Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


Miðvikudaginn 20. nóvember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 3/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

  

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 8. janúar 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 24. ágúst 2012, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2012.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi varð atvinnulaus í október 2011 og þáði atvinnuleysisbætur. Kærandi var settur á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum þar sem upplýst var að hann hefði sinnt starfi í afleysingum ásamt því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var biðtími kæranda ákvarðaður frá 5. júní 2012 til 5. ágúst 2012. Í kjölfarið óskaði kærandi upplýsinga frá Reykjavíkurborg um rétt sinn til fjárhagsaðstoðar og fékk hann almennar upplýsingar með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 29. maí 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með tölvupósti þann 27. júní 2012. Úrskurðarnefndin óskaði eftir gögnum málsins frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 27. júní 2012. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 2. júlí 2012, óskaði sveitarfélagið eftir því að erindið yrði framsent því og var svo gert með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júlí 2012.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2012 hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 2. júlí 2012. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 11. júlí 2012, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 2. júlí 2012. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 22. ágúst 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. júlí 2012 til 31. júlí 2012[,] sbr. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.“

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 24. ágúst 2012.

Vegna framsendingar erindis kæranda frá 3. júlí 2012 til Reykjavíkurborgar hafði starfsmaður úrskurðarnefndarinnar samband við kæranda símleiðis þann 8. janúar 2013. Kærandi kvaðst ekki hafa fengið senda niðurstöðu Reykjavíkurborgar enda hafi hann nýlega skipt um lögheimili. Með tölvupósti þann 8. janúar 2013 óskaði kærandi upplýsinga um úrræði þau er honum stæðu til boða í málinu og voru þær upplýsingar veittar með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar þann 10. janúar 2013. Með tölvupósti þann sama dag staðfesti kærandi að hann óskaði eftir að kæra ákvörðun Reykjavíkurborgar. Með bréfi, dags. 14. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um fulla fjárhagsaðstoð. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 31. janúar 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 4. febrúar 2013, var bréf velferðarráðs Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti þann 5. febrúar 2013. Með bréfi, dags. 31. október 2013, óskaði úrskurðarnefndin eftir að Reykjavíkurborg aflaði tiltekinna gagna og bárust þau með bréfi, dags. 6. nóvember 2013.


II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveður það rangt að hann hafi hafnað starfi eða starfsleitaráætlun skv. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar. Kveðst kærandi hafa tilkynnt á vef Vinnumálastofnunar að hann hafi sinnt afleysingastarfi einhverjar helgar en þær upplýsingar hafi nú verið fjarlægðar. Kærandi telur Reykjavíkurborg ekki hafa fullnægt skyldum sveitarfélagsins um lágmarksaðstoð á grundvelli 76. gr. stjórnarskrárinnar. Það komi máli hans hjá Reykjavíkurborg ekki við hvað farið hafi fram á milli Vinnumálastofnunar og hans. Um sé að ræða stjórnarskrárvarinn rétt og því hafi Reykjavíkurborg verið óheimilt að skerða rétt kæranda til bóta.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í athugasemdum vegna kærunnar kemur fram að Reykjavíkurborg hafi byggt synjun á umsókn kæranda á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum, sem tekið hafi gildi þann 1. janúar 2011 og samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010. Kærandi hafi notið réttar til atvinnuleysisbóta, en verið settur á bið eftir atvinnuleysisbótum í tvo mánuði þegar í ljós hafi komið að hann hafi sinnt starfi í afleysingum ásamt því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um þá vinnu, sbr. 59. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafi kærandi verið settur á bið eftir atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið 5. júní 2012 til 5. ágúst 2012 og á þeim tíma hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júlí 2012 til 31. júlí 2012. Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að kanna beri til þrautar rétt umsækjanda til greiðslna úr öðrum kerfum áður en leitað sé eftir fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Í máli þessu sé ljóst að kærandi hafi notið atvinnuleysisbóta og hafi mögulega getað notið þeirra áfram hefði hann farið að þeim skilyrðum sem fram komi í lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi sjálfur borið ábyrgð á því að tilkynna vinnu sína til Vinnumálastofnunar og afleiðing þeirrar háttsemi kæranda hafi verið sú að hann hafi verið settur á bið eftir atvinnuleysisbótum.

Í 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð komi fram að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, skuli greiða hálfa grunnfjárhæð til framfærslu eins tilgreint sé í III. kafla reglnanna þann mánuð sem hann hafni vinnu, svo og mánuðinn þar á eftir. Í 2. mgr. 3. gr. segir síðan að sama eigi við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísi minnisblaði atvinnuleitanda, sbr. ákvæði 8. gr. reglnanna, án viðhlítandi skýringa og umsækjanda sem hætt hefur þátttöku í átaksverkefni nema veigamiklar ástæður sem fram komi við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því. Við túlkun á 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hafi meðal annars verið litið til ákvæða laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, sem og laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir. Ljóst sé að kærandi hafi ekki farið að lögum um atvinnuleysistryggingar og hafi því ekki notið atvinnuleysisbóta til tveggja mánaða vegna brota hans á ákvæðum laganna. Það að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um vinnu sína samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur sé alfarið á ábyrgð kæranda. Það hafi því verið mat Reykjavíkurborgar að rétt væri að skerða fjárhagsaðstoð kæranda á grundvelli 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð á þann hátt að greiða bæri hálfa grunnfjárhæð til framfærslu. Full framfærsla kæranda hafi verið 157.493 kr. en þar sem fjárhagsaðstoð til kæranda hafi verið skert á grundvelli 3. gr. hefði framfærsla kæranda því verið 78.747 kr.

Reykjavíkurborg bendir á að í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð komi fram að allar tekjur einstaklings/maka í þeim mánuði sem sótt sé um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur/vaxtabætur, komi til frádráttar við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Með tekjum sé átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki séu sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skuli reikna honum atvinnuleysisbætur til tekna, hvort sem hann hafi skilað minnisblaði atvinnuleitanda eða ekki nema framvísað sé læknisvottorði.

Þann 1. júní hafi kærandi fengið 301.694 kr. frá Vinnumálastofnun og hafi þær tekjur komið til frádráttar við útreikning fjárhagsaðstoðar. Umframtekjur kæranda fyrir júnímánuð hafi verið 222.947 kr. (301.694 – 78.747 = 222.974) og hafi þær yfirfærst yfir á júlímánuð. Yfirfærðar tekjur kæranda fyrir júnímánuð hafi því komið til frádráttar frá fjárhagsaðstoð fyrir júlímánuð, sbr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Í júlímánuði hafi kærandi verið með tekjur umfram fjárhagsaðstoð að fjárhæð 144.200 kr. (222.947 – 78.747 = 144.200). Þar sem tekjur kæranda í mánuðinum sem hann sótti um og mánuðinum þar á undan hafi verið hærri en sem nemi fjárhagsaðstoð hafi umsókninni verið synjað.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í málinu er ágreiningur um hvort kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg í júlí 2012. Fyrir liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga getur málsaðili skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og skal það gert innan þriggja mánaða frá því viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun. Hin kærða ákvörðun var send kæranda á heimilisfangið B með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 24. ágúst 2012. Samkvæmt upplýsingum úr breytingaskrá þjóðskrár var lögheimili kæranda í ágúst 2012 þó skráð að C. Ákvörðun Reykjavíkurborgar var því ekki send á lögheimili kæranda og hefur kærandi upplýst að hann hafi ekki fengið upplýsingar um að tekin hafi verið ákvörðun í máli hans fyrr en með tölvupósti starfsmanns Reykjavíkurborgar þann 8. janúar 2013. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi borist vitneskja um hina kærðu ákvörðun þann 8. janúar 2013 og verður því að telja að kæran hafi borist innan hins þriggja mánaða kærufrests.

Úrskurðarnefndin telur í upphafi rétt að gera athugasemdir við framkvæmd Reykjavíkurborgar við afgreiðslu umsóknar kæranda. Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar á hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. Það er enda í samræmi við 32. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Í gögnum málsins liggur fyrir umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð og kemur þar skýrt fram að óskað er fjárhagsaðstoðar fyrir júlí og ágúst 2012. Ákvörðun Reykjavíkurborgar lýtur hins vegar einungis að júlí 2012 og er ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi eigi rétt á fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi samkvæmt fyrrgreindum reglum átt rétt á skriflegu svari um samþykki eða synjun á umsókn hans fyrir allt tímabilið á grundvelli þeirra gagna sem lögð voru fram. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að við afgreiðslu mála hjá sveitarfélaginu verði umsóknir rannsakaðar til hlítar svo rétt megi standa að afgreiðslu þeirra. Í ljósi framangreinds verður því lagt fyrir sveitarfélagið að taka til efnislegrar meðferðar þann hluta umsóknar kæranda er varðar fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2012 var synjað með vísan til 3. og 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg bendir á að skv. 1. gr. reglnanna beri umsækjendum að fullnýta bótarétt sinn í öðrum kerfum áður en leitað sé eftir fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi hafi notið atvinnuleysisbóta og hefði mögulega getað notið þeirra áfram hefði hann farið að skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá bendir sveitarfélagið á að við túlkun á 3. gr. reglnanna hafi meðal annars verið litið til ákvæða laga um atvinnuleysistryggingar og laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Það sé á ábyrgð kæranda að hafa ekki tilkynnt um að hann hafi sinnt afleysingastarfi á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Það hafi því verið mat sveitarfélagsins að skerða bæri bætur til kæranda, sbr. 3. gr. reglnanna. Við mat á fjárþörf kæranda var miðað við greiðslu sem kærandi fékk frá Vinnumálastofnun þann 1. júní 2012 að fjárhæð 301.694. Umframtekjur fyrir júnímánuð að fjárhæð 222.947 kr., þ.e. tekjur að frádreginni hálfri grunnfjárhæð, hafi yfirfærst yfir í júlímánuð. Í júlí hafi kærandi því verið með tekjur umfram fjárhagsaðstoð sem numið hafi 144.200 kr. Umsókn kæranda var því synjað, sbr. 12. gr. reglnanna. Kærandi kveðst ekki hafa hafnað starfi eða starfsleitaráætlun skv. 3. gr. reglnanna. Hann hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um atvinnu sína á vef stofnunarinnar en upplýsingarnar hafi verið fjarlægðar.

Í 4. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, þá skal og kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun sem Reykjavíkurborg aflaði símleiðis var kærandi settur á biðtíma í tvo mánuði, þ.e. frá 5. júní til 5. ágúst 2012. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að kærandi hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili.

Þá kemur fram í 3. gr. reglnanna að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun skuli greiða hálfa grunnfjárhæð til framfærslu eins og tilgreint sé í III. kafla reglnanna þann mánuð sem hann hafni vinnu, svo og mánuðinn þar á eftir. Sama eigi við atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísi minnisblaði atvinnuleitanda, sbr. ákvæði 8. gr. reglnanna, án viðhlítandi skýringa og umsækjanda sem hætt hafi þátttöku í átaksverkefni nema veigamiklar ástæður sem fram komi við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því. Tekið skal fram að ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi hafnað atvinnu, sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Þá hefur ekkert komið fram um að kærandi hafi hvorki framvísað minnisblaði atvinnuleitanda án viðhlítandi skýringa né hætt þátttöku í átaksverkefni, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglnanna. Þrátt fyrir það lagði Reykjavíkurborg til grundvallar hálfa grunnfjárhæð til framfærslu við afgreiðslu umsóknar kæranda, sbr. 3., 10. og 11. gr. reglnanna. Í leiðbeiningum við 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að hafi umsækjandi verið settur á bið eftir atvinnuleysisbótum vegna brota verði skerðing á fjárhagsaðstoð mánuðinn sem sótt sé um og mánuðinn þar á eftir. Slíkt eigi við í öllum tilvikum og sé óháð biðtíma hjá Vinnumálastofnun. Skerðing verði aldrei meiri en 50%. Úrskurðarnefndin tekur fram að í 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er ekki kveðið á um að lækka skuli grunnfjárhæð hafi umsækjandi verið settur á bið eftir atvinnuleysisbótum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá er það mat úrskurðarnefndarinnar að ákvæði 3. gr. verði ekki skýrt á þann veg að það feli í sér slíka reglu. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að lækkun grunnfjárhæðar við mat á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð hafi ekki átt sér stoð í reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í 1. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að allar tekjur einstaklings/maka í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur/vaxtabætur, komi til frádráttar við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Mæðra- og feðralaun reiknist umsækjanda til tekna. Með tekjum sé átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki séu sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skuli reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna, hvort sem hann hafi skilað minnisblaði atvinnuleitanda eða ekki nema framvísað sé læknisvottorði.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð með umsókn, dags. 2. júlí 2012. Bar því að miða við tekjur kæranda í júní og júlí 2012. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá voru tekjur kæranda 103.098 kr. í júní 2012 og 78.746 kr. í júlí 2012. Meðalmánaðartekjur kæranda á viðmiðunartímabili skv. 1. mgr. 12. gr. reglnanna voru því 90.922 kr. Þegar kærandi sótti um fjárhagsaðstoð var grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili 157.493 kr., sbr. 1. mgr. 11. gr. reglnanna. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð að fjárhæð 66.571 kr. fyrir júlí 2012. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 24. ágúst 2012, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2012 er felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar meðferðar.

Lagt er fyrir Reykjavíkurborg að taka til efnislegrar meðferðar þann hluta umsóknar A, dags. 2. júlí 2012, er varðar fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta