Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 160 Örorkubætur / endurhæfingarlífeyrir

Grein

Miðvikudaginn 8. ágúst 2007

 

160/2007

  

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur.

 

A, kærir til úrskurðarnefndar almannatrygginga örorkumat lífeyristrygginga Tryggingastofnunar ríkisins dags. 11. apríl 2007 þar sem kæranda var metinn örorkustyrkur. Kæran er móttekin 23. maí 2007.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi var fyrst metin til almennrar örorku þann 30. júlí 2003 og var henni þá metinn örorkustyrkur. Við endurmat í apríl 2007 lá fyrir læknisvottorð B, dags. 9. febrúar 2007.

 

Í vottorðinu segir:

 

„ Ég vísa til fyrri vottorða. Frá því síðasta vottorð var ritað hefur heilsufar A versnað. Hún er nú með stöðuga verki í vinstri handlegg og alveg upp í öxl, vinstra herðasvæði og upp í háls. Hún hefur þolað kuldann í vetur illa er öll stirð og stíf og á erfitt með að gera mjög marga hluti. Handleggur hefur orðið allt annan lit en sá hægri og mikil vöðvarýrnun er komin fram. Verkir eru það miklir að hún treystir sér ekki til neinna starfa.”

 

Kærandi fyllti út spurningalista vegna færniskerðingar (sjálfsmat) 3. febrúar 2007 og fór í skoðun og viðtal til læknis á vegum Tryggingastofnunar 29. mars 2007.

 

Örorkumat lífeyristrygginga fór fram þann 11. apríl 2007. Samkvæmt matinu voru skilyrði örorkulífeyris ekki uppfyllt en kæranda metinn örorkustyrkur áfram.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segist kærandi hafa slasast á hendi við vinnu í júlí 2001 og ekkert hafa getað unnið síðan. Heilsu sinni fari stöðugt hrakandi, hún geti ekki skrúfað frá krana eða snúið rofa á eldavél með slösuðu hendinni og geti ekki borið neitt. Örorkubætur sem hún fái nú dugi henni ekki til framfærslu.

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 29. maí 2007 eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Greinargerðin er dags. 12. júní 2007.  Þar segir að við skoðun með tilliti til staðals geti kærandi ekki skrúfað frá krana eða rofa á eldavél með hvorri hendinni sem er og hún geti ekki tekið upp og borið hálfs lítra fernu með hvorri hendinni sem er. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt og því hafi fyrra mat um örorkustig staðið óbreytt.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 19. júní 2007 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Kærandi óskaði eftir fresti til að koma að athugasemdum fram í fyrstu viku ágústmánaðar og var umbeðinn frestur veittur. Engin viðbótargögn hafa borist.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Kærandi er ósátt við örorkumat Tryggingastofnunar frá 11. apríl 2007, þar sem henni var metinn örorkustyrkur og óskar endurskoðunar.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir kærandi að hún sé með öllu óvinnufær eftir að hún slasaðist á hendi í vinnu árið 2001. Heilsu sinni fari stöðugt hrakandi, hún geti ekki skrúfað frá krana eða snúið rofa á eldavél með slösuðu hendinni og geti ekki borið neitt. Þar fyrir utan hafi hún stöðuga verki í hendinni.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði staðals um hæsta örorkustig og hafi fyrra mat því staðið óbreytt og verið framlengt um tvö ár.

 

Samkvæmt 12. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, ásamt síðari breytingum, eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. 

 

Samkvæmt 13. gr. eiga þeir rétt til örorkustyrks sem skortir a.m.k. helming starfsorku.

 

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli, en ráðherra setur reglugerð um örorkustaðalinn að fengnum tillögum Tryggingastofnunar ríkisins.  Fyrri hluti staðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf að fá 15 stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þarf 10 stig úr þeim hluta til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins, getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki, nái hann a.m.k. 6 stigum í hvorum hluta staðalsins.

 

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, senda umsækjanda að jafnaði staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

 

Í læknisvottorði B, dags. 9. febrúar 2007 segir að kærandi sé með stöðuga verki í vinstri handlegg og alveg upp í öxl, vinstra herðasvæði og upp í háls. Hún eigi erfitt með að gera mjög marga hluti. Vegna verkja treysti hún sér ekki til neinna starfa.

 

Í skýrslu skoðunarlæknis segir að ekki verði séð að nein endurhæfing hafi farið fram.

 

Ummæli í fyrirliggjandi gögnum málsins benda að mati úrskurðarnefndar, sem m.a. er skipuð lækni, til þess að mat á örorku hafi ekki verið tímabært í tilviki kæranda. Í 2. málsl. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993 þar sem fjallað er um örorkulífeyri segir:

 

Heimilt er að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 8. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

 

Kærandi, sem er aðeins 30 ára gömul, glímir við afleiðingar slyss árið 2001. Samkvæmt læknisvottorði dags. 9. febrúar 2007 býr hún við verki í vinstri handlegg og upp í öxl, vinstra herðasvæði og upp í háls. Kærandi hefur ekki verið í endurhæfingu eftir slysið en með vísan til aldurs hennar og annarra atvika málsins telur úrskurðarnefndin að endurhæfingu þurfi að reyna til þrautar áður en örorka er metin. Nefndin endurskoðar því ekki mat Tryggingastofnunar á örorku en vísar málinu aftur til Tryggingastofnunar til mats á skilyrðum endurhæfingarlífeyris samkvæmt 8. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð. Kæranda var metinn örorkustyrkur þegar örorkumat þann 11. apríl 2007 fór fram. Nefndin hreyfir ekki við þeirri ívilnandi ákvörðun þrátt fyrir framangreint.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Máli A, er vísað aftur til Tryggingastofnunar til mats á skilyrðum endurhæfingarlífeyris.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

_______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta