Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 228/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 228/2017

Miðvikudaginn 15. nóvember 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. maí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. apríl 2017 á umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 17. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 2. mars 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún hafi verið metin til örorku í fyrra búsetulandi. Með bréfi B læknis, dags. 20. mars 2017, var óskað endurskoðunar á þeirri ákvörðun. Með öðru bréfi B, dags. 28. mars 2017, var þar að auki tekið fram að kærandi hefði óskað eftir því að greiðslur hennar frá C yrðu felldar niður. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. apríl 2017, var ítrekað að kærandi hafi verið að fá lífeyrisgreiðslur frá C og því sé hún með örorkumat þar í landi. Umsókn kæranda hafi því verið synjað og taldi stofnunin að framangreindar upplýsingar, sem komu fram í bréfi B læknis, ekki gefa tilefni til breytinga á þeirri ákvörðun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. maí 2017. Með bréfi, dags. 12. júní 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerðin barst með bréfi, dags. 12. júlí 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Greinargerðin kom endursend til nefndarinnar 21. júlí 2017 með upplýsingum um að kærandi væri farin og var hún því send á netfang kæranda sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru segir að samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið grundvöllur fyrir lífeyrisgreiðslum vegna þess að kærandi hafi verið að fá greiðslur frá fyrra búsetulandi. Þannig sé mál með vexti að kærandi hafi verið að fá um 40.000 kr. í örorkustyrk frá C sem, líkt og gefi að skilja, hafi ekki verið að framfleyta henni og börnum hennar X hér á landi. Kærandi hafi því hringt til C og afþakkað þessar greiðslur og viljað hefja ferlið hér á landi svo að hún gæti lifað af sómasamlega með börnum sínum X. Þá hafi hún fengið bréf Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. apríl 2017. Kærandi hafi ekki fengið greiðslur frá C. Hún hafi fengið síðustu greiðslu í X 2017 eða X 2017. Hún hafi lokað bankareikningi sínum í C í kjölfarið og sé því ekki með það á hreinu hvenær það hafi verið. Sé óskað nákvæmari dagsetningar þurfi hún að hringja út. Kærandi hafi þó enga [...] fengið á íslenska reikninga sína í X 2017 og geti hún sýnt fram á það með reikningsyfirlitum. Kærandi verði að fá örorkugreiðslur svo að hún og börnin hennar X geti lifað af. Hún hafi verið með fasta búsetu hér á landi í X ár og eigi því rétt á bótum hér á landi. Hún muni ekki fara hér af landi, enda séu börnin hennar X íslenskir ríkisborgarar og eigi þau rétt á því að búa nálægt föður sínum og fjölskyldu. Haldi hún áfram að fá ekki neitt muni hún á endanum neyðast til að flytja með þau út því að hún geti ekki framfleytt þeim hér. Hún fái hvergi vinnu vegna veikinda sinna og hafi því ekkert á milli handanna.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé heimilt að greiða þeim örorkulífeyri sem séu á aldrinum 18-67 ára, hafi verið búsettir á Íslandi síðustu þrjú árin áður en umsókn sé lögð fram og séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Kærandi hafi flutt hingað til lands frá C þann X 2013 og sótt um örorkumat hjá Tryggingastofnun með umsókn, dags. 17. febrúar 2017. Í umsókninni hafi komið fram að kærandi fengi lífeyrisgreiðslur frá D. Eftirfarandi gögn hafi verið meðfylgjandi umsókninni: Læknisvottorð, spurningalisti, tekjuáætlun þar sem fram hafi komið að tekjur kæranda væru styrkir frá sveitarfélögum og D, upplýsingar um greiðslur að fjárhæð X inn á íslenskan bankareikning í X og X 2017, afrit af bréfi E í C til kæranda, dags. 16. maí 2006, um samþykktar lífeyrisgreiðslur E í C frá árinu 2003, og annað bréf frá D um samþykktar lífeyrisgreiðslur ([...]) frá júní 2002.

Í bréfunum frá E hafi komið fram upplýsingar um að greiðslurnar hafi verið vegna liðins tímabils, um áframhaldandi greiðslur og að þær væru reiknaðar að teknu tilliti til annarra tekna.

Með hinni kærðu ákvörðun hafi umsókn kæranda verið synjað á þeim grundvelli að hún hafi verið metin til örorku í fyrra búsetulandi.

Þar sem umsókn kæranda hafi verið synjað á grundvelli fyrirliggjandi greiðsluréttar í fyrra búsetulandi hafi læknisfræðilegt mat á örorku ekki farið fram.

Í framhaldi af synjuninni hafi komið læknabréf B heimilislæknis, dags. 20. mars 2017, þar sem farið hafi verið fram á að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Þá hafi borist annað læknabréf, dags. 28. mars 2017, þar sem óskað hafi verið endurskoðunar á þeim grundvelli að kærandi hafi hringt til C og farið fram á að hætt yrði að greiða henni örorkustyrkinn sem hún hafi verið að fá þaðan.

Tekið skuli fram að ekki hafi borist staðfesting á því að greiðslur þar í landi hafi verið stöðvaðar.

Einstaklingur, sem hafi fengið samþykkta umsókn um örorkulífeyrisgreiðslur fyrir flutning hingað til lands, ávinni sér ekki rétt til örorkulífeyrisgreiðslna hér á landi samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar á meðan hann haldi áfram að eiga rétt á örorkulífeyrisgreiðslum í fyrra búsetulandi.

Afsal á örorkulífeyrisgreiðslum, sem áframhaldandi réttur sé á í fyrra búsetulandi í þeim tilgangi að fá samþykktar lífeyrisgreiðslur hér á landi, hafi ekki áhrif á þessa niðurstöðu. Eftir að réttur til greiðslna vegna örorku hafi stofnast í því landi, sem viðkomandi einstaklingur hafi verið búsettur í frá upphafi örorku, hafi ekki í för með sér að þótt hann flytji til annars lands geti hann valið að hætta að taka á móti greiðslum í fyrra landinu og fá frekar sams konar greiðslur frá nýja búsetulandinu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Um örorkulífeyri er fjallað í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í ákvæðinu segir meðal annars svo:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, eru 18 ára eða eldri en hafa ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr. og:

a. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins metur örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Ráðherra setur reglugerð um örorkustaðalinn að fengnum tillögum Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.“

Af gögnum málsins verður ráðið að forsenda synjunar á umsókn kæranda sé sú að hún eigi rétt á örorkulífeyrisgreiðslum frá C. Kærandi hefur óskað endurskoðunar á þeirri ákvörðun með hliðsjón af því að hún falli frá greiðsluréttindum sínum þar í landi. Tryggingastofnun ríkisins segir í greinargerð sinni að kærandi geti ekki valið að falla frá greiðslum sem hún eigi rétt til í einu landi í þeim tilgangi að fá frekar sams konar greiðslur í öðru landi. Þá byggir hin kærða ákvörðun á framangreindu lagaákvæði.

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði nánari rökstuðnings frá Tryggingastofnun ríkisins vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Nánar tiltekið var óskað upplýsinga um á hvaða grundvelli ákvörðunin væri byggð. Í svari stofnunarinnar við þeirri fyrirspurn kom fram að á grundvelli nótuskipta sé samkomulag á milli Íslands og C um að einstaklingur sem er með greiðslur í einu landi geti fengið að halda þeim þótt hann flytji til hins landsins, þ.e. hann getur haldið áfram að teljast tryggður í því landi. Um er að ræða samkomulag á milli ríkisstjórna Íslands og C frá árinu X um gagnkvæmar greiðslur bóta almannatrygginga. Úrskurðarnefnd fær hvorki ráðið að lög um almannatryggingar né lögskýringargögn geri ráð fyrir því að sú staðreynd að kærandi eigi rétt til þess að fá greiddan örorkulífeyri frá X, þrátt fyrir búsetu hér á landi, komi í veg fyrir að hún geti öðlast rétt til þess að gangast undir örorkumat á grundvelli 18. gr. laganna að uppfylltum skilyrðum laganna. Jafnframt telur nefndin að slík regla verði ekki leidd af umræddu samkomulagi þar sem það fjallar eingöngu um rétt til þess að halda bótagreiðslum, þrátt fyrir flutning úr landi.

Af framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki heimild til þess að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri á þeim grundvelli að kærandi hafi verið metin til örorku í C. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta