Hoppa yfir valmynd

Nr. 586/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 18. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 586/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21090069

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.       Málsatvik

Þann 10. júní 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Þýskalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 14. júní 2021. Þann 21. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og þann 28. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins auk greinargerðar. Þann 6. júlí 2021 var beiðnum kæranda synjað.

Þann 20. september 2021 barst kærunefnd í annað sinn beiðni kæranda um endurupptöku. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd þann 21. september 2021 frá Útlendingastofnun og þann 4. október 2021 frá stoðdeild ríkislögreglustjóra. Bárust kærunefnd andmæli kæranda þann 7. október 2021. Þá bárust frekari upplýsingar frá stoðdeild þann 12. október 2021.

Af greinargerð kæranda má ætla að beiðni hans um endurupptöku málsins byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Beiðni kæranda um endurupptöku málsins byggir á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hans ábyrgð. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli umsókn kæranda því tekin til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU17090040, dags. 24. október 2017, máli sínu til stuðnings.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður samkvæmt 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar umsækjandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja umsækjanda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 31. ágúst 2020 og hefur hann ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og því kemur til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 21. september 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar frá Útlendingastofnun barst þann sama dag en þar kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi tafið mál sitt. Kærandi hafi greint frá sérstökum tengslum við landið og byggt á því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þann 30. september 2020, daginn fyrir viðtal kæranda hjá Útlendingastofnun, hafi hann greint stofnuninni frá meintum tengslum sínum við landið. Viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun hafi verið frestað vegna gagnaframlagningar í tengslum við þetta. Kærandi hafi loks lagt fram frumrit gagnsins þann 19. október 2020 og það sent í áreiðanleikakönnun þann 9. nóvember 2020. Niðurstaða úr áreiðanleikakönnun lá fyrir þann 27. nóvember 2020 og bar með sér að gagnið væri að öllum líkindum falsað. Að þessu leyti sé það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi tafið mál sitt um a.m.k. 5 vikur. Þann 4. október 2021 barst svar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra þar sem m.a. kom fram að stoðdeild hafi haft verkbeiðni í máli kæranda til vinnslu í nokkrar vikur. Í tvígang hafi verið haft samband við kæranda og í bæði skiptin hafi hann neitað að fara af landinu. Í bæði skiptin hafi kærandi farið til læknis sem hafi gefið út læknabréf þess efnis að hann væri ekki fær um að ferðast sökum andlegrar líðanar. Stoðdeild hafi verið í samskiptum við Útlendingastofnun vegna þessa og á þeim tíma hafi 12 mánaða fresturinn runnið út.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 5. október 2021, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd þann 7. október 2021. Í svari kæranda kemur fram að hann líti svo á að hann hafi ekki tafið mál sitt með neinum hætti. Yfirleitt sé fyrsta viðtal umsækjanda um alþjóðlega vernd fyrsta raunverulega tækifærið til að koma sínum málsástæðum að og ekki sé sanngjarnt að ætlast til þess að allar ástæður og röksemdir komi fram hjá umsækjendum strax í upphafi. Þá beri að geta þess að málarekstur hælismála hjá ríkinu sé á forræði stjórnvalda sem geti kallað eftir gögnum og sjónarmiðum og stýrt málsmeðferð með því að veita fresti. Kærandi vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. september 2020 í máli nr. E-6095/2019 máli sínu til stuðnings en hann telji aðstæður sínar sambærilegar stefnanda í tilvitnuðu dómsmáli.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi hafi þann 10. september 2020 verið boðaður í annað viðtal hjá Útlendingastofnun þann 1. október 2020. Þann 30. september 2020 hafi kærandi með tölvubréfi óskað eftir því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þar sem hann ætti systur hér á landi sem heiti [...]. Þá hafi komið fram að kærandi og [...] séu bæði með skilríki frá heimaríki sem sýni fram á tengsl þeirra. Af samskiptum kæranda við Útlendingastofnun þann sama dag má sjá að kærandi hafi upplýst Útlendingastofnun um að hann gæti einnig lagt fram skjáskot af samskiptum þeirra á samfélagsmiðlinum Facebook fyrir komu hans hingað til lands auk skjáskota af símtölum og öðrum skilaboðum. Þann 1. október 2020 hafi kæranda formlega verið leiðbeint af hálfu Útlendingastofnunar um að leggja fram frumrit kennivottorðs og önnur gögn sem væru til þess fallin að sýna fram á tengsl kæranda við [...]. Vegna fyrirhugaðrar gagnaframlagningar kæranda var viðtali hans hjá Útlendingastofnun frestað. Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi þann 19. október 2020 lagt fram kennivottorð, námsskírteini og ökuskírteini frá heimaríki og að kennivottorðið hafi verið sent í áreiðanleikakönnun þann 9. nóvember 2020. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar hafi legið fyrir þann 27. nóvember 2020 og að mati þeirra sem framkvæmdu rannsóknina þætti mjög líklegt að skjalið væri falsað. Hið frestaða viðtal kæranda fór loks fram þann 13. janúar 2021. Gögn málsins bera með sér að kæranda hafi í þrígang verið leiðbeint við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun um framlagningu frekari gagna í málinu til að sýna fram á umrædd tengsl við [...] og samskipti þeirra á milli. Þá var kæranda leiðbeint við meðferð málsins hjá kærunefnd útlendingamála um framlagningu frekari gagna sem væru til þess fallin að sýna fram á tengsl hans við [...]. Engin frekari gögn voru lögð fram við meðferð málsins af hálfu kæranda er varðar tengsl hans hér á landi. Líkt og að framan greinir er í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga mælt fyrir um lögbundinn tólf mánaða frest fyrir stjórnvöld til að ljúka afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd. Í lögskýringargögnum með ákvæðinu er ekki að finna leiðbeiningar um það hvenær um tafir sé að ræða á málsmeðferð sem með réttu geti talist vera á ábyrgð umsækjanda. Samkvæmt orðanna hljóðan verður að ætla að málefnalegt sé að telja að undir það heyri a.m.k. þegar umsækjendur reyni að tefja málsmeðferð, svo sem með því að láta sig hverfa eða leggja fram fölsuð gögn. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi hafi lagt fram falsað gagn við meðferð málsins. Þá lagði kærandi ekki fram nein frekari gögn sem væru til þess fallin að sýna fram á tengsl hans við [...] þrátt fyrir að hafa á fyrri stigum málsmeðferðar þess máls upplýst Útlendingastofnun um að hann hygðist leggja fram skjáskot af samskiptum þeirra. Af framansögðu er ljóst að frá því að kærandi greindi fyrst frá því að hann gæti lagt fram gagn til stuðnings málsástæðu sinni um sérstök tengsl hér á landi og þar til niðurstaða áreiðanleikakönnunar lá fyrir liðu rúmar átta vikur.

Af framangreindu er að mati kærunefndar ljóst að tilgreindar tafir hafi orðið við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun sem rekja má til framburðar og gagnaframlagningar hans. Þegar litið er til þess að ríkar skyldur hvíla á útlendingi við undirbúning máls samkvæmt lögum um útlendinga að veita upplýsingar sem geta haft þýðingu fyrir úrlausn máls, sbr. 2. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga, auk 4. mgr. 37. gr. reglugerðar nr. 540/2017 og til hliðsjónar refsiákvæði b-liðar 1. mgr. 116. gr. laganna, er það niðurstaða nefndarinnar að kærandi beri ábyrgð á töfum á málsmeðferð umsóknar hans sem rekja má til þess að hann uppfyllti ekki skyldur sínar um að greina satt og rétt frá atvikum hjá stjórnvöldum.

Eins og að framan greinir var kæranda þann 14. júní 2021 tilkynnt um úrskurð kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU21030021. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa úrskurðarins hjá kærunefnd með beiðni, dags. 21. júní 2021, og var þeirri beiðni synjað þann 6. júlí 2021. Í ljósi atvika málsins, þ.m.t. tímafresta sem stjórnvöld eru bundin af, er það mat kærunefndar að sú töf sem framburður og gangaframlagning kæranda hafi haft í för með sér hafi verulega takmarkað möguleika stjórnvalda til að framkvæma flutning kæranda til Þýskalands áður en 12 mánuðir höfðu liðið frá því að hann lagði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 31. ágúst 2020.

Það er því niðurstaða kærunefndar að tafir á afgreiðslu máls kæranda séu á hans ábyrgð, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af því leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga fyrir því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar eru ekki uppfyllt.

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The appellant‘s request is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta