fallast á það með kærða að sá er ráðinn var hafi aflað sér almennrar menntunar er sé jafngildi stúdentsprófs.
  40. Til starfs þingvarðar var krafist góðrar tungumálakunnáttu. Í starfslýsingu þingvarðar kemur fram um þekkingu og hæfni að þörf sé haldgóðrar kunnáttu í íslensku og erlendum tungumálum, einkum ensku og/eða Norðurlandamálum. Kærði hefur upplýst að þrátt fyrir þetta hafi tungumálakunnátta kæranda og þess er ráðinn var til starfsins ekki verið könnuð. Ekki hafi þótt ástæða til að kanna sérstaklega kunnáttu kæranda í þessum efnum þar sem hún hafi stundað háskólanám. Hvað varði þann er ráðinn var hafi verið byggt á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum um námsferil en gengið hafi verið út frá nægilegri kunnáttu þessara umsækjenda vegna starfstengdra ferða þeirra til útlanda.
  41. Í auglýsingu um starfið gerði kærði ekki sérstakar kröfur um starfsreynslu. Samkvæmt starfslýsingum er starfssvið þingvarða nokkuð víðtækt. Það felur í sér ýmis almenn verkefni í Alþingishúsinu, svo sem dyravörslu, meðferð þjóðfánans, minni háttar innkaup, boðmiðlun, ljósritun í forföllum, flokkun bréfa, móttöku á vörum, að hafa þingsal til reiðu fyrir þingfundi, dreifingu skjala, móttöku gesta, sýningu hússins í samráði við upplýsingafulltrúa, minni háttar viðhald, eftirlit með hreinlæti og umsjón blóma. Þá felur starfið í sér ýmis verkefni við dyravörslu og aðra vörslu á ýmsum svæðum í húsinu, svo og umgangsstýringu. Einnig er getið ýmissa verkefna við öryggisgæslu, svo sem við myndavélaeftirlit og viðbrögð frá brunakerfum, þjófavarnarkerfi, vatnsnemakerfi og slökkvikerfi. Loks er tekið fram að þingverðir annist gæslu á nefndasviði í þeirri byggingu er hýsir starfsemi nefnda, akstur með forseta Alþingis og þátttöku í akstri með erlenda gesti, gerð aðgangs- og auðkenniskorta og öryggisgæslu og eftirlit á stöðum funda er Alþingi tekur þátt í, svo sem Norðurlandaráðsfunda og funda alþjóðlegra samtaka sem Alþingi hefur aðild að. Í minnislista kærða er saminn var í ráðningarferlinu kemur fram að meðal atriða er ræða skyldi við umsækjendur í viðtölum voru „Menntun. Tölvukunnátta: Öryggiskerfi, vinna við öryggiskerfi og boð frá öryggiskerfum. Erfiðir einstaklingar, veikir fyrir og aðrir reiðir, mörk hafa færst til, fólk gengur lengra og leyfir sér meira, hótanir. Hótanir gagnvart starfsfólki. Átök. Heilsufar – Hreysti – almenn hreyfing – líkamlegt form, reykingar og reglusemi.“ Verður að meta hæfni kæranda og þess sem starfið hlaut með tilliti til þessara þátta.
  42. Kærandi afhenti ekki sérstaka ferilskrá með umsókn sinni en samkvæmt þeim upplýsingum er komu fram í umsókn hennar starfaði hún sem lögreglumaður á árunum 1976–1985 og síðan tvö sumur með námi. Hún starfaði síðan sem blaðamaður og dagskrárgerðarmaður hjá ýmsum fjölmiðlum. Árið 1993 hóf kærandi störf sem forvarna- og öryggismálafulltrúi hjá Y og starfaði þar sem stjórnandi forvarna og öryggismála í 15 ár. Í umsókn kæranda kom fram að hún hefur átt sæti í nefndum og ýmsum hópum sem unnið hafa að bættu öryggi, svo sem í öryggisnefnd Landssambands hestamannafélaga, stjórn Umferðarráðs, auk nefnda á vegum dómsmálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins. Í umsókninni kom einnig fram að kærandi teldi sig hafa í starfi sínu hjá Y öðlast yfirgripsmikla þekkingu á öryggismálum, meðal annars brunavörnum, vatnstjónsvörnum og almennum slysavörnum innan húss sem utan.
  43. Sá er ráðinn var í starfið hafði starfað sem ráðgjafi og stuðningsfulltrúi á geðsviði hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi á árunum 2004–2005 og sem félagsliði á móttökugeðdeild sjúkrahússins á árunum 2005–2012. Hann hafði verið verkefnastjóri og meðlimur í varnarteymi geðsviðs frá 2005 og leiðbeinandi í viðbrögðum og varnaraðgerðum fyrir geðdeildir frá 2010. Hann hafði sótt ýmis námskeið fyrir dyraverði auk námskeiða í sálrænni skyndihjálp, sjálfsvarnarleiðum, viðbrögðum og varnaraðgerðum gegn ofbeldi og í grunnendurlífgun og viðbrögðum við bráðauppákomum.
  44. Í minnisblaði kærða er unnið var í ráðningarferlinu kemur fram að við ráðningu hefðu farið fram fjórar umferðir af viðtölum og að í þriðju umferð hefðu þeir tveir umsækjendur er þá þáðu boð um viðtal verið spurðir um reynslu af að eiga við erfiða einstaklinga og reynslu af því að vinna við öryggis- og myndavélakerfi. Sá er starfið hlaut var annar þeirra og var að loknu viðtalinu rætt um að bjóða honum starfið. Áður en til þess kom var ákveðið að kalla þrjá nýja umsækjendur til viðtals og var kærandi ein þeirra.
  45. Í umræddu minnisblaði er þess getið um viðtöl við kæranda og tvo aðra umsækjendur að kærandi hefði ekki nýlega reynslu af því að fást við erfiða einstaklinga og ekki reynslu af því að sinna eftirliti með öryggis- og myndavélakerfum. Kærandi hefur haldið því fram að hún hafi látið þess getið í viðtalinu að hún hafi starfað í öryggisnefnd Y sem meðal annars feli í sér umsjón með bruna-, vatnstjóns- og þjófavarnarkerfi auk þekkingar á rýmingu húsnæðisins. Hún hefur einnig bent á að í starfi sínu á fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hafi hún öðlast reynslu af því að taka á móti boðum frá öryggiskerfum víða um borgina, meðal annars frá stjórnarráðinu og sendiráðum auk þess sem það starf hafi krafist töluverðrar sérþekkingar á varnar- og viðbúnaðarþáttum samfélagsins, svo sem almannavörnum. Aðilum ber þannig ekki fyllilega saman um hvaða upplýsingum kærandi kom á framfæri í viðtalinu.
  46. Augljóst er að sá sem ráðinn var stóð kæranda að baki hvað menntun snertir og er raunar áhorfsmál, eins og að framan greinir, hvort menntun hans telst sambærileg stúdentsprófi. Á hitt er hins vegar að líta að kærði lagði ríka áherslu á að fá til starfans einstakling sem hefði nýlega reynslu af því að fást við erfiða einstaklinga og sem hefði reynslu af eftirliti með öryggis- og myndavélakerfum. Menntun þess sem ráðinn var fellur vel að þeim áherslum sem kærði tilgreinir sérstaklega og lúta að því að bregðast við auknu áreiti erfiðra einstaklinga. Í því samhengi taldi kærði mörk þess sem fólk leyfir sér í samskiptum hafa færst til, gengið sé lengra og jafnvel haft í hótunum við starfsmenn. Í ljósi atburða liðinna ára verður því ekki móti mælt að málefnalegt hafi verið af hálfu kærða að leggja sérstaka áherslu á þennan þátt.
  47. Kærunefnd fellst á með kærða að reynsla þess er ráðinn var hafi vegið þyngra á metunum en starfsreynsla og menntun kæranda sem lögreglumanns. Í því samhengi verður ekki talið ómálefnalegt að horfa til þess að áratugir eru liðnir frá því að kærandi lagði stund á lögreglunám og sinnti störfum sem lögreglumaður. Þegar þetta er virt er ljóst að reynsla þess er ráðinn var úr starfi hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi tók til beggja þeirra þátta er kærði lagði áherslu á. Er því ekki þörf á að afla nánari upplýsinga um eðli þeirra starfa er kærandi sinnti við eftirlit með öryggiskerfum í starfi sínu hjá Y eða í hve miklum mæli þeim upplýsingum var komið á framfæri í starfsviðtali.
  48. Með vísan til þess sem að framan greinir þykir kærði ekki hafa brotið gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu þingvarðar haustið 2012.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu þingvarðar haustið 2012.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Guðrún Björg Birgisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta