Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2013

Þriðjudaginn 10. desember 2013


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 8. janúar 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 8. janúar 2013. Kærð var afgreiðsla Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður), dags. 27. september 2012 á umsókn kæranda um greiðslur  úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 22. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. janúar 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Málsatvik eru þau að kærandi hefur starfað sem sjómaður í tæp 30 ár. Hann sótti um fæðingarorlof 31. ágúst 2012 vegna væntanlegrar barnsfæðingar 18. september 2012. Með bréfi dags. 27. september var honum tilkynnt af Fæðingarorlofssjóði að hann uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingarorlof að hafa verið samfellt í minnst 25% starfshlutfalli a.m.k. 6 síðustu mánuði fyrir fæðingardag barns.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að þar sem hann sé sjómaður vinni hann í skorpum. Kæranda hafi verið synjað um fæðingarorlof þar sem hann hafi ekki verið á íslenskum vinnumarkaði í júlí. Á þessum sex mánuðum fyrir fæðingu barnsins hafi kærandi verið meiddur í baki í mars en verið svo stanslaust á sjó frá 16. apríl til 27. júní sem sé rúmlega fimm mánaða vinna. Kærandi hafi hins vegar farið í mánaðar frí eftir þá vinnutörn og unnið svo í hálfan mánuð í ágúst.

Kærandi hafi verið veikur í mánuð og á sjó í rúma fimm mánuði miðað við vinnuframlag þá hafi kærandi farið í frí í mánuð og unnið í tvær viku. Það skili rúmum sex mánuðum í vinnu fyrir fæðingu barnsins. Kærandi viti ekki betur en allir sem vinni vaktavinnu fái það metið, en þar sem kærandi hafi verið í afleysingum eigi hann engan rétt.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur farm að með umsókn, dags. 31. ágúst 2012, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 18. september 2012.

Með umsókn kæranda hafi fylgt tilkynning um fæðingarorlof, dags. 24. júlí 2012, vottorð um væntanlega barnsfæðingu, dags. 28. júní 2012, vottorð vinnuveitanda, dags. 10. desember 2012, læknisvottorð til atvinnurekanda v/fjarvista, dags. 23. nóvember 2012 og tölvupóstar frá V, dags. 18. og 28. september 2012. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 27. september 2012, hafi athygli hans vakin á því að svo hafi virst vera sem hann uppfyllti ekki skilyrði um rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem engar tekjur hafi verið skráðar á hann tímabilið mars og júlí 2012. Kæranda hafi verið leiðbeint um hvað jafnframt teldist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði.

Einnig liggi fyrir tölvupóstar milli kæranda og Fæðingarorlofssjóðs frá 11. september til 4. desember 2012 þar sem kæranda sé m.a. leiðbeint um hvað annað teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði og hvað hann geti gert til að sýna fram á það. Slík gögn hafi ekki borist frá kæranda. Tölvupóstsamskiptin snúi einnig að umsókn kæranda um greiðslur með eldra barni hans.

Ekki hafi legið fyrir kæranleg ákvörðun í málinu þegar kærandi hafi sent kæru til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála og því verði að líta svo á að kærandi geti ekki lagt fram þau gögn sem honum hafi verið leiðbeint um til að sýna fram á þátttöku á innlendum vinnumarkaði í samræmi við stafliði 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 7. gr. laga nr. 74/2008, sé kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.  Í 1. mgr. komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna séu skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum teljist starfsmaður skv. lögunum hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sé aftur á móti sá sem starfi við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 136/2011, sé skilgreint hvað felist í þátttöku á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna. Þannig komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr. eða sem sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðist við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almanna­tryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann 18. september 2012. Ekki liggi fyrir fæðingardagur barns kæranda og verði því að miða sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. við tímabilið frá 18. mars 2012 fram að áætluðum fæðingardegi þess. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði á tímabilinu sbr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 136/2011.

Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra sé kærandi ekki með nein laun skráð á sig í mars, júlí og september 2012. Í tölvupósti frá V, dags. 18. september 2012, sé staðfest að kærandi hafi unnið hjá fyrirtækinu frá 16. apríl – 26. júní 2012 og það staðfest í símtali við B hjá fyrirtækinu að ekki hafi verið um frekara ráðningarsamband að ræða eftir það. Í tölvupósti frá kæranda, dags. 9. október 2012, komi fram að hann hafi verið að leysa af hjá U, sem greiði laun kæranda í ágúst 2012, og hann hafi verið í fríi eftir 24. ágúst. Í september 2012 hafi kærandi hins vegar verið í fæðingarorlofi með eldra barni sínu. Þannig verði ekki séð að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði skv. meginreglu 1. mgr. 13. gr. sbr. 1. mgr. 13. gr. a. ffl. um að hafa verið samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli á innlendum vinnumarkaði í 6 mánuði fyrir fæðingardag barns tímabilið 18. mars – 15. apríl og 27. júní – 31. júlí 2012.

Komi þá til skoðunar 2. mgr. 13. gr. a. ffl. sem kveði á um hvað annað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði. Þannig komi fram í b – lið að sá tími sem foreldri fái greiddar atvinnuleysisbætur, sé á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði. Kærandi hafi ekki sýnt fram á rétt til atvinnuleysisbóta 

Komi þá næst til skoðunar a – liður 2. mgr. 13. gr. a. ffl. þar sem kveðið sé á um að jafnframt teljist til þátttöku á vinnumarkaði orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Fyrir liggi í gögnum málsins að kærandi hafi einungis verið í tímabundinni ráðningu hjá V og U og því verði ekki séð að a – liður 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti átt við í tilviki kæranda.

Komi þá til skoðunar c – liður 2. mgr. 13. gr. a. ffl. þar sem kveðið sé á um að sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, sé á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar eða fái greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufastástæðum. Fyrir liggi læknisvottorð, dags. 23. nóvember 2012, um að kærandi hafi verið óvinnufær frá 29. febrúar – 31. mars 2012 vegna sjúkdóms. Í tölvupósti til kæranda, dags. 4. desember 2012, hafi honum sérstaklega leiðbeint vegna þessa að ef hann ætti rétt á sjúkradagpeningum á umræddu tímabili hjá Sjúkratryggingum eða sínu stéttarfélagi teljist það sem þátttaka á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hefur ekki sýnt fram á slíkan rétt.

Ekki verður séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti átt við í tilviki kæranda.

Samkvæmt framangreindu og fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum sem kærandi hafi lagt fram verði ekki séð að hann hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. þar sem hann uppfylli ekki skilyrði ákvæðanna tímabilið 18. mars – 15. apríl og 27. júní – 31. júlí 2012.

Enga heimild sé að finna í ffl. né heldur í reglugerð sem sett hafi verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar foreldri hafi hafið töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr. ffl.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi ekki sýnt fram á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

IV. Niðurstaða.

Í máli þessu háttar svo óvenjulega til, að þegar kæran barst, leit Fæðingarorlofssjóður ekki svo á að endanleg ákvörðun hefði verið tekin hjá sjóðnum um réttindi kæranda, en kæran bar þetta ekki með sér þar sem bréf sjóðsins til kæranda, dags. 27. september 2012, fylgdi henni aðeins að hluta. Þegar kæran var send sjóðnum til umsagnar lét sjóðurinn hins vegar uppi ítarlega rökstudda afstöðu þess efnis að kærandi ætti ekki rétt til fæðingarorlofs á grundvelli þeirra gagna sem hann hefði lagt fram. Í þessu ljósi, og með hliðsjón af þeim langa tíma sem tekið hefur að afgreiða kærumál þetta, þykir rétt að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þó verður við það miðað að sjóðurinn hafi synjað umsókninni að svo stöddu, þ.e. með fyrirvara um að frekari gögn verði ekki lögð fram og að sú ákvörðun sé hér til kærumeðferðar.

Kærandi byggir á því að  hann hafi unnið mikið fyrir fæðingu barnsins en hafi verið í veikindaleyfi í mars og tekið sér svo frí í júlí eftir langa vinnutörn. Kærandi telur að þrátt fyrir það hafi hann skilað það háu vinnuframlagi aðra mánuði og önnur tímabil á sínum starfsferli að hann eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Fæðingarorlofssjóður byggir á því að kærandi hafi ekki talist á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu frá 18. mars 2012 til 15. apríl 2012 og 27. júní 2012 til 31. júlí 2012 og því eigi hann ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.  

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 2. mgr. 7. gr., felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði meðal annars í sér að starfa sem starfsmaður, þ.e. að vinna launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá telst enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði meðal annars orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldrið látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Enda þótt fallast megi að nokkru á það sjónarmið kæranda að þau lögbundnu viðmið sem hér hafa verið rakin, falli illa að stopulum tekjum þeirra sem starfa t.d. að sjómennsku með afleysingum eða íhlaupum, en séu tekjulausir inn á milli, hefur nefndin engar heimildir til að víkja frá þessum viðmiðum.

Afstaða Fæðingarorlofssjóðs er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Sú afstaða Fæðingarorlofssjóðs að kærandi, A eigi ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli fram lagðra gagna er staðfest.

 

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta