Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 142 Endurkrafa

Grein

Fimmtudaginn 21. júní 2007

142/2007

  

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi, dags. 22. apríl 2007, til úrskurðarnefndar almannatrygginga kærir A, endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna lífeyrisgreiðslna til kæranda árið 2005.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 27. nóvember 2006, var henni kynnt að samkvæmt endurreikningi stofnunarinnar vegna bótagreiðslna til hennar árið 2005 hefði henni verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð kr. 596.480.  Kærandi mótmælti endurreikningum.  Komst Tryggingastofnun að þeirri niðurstöðu að ekki væru skilyrði til að breyta endureikningum og tilkynnt kæranda um þá niðurstöðu í bréfi, dags. 22. janúar 2007.

 

Í kæru segir varðandi kæruefni og rökstuðning:

  II. Kæruefni

Í forsendum stofnunarinnar er mér reiknuð hlutdeild í tekjum fyrrverandi eiginmanns, B, en við skildum að borði og sæng hinn 8.september 2005, sbr. hjálagt afrit af lögskilnaðarleyfi dags. 18.05.06. 10/12 hlutar helmings fjármagnstekna hans er reiknaður mér til framfæslu og hafa þar með áhrif á lífeyrisgreiðslur mér til handa, en þær voru:

 

 

 

                                            Heildar tekjur      10/12 af             "Framfærsla"

                                              f.v. maka            helming                       50%

1. Arðstekjur                            27.000.000            11.250.000         5.625.000

2. Söluhagnaður af hlutabréfum  7.013.526            2.922.300         1.461.150

3. Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði  1.664.526           693.700            346.850

Kært er vegna þess að þessar tekjur komu framfærslu minni ekkert við og eiga þess vegna ekki að reiknast til lækkunar bóta ársins 2005.

 

III. Rökstuðningur

Með fskj. 2 fylgir yfirlýsing frá C, löggiltum endurskoðanda, þar sem fram kemur að arður sá sem um ræðir í tölulið 1. í lið II. hafi verið greiddur út hinn 27. desember 2005, og að sala hlutabréfa þeirra sem mynduðu hagnað sbr. tölulið 2. í lið II. hafi farið fram hinn 28. desember 2005. Greiðsla og sala fer því fram eftir að fjárskiptum mínum og fyrrverandi maka er lokið og það í sjálfu sér ætti því útiloka að þær hafi áhrif á lífeyri minn, enda hafði ég ekki af þeim framfærslu.

Sú einföldun sem Tryggingarstofnun beitir við útreikninginn, þ.e. að reikna mér 50% af 10/12 hlutum fjármagnstekna fyrrverandi maka, virðist ekki eiga sér stoð í lögum um almannatryggingar, enda taka hvorki lögin né reglugerðir sérstaklega á þessu atriði. Því verður ekki annað séð en að almennar reglur um slit fjárskipta við hjúskaparslit eigi við, og þar með að framangreind aðferð Tryggingarstofnunar við endurreikning sé tilhæfulaus, fjárfélagi mínu og fyrrverandi maka var einfaldlega lokið þegar arðurinn var greiddur og sala hlutabréfa fór fram.

Hvað varðar 3. tölulið liðar II. þá seldum við fasteign hinn 12.07.2005. Við töldum fram í sitt hvoru lagi gjaldárið 2006, þ.e. tekjuárið 2005, og taldi fyrrverandi maki fram ofangreinda fjárhæð sem fjártmagnstekjur, þar sem hann hugðist ekki kaupa annað íbúðarhúsnæði. Ég keypti hins vegar annað íbúðarhúsnæði og því kemur reiknaður hagnaður ekki til skattlagningar né framfærslu, þar sem hann lækkar einungis stofnverð síðari eignarinnar skv. lögum um tekjuskatt.

Með því að taka söluhagnað af 50% hlut fyrrverandi maka með í lífeyrisútreikning minn, er stofnunin því að reikna mér hlutdeild í tekjum sem mér koma ekkert við. Hinum reiknaða hagnaði hafði þegar verið skipt til helminga milli mín og fyrrverandi maka, hluti minn ráðstafast sem að ofan greinir, en með aðferð stofnunarinnar er mér gerður lífeyrir af 5/12 af hagnaði fyrrverandi maka.

Útreikningsaðferð þessi er ekki í samræmi við lög um tekjuskatt, "tekjunum" hefur þegar verið skipt til helming milli mín og fyrrverandi maka, og því verið að gera mér að bera lífeyrishalla af hagnaði sem þegar hefur verið "skattlagður" gagnvart mínum skattskilum.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 26. apríl 2007, eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Greinargerðin er dags. 16. maí 2007.  Þar segir m.a.:

  Í 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum, er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 10. gr. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 50. gr. laganna.

...

Ástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2006 vegna tekjuársins 2005 hafði farið fram komu í ljós tekjur kæranda og maka hans á árinu 2005 voru umtalsvert hærri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlun. Í upphaflegri áætlun kæranda var gert ráð fyrir því að kærandi hefði kr. 125.048 í lífeyrissjóðstekjur og að maki kæranda, B, hefði kr. 1.624.700 í launatekjur. Þegar að skattframtal ársins 2006 var skoðað kom hins vegr í ljós að tekjur kæranda hefðu verið kr. 120.057 í lífeyrissjóðstekjur og að maki kæranda hefði haft kr. 7.013.536 í hagnað af sölu hlutabréfa, kr. 27.000.000 milljónir í arð af hlutabréfum og kr. 1.664.850 í annan söluhagnað.

...

Í 10. gr. almannatryggingalaga segir að við ákvörðun tekjugrundvallar skulu tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á ellílífeyri, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka. Til tekna skv. C-lið 7. gr. tskl. teljast m.a. arður og hagnaður af sölu eigna og hlutabréfa sem telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 939/2003 segir að við endurreikning skulu lagðar til grundvallar þær aðstæður bótaþega á hverjum tíma innan bótagreiðsluársins sem lögum samkvæmt hafa áhrif á greiðslurétt. Í þessu sambandi skal m.a. litið til hjúskaparstöðu, heimilisaðstöðu og búsetu viðkomandi skv. opinberum upplýsingum, s.s. þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Í 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 939/2003, sbr. breytingarreglugerð nr. 860/2004, kemur fram að fjármagnstekjum skuli ávallt skipt til helminga milli hjóna og að ekki skipti máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða. Reglugerð þessi ásamt breytingarreglugerðinni er sett með stoð í 10. gr. sbr. 66. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingar.

Tryggingastofnun telur að sér sé ekki heimilt, sbr. framangreind laga og reglugerðar ákvæði, að miða við aðrar upplýsingar um tekjur kæranda og maka hans en þær sem fram koma á skattframtali 2006 vegna tekjuársins 2005 og því sé stofnuninni ekki unnt að taka andmæli kæranda til greina að þessu leyti. Þar sem að A og B voru gift til 8. september 2005 telur Tryggingastofnun sér ekki heimilt að víkja frá skýrum ákvæðum, framangreindra laga og reglugerða, um taka tillit til tekna maka á því tekjuári er fyrirliggur, í hlutfalli við þann tíma sem þau voru gift.

Rétt er að taka fram að vegna mistaka hjá Tryggingastofnun námu ofgreiðslur stofnunarinnar til kæranda metnar á kr. 596.480 að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Hið rétta er að ofgreiðsla stofnunarinnar til kæranda nam kr. 515.626 að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Tryggingastofnun tók fyrir mistök október mánuð inn í útreikning á endurgreiðslu kæranda, en þar sem að ljóst er að þau skildu þann 8. september hefur það núna verið leiðrétt. Kemur þetta fram í hjálögðum gögnum

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta til kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. maí 2007 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Slíkt hefur ekki borist.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar endurreikning lífeyrisgreiðslna vegna ársins 2005.

 

Í kæru gerir kærandi grein fyrir því að hún hafi skilið að borði og sæng við eiginmann sinn þann 8. september 2005.  Í forsendum endurreiknings Tryggingastofnunar hafi henni verið reiknuð hlutdeild í tekjum fyrrverandi maka hennar og henni reiknaðir til framfærslu 10/12 hlutar af helmingi fjármagnstekna hans og hafi það áhrif á útreikning lífeyrisgreiðslna henni til handa.  Þar hafi í fyrsta lagi verið um að ræða arð sem var greiddur út 27. desember 2005.  Í öðru lagi söluhagnað af hlutabréfum sem seld voru 28. desember 2005.  Og loks í þriðja lagi söluhagnað maka hennar af íbúðarhúsnæði sem þau hjónin seldu 12. júlí 2005 en makinn fyrrverandi hugðist ekki kaupa annað íbúðarhúsnæði, sem hún hafi hins vegar gert.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2006 vegna tekjuársins 2005 hafi farið fram hafi komið í ljós að tekjur kæranda og maka hennar á árinu 2005 hafi verið umtalsvert hærri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlun.  Þá segir að Tryggingastofnun sjái sér ekki heimilt að miða við aðrar upplýsingar um tekjur kæranda og maka hennar en þær sem fram komi á skattframtali 2006 vegna tekjuársins 2005 og að taka verði tilliti til tekna maka kæranda á því tekjuári er fyrir liggi í hlutfalli við þann tíma sem þau voru gift.

 

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum, er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.  Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum og víðar svo fremi að samþykki umsækjanda um bætur liggi fyrir.

 

Í 2. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning og er þar vísað til ákvæða laga um tekjuskatt í því sambandi.

 

Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna.  Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.

 

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins nr. 939/2003 segir að við endurreikning skuli lagðar til grundvallar þær aðstæður bótaþega á hverjum tíma innan bótagreiðsluársins sem lögum samkvæmt hafi áhrif á greiðslurétt.  Í þessu sambandi skal m.a. litið til hjúskaparstöðu, heimilisaðstöðu og búsetu viðkomandi samkvæmt opinberum upplýsingum, s.s. þjóðskrá Hagstofu Íslands.

 

Í 1. mgr. 63. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 er hjónum sem slíta hjúskap á árinu veitt heimild til að telja fram allar tekjur sínar á því ári hvoru í sínu lagi.

 

Þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum vegna ársins 2005 lá fyrir fór fram endurreikningur á bótarétti kæranda árið 2005 hjá Tryggingastofnun í samræmi við ákvæði 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga.  Við endurreikning á bótarétti kæranda árið 2005 lagði Tryggingastofnun til grundvallar bæði tekjur kæranda sjálfrar og tekjur maka hennar sem hún skildi við að borð og sæng 8. september 2005.

 

Eftir því sem segir í kæru nýttu kærandi og maki hennar sér framangreinda heimild 63. gr. tekjuskattslaga og töldu fram hvort í sínu lagi árið 2006 fyrir tekjuárið 2005.  Hefur þeirri fullyrðingu kæranda ekki verið mótmælt af hálfu Tryggingastofnunar.  Samkvæmt tilvitnaðri 63. gr. tekjuskattslaga skulu hjón sem slíta hjúskap skattlögð saman fram til þess tíma sem hjúskapnum var slitið.  Tekjur á öðrum tíma ársins skal telja fram hjá þeim sem þær hafði, sem einstaklingi og skattleggja samkvæmt því. 

 

Kærandi hefur lagt fram staðfestingu endurskoðanda þess efnis að framangreindur arður hafi verið greiddur út í árslok 2005, eftir skilnað þeirra hjónanna og að söluhagnaður af hlutabréfum hafi þá einnig komið til.  Engar athugasemdir hafa verið gerðar af hálfu Tryggingastofnunar þetta varðandi og verður því að leggja það til grundvallar að fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi haft þessar tekjur en ekki kærandi.

 

Þá hefur Tryggingastofnun ekki mótmælt því er í kæru segir um sölu kæranda og maka hennar á fasteign.  Heldur kærandi því fram að þau hjónin hafi selt fasteign 12. júlí 2005.  Hafi maki hennar fyrrverandi talið fram söluverðið sem fjármagnstekjur þar sem hann hugðist ekki kaupa annað íbúðarhúsnæði en hún hafi hins vegar keypt annað íbúðarhúsnæði og því komi reiknaður hagnaður hvorki til skattlagningar né framfærslu heldur lækki hann einungis stofnverð síðari eignar hennar.

 

Með vísan til framangreindra laga – og reglugerðarákvæða, svo og alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að við endurreikning á bótagreiðslurétti kæranda vegna ársins 2005 sé ekki heimilt að taka inn í útreikninginn fjármagnstekjur er maki hennar fyrrverandi fékk sannanlega greiddar eftir að hjónabandi þeirra lauk.  Þá er það jafnframt niðurstaða úrskurðarnefndinnar að hafi kærandi ráðstafað sínum hluta af söluandvirði fasteignar til nýrra fasteignakaupa og verið skattlögð samkvæmt því af skattyfirvöldum sé ekki unnt að taka söluhagnað maka hennar af sömu fasteigninni inn í útreikning á bótarétti hennar.  Af þessum sökum er málinu vísað heim til Tryggingastofnunar ríkisins, sem skal framkvæma nýjan endurreikning á bótagreiðslum stofnunarinnar til kæranda árið 2005 og skal sá endurreikningur byggður á framangreindri niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Endurkrafa Tryggingarstofnunar ríkisins á hendur A vegna bótagreiðslna árið 2005 er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til Tryggingastofnunar ríkisins sem skal framkvæma nýjan endurreikning á lífeyrisgreiðslum til A árið 2005.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta