Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 235/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 235/2015

Miðvikudaginn 23. mars 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.  

Með kæru, sem barst 19. ágúst 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. júní 2015 um endurreikning og uppgjör ofgreiddra bóta á árinu 2013.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Við endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2013 reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 320.143 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 27. október 2014. Þann 29. desember 2014 barst Tryggingastofnun leiðrétt skattframtal kæranda vegna ársins 2013. Með bréfi, dags. 7. janúar 2015, var kæranda tilkynnt um að stofnunin hefði endurreiknað bótarétt hennar fyrir árið 2013, miðað við breyttar forsendur, og var niðurstaðan sú að fyrri krafa var lækkuð í 55.617 kr. Með bréfi, dags. 12. janúar 2015, mótmælti kærandi kröfu stofnunarinnar og krafðist niðurfellingar á henni. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. febrúar 2015, synjaði stofnunin niðurfellingarbeiðninni. Með bréfi, dags. 25. apríl 2014, bárust launamiðar kæranda. Tryggingastofnun fór í kjölfarið yfir andmæli kæranda og miðað við breyttar forsendur voru kröfur stofnunarinnar um ofgreiddar bætur lækkaðar í 37.791 kr. með ákvörðun, dags. 4. júní 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 19. ágúst 2015. Með bréfi, dags. 27. ágúst 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 9. september 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar sama dag var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að Tryggingastofnun felli niður kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra bóta að upphæð 37.791 kr. þar sem hún sé öryrki og hafi mátt vinna sér inn 1.300.000 kr. á ári. Ekki sé tekið tillit til frítekjumarka öryrkja í máli hennar. Hún hafi fengið X krónur í styrk og X krónur í laun þegar hún hafi verið túlkur fyrir innflytjanda. Samanlagt séu þetta X krónur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi synjað kæranda um niðurfellingu á kröfu Tryggingastofnunar um ofgreiðslu bóta. Kærandi hafi verið örorkulífeyrisþegi frá 1. apríl 2003 til 1. nóvember 2014. Örorkumat hennar hafi runnið út 31. október 2014 og greiðslur til hennar því verið stöðvaðar. Ekki hafi verið óskað eftir endurmati af hálfu kæranda.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. október 2014, hafi stofnunin vísað til þess að endurreikningur greiðslna hafi farið fram á grundvelli skattframtals ársins 2014 og hafi ofgreiðsla myndast að upphæð 320.143 kr. Leiðrétt skattframtal hafi borist stofnuninni 29. desember 2014, þar sem tekjur kæranda hafi verið tilgreindar X krónur fyrir árið 2013. Þann 7. janúar hafi Tryggingastofnun endurreiknað uppgjör tekjutengdra bóta kæranda í samræmi við leiðrétt skattframtal og við það hafi fyrri krafa stofnunarinnar lækkað niður í 55.617 kr. Kærandi hafi mótmælt kröfu stofnunarinnar með bréfi, dags. 12. janúar 2015. Í bréfinu hafi hún vísað til þess að X krónur, sem uppgefnar séu á skattframtali, séu annars vegar endurhæfingarstyrkur að upphæð X krónur og hins vegar laun, X krónur fyrir túlkastörf í C. Kærandi krefjist þess að felld sé niður krafa stofnunarinnar um ofgreiðslu þar sem heimilt sé fyrir öryrkja að vinna sér inn allt að 1.300.000 kr. á ári án þess að tekjur þeirra skerðist.

Þá segir að Tryggingastofnun hafi upplýst kæranda með bréfi, dags. 16. febrúar 2015, að samkvæmt 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé stofnuninni ekki heimilt að líta framhjá tekjuupplýsingum sem fram komi á skattframtölum. Því hafi niðurfellingarbeiðni kæranda verið synjað. Með tölvupósti þann 5. mars 2015 hafi kærandi ítrekað fyrri beiðni sem hún hafi sent stofnuninni varðandi niðurfellingu kröfunnar um ofgreiðslu. Þann 25. mars 2015 hafi tölvupósti kæranda verið svarað af hálfu stofnunarinnar og henni bent á að ekki komi fram sundurliðun tekna hennar. Með tölvupósti Tryggingastofnunar þann 15. apríl 2015 hafi kærandi verið upplýst um að þörf væri á sundurliðun vegna tekna ársins 2013 þar sem stofnunin þurfi að vita eðli teknanna til þess að geta skráð þær á annan hátt en þá hafi verið gert. Annars sé ekkert frítekjumark. Kærandi upplýsti stofnunina þann 16. apríl 2015 að um styrk vegna tölvunámskeiðs hafi verið að ræða á vegum vinnumálastofnunar í C. Staðfesting fyrir námsstyrk fyrir tölvunámskeiði ásamt launamiðum vegna túlkaþjónustu hafi borist Tryggingastofnun þann 25. apríl 2015.

Með bréfi, dags 4. júní 2015, hafi Tryggingastofnun tilkynnt kæranda um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta fyrir árið 2013, en launatekjur hafi verið ranglega skráðar sem aðrar skattskyldar tekjur í kerfum stofnunarinnar. Endurreiknaður bótaréttur kæranda fyrir árið 2013 hafi lækkað endurkröfu á hendur kæranda niður í 37.791 krónur.

Um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta sé kveðið á um í 16. gr. laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. 16. gr. laganna sé tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning og þar sé vísað í II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Tryggingastofnun endurreikni bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótaársins liggi fyrir á grundvelli tekna samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. III. kafla reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið vangreiddar eða ofgreiddar gildi um það ákvæði 55. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun sé skylt að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi öðlast síðar rétt til og sé sú skylda ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Í staflið b. í 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga sé tilgreint að frítekjumark örorkulífeyrisþega skuli vera 1.315.200 kr. vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.

Tryggingastofnun telji að út frá skýru orðalagi stafliðar b. í 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga að frítekjumark miðist við atvinnutekjur við útreikning á tekjutryggingu. Við bótaútreikning kæranda hafi laun vegna þjónustu við túlkun verið færðar inn í kerfi stofnunarinnar sem atvinnutekjur og þær falli jafnframt undir frítekjuviðmið sem tilgreind séu í reglugerð nr. 1215/2012. Námsstyrkur vegna tölvunámskeiðs á vegum vinnumálastofnunar í C falli hins vegar ekki undir atvinnutekjur. Um sé að ræða styrk sem falli undir aðrar tekjur og falli því ekki undir frítekjumark.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum kæranda vegna ársins 2013.

Kærandi var örorkulífeyrisþegi á árinu 2013 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, eins og hún hljóðaði á umræddu tímabili, er fjallað um skyldu bótaþega til að upplýsa stofnunina um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt:

„Umsækjanda og bótaþega er skylt að veita Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.“

Í ákvæðinu er einnig fjallað um heimild Tryggingastofnunar til upplýsingaöflunar og skyldu bótaþega til að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur. Sambærileg ákvæði er nú að finna í 39. – 40. gr. laganna.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endureikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2013 með bréfi, dags. 4. júní 2015. Niðurstaða endurreikningsins var sú að kærandi hefði fengið ofgreidda tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbætur, samtals að fjárhæð 37.791 kr. á árinu 2013. Endurreikningurinn byggðist á því að tekjur kæranda á árinu 2013 hefðu verið launatekjur að fjárhæð 76.361, fjármagnstekjur að fjárhæð 148 kr. og svokallaðar „aðrar tekjur“ að fjárhæð 272.152 kr. en tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2013 gerði ekki ráð fyrir neinum tekjum.

Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna má rekja til þess að kærandi fékk greiddan námsstyrk frá atvinnumiðlun í C. Óumdeilt er að kærandi fékk framangreindan námsstyrk. Af kæru má hins vegar ráða að kærandi telji að umræddar tekjur eigi ekki að koma til skerðingar bótagreiðslum hennar þar sem þær séu undir frítekjumörkum.

Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 er meginregla II. kafla laganna sú að skattskyldar tekjur teljist vera hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær séu. Síðan eru taldar upp í A, B og C-liðum margvíslegar tekjur sem eru skattskyldar. A-liður 7. gr. tekjuskattslaga skiptist upp í fjóra tölusetta undirflokka.  Samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga telst til skattskyldra tekna endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. 

Í 16. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um hvernig staðið skuli að útreikningi lífeyristrygginga. Í 3. málsl. b-liðar 2. mgr. nefndrar 16. gr. er að finna ákvæði er lýtur að frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Fjárhæðir frítekjumarka almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2013 voru ákveðnar með reglugerð 1215/2012, sem í dag er fallin úr gildi, en þar var tilgreint að örorkulífeyrisþegi skyldi hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar, sbr. einnig tölulið 14 í ákvæði til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar. Af kæru má ráða að kærandi telji að framangreint frítekjumark eigi við um námsstyrkinn sem hún hlaut.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að allar þær tekjur sem greint er frá í II. kafla laga um tekjuskatt skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Að mati úrskurðarnefndarinnar fellur námsstyrkur kæranda undir skattskyldar tekjur samkvæmt kaflanum. Hins vegar er ákveðið frítekjumark vegna atvinnutekna. Hvorki í lögum um almannatryggingar né í reglugerð nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er að finna skilgreiningu á hugtakinu atvinnutekjur. Þær tekjur sem ágreiningur málsins lýtur að fékk kærandi greiddar frá atvinnumiðlun í C sem námsstyrk vegna tölvunámskeiðs. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að um endurgjald fyrir vinnu hafi verið að ræða. Styrkurinn virðist hafa verið veittur til þess að kærandi gæti sótt tölvunámskeið. Af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að umræddur styrkur verði ekki felldur undir atvinnutekjur í skilningi 3. málsl. b-liðar 2. mgr. nefndrar 16. gr. og því á framangreint frítekjumark samkvæmt reglugerðar nr. 1215/2012 ekki við um styrkinn.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi farið að viðeigandi lögum og reglugerðum við endurreikning á bótagreiðslum kæranda vegna ársins 2013. Þegar af þeirri ástæðu er endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins, þar sem í ljós kom að kæranda voru ofgreiddar bætur að fjárhæð 37.791 kr. á árinu 2013, staðfestur.

Bent skal á að kærandi getur lagt inn beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar til Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, telji hún skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins vegna tekjutengdra bótagreiðslna A, á árinu 2013 er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta