Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 324/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 324/2016 endurupptaka

Fimmtudaginn 6. apríl 2017

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur

Með tölvupósti 14. nóvember 2016 óskaði A, eftir endurupptöku máls nr. 324/2016 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 27. október 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kæranda var synjað um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg á þeirri forsendu að hún uppfyllti ekki skilyrði d-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Kærandi bar synjun Reykjavíkurborgar undir úrskurðarnefnd velferðarmála sem staðfesti synjun sveitarfélagsins á sömu forsendu með úrskurði 27. október 2016. Með tölvupósti 14. nóvember 2016 fór kærandi fram á endurupptöku málsins og lagði fram gögn þann 24. janúar 2017 til stuðnings þeirri beiðni. Með tölvupósti 2. febrúar 2017 bárust frekari upplýsingar og gögn frá kæranda.

III. Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærandi lagði ýmis gögnin fyrir nefndina. Nánar tiltekið var um að ræða ódagsetta staðfestingu B ehf. á því að kærandi hafi verið aðstoðuð í fjárhagsvanda sínum, áætlun í starfsendurhæfingu, dags. 4. október 2016, og sérhæft mat VIRK frá 23. september 2016. Auk þess átti kærandi í tölvupóstsamskiptum við starfsmann úrskurðarnefndarinnar á árinu 2017, meðal annars um húsnæðisaðstæður sínar. Af þeim samskiptum mátti einnig ráða að hún teldi sig á sínum tíma hafa sótt bæði um fyrirframgreiðslu húsaleigu og sérstakar húsaleigubætur til Reykjavíkurborgar og lagði fram synjunarbréf vegna þess fyrrnefnda, dags. 26. maí 2016, og staðfestingu velferðarráðs, dags. 29. júní 2016. Sú synjun var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar á sínum tíma.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur ekkert komið fram um að úrskurður í máli nr. 324/2016 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að niðurstaða hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að hann var kveðinn upp. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir hefur úrskurðarnefnd velferðarmála eftir atvikum heimild til að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur kæranda ekki hafa leitt í ljós slíkar vísbendingar.

Með vísan til þess sem að framan er ritað telur nefndin ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.

Kærandi hefur til stuðnings endurupptökubeiðni sinni vísað til þess að húsnæðisaðstæður hennar kunni að breytast. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur lagt inn nýja umsókn hjá Reykjavíkurborg með vísan til breyttra forsenda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku úrskurðar í máli nr. 324/2016 er hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta