Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 512/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 512/2022

Miðvikudaginn 23. nóvember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 24. október 2022, kærði B ráðgjafi, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. júlí 2022, um að synja kæranda um örorkulífeyri en láta fyrra mat um tímabundinn örorkustyrk standa óbreytt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með rafrænni umsókn, móttekinni 5. júlí 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 20. júlí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi væri með 50% örorkumat í gildi frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2025 og ný gögn gæfu ekki tilefni til breytinga á því mati.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. október 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé niðurstaða örorkumats Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. ágúst 2022. Umsókn um örorkulífeyri sé synjað þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði staðals um örorkumat. Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um 75% örorku en jafnframt metið hana með 50% örorku og því samþykkt greiðslu örorkustyrks.

Samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis, dags. 6. ágúst 2022, hafi kærandi fengið tólf stig í líkamlega hluta örorkumatsins og tvö stig í andlega hlutanum. Í fyrri skýrslu skoðunarlæknis, dags. 13. júní 2019, hafi kærandi verið metin með fjórtán stig í líkamlega hluta örorkumatsins en átta stig í andlega hlutanum.

Í mati skoðunarlæknis á líkamlegri færni kæranda hafi henni verið metin þrjú stig þar sem hún geti ekki staðið nema í þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Í rökstuðningi skoðunarlæknis fyrir þessu mati komi fram að kærandi þurfi helst að vera á hreyfingu þegar hún standi. Þegar kærandi hafi fyrst farið í skoðun til skoðunarlæknis þann 13. júní 2019 hafi henni verið metin sjö stig fyrir þennan lið matsins þar sem hún hafi ekki getað staðið nema í þrjátíu mínútur án þess að setjast. Kærandi taki einnig fram í spurningalista vegna færniskerðingar að hún eigi í vandræðum með að standa lengi. Þar að auki komi fram í læknisvottorði  C, dags. 11. ágúst 2022, að kærandi sé með festubógur í mjöðmum.

Í mati skoðunarlæknis á líkamlegri færni kæranda hafi andlegt álag ekki átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Í rökstuðningi skoðunarlæknis fyrir þessu komi fram að líkamleg einkenni hafi ráðið því. Í læknisvottorði D, dags. 4. júlí 2022, komi fram að kærandi sé með kvíða. Einnig komi fram í skoðun læknis frá 2019 að kærandi hafi verið undir miklu andlegu álagi og hafi í kjölfarið farið á vegg. Kærandi sé enn með stórt heimili og glími við mikið álag. Þar að auki sé kærandi í meðferð hjá E. Við mat á andlegri færni komi einnig fram að kærandi sé ekki oft hrædd eða felmtruð án tilefnis. Í rökstuðningi skoðunarlæknis fyrir því komi fram að hún sé ekki oft hrædd eða felmtruð en það geti komið fyrir án þess að það sé tilefni til. Kærandi sé með kvíða sem valdi því að hún sé oft óörugg í aðstæðum. Kærandi hafi fengið „nei“ í þessum lið hjá skoðunarlækni sem sé ekki rökrétt miðað við svar hennar þar sem hræðsla eða felmtur komi upp hjá henni án tilefnis. Kærandi hafi ekki fengið stig fyrir þann lið örorkumatsins varðandi hvort hún forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau valdi of mikilli þreytu eða álagi. Í rökstuðningi skoðunarlæknis fyrir þessu komi fram að það geti komið upp að kærandi forðist hversdagsleg verkefni, kærandi segist eiga það til en hún geri það sem hún geti. Kærandi hafi skýrlega sagt að hún eigi erfitt með hversdagsleg verkefni þar sem þau valdi álagi, kvíða og þreytu. Kærandi hafi ekki fengið stig fyrir þann lið örorkumatsins sem varði hvort svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Í rökstuðningi skoðunarlæknis á þessum lið komi fram að kærandi segi svefninn hrikalegan, hún vakni iðulega upp, tvisvar til fjórum sinnum á nóttu. Kærandi geti oftast sofnað aftur og sé ekki syfjuð á daginn, hún leggi sig ekki. Ef einstaklingur sé vansvefta eigi hann iðulega mjög erfitt með dagleg störf. Því sé undarlegt að kærandi fái ekki stig fyrir þennan lið matsins þar sem hún eigi mjög erfitt með svefn.

Að öllu framansögðu megi ráða að kærandi uppfylli skilyrði örorkumatsstaðalsins en telji úrskurðarnefndin svo ekki vera beri henni að horfa til 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Í fyrirliggjandi eldri gögnum hjá umboðsmanni kæranda hafi verið synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um örorku frá 26. ágúst 2021. Hafi umboðsmaður kæranda því mistúlkað dagsetningu hinnar kærðu ákvörðunar sem 26. ágúst 2022.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri en láta fyrra mat um tímabundinn örorkustyrk standa óbreytt.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og fjórir dagar frá kærðri ákvörðun, dags. 20. júlí 2022, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. október 2022. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 20. júlí 2022 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru til úrskurðarnefndar greinir umboðsmaður kæranda frá því að vegna mistúlkunar á dagsetningu hinnar kærðu ákvörðunar hafi hún ekki sent kæruna fyrr.

Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að gögn málsins bendi ekki til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um örorkulífeyri að nýju.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta