Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 97/2014 - Endurupptaka

Mál nr. 97/2014

Föstudaginn 17. nóvember 2017

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 5. september 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, sem þá starfaði, kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. ágúst 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kvað upp úrskurð 22. desember 2016 þar sem ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda var staðfest.

Með lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015, sem gildi tóku 1. janúar 2016, tók úrskurðarnefndin við störfum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Þann 23. mars 2017 barst úrskurðarnefndinni beiðni kærenda um endurupptöku málsins á þeim grundvelli að úrskurðurinn hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin féllst á beiðni kærenda með úrskurði 9. júní 2017.

Úrskurðarnefnd velferðarmála tilkynnti umboðsmanni skuldara um endurupptökuna með bréfi 15. júní 2017 og óskaði jafnframt eftir greinargerð umboðsmanns. Greinargerðin barst með bréfi 13. júlí 2017. Var hún send kærendum til kynningar með bréfi 18. júlí 2017 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 31. júlí 2017. Með bréfi 1. ágúst 2017 var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kærenda. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 15. ágúst 2017. Var hún send kærendum til kynningar með bréfi 16. ágúst 2017 og þeim gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Með bréfi 28. ágúst 2017 bárust viðbótarathugasemdir kærenda og var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til þeirra með bréfi 30. ágúst 2017. Með tölvupósti 5. september 2017 tilkynnti umboðsmaður skuldara að ekki yrðu gerðar frekari athugasemdir.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1950 og 1944. Þau eru gift og búa í eigin húsnæði að C. Kærandi A er með eigin rekstur og kærandi B fær lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Kærandi B kveðst hafa stundað kaup og sölu bifreiða og fasteigna til viðgerða og endursölu í áratugi. Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til þess að við efnahagshrunið 2008 hafi dregið verulega úr þessum viðskiptum en bifreiðaviðskipti kærandans B hafi þó haldið áfram í litlum mæli. Þessi starfsemi hafi skilað kærendum litlu en hafi þó staðið undir sér að öllu leyti og reyndar verið afþreying um leið. Þá hafi greiðslubyrði allra lána jafnframt hækkað mikið.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun hjá Embætti umboðsmanns skuldara 29. júní 2011. Með ákvörðun embættisins 4. maí 2012 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hófst við móttöku umsóknar 29. júní 2011, sbr. bráðabirgðaákvæði nr. II í lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 7. ágúst 2014 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun kærenda væri heimil á grundvelli 15. gr. lge. Að mati umsjónarmanns væri óljóst hverjar tekjur kærenda vegna bifreiðaviðskipta væru en af þeim sökum teldist fjárhagur þeirra óljós. Þá hefðu kærendur látið fjármuni af hendi, sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla, með því að láta bifreiðar af hendi án vitundar og/eða samþykkis umsjónarmanns. Að mati umsjónarmanns hefðu kærendur með framangreindri háttsemi brotið gegn c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi 12. ágúst 2014 var kærendum kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda og gögn bárust með bréfi 17. ágúst 2014.

Með ákvörðun 22. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Sem fyrr segir var ákvörðunin kærð og staðfest fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) 22. desember 2016. Málið var síðan endurupptekið fyrir nefndinni að beiðni kærenda með úrskurði 9. júní 2017.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla þeirri ákvörðun umboðsmanns skuldara að fella niður heimild þeirra til áframhaldandi greiðsluaðlögunar. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði felld úr gildi.

Hin kærða ákvörðun byggi á b-lið 1. mgr. 6. gr. og c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærendur hafi nú lagt fram gögn sem gefi glögga mynd af fjárhag þeirra og greiðslugetu og því sé unnt að leggja viðhlítandi mat á fjárhagsstöðu þeirra. Þrátt fyrir þetta telji umboðsmaður skuldara sig ekki geta staðreynt ný gögn kærenda eða aflað frekari upplýsinga til dæmis varðandi eignastöðu þeirra þar sem ekki sé lengur til staðar heimild til gagnaöflunar.

Kærendur mótmæli þessari afstöðu embættisins og telji hana byggða á röngum grunni. Í málinu sé til úrlausnar ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana. Samkvæmt 12. gr. lge. framlengist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verði því að líta svo á að málið sé enn til „vinnslu“ hjá embættinu og þar af leiðandi enn til staðar heimild embættisins til frekari gagnaöflunar.

Kærendur bendi á að hið æðra stjórnvald verði ávallt að rannsaka málsatvik sem augljóslega hafi haft þýðingu við úrlausn málsins og ekki hafi verið rannsökuð við meðferð þess hjá umboðsmanni skuldara, sbr. 10. og 30. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hin kærða ákvörðun byggi einnig á því að kærandi B hafi brotið skyldur sínar samkvæmt c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. með því að kaupa og selja bifreiðar á tímabili greiðsluskjóls án samráðs við eða heimildar frá umsjónarmanni. Umboðsmaður skuldara haldi fast við þá afstöðu, virði ný gögn að vettugi og telji engu breyta hvort viðskiptin hafi verið gerð í hagnaðarskyni eða sem dægrastytting. Í endurupptökubeiðni kærenda sé vísað til athugasemda með frumvarpi til lge. varðandi einstaklinga í atvinnurekstri og þá áherslu sem lögð hafi verið á mikilvægi þess að þeim væri gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem væri til þess fallinn að skapa heimili þeirra raunhæfan grundvöll til tekjuöflunar í framtíðinni. Við mat á því hvort kærandi B hafi brotið gegn c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. beri að líta til þess að hann hafi gripið til ráðstöfunarinnar beinlínis í þeim tilgangi að reyna að auka tekjur sínar. Í því samhengi verði að líta til þess að rekstur hans, þ.e. kaup á bifreiðum til viðgerða og endursölu, hafi verið til staðar þegar greiðsluaðlögunartímabil hafi hafist. Umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda hafi verið upplýstur um þessar ráðstafanir kæranda B að öllu leyti.

Hafa beri í huga að fjárhagsvandi kærenda hafi ekki stafað af atvinnurekstri kæranda B sem hafi starfað við það í mörg ár að gera upp bifreiðar sem og fasteignir til endursölu. Kærandi B fái lágmarks lífeyri frá Tryggingastofnun. Það geti vart verið tilgangurinn með greiðsluaðlögun að á meðan á henni standi hætti einstaklingar að reyna að afla sér og fjölskyldu sinni tekna. Aðstæður kærenda séu nákvæmlega með þeim hætti að heimfæra megi þær til ofangreindra athugasemda sem fram komi í frumvarpi til lge.

Að mati kærenda verði ekki séð að í ráðstöfunum kæranda B hafi falist áhætta sem hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu þeirra á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Atvinnurekstur af þessu tagi feli ávallt í sér áhættu. Kærendur telji ekki unnt að líta svo á að um hafi verið að ræða umfangsmiklar ráðstafanir sem hafi falið í sér afhendingu eigna eða óhóflega skuldsetningu.

Sú afstaða umboðsmanns skuldara að kærandi B hafi með fyrrnefndum bifreiðaviðskiptum brotið í bága við skyldur sínar við greiðsluaðlögun standist ekki að mati kærenda að teknu tilliti til ofangreindra sjónarmiða og þess að kærendur hafi lagt til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem hafi verið umfram framfærslukostnað. Um sé að ræða ráðstafanir sem hafi verið nauðsynlegar til að sjá kærendum farborða.

Þá mótmæli kærendur þeirri afstöðu umboðsmanns skuldara að skýringar þeirra á bifreiðaviðskiptunum hafi verið misvísandi, enda hafi söluhagnaði ýmist verið ráðstafað til kaupa á næstu bifreið, varahlutum eða til að reka heimili kærenda. Ekki hafi komið til þess að hagnaði hafi verið ráðstafað samkvæmt samkomulagi kæranda B og viðskiptafélaga hans frá nóvember 2009.

Þá telji kærendur að athugasemdir umboðsmanns skuldara um hvort bílaviðskipti kæranda B séu bókhaldsskyld skipti engu í því máli sem hér sé til úrlausnar og sé umboðsmaður skuldara kominn langt út fyrir sitt verksvið með athugasemdum þar að lútandi. Kærandi B hafi gert grein fyrir kaupum og sölu bifreiða á skattframtölum sínum á því tímabili sem mál þetta taki til. Að mati endurskoðanda hans hafi ekki verið um að ræða svo umfangsmikinn rekstur að þörf væri á sérstökum rekstrarreikningi og fái það stuðning í gögnum málsins.

Ekki sé um það deilt í málinu hvort kærendur hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem þau hafi þurft sér til framfærslu. Athugasemd umboðsmanns skuldara þar að lútandi sé þannig að mati kærenda þýðingarlaus.

Þá virðist kærendum að lokum sem umboðsmaður skuldara horfi fram hjá því sem í raun skipti máli í tengslum við úrlausn málsins, þ.e. hvort fyrir liggi nauðsynleg heildarmynd af fjárhag þeirra og greiðslugetu. Kærendur hafi lagt fram fullnægjandi gögn sem styðji frásögn þeirra um kaup og sölu bifreiða á tímabili greiðsluskjóls. Fjárhagur þeirra geti því ekki talist óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þá verði vart talið að með kaupum og sölu á bifreiðum í því skyni að afla tekna að fjárhæð 44.000 krónur á mánuði felist brot á skyldum einstaklings í greiðsluaðlögun samkvæmt c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í hinni kærðu ákvörðun frá 22. ágúst 2014 komi fram að umboðsmaður skuldara telji að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og skýringar varðandi bifreiðaviðskipti kæranda B og sé fjárhagur þeirra því of óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. til að hægt sé að leggja heildarmat á hann. Enn fremur telur umboðsmaður skuldara að kærendur hafi brotið gegn c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. með því að kaupa og selja fjölmargar bifreiðar á tímabili frestunar greiðslna án samráðs við umsjónarmann.

Í greinargerðum umboðsmanns skuldara til úrskurðarnefndarinnar vegna vinnslu hins endurupptekna máls frá 13. júlí og 15. ágúst 2017 er vísað til ítarlegs rökstuðnings sem rakinn sé í hinni kærðu ákvörðun frá 22. ágúst 2014. Þar kemur fram að samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls í 12. gr. lge. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í d-lið 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna nema þær séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Kærandi B hafi átt í bifreiðaviðskiptum á tímabili frestunar greiðslna án samráðs við umsjónarmann. Að mati umboðsmanns hafi kærendur lagt fram ófullnægjandi og misvísandi gögn um viðgerðarkostnað og söluhagnað þeirra bifreiða sem kærandi B hafi keypt og selt. Þá hafi kærendur hvorki lagt fram frekari gögn né veitt nánari skýringar á því ósamræmi sem umsjónarmaður taldi að væri til staðar. Í bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 12. ágúst 2014 hafi komið fram að einungis fjögur afsöl hefðu borist vegna kaupa og sölu bifreiða og um það vísað til meðfylgjandi bréfs umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda. Í bréfi umsjónarmanns hafi nánar tiltekið komið fram að fjögur afsöl hafi borist vegna bæði kaupa og sölu bifreiða. Þá hefði borist eitt afsal vegna kaupa eingöngu vegna einnar bifreiðar og afsal vegna sölu eingöngu hefði borist vegna átta bifreiða. Með andmælum kærenda hafi síðan borist eitt afsal til viðbótar vegna kaupa á bifreið.

Í greinargerðum umboðsmanns skuldara vegna endurupptöku málsins er bent á að kærendum hafi við meðferð málsins verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn vegna þeirra atriða sem hafi þótt geta leitt til niðurfellingar heimildar til greiðsluaðlögunarumleitana. Eftir að hafa skoðað gögn málsins og þær upplýsingar sem borist hafi frá kærendum hafi umboðsmaður komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar. Í hinni kærðu ákvörðun frá 2014 sé sú niðurstaða rökstudd og með því tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála um endurupptöku málsins 9. júní 2017 sé vísað til þess að með beiðni um endurupptöku hafi kærendur lagt fram töluverðan fjölda gagna sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvörðun var tekin í málinu. Enn fremur að kærendur telji að með umræddum gögnum fáist skýrari mynd af fjárhag þeirra og greiðslugetu og því sé hægt að leggja viðhlítandi mat á fjárhagsstöðu þeirra. Þá sé vísað til 1. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fjallað sé um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar. Í ákvæðinu komi fram að aðili máls eigi rétt á að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verði að vera um að ræða upplýsingar sem byggt hafi verið á og hafi haft þýðingu við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem litlu eða engu máli skipti við úrlausn þess.

Kærendur hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 og þá veitt umboðsmanni skuldara og umsjónarmanni með greiðsluaðlögunarumleitunum heimild til að afla upplýsinga um fjárhag þeirra. Upplýsinganna sé aflað á grundvelli 3. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010. Samþykki fyrir gagnaöflun gildi á meðan mál sé til vinnslu. Þar sem mál kærenda sé ekki lengur til vinnslu hjá embættinu sé ekki til staðar heimild til frekari gagnaöflunar. Því geti embættið ekki staðreynt þau gögn sem kærendur hafi lagt fram með endurupptökubeiðninni eða aflað frekari upplýsinga, til dæmis varðandi eignastöðu þeirra og því taki umboðsmaður ekki frekari afstöðu til þessara nýju gagna.

Í beiðni kærenda um endurupptöku komi fram að umboðsmanni skuldara hafi borið að leiðbeina þeim um afleiðingar þess ef umbeðin gögn berist embættinu ekki í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur telji að þetta hafi embættið ekki gert og því hafi það brotið málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Með bréfi, sem hafi fylgt ákvörðun umboðsmanns skuldara um að samþykkja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 4. maí 2012, hafi þau verið upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge. Þá hafi umboðsmaður skuldara sent öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun, sem hafi verið í greiðsluskjóli, bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur samkvæmt 12. gr. lge. Við skoðun á samskiptum kærenda og umboðsmanns skuldara í aðdraganda niðurfellingar á umsókn þeirra verði ekki séð að skort hafi á leiðbeiningar umboðsmanns til kærenda um afleiðingar þess að leggja ekki fram umbeðin gögn.

Skipaður umsjónarmaður kærenda hafi sent þeim tölvupósta 16. maí, 26. maí og 3. júní 2014 þar sem óskað hafi verið eftir tilteknum upplýsingum og gögnum. Þar hafi þeim verið greint frá því hvaða afleiðingar það hefði að bregðast ekki við þeirri beiðni. Þá hafi umboðsmaður skuldara sent kærendum bréf 12. ágúst 2014 þar sem einnig hafi verið tiltekið hvaða gögn þyrftu að liggja fyrir og hvaða afleiðingar það gæti haft að afhenda ekki umbeðin gögn. Þess vegna verði ekki tekið undir með kærendum að umboðsmaður skuldara hafi ekki veitt þeim leiðbeiningar hvað þetta varði.

Þrátt fyrir að kærendur hafi nú lagt fram frekari gögn um bifreiðaviðskipti kæranda B, bendi umboðsmaður skuldara á að kærendur hafi verið bundin af skyldum sínum við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge. frá því að greiðsluskjól hófst 29. júní 2011. Embættið meti það svo að með þessum viðskiptum hafi kærandi B brotið gegn skyldum sínum við greiðsluaðlögun, hvort sem viðskiptin hafi verið gerð í hagnaðarskyni eða til dægrastyttingar. Ný gögn breyti ekki því mati embættisins.

Samkvæmt þeim gögnum, sem kærendur hafi lagt fram með beiðni sinni um endurupptöku, hafi söluhagnaður kæranda B af bifreiðaviðskiptum numið um 1.883.000 krónum á árunum 2012 og 2013. Að frádregnum ýmsum útgjöldum vegna ökutækjanna muni hagnaðurinn hafa numið 1.048.155 krónum. Þrátt fyrir að viðskiptin flokkist sem atvinnustarfsemi telji kærendur að frekar sé um dægrastyttingu að ræða í ljósi þess að hagnaður hafi ekki verið mikill. Í endurupptökubeiðni er bent á að sé söluhagnaði deilt á tekjuárin 2012 og 2013 hafi mánaðarlegar tekjur verið 44.000 krónur og hafi kærendur notað hagnaðinn til að sjá sér farborða. Í tölvupósti 10. júní 2014 komi fram að söluhagnaði hafi ekki verið ráðstafað. Ekki liggi fyrir hvort það hafi verið gert eftir þann tíma en sé svo, gefi það ekki rétta mynd að deila honum niður á tekjuárin 2012 og 2013. Áður hafi verið veittar þær skýringar að viðskiptafélagi kæranda B hefði fjármagnað bílaviðskiptin gegn hlutdeild hans í hugsanlegum hagnaði en jafnframt að fjárhagslega hefði umrædd starfsemi rekið sig sjálf, sbr. tölvupóst 30. maí 2014. Verði samkvæmt þessu að telja fyrirliggjandi upplýsingar nokkuð misvísandi hvað þetta varði. Þá komi fram í tölvupósti 10. júní 2014 að umrædd bílaviðskipti séu ekki bókhaldsskyld. Að mati umboðsmanns skuldara beri í þessu sambandi að líta til þess að hafi tilgangur með kaupum og sölu bifreiðanna verið að hagnast á viðskiptunum sé um skattskyldar tekjur að ræða samkvæmt b-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 en söluhagnaður utan rekstrar teljist til fjármagnstekna. Einnig sé bent á að samkvæmt þeim upplýsingum, sem legið hafi fyrir um tekjur og framfærslukostnað kærenda á þeim tíma er heimild þeirra til greiðsluaðlögunar hafi verið felld niður í ágúst 2014, hafi mánaðarleg greiðslugeta þeirra verið 82.740 krónur. Kærendur hefðu því ekki átt að þurfa að nota hagnað af bílaviðskiptunum til að framfleyta sér heldur hefði þeim borið að leggja þá fjármuni til hliðar þar sem aðrar tekjur hefðu átt að duga þeim til framfærslu.

Þá vísi kærendur til athugasemda með frumvarpi til lge. varðandi einstaklinga í atvinnurekstri þar sem segi að einstaklingum eigi að vera gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem sé til þess fallinn að skapa heimili hans raunhæfan grundvöll til tekjuöflunar til framtíðar. Í athugasemdum með frumvarpinu sé sérstaklega vikið að stöðu bænda og meðal annars litið til byggðasjónarmiða. Segi þar að frumvarpinu sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisreksturs einstaklinga en mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það sé þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði. Að mati umboðsmanns skuldara verði ekki talið að aðstæður kærenda séu með þeim hætti að þær megi heimfæra á nefndar athugasemdir. Fyrir liggi að kærandi B hafi keypt og selt bifreiðar, ýmist í hagnaðarskyni eða sér til dægrastyttingar. Þrátt fyrir að hann hafi lagt stund á þá iðju um langt skeið hafi hann verið bundinn af skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. frá því að kærendur komust í greiðsluskjól. Fram komin gögn breyti ekki því mati.

Umboðsmaður skuldara fer með vísan til framangreinds fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu tók umboðsmaður skuldara á móti umsókn kærenda 29. júní 2011 og hófst frestun greiðslna þann dag samkvæmt bráðabirgðaákvæði nr. II í lge., sbr. lög nr. 128/2010. Frá og með þeim degi bar kærendum jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. og ákvæði til bráðabirgða II í sömu lögum, sbr. 5. mgr. 1. gr. laga nr. 128/2010. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge.

Í skýringum með frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun eigi að vera úr garði gerð og er þar talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Að mati umboðsmanns skuldara veittu kærendur ekki fullnægjandi upplýsingar um kaup og sölu á bifreiðum á tímabili greiðsluskjóls. Með endurupptökubeiðni sinni lögðu kærendur fram frekari gögn þar að lútandi.

Kærendur taka fram að þegar þau hafi sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi þau gert grein fyrir því í greinargerð til umboðsmanns skuldara að kærandi B hefði í áratugi stundað kaup og sölu bifreiða og fasteigna til viðgerða og endursölu. Ekki hafi neitt annað komið þar fram en að hann myndi halda þeirri iðju áfram og hafi embættið ekki gert athugasemdir við það. Eftir efnahagshrunið 2008 hafi kaup á fasteignum til viðgerða hjá honum lagst af en viðskipti með bifreiðar haldið áfram í litlum mæli miðað við það sem áður var. Þessi starfsemi hafi skilað kærendum litlu en hafi þó staðið undir sér að öllu leyti og einnig verið afþreying um leið. Kærandi B hafi stundað bifreiðaviðskiptin með viðskiptafélaga sínum og þeir gert samning sín á milli um að hinn síðarnefndi legði fram peninga og vinnu eftir þörfum. Í samningnum frá 3. nóvember 2009 komi fram að ef starfsemin skilaði hagnaði myndi viðskiptafélaginn fá helming hans á móti kæranda. Í endurupptökubeiðni kærenda kemur á hinn bóginn fram að hagnaði vegna þessarar starfsemi hefði ekki verið ráðstafað í samræmi við samninginn heldur í þágu heimilis kærenda. Að þessu virtu verður að telja að umræddar staðhæfingar kærenda varðandi fjármögnun bifreiðaviðskipta og ráðstöfun hagnaðar vegna þeirra séu óskýrar og ekki studdar fullnægjandi gögnum.

Í endurupptökubeiðni skýra kærendur viðskipti með bifreiðina [...] þannig að kærandi B hafi keypt bifreiðina X desember 2007 á 750.000 krónur. Bifreiðin hafi verið seld X apríl 2008 á 1.000.000 króna. Kaupverðið hafi allt verið greitt með skuldabréfi sem hafi verið með veði í bifreiðinni. Ekkert hafi verið greitt af skuldabréfinu og hafi bifreiðinni verið afsalað aftur til kæranda B og kaupverðið greitt þannig að honum hafi verið afhent frumrit skuldabréfsins. Hann hafi svo selt bifreiðina X júlí 2013 á 450.000 krónur þannig að tap hans miðað við upphaflegt kaupverð hafi verið 300.000 krónur.

Samkvæmt afsali X maí 2012 sem kærendur hafa lagt fram keypti kærandi B bifreiðina [...] af D ehf. Í afsalinu segir: „Kaupverð greiðir kaupandi [kærandi B] við móttöku bifreiðarinnar með því að afhenda seljanda stimplað frumrit skuldabréfs þess sem er veðsett á bifreiðinni og var fært til veðbókar X.10.2008 hjá Sýslumanninum í E og er að nafnvirði kr. 1.000.000,-. Þannig mun kaupandi [kærandi B] taka við bifreiðinni [...] og áföllnum gjöldum á hana í því ástandi sem hún er án athugasemda og skuldar þar með seljandi ekki kaupanda neitt vegna þessarar bifreiðar og á hvorugur kröfu á hinn vegna [...] að því loknu. Afhending bifreiðarinnar mun fara fram síðdegis X.5.2012 gegn umræddu bréfi, sem þá verður búið að aflýsa af bifreiðinni.“

Þá hafa kærendur lagt fram skjal X maí 2012 þar sem segir að D ehf. og kærandi B hafi gert með sér afsal og uppgjör. Annars vegar væri það vegna viðskipta sinna en hins vegar vegna innheimtu skuldabréfs með veði í bifreiðinni [...]. Uppgjörið fæli í sér fullnaðaruppgjör ásamt afhendingu veðskuldabréfsins. Að uppgjörinu loknu lýsa aðilar því yfir að þeir eigi ekki frekari kröfur hvor á annan vegna „undangenginna viðskipta þeirra“.

Af eigendaferli bifreiðarinnar [...] má sjá að kærandi B eignaðist bifreiðina X desember 2007 og seldi hana til D ehf. X apríl 2008. Hann keypti bifreiðina aftur X maí 2012 og seldi hana svo þriðja manni X júlí 2013.

Í tölvupósti umboðsmanns kærenda til umboðsmanns skuldara 30. maí 2014 segir að kærandi B hafi keypt bifreiðina [...] á 1.000.000 króna, selt hana á 450.000 krónur og því hafi tap vegna hennar numið 550.000 krónum. Í skattframtali kærenda 2013 vegna tekna ársins 2012 kemur fram að kærandi B hafi keypt bifreiðina á 1.000.000 króna af D ehf.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja leitt í ljós að kærandi B hafi keypt bifreiðina [...] á 1.000.000 króna. Samkvæmt því og öðrum gögnum málsins hafa bílaviðskipti hans á tímabili greiðsluskjóls verið eftirfarandi:

Kaupdagur Kaupverð Söludagur Söluverð Hagnaður/tap
[...] X.7.2012 90.000 X.8.2012 340.000 250.000
[...] X.5.2012 1.000.000 X.7.2013 450.000 -550.000
[...] X.4.2012 260.000 X.7.2012 425.000 165.000
[...] X.3.2012 200.000 X.4.2012 223.000 23.000
[...] X.11.2012 50.000 X.1.2013 350.000 300.000
[...] X.9.2012 80.000 X.11.2013 15.000 -65.000
[...] X.9.2012 250.000 X.11.2012 280.000 30.000
[...] X.1.2012 40.000 X.5.2012 60.000 20.000
[...] X.8.2011 X.8.2012 350.000 350.000
[...] X.12.2011 70.000 X.8.2012 100.000 30.000
[...] X.7.2011 180.000 X.2.2012 320.000 140.000
[...] X.9.2013 70.000 X.10.2013 50.000 -20.000
[...] X.4.2013 210.000 X.4.2013 260.000 50.000
[...] X.7.2012 250.000 -250.000
[...] X.8.2013 250.000 X.8.2013 300.000 50.000
[...] X.4.2013 X.5.2013 300.000 300.000
[...] X.10.2013 50.000 X.11.2013 350.000 300.000
[...] X.9.2013 250.000 X.10.2013 550.000 300.000
[...] X.8.2013 250.000 X.8.2014 450.000 200.000
[...] X.8.2013 X.9.2013 240.000 240.000
[...] X.7.2013 100.000 X.7.2013 -100.000
[...] X.4.2011 50.000 -50.000
Alls: 1.713.000

Þar sem dálkar eru auðir hafa upplýsingar ekki verið lagðar fram um viðkomandi atriði.

Kærendur hafa framvísað reikningum sem þau telja sýna þann kostnað sem þau hafi haft af framangreindum bílum en þeir eru vegna viðgerða, trygginga, skoðana og bifreiðagjalda. Reikningana er í eftirtöldum tilvikum hægt að rekja til ákveðinna bifreiða á tímabili greiðsluskjóls:

Bifreið Fjárhæð
[...] 42.612
[...] 2.530
[...] 4.979
[...] 11.303
[...] 56.607
[...] 5.060
[...] 17.559
[...] 2.530
[...] 2.630
[...] 84.286
[...] 62.046
[...] 15.682
Alls: 307.824

Í eftirfarandi tilvikum er reikningur dagsettur áður en kærandi B kaupir bíl eða eftir að hann selur bíl:

Bifreið Fjárhæð
[...] 9.460
[...] 3.362
[...] 19.900
[...] 54.055
Alls: 86.777

Kærendur hafa lagt fram reikninga að fjárhæð 278.628 krónur sem eru ýmist án nafns greiðanda, án tilgreiningar bíls, vegna bíla sem kærandi B hefur ekki átt eða stílaðir eru á annan aðila.

Þá hafa kærendur lagt fram reikninga að fjárhæð 636.270 krónur sem eru ýmist á nafni kæranda B en þá ekki vegna tiltekinna bíla eða að númer bíls hefur verið handskrifað inn á prentaða reikninga.

Alls nemur fjárhæð allra framlagðra reikninga og að ofan er getið 1.309.499 krónum. Í endurupptökubeiðni kærenda kemur fram að útlagður kostnaður kæranda B í tengslum við þessi viðskipti hafi numið 834.845 krónum samkvæmt reikningum en í raun hafi hann verið meiri þar sem ekki hafi verið haldið upp á allar kvittanir fyrir útlögðum kostnaði.

Að öllu þessu virtu verður að telja leitt í ljós að kærandi B hefur haft tekjur af bílaviðskiptum sínum, þ.e. af kaupum á bílum, viðgerðum og endursölu þeirra. Þrátt fyrir að kærendur hafi lagt fram frekari gögn um þessi viðskipti veita þau ekki nægilega glögga mynd af því hversu miklar þær tekjur hafi verið á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt skattframtali kærenda eru einu tekjur kæranda B árin 2011, 2012 og 2013 frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann hefur því ekki gefið upp til skatts tekjur af bílaviðskiptunum þó að hann kveðist sjálfur hafa haft af þeim tekjur. Upplýsingar sem kærendur hafa gefið í þessum efnum eru því misvísandi og ekki nægilega traustar til að uppfylla skilyrði um að gögn gefi nægilega glögga mynd af fjárhag þeirra, sbr. b-liður 1. mgr. 6. gr. lge.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. hvílir á skuldara skylda til samráðs við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Sú skylda sem hvílir á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge. hlýtur því eðli málsins samkvæmt að vera fyrir hendi þar til greiðsluaðlögunarsamningur kemst á. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að gera samning um greiðsluaðlögun, enda væri ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á því hve mikið skuldari getur greitt af skuldbindingum sínum þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi nægilega glöggt fyrir hverjar tekjur kærenda hafi verið á tímabili greiðsluskjóls. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga er því ekki unnt að ákvarða hvað þau gætu greitt mánaðarlega af skuldum sínum og því ekki mögulegt að gera fyrir þau samning um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þessu telst fjárhagur kærenda því enn óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., þrátt fyrir þau gögn sem kærendur lögðu fram við endurupptökubeiðni málsins.

Svo sem rakið hefur verið er skuldurum óheimilt á tímabili greiðsluskjóls að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. Með sölu framangreindra bifreiða, án samráðs og heimildar umsjónarmanns og án þess að gera nægilega glögga grein fyrir þeim tekjum sem kærendur höfðu af þessum viðskiptum, teljast kærendur að mati úrskurðarnefndarinnar hafa brotið skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Einnig hefur verið rakið að skuldurum er óheimilt, á sama tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að stofna til nýrra skuldbindinga eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með kaupum á bifreiðunum, án heimildar og samráðs við umsjónarmann og án þess að gera nægilega glögga grein fyrir þeim tekjum sem kærendur höfðu af þessum viðskiptum, teljast kærendur jafnframt hafa ráðstafað fjármunum með þeim hætti að þau hafi einnig brotið skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt því telur úrskurðarnefndin að umboðsmaður skuldara hafi réttilega komist að þeirri niðurstöðu að kærendur hafi ekki virt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluskjóls.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B, er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta