Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 267/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 267/2017

Miðvikudaginn 15. nóvember 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. júlí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. apríl 2017 um að stöðva greiðslur barnalífeyris til hans frá 1. janúar 2017.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnar ríkisins, dags. 12. apríl 2017, var kæranda tilkynnt um að greiðslur barnalífeyris hefðu verið stöðvaðar þar sem hann fengi ekki ellilífeyrisgreiðslur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. júlí 2017. Með bréfi, dags. 24. júlí 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 8. september 2017, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. september 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ætla má að hann fari fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur barnalífeyris til hans verði endurskoðuð.

Í kæru segir að með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, hafi Tryggingastofnun ríkisins tilkynnt kæranda að ákveðið hafi verið að veita honum barnalífeyri með X börnum hans. Ákvörðunin hafi verið tekin á þeim tíma til 1. febrúar 2019 eins og fram hafi komið í bréfinu. Í apríl 2017 hafi kæranda borist bréf frá stofnuninni þar sem honum hafi verið tilkynnt að sú ákvörðun hafi verið dregin til baka þar sem hann nyti ekki lengur ellilífeyris frá stofnuninni. Ellilífeyrir kæranda komi frá lífeyrissjóði B og hann hafi ekkert annað fyrir sig að leggja. Auk þess veki hann athygli á því að hann sé eignalaus maður og vegna aldurs og heilsufars sé honum ekki nokkur leið að afla sér frekari tekna. Ákvörðun þessi hafi því komið honum sérlega illa. Þótt kærandi þekki ekki til þeirra laga sem til sé vitnað í þessu sambandi leyfi hann sér að efast um þann grundvöll sem til sé vísað þegar þessi ákvörðun sé dregin til baka, að taka af honum áður ákveðinn barnalífeyri sem ákveðinn hafi verið með bréfi til tiltekins dags, þ.e. 1. febrúar 2019.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð stofnunarinnar kemur fram að sú ákvörðun að greiða honum barnalífeyri til 1. febrúar 2019 hafi verið skilyrðislaus og kærandi því ekki haft ástæðu til annars en að taka hana alvarlega og gera ráð fyrir henni í áætlunum um eigin afkomu. Stofnuninni ætti að vera ljóst mikilvægi þess að slíkar ákvarðanir standi en séu ekki teknar af handahófi.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar geti stofnunin ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega svo og með barni manns sem sæti gæsluvist eða afpláni fangelsi, enda hafi vistin varað að minnsta kosti í þrjá mánuði. Um sé að ræða heimildarákvæði og hafi Tryggingaráð sett reglur á árinu 1999 þar sem það hafi verið nánar útfært. Í 2. gr. reglnanna segi að heimild til greiðslu barnalífeyris með barni ellilífeyrisþega sé bundin því skilyrði að viðkomandi njóti ellilífeyris.

Kærandi hafi sótt um barnalífeyri með umsókn, dags. 19. ágúst 2013, og hún verið samþykkt með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. ágúst 2013.

Til þess að eiga rétt á barnalífeyri vegna ellilífeyris þurfi viðkomandi að njóta greiðslna ellilífeyris. Kærandi hafi notið slíkra greiðslna frá dagsetningu umsóknar til 31. desember 2016. Með breytingalögum nr. 116/2016, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2017, hafi verið gerðar kerfisbreytingar á ellilífeyri og tengdum greiðslum. Þær hafi haft í för með sér að kærandi, sem hafi um það bil X kr. á mánuði í lífeyrissjóðstekjur, hafi misst rétt til ellilífeyris og þar með barnalífeyris.

Fyrir mistök hafi kærandi fengið greiddan barnalífeyri vegna ellilífeyris frá 1. janúar til 31. mars 2017. Við skoðun á greiðslum kæranda hafi mistökin komið í ljós og þær þá verið stöðvaðar. Eins og fram komi í hinni kærðu ákvörðun verði kærandi ekki endurkrafinn um greiðslur sem hann hafi fengið á þessu tímabili þótt hann hafi ekki átt rétt á þeim.

Ljóst sé að kærandi njóti ekki lengur greiðslna ellilífeyris vegna tekna. Í samræmi við lög um almannatryggingar og reglur Tryggingaráðs eigi hann því ekki lengur rétt á barnalífeyri vegna ellilífeyris.

Rétt sé að vekja athygli á því að þótt ekki hafi áður reynt á þessi ákvæði hjá úrskurðarnefnd hafi reynt á sambærileg ákvæði sem gildi um viðbót á örorkustyrk vegna barna. Í máli nr. 419/2009 hafi úrskurðarnefnd almannatrygginga staðfest endurkröfu á viðbót á örorkustyrk vegna barna sem hafi verið tilkomin vegna þess að viðkomandi hafði misst rétt til örorkustyrks vegna tekna.

Tryggingastofnun standi því við fyrri ákvörðun sína um stöðvun á greiðslum barnalífeyris vegna ellilífeyris til kæranda.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur barnalífeyris til kæranda frá 1. apríl 2017.

Fyrir liggur að réttur kæranda til ellilífeyris á grundvelli 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar féll niður 1. janúar 2017 vegna ákvæða í lögum nr. 116/2016 um breytingu á lögum um almannatryggingar o.fl., sbr. jafnframt lög nr. 9/2017.

Í 3. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar segir að Tryggingastofnun ríkisins geti ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega meðal annars. Fyrir liggur að stofnunin samþykkti að greiða kæranda barnalífeyri á grundvelli ákvæðisins með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, vegna tímabilsins 1. júlí 2013 til 1. febrúar 2019. Af hinni kærðu ákvörðun má ráða að greiðslur barnalífeyris til kæranda hafi verið stöðvaðar frá 1. apríl 2017 á þeirri forsendu að hann ætti ekki rétt á ellilífeyri frá stofnuninni.

Þar sem kærandi fær ekki greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að hann sé ekki ellilífeyrisþegi í skilningi 3. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar. Því uppfyllir hann ekki skilyrði ákvæðisins fyrir greiðslu barnalífeyris.

Vegna athugasemda kæranda um að Tryggingastofnun ríkisins hafi tekið ákvörðun um að greiða honum barnalífeyri til 1. febrúar 2019 tekur úrskurðarnefnd fram að forsenda þeirrar ákvörðunar var sú að kærandi væri ellilífeyrisþegi í skilningi laga um almannatrygginga. Þar sem lagaskilyrði þar um eru ekki lengur uppfyllt er óheimilt að halda greiðslum barnalífeyris áfram.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva barnalífeyri til kæranda frá 1. apríl 2017 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslu barnalífeyris til A, frá 1. apríl 2017, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta