Hoppa yfir valmynd

A-353/2011. Úrskurður frá 10. janúar 2011

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 10. janúar 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-353/2011.

 

 

Kæruefni, málsatvik og málsmeðferð

Þann 8. október 2010 kærði [...] þá ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 9. september 2010 að synja henni um að aðgang að tveimur minnisblöðum ráðuneytisins um jörðina [A] og [B] í Suður-Þingeyjarsýslu.

 

Forsaga máls þessa er sú að kærandi fór þess á leit við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í lok ágúst 2010 að fá aðgang að þeim gögnum sem ráðuneytið hefði í vörslum sínum og vörðuðu jörðina [A] og [B]. Var aðgangur veittur að ýmsum gögnum en með tölvubréfi, dags. 9. september 2010, synjaði ráðuneytið um aðgang að tveimur minnisblöðum með vísan til 4. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996.

 

Með bréfi, dags. 13. október 2010, var kærandi upplýstur um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði móttekið kæru hans. Sama dag var kæran send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna til 22. sama mánaðar. Óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir því að sér yrðu látin í té afrit af umbeðnum minnisblöðum innan sama frests.

 

Minnisblöðin ásamt athugasemdum ráðuneytisins bárust úrskurðarnefndinni 18. október. Þar kom m.a. fram að ráðuneytið teldi minnisblöðin falla undir vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Þau hefðu verið unnin af starfsmanni og ráðuneytisstjóra landbúnaðarráðuneytisins fyrir ráðherra til nota innan ráðuneytisins. Þau hefðu ekki að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki yrði aflað annars staðar frá.

 

Kæranda voru kynntar athugasemdir ráðuneytisins með bréfi, dags. 20. október, og veittur frestur til að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar. Frekari athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefndinni ekki.

 

Niðurstöður

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka ákvæði þeirra til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Meginregla upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum hjá stjórnvöldum kemur fram í 3. gr. laganna. Sá upplýsingaréttur sem þar er kveðið á um sætir takmörkunum samkvæmt nánari fyrirmælum 4.-6. gr. upplýsingalaga.

 

Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til „vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá.“

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér umrædd minnisblöð. Annað minnisblaðið er dags. 21. september 1987 en hitt er ódagsett en af efni þess og upplýsingum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu má ráða að það sé ritað á tímabilinu janúar 1983 til nóvember 1984. Ljóst er að minnisblöðin eru rituð af starfsmanni og ráðuneytisstjóra landbúnaðarráðuneytisins fyrir landbúnaðarráðherra og virðast samkvæmt efni sínu ætluð til eigin nota ráðuneytisins. Ekki liggja fyrir upplýsingar um að skjalið hafi verið afhent öðrum. Í minnisblöðunum koma fram vangaveltur um eignarréttindi ríkisins að hluta lands [A] og hvort aflétta beri kvöð samkvæmt afsali af jörðinni, og vangaveltur um það hvernig slíkt skuli gert. Minnisblöðin hafa hvorki að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu málsins né upplýsingar um staðreyndir sem ekki verður aflað annars staðar frá.

 

Að þessu athuguðu verður að telja að minnisblöð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins séu undanþegin upplýsingarétti almennings sem vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

 

 

Úrskurðarorð

Synjun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um aðgang að tveimur minnisblöðum ráðuneytisins um jörðina A og B er staðfest.

 

 Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

                     Sigurveig Jónsdóttir                                                      Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta