Mál nr. 38/2011
Miðvikudaginn 22. júní 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 38/2011:
A
gegn
Íbúðalánasjóði
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dagsettri 6. maí 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá 12. apríl 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi kærði synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.
Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 16. maí 2011, er fasteignamat á íbúð kæranda að B 7.060.000 kr. og 110% fasteignamat er 7.766.000 kr. Í endurútreikningum kemur einnig fram að kærandi á C að fjárhæð 23.100.000 kr., innstæðu á banka að fjárhæð 1.193.788 kr., hlutabréf að fjárhæð 298.559 kr., bifreið J að fjárhæð 2.167.195 kr. og aðra bifreið I að fjárhæð 3.872 kr. Staða íbúðalána þann 1. janúar 2011 var 10.596.637 kr. Aðfararhæfar eignir eru samtals 3.663.414 kr. miðað við síðustu áramót.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar að mál þetta verði endurskoðað. Hann vísar til samtals við D sem undirritaði synjunarbréf Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt því hafi verið tvennt sem gert hafi að verkum að umsókn hans hafi verið synjað. Annars vegar það að samkvæmt skattframtali ætti hann bifreið (O) að verðmæti 1.900.000 kr. Hins vegar ætti hann eina milljón krónur inni á bankabók að frádregnum tvennum mánaðalaunum. Kærandi bendir á að meðfylgjandi sé yfirlýsing frá E um lán sem hún hafi veitt honum fyrir bílnum ásamt bankafærslum sem sanni það. Eign hans í bílnum sé því 500.000 kr. en ekki 1.900.000 kr. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2010 hafi inneign á banka verið 857.142 kr. og þá eigi eftir að draga frá tvenn mánaðarlaun sem sé um 700.000 kr. Samkvæmt þessu hafi heildareign hans um síðustu áramót verið um 600.000 kr. Hann óskar eftir því að lán hans vegna B verði leiðrétt í samræmi við eign hans, þ.e. 600.000 kr.
III. Sjónarmið kærða
Íbúðalánasjóður bendir á að samkvæmt lánaákvörðun, dags. 16. maí 2011, sé virði fasteignar kæranda miðað við uppreiknað verðmat í 110% 7.766.000 kr. og staða íbúðalána þann 1. janúar 2011 sé 10.596.637 kr. Aðfararhæfar eignir séu samtals 3.663.414 kr.
Eignir séu samkvæmt þessu hærri en skuldirnar og forsendur niðurfærslu því ekki til staðar, sbr. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 svo og með vísan til 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum um húsnæðismál. Reglur geri ekki ráð fyrir að sjóðurinn meti í slíkum tilvikum aðstæður kæranda við niðurfærslu á veðkröfum og synjun því að mati sjóðsins í samræmi við gildandi reglur.
IV. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal ananrs að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Kærandi telur að í máli þessu sé á sér brotið af hálfu kærða. Í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum, á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður.
Í málinu hefur því verið haldið fram af hálfu kæranda að afgreiðsla Íbúðalánasjóðs hafi ekki verið byggð á réttum upplýsingum. Af hálfu kærða er á því byggt að kærandi eigi tvær bifreiðir, J að verðmæti 2.167.195 kr. og I að verðmæti 3.872 kr. Af hálfu kæranda er á því byggt að í hans eigu sé bifreiðin O að verðmæti kr. 1.900.000. Þá hefur kærandi jafnframt haldið því fram að ekki hafi verið tekið tillit til skuldar hans sem til hafi stofnast vegna kaupa á bifreiðinni O, en í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing og millifærslukvittun þess efnis dags. 2. maí 2011. Þá hefur því jafnframt verið haldið fram af hálfu kærða að kærandi eigi innstæður á banka samtals að fjárhæð 1.193.788 kr. og hlutabréf samtals 298.559 kr. Af hálfu kæranda hefur verið lagt fram afrit af skattframtali um fjármagnstekjur ársins 2010, þar sem fram kemur að inneign á banka er samtals 857.142 kr. Íbúðalánasjóður segir kæranda eiga innistæðu á banka 1.193.788 kr. og hlutabréf 298.559 kr. Í útprentun úr skattframtali kæranda sem hann leggur fram um fjármagnstekjur ársins 2010 kemur fram að hann átti samtals 857.142 kr.
Það er álit úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Af hálfu úrskurðarnefndar hefur verið á því byggt að ákvörðun Íbúðalánasjóðs um niðurfellingu skulda til samræmis við reglur laga nr. 29/2011 og samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila sé stjórnsýsluákvörðun, og að fylgja beri málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við ákvarðanatökuna. Af því leiðir að Íbúðalánasjóði beri að upplýsa mál áður en ákvörðun er tekin í því um rétt til niðurfellingar lána.
Í máli þessu háttar svo til að kærandi hefur borið því við að við mat þess hvort hann eigi aðfararhæfar eignir hafi ekki verið tekið tillit til skuldar sem til hafi stofnast við bifreiðakaup. Hefur hann lagt fram skjöl því til staðfestingar, án þess að séð verði að tekin hafi verið afstaða til þess af hálfu Íbúðalánasjóðs. Þá er að auki ósamræmi milli þess sem kærandi hefur upplýst um eignir sínar, bankainnstæður og hlutabréf, og þess sem ráða má af gögnum sem stafa frá Íbúðalánasjóði. Þá hefur kærandi á því byggt að hann eigi rétt til þess að frá aðfararhæfum eignum verði dregin tvenn mánaðarlaun, en ekki verður séð að afstaða hafi verið tekin til þess af hálfu Íbúðalánasjóðs.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður því að fella hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs úr gildi og leggja fyrir Íbúðalánasjóð að taka málið aftur til efnislegrar meðferðar.
Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kæranda, dags. 13. apríl 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þessi frestur er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010, sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal