Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

           

 

Miðvikudaginn 20. nóvember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 9/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 14. febrúar 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 8. febrúar 2013, á beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur. Synjunin byggðist á því að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði reglna um húsaleigubætur.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 12. nóvember 2012. Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 3. janúar 2013, með þeim rökum að samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sé heimilt að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir séu með 6-10 stig á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði samkvæmt matslista fjölskylduþjónustunnar og sannarlega séu leigjendur á hinum almenna leigumarkaði. Jafnframt öðlist allir þeir sem fái fimm stig í tekjuþætti miðað við sama matslista rétt til sérstakra húsaleigubóta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi stigafjöldi kæranda verið samtals 4 stig. Kærandi áfrýjaði synjuninni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar með tölvupósti, dags. 22. janúar 2013. Fjölskylduráð Hafnarfjarðar tók málið fyrir á fundi sínum þann 6. febrúar 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 


 

„Skv. 15. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur, sem í gildi voru til 1. febrúar 2013, var heimilt að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir voru með 6-10 stig á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ skv. sérstökum matslista Fjölskylduþjónustunnar. Þar sem umsækjandi er aðeins með 4 stig skv. matslistanum verður fjölskylduráð Hafnarfjarðar að staðfesta niðurstöðu Fjölskylduþjónustunnar um að synja um beiðni um sérstakar húsaleigubætur.“

 

Niðurstaða fjölskylduráðs Hafnarfjarðar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 14. febrúar 2013. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 11. apríl 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 16. apríl 2013, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi bendir á að lágmarkslaun einstaklinga með eitt barn í Hafnarfirði séu 200.000 kr. á mánuði. Lægstu tekjur Tryggingastofnunar ríkisins séu hins vegar 220.000 kr. á mánuði. Lágmarkslaun í Hafnarfirði séu því undir þeirri lágmarksframfærslu sem ríkið hafi sjálft ákvarðað. Kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar áður en hún flutti í Hafnarfjörð að hún ætti fullan rétt á sérstökum húsaleigubótum, en það hafi láðst að nefna að tekjumörk séu mismunandi eftir sveitarfélögum.

 

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

 

Í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar kemur fram að við afgreiðslu á umsókn kæranda hafi verið farið eftir reglum um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur, frá 1. nóvember 2009. Samkvæmt 15. gr. reglnanna, eins og þeim hafi verið breytt þann 30. janúar 2013, sé heimilt að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir hafi verið með 6‒10 stig á biðlista, og/eða fimm stig vegna fjárhags, eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ samkvæmt matslista félagsþjónustunnar og sannanlega séu leigjendur á hinum almenna markaði. Umsókn kæranda hafi verið lögð fyrir fund húsnæðisteymis fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði þann 22. nóvember 2012 en hlutverk teymisins sé meðal annars að meta aðstæður umsækjenda og gefa þeim stig samkvæmt matslista fjölskylduþjónustunnar vegna tekna, húsnæðisaðstæðna og félagslegra aðstæðna. Umsókn kæranda hafi verið metin til fjögurra stiga. Mánaðartekjur hennar hafi verið 231.710 kr. en samkvæmt matslista fyrir árið 2012 hafi þrjú stig verið gefin einstaklingum sem haft hafi tekjur milli 200.808 kr. og 242.911 kr. á mánuði auk þess sem henni hafi verið gefið eitt stig vegna félagslegra aðstæðna. Ekkert stig hafi verið gefið vegna húsnæðisaðstæðna þar sem kærandi hafi verið talin búa í öruggri leiguíbúð hjá Öryrkjabandalagi Íslands. Kæranda hafi því einungis verið reiknuð samtals fjögur stig og þar sem sérstakar húsaleigubætur séu aðeins greiddar þeim sem hafi 6-10 stig hafi beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur verið synjað.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur frá 3. maí 2004, með síðari breytingum, síðast 1. nóvember 2009. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 12. nóvember 2012, um sérstakar húsaleigubætur.

 

Í lögum um húsaleigubætur er að finna almenn ákvæði um rétt til húsaleigubóta. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna skulu sveitarfélög greiða húsaleigubætur og annast félagsmálanefndir að jafnaði afgreiðslu umsókna. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna setur ráðherra að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga ákvæði í reglugerð um útreikning og fjárhæð bóta, þar á meðal um grunnfjárhæðir bóta. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna skal sveitarstjórn taka ákvörðun fyrir 1. nóvember ár hvert um fjárhæðir húsaleigubóta á næsta ári sem geta verið hærri en grunnfjárhæðir sem ráðherra setur í reglugerð. Samkvæmt 21. gr. laganna setur ráðherra með reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og það ráðuneyti er fer með sveitarstjórnarmál, nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þar á meðal varðandi umsókn um húsaleigubætur og um framkvæmd, útreikning og greiðslu húsaleigubóta. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 118/2003, um húsaleigubætur, með síðari breytingum, annast sveitarfélög framkvæmd laga um húsaleigubætur. Lög um húsaleigubætur veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf fjárhæðir húsaleigubóta umfram þær grunnfjárhæðir sem ráðherra setur í reglugerð sem og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt sem ekki koma fram í lögum um húsaleigubætur. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um sjálfsstjórn sveitarfélaga er matið að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur með umsókn, dags. 12. nóvember 2012. Umsókn kæranda var synjað þar sem kærandi var einungis metin með fjögur stig samkvæmt matsblaði vegna sérstakra húsaleigubóta en samkvæmt 15. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur var heimilt að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir voru með 6-10 stig. Byggt var á því að mánaðartekjur kæranda hafi verið 231.710 kr. en samkvæmt matslista fyrir árið 2012 voru þrjú stig gefin einstaklingum sem höfðu tekjur milli 200.808 kr. og 242.911 kr. á mánuði auk þess sem henni var gefið eitt stig vegna félagslegra aðstæðna. Ekkert stig var gefið vegna húsnæðisaðstæðna þar sem kærandi var talin búa í öruggri leiguíbúð hjá Öryrkjabandalagi Íslands.

 

Í þágildandi 15. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur, en ákvæðinu var breytt þann 30. janúar 2013, kom fram að heimilt væri að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir væru með 6-10 stig á biðlista, og eða fimm stig vegna fjárhags, eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ samkvæmt matslista félagsþjónustunnar og sannanlega væru leigjendur á hinum almenna leigumarkaði. Samkvæmt matsblaði vegna sérstakra húsaleigubóta frá janúar 2012 eru veitt 0-5 stig fyrir tekjur, 0-3 stig fyrir húsnæðisaðstæður og 1-2 stig fyrir félagslegar aðstæður. Samkvæmt matsblaðinu skal miðað við tekjuupplýsingar 2011 eða meðaltal síðustu þriggja mánaða.

 


 

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur í nóvember 2012. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra voru tekjur kæranda 262.102 kr. ágúst 2012, 231.795 kr. í september 2012 og 231.710 kr. í október 2012. Meðalmánaðartekjur kæranda síðustu þriggja mánaða fyrir umsókn hennar voru því 241.869 kr. Samkvæmt skattframtali 2012 vegna tekna 2011 voru meðalmánaðartekjur kæranda á árinu 2011 nokkuð lægri eða 224.634 kr. Hvort sem miðað er við tekjuupplýsingar 2011 eða meðaltal síðustu þriggja mánaða fyrir umsókn verða tekjur kæranda metnar til tveggja stiga samkvæmt umræddu matsblaði þar sem tekjur kæranda eru á bilinu 200.808-242.911 kr. á mánuði.

 

Kærandi var ekki metin til neinna stiga vegna húsnæðisaðstæðna en fyrir liggur að hún var með húsaleigusamning við Brynju, hússjóð Öryrkjabandalags Íslands, frá 1. nóvember 2012 til 1. maí 2013. Samkvæmt matsblaði vegna sérstakra húsaleigubóta eru veitt þrjú stig búi umsækjandi á götunni, á gistiheimili, um sé að ræða neyðarúrræði, búi umsækjandi inni á öðrum við íþyngjandi aðstæður eða um sé að ræða heilsuspillandi húsnæði samkvæmt vottorði heilbrigðisfulltrúa. Veitt eru tvö stig búi umsækjandi á áfangastað, meðferðarheimili eða stofnun, húsnæðismissir sé yfirvofandi og að engu sé að hverfa eða um sé að ræða óöruggt húsnæði. Ekki eru veitt nein stig búi umsækjandi í öruggri leiguíbúð, á húseign, íbúð eða búseturétt. Úrskurðarnefndin telur ljóst að húsnæðisaðstæður kæranda hafi ekki verið slíkar að þær hafi getað verið metnar til þriggja stiga. Þá bjó kærandi hvorki á áfangastað, meðferðarheimili eða stofnun og verður hvorki séð að húsnæðismissir hafi verið yfirvofandi né að um óöruggt húsnæði hafi verið að ræða enda hafði kærandi leigusamning til 1. maí 2013. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við að húsnæðisaðstæður kæranda hafi ekki verið metnar til stiga enda verður að telja ljóst að kærandi hafi búið í öruggri leiguíbúð.

 

Kærandi var metinn til eins stigs vegna félagslegra aðstæðna. Samkvæmt matsblaði eru veitt tvö stig þegar umsækjandi hefur þrjú börn eða fleiri á framfæri. Veitt eru tvö stig þegar umsækjandi er öryrki í umönnunarþörf. Veitt er eitt stig þegar umsækjandi er með eitt eða tvö börn á framfæri. Þá er veitt eitt stig þegar umsækjandi er í endurhæfingu vegna geðsjúkdóma eða fíkniefnavanda og þegar umsækjandi er með þroskaskerðingu. Þegar kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur var hún með eitt barn á framfæri. Ekkert hefur komið fram um að félagslegar aðstæður kæranda séu slíkar að hún uppfylli framangreind skilyrði. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við að félagslegar aðstæður kæranda hafi verið metnar til eins stigs.

 

Samkvæmt framangreindu voru aðstæður kæranda metnar til fjögurra stiga en í þágildandi 15. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur var einungis heimilt að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir voru með 6-10 stig samkvæmt matsblaði vegna sérstakra húsaleigubóta. Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 8. febrúar 2013, um synjun á umsókn A, um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta