Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 265/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 265/2017

Föstudaginn 17. nóvember 2017

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 12. júlí 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. júní 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 5. september 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. september 2017.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 21. september 2017 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1976 og býr í leiguhúsnæði. Hún á X börn með fyrrum maka sínum. Börnin dvelja aðra vikuna hjá kæranda en hina vikuna hjá föður sínum. Kærandi er án atvinnu og eru tekjur hennar atvinnuleysisbætur, barnabætur og húsnæðisbætur.

Heildarskuldir kæranda eru 39.666.151 króna samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 2. febrúar 2017.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til skilnaðar og atvinnuleysis.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 17. október 2016. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. desember 2016 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2017 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að þegar umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt hafi hún átt 896.541 krónu inni á bankareikningi. Áður en umsókn hafi verið samþykkt hafi verið útskýrt fyrir kæranda í tölvupósti að líklegt væri að kröfuhafar myndu fara fram á að þeir fjármunir yrðu greiddir inn á skuldir hennar. Þá hafi verið farið yfir greiðsluaðlögunarferlið í sama tölvupósti.

Í bréfinu lýsir umsjónarmaður því að þegar hann hafi byrjað vinnu við mál kæranda hafi aðeins verið 221.618 krónur inni á bankareikningi hennar og hafi sá fyrrnefndi innt kæranda eftir því hvernig þessum fjármunum hefði verið ráðstafað. Kærandi hafi svarað samdægurs og skýrt frá því að hún hefði tekið peningana út af reikningnum til að eiga fyrir flugi til B fyrir hana og börn sín og til að geta borgað lögfræðingi vegna forræðisdeilu. Með tölvupósti sama dag hafi kærandi óskað eftir að umsókn hennar yrði afturkölluð. Umsjónarmaður hafi sent kæranda afturköllunareyðublað en einnig upplýst hana um að möguleiki væri á að halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram ef hún legði peningana aftur inn á bankareikninginn. Eftir þetta hafi kærandi átt í nokkrum tölvupóstsamskiptum við umsjónarmann. Með tölvupósti 13. febrúar 2017 hafi umsjónarmaður greint kæranda frá því að ef hún vildi halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram þyrfti hún að leggja fram gögn og skýringar sem sýndu hvernig fyrrnefndum fjármunum var ráðstafað. Kærandi hafi svarað samdægurs að hún ætti um 150.000 krónur eftir á bankareikningi auk um 100.000 króna sem hún gæti lagt aftur inn á reikninginn. Öðrum peningum hefði hún eytt í jólagjafir, afmælisveislu fyrir börn sín, föt, leikföng og til að fara út að borða. Hún gæti ekki lagt fram neinar kvittanir þar sem allt hefði verið greitt með reiðufé. Sama dag, 13. febrúar 2017, hafi umsjónarmaður kallað eftir stöðu bankareikninga. Í ljós hafi komið að innstæða á reikningi væri 122.619 krónur. Væri tekið tillit til þeirra 100.000 króna sem kærandi kvæðist eiga, vantaði 673.922 krónur af þeim fjármunum sem kærandi hefði átt þegar umsókn hennar um greiðsluaðlögun var samþykkt. Samkvæmt þessu taldi umsjónarmaður að kærandi hefði brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem segði að skuldari skuli ekki láta af hendi verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Umsjónarmaður taldi sér því ekki annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara um að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 14. mars 2017 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi veitti skýringar og lagði fram gögn máli sínu til stuðnings.

Með bréfi til kæranda 22. júní 2017 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir hennar niður með vísan til 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til þess að umboðsmaður skuldara gangi út frá því að hún hafi til ráðstöfunar 283.115 krónur á mánuði. Að sögn kæranda hafi umboðsmaður reiknað með því að hún fengi fullar barnabætur, alls 94.611 krónur. Kærandi hafi greint starfsmanni umboðsmanns skuldara frá því að um helmingur barnabótanna rynni til barnsföður hennar samkvæmt dómsátt. Þessi mistök hafi umboðsmaður aldrei leiðrétt. Þá bendir kærandi á að samkvæmt íslenskum útreikningum sé eyðsla fjölskyldu með X börn aldrei undir 400.000 krónum á mánuði.

Í samningi hafi hvergi verið minnst á að viðkomandi þyrfti að halda til haga öllum afritum og reikningum sem sýndu dagleg útgjöld en seinna hafi komið neitun frá umboðsmanni skuldara þar sem reikningar hefðu ekki verið til staðar. Þetta sé að mati kæranda ekki sanngjarnt af ríkisstofnun. Undir kringumstæðum sem þessum virðist skynsamlegra að nota peningana til að forðast gjaldið sem bankinn leggi á hverja færslu þegar bankakort sé notað.

Í málinu liggi fyrir tölvupóstur frá umboðsmanni skuldara sem gefi til kynna að bankinn geti tekið allt sparifé kæranda, jafnvel þegar aðstæður séu þannig að laun dugi ekki til framfærslu. Kærandi spyr hvort það sé góð hugmynd að hún taki á sig meiri skuldir við slíkar aðstæður.

Kærandi hafi þurft að fara fyrir dóm vegna hegðunar barnsföður síns síðan 2016. Það hafi leitt til þess að lögfræðikostnaður sé kominn yfir 1.000.000 króna og málið bíði enn úrskurðar. Kærandi sé heiðvirð manneskja, einstæð með X börn. Hún hafi aldrei verið í skuld fyrir utan húsnæðislán sem tekið hafi verið 2008.

Þá gerir kærandi athugasemdir við vinnubrögð starfsmanns umboðsmanns skuldara.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun, þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Með tölvupósti til umboðsmanns skuldara 2. júní 2017 hafi kærandi lagt fram færsluyfirlit vegna bankareiknings hjá Landsbankanum hf. fyrir tímabilið 1. nóvember til 30. desember 2016. Samkvæmt yfirlitinu hafi innstæða á reikningnum verið 1.011.325 krónur 1. nóvember 2016 en einungis 86.702 krónur þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt 6. desember 2017. Á yfirlitinu hafi jafnframt mátt sjá að kærandi hafi tekið út 500.000 krónur í reiðufé 28. nóvember 2016 en eftir það hafi aðeins 76.942 krónur verið inni á reikningnum.

Kærandi hafi einnig greint frá því að hún hefði greitt 200.000 krónur vegna kreditkortaskuldar. Þá hefði hún tekið út af bankareikningi 350.000 krónur til kaupa á flugmiðum og 150.000 krónur til kaupa á jólagjöfum. Hún hefði þó ekki keypt flugmiðana en ráðstafað mestum hluta fjármunanna sér til framfærslu og uppihalds. Einnig hefði hún orðið að leggja út fyrir kostnaði vegna tannviðgerða og bílaviðgerða. Kærandi hefði lagt fram kvittanir þessu til stuðnings en samkvæmt þeim hefði hún þurft að greiða útgjöld að fjárhæð 163.895 krónur á tímabilinu 2. janúar 2017–27. mars 2017. Meðal þeirra útgjalda hafi verið greiðslur til Sýslumannsins í C, útgjöld vegna tannlækninga og kaupa á bíldekkjum, auk útgjalda vegna kaupa á árskorti í húsdýragarð.

Áður en umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi starfsmaður umboðsmanns skuldara upplýst hana sérstaklega um að líkur væru á að kröfuhafar myndu fara fram á að þeim fjármunum sem hún hefði safnað yrði ráðstafað til greiðslu á skuldum. Hins vegar myndi umsjónarmaður reyna að semja um að hún fengi að halda peningunum, meðal annars til að greiða lögfræðikostnað. Það væri þó undir kröfuhöfum komið að samþykkja slíka tilhögun.

Í nóvember 2016 hafi áætlaður framfærslukostnaður kæranda verið 348.940 krónur á mánuði. Sé það samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í nóvember 2016 fyrir einstakling með X börn á framfæri aðra hvora viku, að viðbættum kostnaði vegna annarra útgjalda sem kærandi hafi gefið upp í umsókn. Þá hafi kærandi greitt greiðslukortaskuldir, samtals að fjárhæð 293.722 krónur í nóvember 2016. Að öllu meðtöldu reiknist heildarútgjöld kæranda samtals 642.622 krónur í nóvember 2016.

Eins og fram hafi komið hafi kærandi átt bankainnstæðu að fjárhæð 1.011.325 krónur 1. nóvember 2016. Sé tekið tillit til framfærslukostnaðar og greiðslu skulda í nóvember 2016 hefði kærandi átt að eiga eftir 386.663 krónur á bankareikningi sínum í lok nóvember sama ár. Fyrirliggjandi gögn bendi því ekki til annars en að kærandi hafi ráðstafað þeim fjármunum sem hún hafi safnað eftir að hún sótti um greiðsluaðlögun en áður en umsókn hennar var samþykkt. Á þessum tíma hafi skuldir kæranda við Arion banka hf. verið í vanskilum. Um sé að ræða eftirstæðar kröfur vegna nauðungarsölu á fasteign en skuldirnar hafi verið í vanskilum frá 1. október 2010.

Kæranda hafi verið sent bréf 18. maí 2017 þar sem óskað hafi verið eftir að hún veitti skýringar á því hvernig hún hefði ráðstafað áðurnefndum fjármunum, hvort sú ráðstöfun hefði verið henni nauðsynleg til uppihalds og framfærslu og hvort hún hefði nýtt þá til greiðslu skulda, með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Viðhlítandi skýringar hafi ekki fengist að mati embættisins.

Kærandi kveði helming barnabóta renna til barnsföður síns og því sé greiðslugeta hennar ekki rétt reiknuð út. Við vinnslu máls byggi Embætti umboðsmanns skuldara á opinberum gögnum, til að mynda skattframtölum. Upplýsingar um fjárhæð barnabóta séu teknar úr þeim gögnum. Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara hafi kærandi hvorki lagt fram fyrrnefnda dómsátt né borið fyrir sig að hún fengi ekki greiddar fullar barnabætur.

Að sögn kæranda hafi hún þurft að leggja til yfir 1.000.000 króna vegna lögfræðikostnaðar. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að hún hafi nýtt þá fjármuni sem hún átti inni á bankareikningi til greiðslu á lögfræðikostnaði.

Að mati Embættis umboðsmanns skuldara hafi kærandi með því að hafa ekki ráðstafað uppsöfnuðum fjármunum sínum til greiðslu skulda, sem hafi verið í vanskilum, með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og henni var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Óhjákvæmilegt sé því að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í síðarnefnda lagaákvæðinu er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana og að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Eins og fram er komið var kæranda skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum sínum. Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2017 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með bréfi til kæranda 22. júní 2017 felldi umboðsmaður skuldara svo niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Eins og fram hefur komið lagði kærandi fram umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 17. október 2016. Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda 6. desember 2016. Á fyrirliggjandi reikningsyfirliti frá Landsbankanum hf. kemur fram að 1. nóvember 2016, sem var um hálfum mánuði eftir að kærandi lagði umsókn sína fram, átti hún 1.011.325 krónur inni á bankareikningi. Daginn sem umsókn hennar var samþykkt, 6. desember 2016, var innstæðan 86.072 krónur. Á þessum tíma var kærandi í vanskilum við Arion banka hf. vegna tveggja skuldabréfa. Námu vanskilin rúmum 36.000.000 króna og höfðu varað frá því í október 2010.

Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi lagt fram dómsátt X. júní 2014 þar sem fram kemur að hún og barnsfaðir hennar framfæri börn sín X til jafns. Samkvæmt sáttinni skiptast barnabætur að jöfnu „enda framfærsla barnanna og umgengni jöfn.“ Sé gengið út frá þessu eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda og greiðslugeta á því tímabili, sem hér skiptir máli, eftirfarandi í krónum:

Atvinnuleysisbætur 188.504
*Húsnæðisbætur 52.000
Helmingur barnabóta 47.306
Ráðstöfunartekjur alls 287.810
Framfærslukostnaður 320.468
Greiðslugeta -32.659

*Sbr. tölvupóst frá Greiðslustofu húsnæðisbóta 15. maí 2017.

Með öðrum orðum vantar kæranda 32.659 krónur í mánuði hverjum til að framfæra sig og börn sín.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 14. mars 2017 var henni gefinn kostur á að skýra frá því hvernig ofangreindum fjármunum á bankareikningi hefði verið ráðstafað. Jafnframt var skýrt tekið fram að brygðist kærandi ekki við bréfinu myndu greiðsluaðlögunarumleitanir verða felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Bréfið var sent bæði á íslensku og ensku. Kærandi svaraði bréfinu ekki og var henni því sendur tölvupóstur 18. apríl 2017. Í svari kæranda 5. maí 2017 kemur fram að hún hafi varið peningunum með eftirfarandi hætti:

Dags. Útgjöld Fjárhæð
16.11.2016 Húsaleiga 117.000
25.11.2016 Greiðslukortareikningur 200.000
28.11.2016 Úttekt til farmiðakaupa 350.000
28.11.2016 Jólagjafir 150.000
Samtals: 817.000

Kærandi lagði ekki fram gögn þessu til stuðnings.

Kæranda var aftur sent bréf 2. júní 2017. Þar var tekið fram að greiðslugeta hennar hefði verið neikvæð á tímabilinu en óskað skýringa á ráðstöfun þess fjár sem eftir stóð þegar tekið hafði verið tillit til þess að hluta af fyrrnefndri 1.011.325 krónu hefði kæranda verið heimilt að nota sér til framfærslu. Þess var óskað að skýringar á þessu væru studdar gögnum og aftur tekið fram að brygðist kærandi ekki við bréfinu myndu greiðsluaðlögunarumleitanir verða felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Kærandi lagði þá fram kvittanir fyrir kostnaði að fjárhæð 168.865 krónur sem allur féll til á árinu 2017.

Eins og komið hefur fram átti kærandi 1.011.325 krónur inni á bankareikningi 1. nóvember 2016 en aðeins 86.072 krónur daginn sem umsókn hennar var samþykkt 6. desember 2016. Greiðslugeta hennar var neikvæð um 32.659 krónur á mánuði og var henni heimilt að taka þá fjárhæð af bankainnstæðu í nóvembermánuði sér til framfærslu.

Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn er sýna fram á hvernig hún ráðstafaði þeim fjármunum sem hún átti á bankareikningi í nóvember 2016, en á þeim tíma voru vanskil hennar við Arion banka hf. veruleg.

Niðustaða úrskurðarnefndarinnar verður ekki byggð á öðru en þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu. Ekki er því unnt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins þær skýringar kæranda sem ekki eru studdar viðhlítandi gögnum. Með vísan til þessa er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær aðstæður, sem lýst er í f-lið 2. mgr. 6. gr., eigi við og að þær komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun geti náð fram að ganga þar sem kærandi hafi á ámælisverðan hátt með framangreindri háttsemi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem hún framast gat. Með vísan til þessa og 1. mgr. 15. gr. lge. bar að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Með vísan til alls þess, er greinir hér að framan, verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta