Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 587/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 587/2021

Fimmtudaginn 7. apríl 2022

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 5. nóvember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 12. október 2021, um að synja umsókn hans um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir ágúst 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ á árinu 2021. Við mat á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2021 kom í ljós að hann átti fjármuni á bankareikningi. Með ákvörðun velferðarsviðs Reykjanesbæjar, dags. 13. september 2021, var umsókn kæranda synjað með vísan til greinar 4.3.4. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjanesbæjar staðfesti þá ákvörðun á fundi 8. október 2021, sbr. bréf áfrýjunarnefndar frá 12. október 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 5. nóvember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. nóvember 2021, var óskað eftir greinargerð Reykjanesbæjar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 21. desember 2021, 26. janúar 2022 og 2. mars 2022. Greinargerð Reykjanesbæjar barst úrskurðarnefndinni 16. mars 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé ekki sammála ákvörðun Reykjanesbæjar. Hann hafi fengið greidda skerta fjárhagsaðstoð fyrir september 2021 en á fundi hjá sveitarfélaginu hafi verið lofað að kærandi fengi eftirstöðvarnar greiddar. Sú greiðsla hafi ekki enn borist.

III.  Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið greidda samfellda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu á tímabilinu desember 2020 til ágúst 2021 áður en hann hafi fengið tímabundna vinnu. Í júlí 2021 hafi verið haft samband við kæranda til að bjóða honum þátttöku í Kjarnahóp – til vellíðunar og virkni sem hafi verið virkniúrræði á vegum Reykjanesbæjar fyrir pólskumælandi einstaklinga sem höfðu verið lengi utan vinnumarkaðar. Kærandi hafi verið boðaður í viðtal þann 23. júlí 2021 sem hann hafi upphaflega ekki viljað mæta í. Kæranda hafi þá verið greint frá heimild í reglum Reykjanesbæjar til að skerða fjárhagsaðstoð um helming næstu tvo mánuði ef hann myndi ekki mæta í viðtal og neita þátttöku í virkniúrræði. Kærandi hafi mætt í viðtalið og þar hafi verið rætt um áðurnefnt úrræði og einnig um möguleikann á að verða honum úti um starf í gegnum „Hefjum störf“. Kærandi hafi þá frekað óskað eftir að reynt yrði að finna handa honum vinnu en að öðrum kosti myndi hann taka þátt í námskeiðinu. Starfsmaður „Hefjum störf“ átaksins hafi ítrekað reynt að hafa samband við kæranda í ágúst til að bjóða honum atvinnuviðtal í gegnum átakið. Kærandi hafi aldrei svarað símanum og tekin hafi verið ákvörðun um að þegar endurnýjun umsóknar hans vegna ágústmánaðar myndi berast yrði hún sett á bið þar sem ekki hafi náðst í hann og hann hafi ekki haft samband til baka. Kærandi hafi síðan ekki skilaði nýrri staðgreiðsluskrá í ágúst og hafi því ekki endurnýjað umsókn sína. Kærandi hafi því ekki fengið greitt 31. ágúst 2021.

Þann 2. september 2021 hafi kærandi mætt í þjónustuverið og verið ósáttur við að hafa ekki fengið greidda fjárhagsaðstoð vegna ágústmánaðar. Rætt hafi verið við kæranda og honum greint frá því að hann hefði ekki skilað staðgreiðsluskrá og því hafi hann ekki fengið greitt. Einnig hafi honum verið greint frá því að ítrekað hafi ekki náðst í hann, hann fengi greidda hálfa fjárhagsaðstoð og fengi restina af greiðslunni þegar hann væri búinn að ræða við ráðgjafa sinn um næstu skref, hvort sem það yrði að mæta í atvinnuviðtal eða virkniúrræði.

Þann 9. september hafi kærandi sent tölvupóst á netfang Reykjanesbæjar þar sem hann hafi greint frá því að hann væri kominn með vinnu og hafi óskað eftir seinni helmingi fjárhagsaðstoðar vegna ágústmánaðar. Við nánari yfirferð á fjárhagsaðstoðarmáli kæranda hafi komið í ljós að samkvæmt nýjasta skattframtali, sem hann hafi skilað inn þann 14. júlí, hafi peningalegar eignir hans í árslok 2020 verið að fjárhæð 1.131.910 kr. og hafi umsókn hans vegna ágústmánaðar því verið synjað þann 13. september 2021. Kæranda hafi verið tilkynnt um niðurstöðu með bréfi sem hafi verið sent rafrænt í gegnum mittreykjanes.is. Þá hafi honum einnig verið kynntur réttur hans til að áfrýja niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar.

Þann 20. september hafi kæranda verið gefinn viðtalstími til að fara betur yfir niðurstöðu afgreiðslunnar en hann hafi ekki mætt. Kærandi hafi sent kvörtun vegna afgreiðslunnar og í kjölfarið hafi hann með tölvupóstsamskiptum á tímabilinu 21. september til 4. október fengið útskýringu á því hvers vegna umsókn hans hafi verið synjað ásamt upplýsingum um áfrýjunarnefnd og hvaða gögnum áfrýjunarnefnd myndi líklegast óska eftir til að geta tekið upplýsta ákvörðun í málinu. Beiðni til áfrýjunarnefndar hafi borist 4. október þar sem kærandi hafi tilgreint að hann væri ósammála þeirri niðurstöðu að fjárhagsaðstoð hans hafi verið skert um helming vegna ágústmánaðar. Þar sem kæranda hafi verið synjað vegna peningaeignar hafi kæranda verið sent minnisblað þess efnis og óskað hafi verið eftir því að hann myndi færa sönnur á að fjármunir væru ekki lengur til staðar eins og hafi verið útskýrt fyrir honum í framangreindum tölvupóstsamskiptum. Þau gögn hafi hvorki borist né ítarlegri greinargerð frá honum. Málið hafi farið á fund áfrýjunarnefndar þann 8. október þar sem óskað hafi verið eftir undanþágu frá eignum umsækjanda ásamt því að hann fengi greidda fulla fjárhagsaðstoð vegna ágústmánaðar. Kærandi hafi fengið bréf frá áfrýjunarnefnd í gegnum mittreykjanes.is þann 12. október þar sem honum hafi verið kynnt afgreiðsla erindisins ásamt því að honum hafi verið kynntur réttur til málskots til úrskurðarnefndar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjanesbæjar um að synja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2021.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 3. mgr. greinar 4.2.1. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð kemur fram að með umsókn um fjárhagsaðstoð skuli fylgja staðfest skattframtal vegna síðastliðins árs, sbr. ákvæði 24. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans eða sambýlismanns þann mánuð sem umsókn er lögð fram og tvo mánuði þar á undan, þar með taldar greiðslur frá almannatryggingum, lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun, sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða öðrum aðilum. Samkvæmt grein 4.2.2. getur velferðarsvið, ef þörf krefur, aflað frekari upplýsinga um tekjur og eignir umsækjanda, meðal annars hjá skattayfirvöldum, atvinnurekendum, Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum og Vinnumálastofnun og skuli það gert í samráði við umsækjanda. Neiti umsækjandi að veita upplýsingar um fjárhag sinn eða maka/sambýlismanns stöðvast afgreiðsla umsóknar.

Samkvæmt grein 4.3.1. skal við ákvörðun á fjárhagsaðstoð leggja til grundvallar grunnfjárþörf til framfærslu og frá henni dregnar heildartekjur. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings á árinu 2021 gat numið allt að 174.297 kr. á mánuði. Í grein 4.3.4. reglnanna er fjallað um eignir umsækjanda. Þar segir í 1. mgr. að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans býr í eða hafi hann nýlega selt eignir sínar skal umsækjanda að jafnaði vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur viðkomandi séu undir viðmiðunarmörkum. Samkvæmt 2. mgr. er litið á peningalegar eignir og aðra fjármuni sem umsækjandi, maki hans eða sambýlingur eru skráðir fyrir, sem tekjur og skulu þær koma til frádráttar áður en réttur myndast til fjárhagsaðstoðar.

Reglur Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að allar eignir, aðrar en íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans býr í, sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda synjað um fjárhagsaðstoð fyrir ágústmánuð 2021 vegna fjármuna á bankareikningi, eða 1.131.910 kr., sbr. fyrirliggjandi skattframtal vegna ársins 2020. Þar sem kærandi lagði ekki fram nýrri gögn varðandi þá fjármuni, þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar sveitarfélagsins, var sú fjárhæð lögð til grundvallar sem eign hans og gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemd við það. Ljóst er að um eign var að ræða sem kæranda bar að nýta sér til framfærslu í ágúst 2021 áður en til fjárhagsaðstoðar kæmi frá sveitarfélaginu. Með vísan til þess er ákvörðun Reykjanesbæjar um að synja kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir ágústmánuð 2021 staðfest.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að átelja þann mikla drátt sem varð hjá Reykjanesbæ á því að skila greinargerð og gögnum til nefndarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin kveða upp úrskurði svo fljótt sem kostur er og að jafnaði innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál, nema sérstakar ástæður hamli. Forsenda þess að úrskurðarnefndin geti fylgt þeirri reglu er að fullnægjandi gögn liggi fyrir tímanlega en ljóst er að svo var ekki í máli þessu. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir sveitarfélaginu að virða framvegis þau tímamörk sem sett eru vegna kærumála hjá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 12. október 2021, um að synja umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta