Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 379/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 379/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060004

Kæra [...]

og barna hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. júní 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. maí 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir hennar og barna hennar, [...], fd. [...], og [...], fd. [...], um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda þau til Þýskalands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka umsóknir hennar og barnanna um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 10. maí 2017 ásamt eiginmanni og börnum. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Þann 15. maí 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 17. maí 2017 barst svar frá þýskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 25. maí 2017 að taka ekki umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þau skyldu endursend til Þýskalands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 2. júní 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 13. júní 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og þau skyldu endursend til Þýskalands. Lagt var til grundvallar að Þýskaland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talin í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hennar. Kærandi væri stödd hér á landi ásamt eiginmanni sínum og börnum þeirra og tekið yrði tillit til þess við ákvörðun málsins. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hana til Þýskalands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að gættum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskra laga væri það niðurstaða Útlendingastofnunar að hagsmunum barna kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að þau fylgi foreldrum sínum til Þýskalands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sem skilað var fyrir hönd allrar fjölskyldunnar kemur fram að kærandi hafi, í viðtali hjá Útlendingastofnun, greint frá því að fjölskyldan hafi fengið synjun á máli sínu í Þýskalandi. Kærandi hafi ekki athugasemdir við að verða send aftur til Þýskalands. Flóttamannabúðirnar sem kærandi og fjölskylda hennar hafi dvalið í þar í landi hafi þó verið yfirfullar og mikið af umsækjendum frá hinum ýmsum löndum. Kærandi kvað að hún óttist þær aðstæður sem bíði hennar og fjölskyldu hennar í heimaríki þeirra en fjölskyldan hafI orðið fyrir ofbeldi af hálfu bróður eiginmanns kæranda. Þá séu kærandi og börn hennar við góða heilsu en kærandi leggi þó áherslu á hagsmuni barna sinna, sbr. 2. mgr. 1. mgr. barnalaga nr. 76/2003.

Í greinargerð er fjallað um ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og vísað til lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Kærandi byggir m.a. á því að c-liður 1. mgr. 36. gr. laganna kveði einungis á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar sinnar en ekki skyldu.

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd og málsmeðferð í Þýskalandi og í því sambandi vísað til ýmissa alþjóðlegra skýrsla, m.a. ákalls Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá mars 2015. Meðal annars kemur fram að álag á hæliskerfi Þýskalands sé mikið og vegna mikils fjölda einstaklinga sem sæki þar um vernd séu margar móttökumiðstöðvar afar fjölmennar og jafnvel yfirfullar auk þess sem iðulega sé aðbúnaður ekki fullnægjandi, t.d. varðandi hreinlæti. Umsækjendur njóti takmarkaðrar lögfræðiaðstoðar við meðferð máls þeirra í Þýskalandi og gjafsókn sé ekki tryggð vilji umsækjendur fara með mál sitt fyrir dómstóla. Þá hafi að undanförnu borist fréttir af auknum fordómum og andúð í garð flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi. Árásir á heimili umsækjenda hafi stóraukist og hægri öfgahópar fengið byr undir báða vængi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að þýsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Þýskalands er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að þau börn sem hér um ræðir eru í fylgd foreldra sinna og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. maí 2017 greindi kærandi frá því að hún og börn hennar væru við góða líkamlega og andlega heilsu. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins. Kærandi er stödd hér á landi ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra. Verður tekið tillit til þess við ákvarðanatöku í málinu.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, mars 2017),

· Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015),

· Germany 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017),

· Amnesty International Report 2016/17 - Germany (Amnesty International, 22. febrúar 2017),

· Freedom in the world 2016 – Germany (Freedom House, 11. mars 2016),

· Upplýsingar af heimasíðu þýsku útlendingastofnunarinnar (www.bamf.de).

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi greint frá því að hún og fjölskylda hennar hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Þýskalandi. Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni hjá þýsku útlendingastofnuninni (þ. Bundesamt für Migration und Flüchtlinge) geta kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun eða stjórnsýsludómstól eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd hjá útlendingastofnun. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Umsækjendur geta borið mál sitt undir þýska dómstóla sé viðbótarumsókn þeirra synjað. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

[...] er á lista þýskra stjórnvalda yfir örugg upprunaríki (e. safe country of origin). Mál umsækjenda um alþjóðlega vernd sem eru ríkisborgarar öruggra upprunaríkja kunna að sæta flýtimeðferð í Þýskalandi. Í flýtimeðferð felst að málsmeðferðin má einungis taka sjö daga og umsækjendur dvelja í sérstökum móttökumiðstöðvum. Hafi umsækjandi ekki fengið niðurstöðu í mál sitt innan sjö daga hlýtur málið hefðbundna málsmeðferð. Reglur varðandi einstaklingsviðtöl, kærurétt og lögfræðiaðstoð eru áþekkar þeim sem gilda í hefðbundinni málsmeðferð.

Kærunefnd telur ljóst af þeim gögnum sem nefndin hefur kynnt sér að þýsk stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þá benda gögnin til þess að úr málum umsækjenda um alþjóðlega vernd sé leyst á einstaklingsgrundvelli.

Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi má ráða að umsækjendur eiga rétt á húsnæði og mataraðstoð. Þá hafi flestar móttökumiðstöðvar þá stefnu að aðgreina einstæðar konur og fjölskyldur frá öðrum umsækjendum um alþjóðlega vernd. Að sama skapi er umsækjendum um alþjóðlega vernd tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í þýskum lögum. Í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Þýskalandi telur kærunefnd ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi og fjölskylda hennar geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Þá kemur fram í gögnum um aðstæður í Þýskalandi að öll börn sem hafi búsetu í Þýskalandi eigi rétt á og beri skylda til að ganga í skóla óháð stöðu þeirra. Frjáls félagasamtök stóðu fyrir herferð árið 2016 til að vekja athygli á að börn í móttökumiðstöðvum fengju aðeins grundvallarmenntun en hefðu ekki aðgang að hefðbundna skólakerfinu á meðan þau dveldu í miðstöðvunum. Sérstaklega ætti þetta við börn frá ríkjum sem teldust örugg upprunaríki. Þrátt fyrir að aðgengi að hefðbundnu skólakerfi sé takmarkað telur kærunefnd ljóst af gögnum að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi hafi aðgang að menntun.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Þýskalandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og barna hennar er það jafnframt mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. maí 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 10. maí 2017.

Í máli þessu hafa þýsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og börnum hennar og umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Þýskalands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Mál barna kæranda hefur verið skoðað í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Með vísan til niðurstöðu í máli kæranda og umfjöllunar um aðstæður barna sem sækja um alþjóðlega vernd í Þýskalandi er það mat kærunefndar að öryggi, velferð og félagslegum þroska barna kæranda verði ekki stefnt í hættu með flutningi þeirra til Þýskalands, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir barna kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda þau til Þýskalands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barna kæranda að umsóknir verði ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar eru dregnar almennar ályktanir af stöðu mannréttindamála í Þýskalandi, af meðferð mála er varða umsóknir um alþjóðlega vernd og varðandi aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá er vísað í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, íslensk lög „er málið varða“ og komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum barna umsækjenda sé ekki stefnt í hættu með því að þau fylgi móður sinni og föður til Þýskalands. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er aftur á móti ekki vísað í þau ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 sem varða mat á hagsmunum barna sem sækja um alþjóðlega vernd, einkum 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laganna, ekki vísað til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013 eða til lagagrundvallar málsins að öðru leyti. Þótt fram komi niðurstaða Útlendingastofnunar varðandi hagsmuni barnanna er ekki greint frá þeim meginsjónarmiðum sem voru ráðandi við mat á þeim. Kærunefnd telur að rökstuðningur Útlendingastofnunar í málinu hafi ekki verið í samræmi við 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að mati kærunefndar benda gögn málsins þó ekki til annars en að farið hafi fram mat á hagsmunum barna kæranda hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd telur annmarka á rökstuðningi því ekki hafa haft áhrif á efnislega niðurstöðu ákvarðana Útlendingastofnunar. Með hliðsjón af framangreindu og öðrum gögnum máls telur kærunefnd að þessi ágalli sé ekki svo verulegur að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta