Mál nr. 443/2022 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 443/2022
Miðvikudaginn 26. október 2022
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, dags. 2. september 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 21. júní 2022 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með ódagsettri umsókn, sem barst Sjúkratryggingum Íslands 5. maí 2021, vegna afleiðinga meðferðar sem hófst á Landspítalanum þann X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 21. júní 2022, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. september 2022. Með bréfi, dags. 8. september 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 19. september 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar eftir að höfnun Sjúkratrygginga Íslands á bótarétti hans samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu verði endurskoðuð og telur að skilyrðum laganna sé fullnægt þannig að hann eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns þess sem hafi hlotist af sjúklingatryggingaratburðinum X.
Í kæru er greint frá því kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna mistaka sem hafi átt sér stað í spengingaraðgerð sem kærandi hafi gengist undir þann X. Tjón kæranda megi rekja til þess að skrúfa hafi brotnað og skaðað hrygginn á honum varanlega, enda hafi hún setið í lengri tíma í liðdisknum L5/S1. Kærandi byggi á því að hefði aðgerðin heppnast væri hann ekki að glíma við varanleg einkenni í bakinu nú.
Kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með tilkynningu sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 5. maí 2021. Með bréfi stofnunarinnar þann 21. júní 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að ekki væri heimilt að verða við umsókninni með vísan til þess að slys kæranda mætti ekki rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Kærandi byggi kröfu sína um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna mistaka í spengingaraðgerð á hrygg þann X. Í 1. tölul. 2. gr. sjúklingatryggingarlaga segi að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til meðal annars: „Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.“
Kærandi lýsi málsatvikum þannig að þann X hafi hann farið í spengingaraðgerð á baki hjá B en til staðar hafi verið áralöng bakverkjasaga og liðskrið á milli tveggja neðstu bakliða. Tveimur dögum síðar hafi kærandi verið útskrifaður. Tæpum tveimur mánuðum síðar hafi kærandi komið í eftirlit hjá lækninum og lýsti nokkrum verkjum. Hann hafi verið boðaður í aðra endurkomu í X og hafi þá verið orðinn verri af einkennum sínum. Tekin hafi verið röntgenmynd sem hafi leitt í ljós að önnur skrúfan væri brotin og sæti í liðdisknum L5/S1. Í endurkomu þann X hafi kærandi lýst versnandi einkennum og ákveðið hafi verið að gera aðra aðgerð þar sem spengingin yrði endurgerð. Seinni aðgerðin hafi farið fram þann X. Samkvæmt sjúkraskrá Landspítalans sé kærandi enn að glíma við verki í bakinu.
Af öllu framangreindu sé ljóst að kærandi hafi fengið ófullnægjandi meðhöndlun á Landspítala. Í fyrsta lagi telji kærandi ljóst af gögnum málsins að aðgerðin þann X þar sem málmplata hafi verið sett á milli tveggja neðstu hryggjarliða, hafi verið ófullnægjandi. Aðgerðin hafi ekki tekist betur en svo að önnur skrúfan hafi brotnað og setið í liðdisknum L5/S1 og hin ekki legið rétt. Kærandi hafi verið boðaður í endurkomu og tekin hafi verið röntgenmynd í X en þar hafi komið í ljós að önnur skrúfan hafi verið brotin. Það hafi ekki verið fyrr en við aðra endurkomu kæranda í lok X sem ákveðið hafi verið að taka hann til aðgerðar þar sem spengingin yrði endurgerð. Kærandi bendi á að í sjúkraskrá komi fram það álit C bæklunarlæknis að mögulega hafi önnur skrúfan, þ.e. sú sem hafi brotnað, ert hrygginn. Af þessu telji kærandi ljóst að aðgerðin þann X hafi verið ófullnægjandi.
Kærandi byggi á því að vegna ófullnægjandi læknismeðferðar á Landspítalanum hafi hann orðið bæði fyrir tímabundnu og varanlegu tjóni. Kærandi hafi verið mjög þjáður allt þar til einhverjum mánuðum eftir að hin upprunulegu mistök á Landspítala hafi verið leiðrétt með seinni aðgerðinni. Kærandi byggi á því að hefði hin upprunalega aðgerð verið framkvæmd með eðlilegum hætti og hefði hann verið tekinn fyrr til aðgerðar hefði hann ekki orðið fyrir varanlegu líkamstjóni.
Kærandi telji ljóst að fyrri áverkar hans hafi versnað verulega og varanlega vegna fyrri aðgerðarinnar og vegna þess tíma sem hafi liðið á milli hennar og seinni aðgerðar. Hann telji því ljóst að hið varanlega tjón sem hann búi við nú sé að rekja til ófullnægjandi meðhöndlunar og mistaka á Landspítala, enda hafi skrúfan setið í lengri tíma í liðdisknum L5/S1, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Kærandi byggi einnig á 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu en þar segi að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika: „Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“
Ákvæðið taki aðeins til fylgikvilla sem að öllum líkindum megi rekja til rannsókna eða meðferðar, en ekki til fylgikvilla sem rekja megi til grunnsjúkdóms sjúklings. Fylgikvillann þurfi að meta í samhengi við eðli og alvarleika veikinda sjúklingsins og heilsufar hans að öðru leyti. Líkt og fram komi í höfnunarbréfi Sjúkratrygginga Íslands sjáist skrúfubrot aðeins í um 2% tilvika. Fylgikvillar vegna skrúfubrota, líkt og kærandi sé að glíma við, hljóti því að teljast mjög sjaldgæfir. Kærandi bendi á að hann hafi verið að glíma við slæma verki í kjölfarið og verið vegna þeirra í verkjameðferð á D og endurhæfingu á vegum E.
Í ljósi framangreinds byggi kærandi á því að hann eigi rétt á bótum samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Af öllu framangreindu sé ljóst að kærandi hafi fengið ranga meðhöndlun á Landspítala í fyrstu spengingaraðgerð þann X. Samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu eiga þeir rétt til bóta sem verða fyrir meðal annars líkamstjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi. Kærandi telji að líkamstjón hans megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. og 4. tölul. 2. gr. laganna.
Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri kærandi höfnun Sjúkratrygginga Íslands á bótarétti hans samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og telur að skilyrðum laganna sé fullnægt þannig að hann eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns þess sem hafi hlotist af spengingaraðferð.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 5. maí 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi byrjað á Landspítala þann X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og hafi málið verið tekið fyrir á fundi fagteymis í sjúklingatryggingu sem skipað sé læknum og lögfræðingum stofnunarinnar. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 21. júní 2022, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu væru ekki uppfyllt.
Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið X árs gamall þegar aðgerðin hafi farið fram þann X. Kærandi hafi haft sögu um offitu, reykingar, háþrýsting og vélindabakflæði. Kærandi hafi þá starfað sem […]. Til staðar hafi verið áralöng bakverkjasaga og liðskrið (spondylolisthesis) á milli tveggja neðstu bakliða. Samkvæmt nótu heilsugæslulæknis á F þann X muni kærandi hafa verið með leiðniverk niður í báða ganglimi, í köstum, þó meira niður í þann vinstri. Í innlagnarnótum á Landspítala í aðdraganda spengingaraðgerðarinnar sé ekki getið um leiðniverk í ganglimi. Þann X hafi síðan verið gerð aftari spenging á mjóbakinu með skrúfum og stögum. Notast hafi verið við svokallaðan O-arm og navigation til að aðstoða við að fá rétta legu á skrúfunar. Tveimur dögum síðar hafi kærandi verð útskrifaður af Landspítala á D með legu á sjúkrahúsinu þar sem kærandi hafi verið endurhæfður og verkjastilltur, meðal annars með Íbúfen og Celebrai sem séu bólguhemjandi lyf. Kærandi hafi síðan útskrifast þann X.
Kærandi hafi komið í eftirlit á göngudeild Landspítala þann X þar sem teknar hafi verið röntgenmyndir sem hafi sýnt að önnur af neðri skrúfunum, sú hægra megin, hafi haft óhentuga stefnu og legið inn í átt að liðþófa. Þá hafi kærandi kvartað um áframhaldandi verki í baki og stirðleika en hafi ekki verið með afgerandi leiðniverki. Ákveðið hafi verið að hefja sjúkraþjálfun og halda eftirliti áfram.
Kærandi hafi komið aftur í eftirlit á Landspítala þann X og þá verið enn með verkjastreng þvert yfir mjóbaki. Röntgenmynd hafi hins vegar sýnt að önnur neðsta skrúfan, sú vinstri sem hafi legið rétt, hafi brotnað. Kærandi hafi komið í aðra endurkomu þann X og hafi kærandi þá verið farinn að finna fyrir leiðniverk niður eftir öllum ganglim. Í nótunni X sé talað um vinstri ganglim en í seinni nótum og sjúkraskýrslum sé talað um hægri ganglim og megi ætla að það misræmi í skráningu í sjúkraskrárgögnum stafi af misritun þann X. Fengin hafi verið ný röntgenmynd þann X sem hafi sýnt óbreytt ástand. Talið hafi verið að óbrotna skrúfan, sem hefði skakka stefnu og lægi hægra megin, gæti verið að erta taugarót og ákveðið hafi verið að framkvæma endurspengingu.
Sú aðgerð hafi verið gerð á Landspítala þann X. Í aðgerðarlýsingu hafi verið nefnt að erfitt hafi verið að fjarlægja vinstri skrúfuna, þá brotnu, úr spjaldhryggnum. Hvorki hafi verið lýst ástandi spengingarinnar, hvort sjáanlegar hafi verið misfellur í beinspönginni né hvort allt virtist gróið. Skrúfur og stög hafi verið fjarlægð og sett ný í staðinn. Í endurkomu þann X hafi leiðniverkur kæranda horfið og í eftirfarandi endurkomum hafi ástand verið svipað með staðbundnum verkjum í mjóbakinu en bent hafi verið á að kærandi þyrfti að komast í megrun.
Þann X hafi heimilislæknir fengið nýja segulómskoðun af lumbalhrygg í Orkuhúsinu vegna viðvarandi verkjastrengs yfir mjóbakið og óvinnufærni. Niðurstaðan hafi verið sú að hvorki væru til staðar mænuþrengsli né brjósklos. Ekki hefði heldur bætt í skriðið frá rannsókn fyrir aðgerð X og spengingin hafi því virst hafa gróið.
Við ákvörðun um hvort einstaklingar eigi rétt til bóta samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu sé litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði átt annarri meðferðaraðferð eða -tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þyki að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þurfi að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo að skilyrði séu fyrir greiðslu bóta. Sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms eða grunnáverka og það sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem hann hafi gengist undir.
Þá segir að hryggspengingar séu hvorki án fylgikvilla né áhættu. Gera megi ráð fyrir góðum árangri með beingróanda eftir spengingu vegna liðskriðs í 80% tilfella þar sem notuð sé innri festing og skrúfubrot geti sést í um 2% tilfella. Að auki sé hægt að gera ráð fyrir að hrörnunarbreytingar sem séu fyrir í hryggnum, eins og til staðar hafi verið á liðþófa í tilviki kæranda, haldi áfram. Þar af leiði að bakverkir geti verið áfram til staðar, bæði á sama stað í hryggnum en einnig annars staðar, þrátt fyrir vel heppnaða spengingaraðgerð.
Röng lega á festiskrúfum hafi verið alþekkt vandamál þegar byrjað hafi verið að framkvæma spengingar á árum áður. Í sinni verstu mynd hafi skrúfurnar lent inni í mænugöngum og valdið lömunum og mænuvökvaleka. Þetta vandamál hafi minnkað talsvert þegar farið hafi verið að notast við svokallaða „navigation“ sem nýti tölvusneiðmyndatöku og sérstakan hugbúnað á skurðborði til að aðstoða skurðlækninn við að fá rétta stefnu og legu á skrúfurnar. Slíkt tæki hafi verið notað í báðum aðgerðunum, svokallaður O-armur. Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi þessi aðferð þó ekki alfarið í veg fyrir að skrúfa fari út af sporinu og verði að telja að með notkun hjálpartækis eins og O-arms hafi allt verið gert til að reyna að fá rétta skrúfulegu upphaflega. Vangaveltur kæranda um það hvort brot á skrúfunni sem hafi legið rétt hafi komið til vegna aukins álags í kjölfar rangrar skrúfulegu hægra megin í spjaldhrygg séu ekki studdar rannsóknarniðurstöðum. Það virðist ekki hafa nein afgerandi áhrif á gróanda eða árangur hvort járnun sé fest einungis öðrum eða báðum megin í hryggnum. Í greinargerð meðferðaraðila, dags. 30. ágúst 2021, komi fram að aðrar sýkingar, svo sem seinn gróandi eða aðrar gróandatruflanir, séu líklegri og taki Sjúkratryggingar Íslands undir það. Það sem geti truflað gróanda sé sýking, reykingar, ónóg festing, inntaka bólgueyðandi lyfja svo sem Íbúfens, sykursýki og ofþyngd. Ljóst sé að kærandi hafi haft allt að þrjá áhættuþætti fyrir gróandatruflunum á beini.
Eftir standi að í kjölfar fyrri aðgerðarinnar hafi kærandi farið að finna fyrir leiðniverk í hægri ganglim, eða þeim megin sem skakka skrúfan hafi setið. Þetta hafi þó ekki verið áberandi fyrr en seinna í ferlinu, eftir nokkra mánuði. Það hafi ekki heldur verið útilokað að skrúfan erti taugarót í göngudeildarnótu X og því hafi verið ákveðið að endurtaka spengingaraðgerðina. Þá hafi verið liðið hálft ár frá fyrri aðgerð. Ekki hafi verið framkvæmdar neinar myndgreiningar fyrir aðgerðina til að staðfesta hvort skrúfan lægi nálægt taugarótinni, heldur hafi ákvörðunin verið tekin á grundvelli skoðunar og klínískra grunsemda. Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði ekki fundið að þeirri ákvörðun þar sem segulómun hafi í raun verið ómöguleg vegna truflunar frá skrúfunni og því rétt ákvörðun að beita klínískri skoðun við ákvörðunartökuna.
Í kjölfar seinni spengingaraðgerðarinnar hafi leiðniverkir kæranda horfið en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi enn virst vera með verki frá baki, ekki ólíka þeim sem hafi verið fyrir upphaflegu aðgerðina X. Kærandi sé enn óvinnufær og hafi verið í verkjameðferð á D og endurhæfingu á vegum E.
Sjúkratryggingar Íslands teli þá greiningu og meðferð sem hafi byrjað á Landspítala þann X vera í fullu samræmi við almennt viðtekna og gagnreynda læknisfræði. Þau einkenni sem kærandi búi við nú verði ekki rakin til meðferðar eða skorts á meðferð heldur til grunnástands hans. Með vísan í framangreint sé ljóst að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að meðferð hafi ekki verið háttað með fullnægjandi hætti.
Með vísan til þessa telji Sjúkratryggingar Íslands að ekki liggi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falla undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Í ljósi þess að ekki verði annað séð en að afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnisins hafi nú þegar komið fram í hinni kærðu ákvörðun, þyki ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í fyrirliggjandi ákvörðun frá 21. júní 2022. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.
Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar, sem hófst á Landspítalanum þann X, séu bótaskyldar samkvæmt 1. og 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:
„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:
1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.
3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.
4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“
Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.
Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.
Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.
Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. og 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að fyrri áverkar hans hafi versnað verulega og varanlega vegna fyrri aðgerðarinnar og vegna þess tíma sem hafi liðið á milli hennar og seinni aðgerðarinnar. Hann telur að tjón sitt sé að rekja til ófullnægjandi meðhöndlunar og mistaka á Landspítala, enda hafi skrúfan setið í lengri tíma í liðdisknum L5/S1. Þá telur hann fylgikvilla vegna skrúfubrota eins og hann sé að glíma við hljóta að teljast mjög sjaldgæfa
Í greinargerð meðferðaraðila, C bæklunarskurðlæknis, dags. 30. ágúst 2021, segir:
„Í samantekt undirritaðs er sagan í sem stytstu máli þessi.
- X var A settur á biðlista bæklunarskurðdeildar Landspítalans til hryggspengingar. Í innlagnarskrá dags. X kemur fram að A hafi haft einkenni frá baki lengi en sérstaklega síðustu tvö árin farið versnandi. Eru verkirnir aðallega staðsettir um neðanverðan lendhrygginn. Er sérstakra leiðniverkja ekki getið en sagt að liðskrið L5/S 1 hafi verið til staðar á segulómun.
- X lagðist A svo inn á bæklunarskurðdeildina og samdægurs gekkst hann undir hryggspengingu L[5] - S 1. Gekk aðgerðin áfallalaust fyrir sig en í lok hennar voru teknar sneiðmyndir til að ganga úr skugga um staðsetningu spengingarskrúfanna. Sést á sneiðmyndunum að neðri skrúfan hægra megin situr í liðþófanum allavega að hluta til en annars eru þessar sneiðmyndir erfiðar í túlkun. Var ekkert frekar gert en ákveðið að láta skrúfuna vera þar sem hún var enda liðþófinnn þegar farinn að slitna og falla dálítið saman með liðskriðinu og er í raun markmiðið með aðgerðinni að festa hann með spengingunni L5/S 1.
- X kom A svo til fyrsta eftirlits. Segir svo í göngudeildarnótu undirritaðs þá. „Lætur í raun þokkalega af sér en segir þó aðeins bakslag orðið síðustu tíðina. Hefur eftir sem áður ákveðin verkjaeinkenni um mót lendhryggjar og spjaldhryggjar en um teljandi verkjaeinkenni niður í fætur sé varla að ræða, ef nokkuð eingöngu rasskinnar. ..“
- Í endurkomu X er ástandið svipað en skv röntgemyndum sést að vinstri spjaldhryggjarskrúfan er brotin en hin fer sem áður inn í liðþófann L5/S 1. Er þó ekki annað að sjá en að góður gróandi sé til staðar og því ákveðið að sjá til um frekari inngrip.
- X kom A svo enn á göngudeild. Höfðu verkjaeinkenni þá ef nokkuð heldur færst í aukana að viðbættum leiðniverkjum í vinstri rasskinn, læri og jafnvel tær. Var ákveðin enduraðgerð þar sem ekki þótti með öllu hægt að útiloka að spengingin væri í raun ógróin og ættu þá skrúfurnar einhvern þátt í einkennum A.
- X gekkst A undir endurspengingu um leið og fyrri innri festingar voru fjarlægðar. Í innskriftarnótu þá segir. ,, ... Hafði farið í hryggspengingu á LV - S 1 04.06.18 og hafði verið lengi með einkenni í baki, gekk bakverkurinn nokkuð vel niður en núna í haust fór að koma leiðniverkur niður í hæ. fót og hefur verið að ágerast nokkuð mikið segir hann sérstaklega síðustu tvo mánuðina.“
Gekk aðgerðin eðlilega fyrir sig og sýndu röntgenmyndir að henni lokinni góða legu á innri festingum.
- X kom A síðasta sinni. Sagði hann bakverkina nánast þá sömu og fyrir aðgerðina en hinsvegar hefðu einkennin niður í hægri fót lagast. Þótti ekki ástæða til frekari aðgerða og útskrifaðist A við svo búið.
[…]
Í eftirliti X eða vel rúmum fjórum mánuðum eftir fyrri aðgerðina kom í ljós að spjaldhryggjarskrúfan vinstra megin var brotin en allt frá aðgerð var vitað að hægri skrúfan gekk inn í liðbilið L5/S 1. Telur undirritaður ólíklegt að versnandi verkir skýrist af hvorki skrúfunni sem brotnaði eða hinni sem gekk inn í liðþofann. Gæti, og kannski öllu líklegra er, að skrúfubrotið orsakist af vangróanda sem síðan skili sér í verkjum. Er staðsetning þeirrar skrúfu annars eins og best verður á komið. Verður brotið á skrúfunni þó óvenju snemma og getur verið að með því sem spjaldhryggjarskrúfan hægra megin fái minni festu vegna staðsetningar sinnar mæði meira á skrúfunni vinstra megin. Er einnig mögulegt að þótt festa skrúfunnar hægra megin sé í raun meiri (fer í gegnum endaplötu Sl) þá verði aukin hreyfing um hana með því sem skrúfan vinstra megin brotni. Þetta eru þó alfarið hugleiðingar en af og frá telur undirritaður að skrúfan hægra megin valdi verkjunum ein og sér. Má því í því tilliti geta þess að í vissum tilvikum s.s. þegar verulegt skrið hefur orðið milli LS og S 1 er neðri skrúfunum beinlínis beint i gegnum liðþófann og upp í LS. Má og telja líklegt að ef skrúfan hægra megin hafi átt þátt í versnandi verkjum, þá hefðu þeir komið strax.
Telur undirritaður þannig að þótt staðsetning hægri spjaldhryggjarskrúfunnar sé ekki tilætluð sé ólíklegt að verkir tengist henni og aðrar skýringar s.s. vangróandi líklegri.
[…]
Á grundvelli þessa, og þrátt fyrir öll vafaatriði, telur undirritaður að hafna eigi fullyrðingum um eiginleg mistök.“
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að kærandi fór í spengingu þann X og ljóst var þann X að vinstri spjaldhryggjarskrúfan var brotin og fór inn í liðþófann L5 /S1. Þann X var kærandi orðinn verri af verkjum með leiðniverkjum í vinstri rasskinn. Þá var ákveðið að hann færi í enduraðgerð. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að handvömm hafi orðið í meðhöndlun kæranda. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Verður því ekki fallist á að bótaskylda sé til staðar á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu
Kemur þá til skoðunar hvort bótaskylda verði grundvölluð á 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Samkvæmt ákvæðinu skal greiða bætur ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þar með talinni aðgerð, sem ætlað sé að greina sjúkdóm og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu eru gefin viðmið hér að lútandi:
- Líta skal til þess hve tjónið er mikið.
- Líta skal til sjúkdóms og heilsufars viðkomandi að öðru leyti.
- Taka skal mið af því hvort algengt sé að tjón verði af umræddri meðferð.
- Hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.
Til nánari glöggvunar á því hvaða atriði eigi að leggja til grundvallar við framangreint mat verður að líta til tilgangs löggjafans og hvert markmiðið hafi verið með ákvæðinu. Í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpi til laganna kemur fram að markmið með nefndum 4. tölul. 2. gr. sé að ná til heilsutjóns, sem ekki sé unnt að fá bætt samkvæmt 1.–3. tölul. greinarinnar, en ósanngjarnt þyki að menn þoli bótalaust, einkum vegna misvægis á milli þess hve tjónið sé mikið og þess hve veikindi sjúklings voru alvarleg. Þá segir að við matið skuli taka mið af eðli veikinda og hve mikil þau séu svo og almennu heilbrigðisástandi sjúklings. Ef augljós hætta sé á að sjúklingur hljóti mikla örorku eða deyi, sé sjúkdómurinn látinn afskiptalaus, verði menn að sætta sig við verulega áhættu af alvarlegum eftirköstum meðferðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að gera ráð fyrir því að skrúfur brotni ekki og að þær séu á réttum stöðum. Ljóst er að í kjölfar þess að spjaldhryggjarskrúfan brotnaði og fór inn í liðþófann L5/S1 þurfti kærandi enduraðgerð. Samkvæmt því sem lýst er í gögnum málsins var kærandi verulega verkjaður og óvinnufær og telja verður því að líkur séu á því að þetta hafi haft áhrif á heilsu hans til frambúðar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að vandræði vegna festiskrúfa líkt og í tilviki kæranda séu sjaldgæf og ljóst að líkur séu á því að þær ásamt öðrum áhættuþáttum kæranda hafi leitt til þess að hann þurfti að fara í enduraðgerð og hafði ekki það gagn af aðgerð sem ætla hefði mátt. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni vegna fylgikvilla meðferðar, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000.
Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu. Málinu er vísað til Sjúkratrygginga Íslands til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er felld úr gildi. Málinu er vísað til Sjúkratrygginga Íslands til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson