Hoppa yfir valmynd

Nr. 360/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 360/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22060033

 

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. júní 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. maí 2022, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. sömu laga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kærunefnd feli stofnuninni að taka umsókn hans til nýrrar málsmeðferðar þannig að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli b-liðar 9. mgr. 70. gr., sbr. 78. gr. laga um útlendinga, en til vara á grundvelli 78. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi gekk í hjúskap 23. apríl 2018 með fyrrverandi eiginkonu sinni sem er búsett hér á landi. Hinn 6. apríl 2021 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi með gildistíma til 24. janúar 2022 á grundvelli hjúskapar með handhafa ótímabundins dvalarleyfis. Hinn 17. febrúar 2022 slitu kærandi og maki hans samvistum og skildu að borði og sæng. Umsækjandi lagði í kjölfarið fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, en til vara á grundvelli 78. gr. laganna. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hafi sætt misnotkun eða öðru ofbeldi af hálfu maka og taldi stofnunin því ekki forsendur fyrir beitingu ákvæðis b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Jafnframt var það mat Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda væru ekki þess eðlis að þær féllu undir 2. og 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að stofnunin hafi við mat sitt horft til fyrirliggjandi gagna, m.a. lögregluskýrslu, vegna meints heimilisofbeldis og annarra brota þar sem maki kæranda hafi verið meintur þolandi. Þá hafi kærandi ekki lagt fram kæru á hendur maka sínum eða að öðru leyti komið á fót máli hjá lögreglu vegna meints ofbeldis sem hann hafi sagst hafa upplifað.

Kærandi fékk ákvörðun Útlendingastofnunar afhenta 1. júní 2022. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar 14. júní 2022 og barst nefndinni greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, 4. júlí 2022. Viðbótargögn bárust kærunefnd 9. september 2022.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé […] ára nígerískur ríkisborgari sem hafi flutt til Íslands í mars 2021 og heillast þegar af landi og þjóð. Kærandi hafi kynnst fyrrverandi eiginkonu sinni, sem einnig sé nígerískur ríkisborgari, árið 2016 í veislu og hafi þau hafið ástarsamband eftir það. Þau hafi gengið í hjúskap 23. apríl 2018 og hafi hún lengi viljað að kærandi flytti til Íslands en hún hafi dvalið til margra ára á Íslandi. Kærandi hafi á endanum flutt til Íslands í mars 2021. Hinn 9. febrúar 2022 hafi kærandi leitað til sýslumanns og óskað eftir lögskilnaði frá þáverandi eiginkonu sinni vegna ofbeldis, en vegna fjárhagslegra ástæðna og andlegrar vanheilsu hans hafi hann til vara óskað eftir skilnaði að borði og sæng. Leyfi til skilnaðar að borði og sæng hafi verið veitt 17. febrúar 2022. Kærandi hafi leitað sér aðstoðar sálfræðings vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis af hálfu fyrrverandi eiginkonu sinnar og sé hann í sálfræðimeðferð. Kærandi hafi kynnst góðu fólki hér á landi sem hafi komið honum til aðstoðar vegna slæmrar framkomu fyrrverandi eiginkonu hans gagnvart honum. Kærandi hafi jafnframt aðlagast íslensku samfélagi vel. Hann hafi sótt íslenskunámskeið og hafi mikinn áhuga á að læra tungumálið áfram. Hann sé vel liðinn bæði af vinum og samstarfsfélögum.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi verið giftur eiginkonu sinni í tæplega fjögur ár, þó þau hafi verið par í meira en fimm ár. Hjónabandið hafi gengið vel til að byrja með og hafi þau verið hamingjusöm. Hamingja kæranda hafi þó breyst hratt eftir komuna til Íslands þar sem verið hafi eins og önnur kona hafi tekið á móti honum hér miðað við þá konu sem hann taldi sig hafa kynnst. Hún hafi fljótlega byrjað að beita hann andlegu, líkamlegu og fjárhagslegu ofbeldi. Kærandi skilji ekki til fulls hvers vegna, þó reiði hennar hafi oftast tengst […] og áhuga kæranda á að stunda atvinnu. Kærandi hafi þurft að lifa við stöðugt áreiti af hálfu eiginkonu sinnar sem hafi sagt hann einskis virði og fleira í þeim dúr. Ofbeldið hafi haft verulega slæm áhrif á kæranda andlega. Þá hafi það haft slæm áhrif á kæranda að fá stöðugar hótanir frá henni um að honum yrði brottvísað frá Íslandi. Fyrrverandi eiginkona kæranda hafi jafnframt haldið íslenskum skilríkjum hans frá honum og læst hann úti frá sameiginlegu heimili þeirra alls átta sinnum með þeim afleiðingum að hann hafi þurft að sofa í bílnum sínum eða leita til vina. Ávallt hafi þetta gerst þegar hann hafi snúið heim frá vinnu og hafi hún þannig viljað kenna honum lexíu um hver réði á heimili þeirra. Í eitt skipti hafi hún beitt kæranda líkamlegu ofbeldi, hringt í lögregluna og borið upp falskar ásakanir á hendur honum um að það hafi verið hann sem hafi beitt hana ofbeldi. Málið hafi þó verið fellt niður hjá lögreglu. Kærandi vilji nú leggja fram kæru á hendur fyrrverandi eiginkonu sinnar vegna ofbeldis og rangra sakargifta en vegna slæmrar andlegrar heilsu hafi hann ekki treyst sér til þess fyrr. Auk framangreinds er í greinargerð fjallað um vinatengsl kæranda hér á landi, sem og félagsleg og menningarleg tengsl hans við Ísland.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 78. gr. sömu laga, enda séu öll skilyrði ákvæðisins uppfyllt í hans tilfelli. Gögn málsins sýni fram á að kærandi sé þolandi ofbeldis og að hann hafi lifað í ótta og hræðslu við eiginkonu sína. Kærandi telur að kærunefnd beri að taka sérstakt tillit til þess að karlmenn séu einnig þolendur ofbeldis. Fyrrverandi eiginkona hans hafi haft yfirburðastöðu í sambandi þeirra vegna dvalarleyfis síns hér á landi. Kærandi telur að aðstæður hans séu augljóst dæmi um þær aðstæður sem löggjafinn hafi séð fyrir, þ.e. að tryggja að einstaklingar í hans stöðu væru ekki berskjaldaðir og verndarlausir hérlendis. Vísar kærandi til athugasemda sem fram koma í greinargerð með frumvarpi því er varð að núgildandi lögum um útlendinga máli sínu til stuðnings. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi horft sérstaklega til lögregluskýrslu sem hafi verið kæranda í óhag en fjallað lítið um sálfræðivottorð sem hafi verið kæranda í hag. Telur kærandi ljóst að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst í skilningi rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun horfi almennt til lengdar hjúskapar við mat sitt, en slíkar kröfur séu með öllu óviðeigandi þegar einstaklingur standi frammi fyrir ofbeldi og standist það ekki lögmætisreglu íslenskrar stjórnskipunar. Að þessu virtu telur kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, sem og skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, enda séu skilyrði ákvæðisins uppfyllt í hans tilfelli. Vísar kærandi til athugasemda við 3. mgr. 78. gr. sem fram koma í greinargerð með frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga. Kærandi hafi lagt mikið á sig til að aðlagast íslensku samfélagi og hafi fjárfest í því með þátttöku sinni í íslensku atvinnu- og menningarlífi. Þá sé kærandi með laun vel yfir lágmarksframfærslu. Kærandi telur að þegar lagt sé heildstætt mat á aðstæður hans leiði það til þess að ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi á grundvelli framangreinds ákvæðis. Þótt hann hafi einungis dvalist hérlendis í rúmt ár þá verði að líta til ríkra hagsmuna hans, sterks vilja og metnaðar til að aðlagast samfélaginu og standa á eigin fótum. Kærandi telur því að hann eigi að fá áframhaldandi dvalarleyfi hérlendis á grundvelli sérstakra tengsla við landið enda hafi hann myndað sterk tengsl við landið og vilji leggja sitt af mörkum til íslensks samfélagi. Þá gerir kærandi athugasemd við tveggja ára lágmark sem sett sé fram í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 og telur slíkt skilyrði skorta lagastoð m.t.t. lögmætisreglunnar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í b-lið 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem hefur haft dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu getur ef sérstaklega stendur á og ríkar sanngirnisástæður mæla með því fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið samkvæmt 78. gr. ef skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. er fullnægt og hjúskap eða sambúð hefur verið slitið vegna þess að útlendingur eða barn hans hefur sætt misnotkun eða öðru ofbeldi af hálfu maka og það hefur verið tilkynnt lögreglu eða barnaverndaryfirvöldum eða önnur gögn benda til þess. Líta ber til tengsla útlendings við landið og í undantekningartilfellum er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. 55. gr. við útgáfu dvalarleyfis samkvæmt þessum staflið ef framfærsla er ótrygg um skamma hríð.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að núgildandi lögum um útlendinga kemur m.a. fram að;

heimilt sé að veita umsækjanda dvalarleyfi ef fjölskyldumeðlimur, þ.e. maki, hefur beitt umsækjanda eða barn hans ofbeldi eða misnotkun í hjúskap eða sambúð. Það sjónarmið, sem býr að baki þessu ákvæði, er að ekki skuli skapa aðstæður þar sem útlendingur telur sig knúinn til að vera áfram í hjúskap eða sambúð svo að hann haldi dvalarleyfi sínu ef viðkomandi einstaklingur eða börn hans sæta misnotkun eða ofbeldi af hálfu maka. Ekki hefur þýðingu hvor aðilinn hefur haft frumkvæði að sambúðarslitunum. Við heildarmat á aðstæðum umsækjanda verður m.a. að taka tillit til atburða, alvarleika þeirra og kringumstæðna, hvort þeir séu hluti af hegðunarmynstri eða hvort um einstakan atburð hafi verið að ræða. Almenn óánægja í hjúskap eða sambúð, ágreiningur eða mismunandi hugmyndir um verkaskiptingu í hjúskap eða sambúð eru ekki nægileg til að byggja á við beitingu ákvæðisins. Þá er gert ráð fyrir að skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. verði að vera uppfyllt, t.d. að útlendingur hafi áfram trygga framfærslu og húsnæði. Ekki er hægt að leggja strangar kröfur á útlendinginn um sönnunarbyrði um aðstæður og ástæður sambandsslita þó að reynt skuli að sýna fram á misnotkunina eða ofbeldið eftir fremsta megni eða leiða líkur að því að það hafi átt sér stað en Útlendingastofnun á sönnunarmatið um þessi atriði. Auk framburðar viðkomandi hafa lögregluskýrslur, læknaskýrslur, yfirlýsing frá Kvennaathvarfi eða önnur vottorð þýðingu og ákærumeðferð vegna ofbeldisbrota er til þess fallin að mæla með útgáfu leyfis á grundvelli þessa ákvæðis. Þá skiptir einnig máli að hjúskapur, staðfest samvist eða sambúð hafi ekki varað í skamman tíma.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram ýmis gögn, m.a. lögregluskýrslu, dags. 9. desember 2021. Í skýrslunni kemur m.a. fram að kærandi hafi mætt til skýrslutöku hjá lögreglu eftir handtöku og dvöl í fangahúsi. Kærandi hafi verið tekinn fyrir sem sakborningur í máli sem hafi varðað heimilisofbeldi og líkamsárás á hendur fyrrverandi eiginkonu hans á heimili þeirra fyrr um kvöldið. Einnig hafi kærandi verið tekinn fyrir sem sakborningur vegna eignaspjalla. Kærandi greindi frá því að hafa komið heim úr vinnu umrætt kvöld og þáverandi eiginkona hans hafi byrjað að vera með vandræði og spurt hvers vegna hann væri að vinna. Þáverandi eiginkona kæranda hafi greint frá því að kærandi hafi […]. Kærandi hafi neitað því. Þá hafi þau sakað hvort annað um að hafa brotið tvo snjallsíma. Í ljósi þess sem fram kemur í framangreindri lögregluskýrslunni, sem er kæranda að mestu í óhag, var kæranda veitt tækifæri, með tölvubréfi 2. september 2022, til að leggja fram handtökuskýrslu frá umræddu kvöldi eða önnur gögn sem til þess væru fallin að varpa frekara ljósi á hans frásögn um atburðarrás kvöldsins. Í svari frá kæranda sem kærunefnd barst 6. september 2022 kvaðst hann telja óþarft að leggja fram frekari gögn vegna nefnds atviks þar sem hann telji fyrirliggjandi gagn nægja til að upplýsa það. Í skýrslunni komi skýrlega fram ásakanir á hendur honum sem og svör hans við þeim. Málið hafi verið fellt niður og kærandi ávallt talið sig saklausan af þessum ásökunum. Kærandi njóti enn sálfræðiaðstoðar vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis af hálfu fyrrum eiginkonu sinnar og hyggist leggja fram uppfært sálfræðivottorð hjá kærunefnd. Hinn 9. september 2022 barst kærunefnd tölvubréf frá kæranda, ásamt fylgiskjölum, þar sem fram kemur að hann hafi nú lagt fram dvalarleyfi fyrir aðstandanda EES ríkisborgara, sbr. 86. gr. laga um útlendinga, á grundvelli hjúskapar síns við eistneska konu hér á landi. Þá hafi kærandi nýlega verið greindur með of háan blóðþrýsting og sé hann nú undir eftirliti lækna og fái ávísað lyfjum. Meðal skjala sem kærandi lagði fram var sálfræðivottorð, dags. 9. september 2022, umsókn um dvalarleyfi, dags. 9. september 2022, hjúskaparvottorð, dags. 8. september 2022, ljósmyndir af kæranda og núverandi eiginkonu hans, afrit af lyfjakorti og ljósmyndir af lyfjum kæranda. Framangreint sálfræðivottorð er að hluta til samhljóða þeim sálfræðivottorðum sem kærandi lagði fram á fyrri stigum málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd. Þá kemur einnig fram að kærandi hafi mætt í sjö viðtöl og hafi smám saman náð betra jafnvægi. Þunglyndið og kvíðinn hafi minnkað en stöðug streita vegna óvissunnar hafi þó alltaf verið til staðar. Í sumar hafi kærandi skyndilega fengið mjög háan blóðþrýsting sem ætli megi að sé tengt því álagi sem hann hafi upplifað síðastliðið ár. Hann hafi hafið lyfjameðferð og líði mun betur. Þá sé hann spenntur að fara að vinna.

Auk framangreinds lagði kærandi fram endurrit úr hjónaskilnaðarbók frá Sýslumanninum á Suðurnesjum, dags. 9. febrúar 2022, þar sem fram kemur að kærandi hafi mætt til fyrirtöku hjá sýslumanni og verið kynnt að fyrrverandi eiginkona hans hafi hinn 17. desember 2021 farið fram á lögskilnað við kæranda á grundvelli 39. gr. laga nr. 31/1993 vegna ofbeldis sem hún hafi kveðið hann hafa beitt hana. Kærandi hafi neitað því að hafa beitt fyrrverandi eiginkonu sína ofbeldi og sakað hana um að hafa beitt sig ofbeldi og óskað eftir lögskilnaði við hana á þeim grundvelli.

Auk framangreinds lagði kærandi fram meðmælabréf frá vinum og kunningjum, vottorð frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum um að kærandi hafi lokið 60% af 120 kennslustunda námi, ljósmyndir og tvö sálfræðivottorð, dags. 4. mars 2022 og 20. júní 2022. Í sálfræðivottorðunum kemur m.a. fram að kærandi hafi leitað til sálfræðings vegna örvæntingar og vanlíðanar sem hann hafi upplifað vegna framkomu eiginkonu sinnar. Hún hafi vísað kæranda á dyr með ofbeldi þar sem hún hafi verið ósátt við að hann væri kominn í vinnu. Kærandi hafi mætt í viðtöl nokkrum sinnum og hafi smám saman náð betra jafnvægi. Hann hafi ekki náð sér fyllilega en sé á góðu róli og spenntur fyrir því að fara aftur að vinna.

Eins og fram kemur í ákvæði b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er gerð krafa um að ofbeldi eða misnotkun sem einstaklingur ber fyrir sig hafi verið tilkynnt lögreglu eða barnaverndaryfirvöldum eða önnur gögn bendi til þess að viðkomandi hafi sætt ofbeldi. Kærandi hefur ekki leitað til lögreglu vegna þess ofbeldis sem hann kveður fyrrverandi eiginkonu sína hafa beitt sig allt frá því hann kom hingað til lands í apríl 2021. Í framangreindri lögregluskýrslu kemur fram að kærandi hafi verið handtekinn af lögreglu og vistaður í fangahúsi umrætt kvöld er lögregla var kölluð út á heimili kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans vegna heimilisofbeldis. Að mati kærunefndar eru framlögð gögn ekki til þess fallinn að styðja við frásögn kæranda af því að hann hafi sætt misnotkun eða öðru ofbeldi af hálfu maka heldur þvert á móti. Eru fyrirliggjandi sálfræðivottorð, sem byggja einungis á framburði kæranda, ekki til þess fallin að breyta því mati. Með vísan til framangreinds er það því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að aðstæður hans uppfylli skilyrði b-liðar 9. mgr. 70. gr., sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Vegna athugasemdar kæranda um rannssóknarreglu stjórnsýsluréttar tekur kærunefnd fram að gögn málsins bera ekki með sér að ástæða hafi verið fyrir Útlendingastofnun að rannsaka málið frekar með öflun frekari gagna áður en hin kærða ákvörðun var tekin

Til vara krefst kærandi þess að sér verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, einkum með vísan til þeirra félags- og vinatengsla sem hann hafi myndað hér á landi, auk atvinnuþátttöku hans. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi er varð að lögum um útlendinga kemur fram að við þetta mat þurfi að líta til þess tíma sem útlendingur hafi dvalist hér og hvernig hann hafi aðlagast samfélaginu og tekið þátt í því. Skoða skuli hvert mál sjálfstætt og tengsl útlendings við Ísland metin í samhengi við tengsl hans við önnur lönd, t.d. heimaland eða fyrra dvalarland, í því skyni að meta hvort tengsl hans við Ísland séu orðin meiri en við viðkomandi land. Sem dæmi megi nefna útlending sem hafi byggt dvalarrétt sinn á hjúskap en við skilnað misst rétt sinn til dvalar hér á landi og geti ekki öðlast dvalarrétt á öðrum grundvelli. Hann geti á þeim tíma sem hann var í hjúskap hafa myndað sterk tengsl við landið og þá ef til vill misst tengsl sín við heimaland. Við matið þurfi jafnframt að líta til þess tíma sem útlendingur hefur dvalist hér á landi og hvernig hann hafi aðlagast samfélaginu og tekið þátt í því. Ólíklegt sé að sterk tengsl myndist við skamma dvöl. Í þessu samhengi megi miða við að lágmarki tveggja ára dvöl hér á landi.

Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga setur ráðherra reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu, meðal annars um tilgang dvalar, til hvaða sjónarmiða skuli líta við mat á því hvort sérstök tengsl við landið teljast vera til staðar og hvenær getur komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. 78. gr. Á grundvelli ákvæðisins hefur ráðherra mælt fyrir um það í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, að við beitingu 78. gr. skuli áhersla lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða. Sérstaklega er mælt fyrir um það í a. lið ákvæðisins að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk.

Kærandi telur framangreinda kröfu a-liðar 19. gr. reglugerðarinnar skorta lagastoð og hún standist þannig ekki lögmætisreglu íslenskrar stjórnskipunar. Með vísan til þess að löggjafinn hefur sérstaklega falið ráðherra í 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga að setja nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis og þar sem að í athugasemdum með ákvæði 3. mgr. 78. gr. er áhersla lögð á lengd dvalar umsækjanda hér á landi og tekið fram að miða megi við tveggja ára dvöl við mat á sérstökum tengslum umsækjanda við landið telur kærunefnd að ákvæði a-liðar 19. gr. reglugerðar um útlendinga eigi sér fullnægjandi lagastoð. Verður því ekki fallist á það með kæranda að ákvæði reglugerðarinnar brjóti í bága við lögmætisreglu íslenskrar stjórnskipunar. 

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar á tímabilinu 6. apríl 2021 til 24. janúar 2022. Þannig hefur kærandi ekki dvalist lengur en tvö ár hér á landi á grundvelli útgefins dvalarleyfis. Eins og áður segir verða tengsl umsækjanda við Ísland að vera mjög sterk hafi hann ekki dvalið hér á landi lengur en í tvö ár. Þrátt fyrir að kærandi hafi myndað vina- og félagslegtengsl hér á landi bera gögn málsins ekki með sér að þau eða önnur tengsl hans við landið séu mjög sterk, sbr. þau viðmið sem fram koma í a-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi búið í heimaríki sínu þangað til hann hafi komið hingað til lands. Þá eigi kærandi tvö börn í heimaríki sínu, auk þess sem hann hefur greint frá því að reka bifreiðaverkstæði þar í landi. Er það mat kærunefndar að tengsl kæranda við heimaríki sitt séu því veruleg og að á þeim stutta tíma sem hann hafi dvalið hér hafi hann í engu misst þau tengsl. Þá benda gögn málsins ekki til þess að umsönnunarsjónarmið séu fyrir hendi í málinu eða að öðru leyti séu fyrir hendi í málinu slík félagsleg-, menningarleg- eða önnur sambærileg tengsl í skilningi b- til e-liðar 19. gr. reglugerðar um útlendinga að rétt sé að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli, sbr. 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samantekt og leiðbeiningar

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga hafði kærandi heimild til dvalar hér á landi á meðan á málsmeðferð umsóknar hans um dvalarleyfi á nýjum grundvelli stóð en dvalarleyfi hans á grundvelli hjúskapar rann út 24. janúar 2022. Eins og að framan greinir hefur málsmeðferðinni nú verið lokið með synjun umsóknarinnar og hefur kærandi því ekki lengur heimild til dvalar hér á landi á þeim grundvelli.

Kærandi hefur samkvæmt framlögðum gögnum gengið í hjúskap við EES-borgara sem búsett er hér á landi og lagt inn umsókn vegna dvalarréttar á grundvelli 86. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur heimild til dvalar hér á landi á meðan sú umsókn er til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta