Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 64/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. desember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 64/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 29. apríl 2009 með rafrænni umsókn sem var staðfest skriflega þann 4. júní 2009. Kærandi krefst atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 27. apríl 2009 til 31. maí 2009 og kærði synjun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. júní 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í vottorði um skólavist vegna kæranda, dags. 3. júní 2009, kemur fram að hún er nemandi í B-deild Háskólans í Reykjavík. Þar er það vottað að hún var skráð í 8 ECTS einingar á vorönn 2009 og lauk prófi 24. apríl 2009. Hún er skráð í 22 einingar á haustönn 2009. Kærandi kveðst hafa lokið 40 ECTS einingum á skólaárinu 2008–2009 en það sé nóg til að uppfylla lágmarksskilyrði til þess að fá námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi ávallt verið í hlutastörfum með náminu og í fullri vinnu á sumrin. Seinasta starf kæranda hafi verið hjá X en kæranda hafi verið sagt upp þar vegna samdráttar í nóvember 2008.

Kærandi segir reglur um háskólanema hafi verið birtar þann 12. maí 2009 á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem fram hafi komið að háskólanemar myndu fá atvinnuleysisbætur frá 1. júní. Þar sem kærandi hafi verið búin í skólanum 24. apríl 2009 og eingöngu verið í einum áfanga hafi námslánin fyrir vorönnina verið 199.027 kr. þannig að ef miðað sé við að námslánin ættu að duga fyrir janúar til maí þá sé sú upphæð 49.756 kr. á mánuði. Kærandi kveðst hafa sótt um vinnu á mörgum vinnustöðum en alltaf fengið neitun. Hún hafi því sinnt þeirri skyldu sinni að vera í atvinnuleit. Hún hafi verið atvinnulaus og ekki í skóla frá 27. apríl til 31. maí 2009 og því algjörlega tekjulaus á því tímabili. Kærandi kveður kæru þessa lagða fram þar sem henni þyki ekki rétt að setja alla háskólanema undir einn hatt og biður hún því um undanþágu frá reglum um háskólanema á grundvelli þeirra óvenjulegu aðstæðna sem hún sé í. Tilgangur reglna um háskólanemendur sé að koma til móts við þá sem ekki hafa fengið starf í sumar vegna ástandsins í samfélaginu eftir hrun bankanna. Það sé eðlilegt að kærandi eigi möguleika á atvinnuleysisbótum frá því hún lauk skólanum í apríl því að hún hafi verið búin með þá vinnu sem hún þurfti að leysa af hendi til að fá námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Frá 27. apríl hafi kærandi verið á vinnumarkaði og samkvæmt reglum um háskólanema ætti hún þá að eiga rétt til atvinnuleysisbóta þar sem hún hafi hvorki verið í vinnu né í skóla á umræddu tímabili. Hefði kærandi verið í skóla í maí hefði hún fengið hærri námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna og ekki verið í vandræðum sökum launaleysis.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 15. september 2009, er vísað til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að ákvæði lagagreinarinnar sé mjög skýrt og taki berum orðum fram að sá sem stundi nám sé ekki tryggður á sama tímabili. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Það sé ljóst af tilvitnuðu ákvæði að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu meðan þeir stunda nám, heldur skuli námsmenn almennt leita til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Samkvæmt úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna skuli grunnframfærsla sýna lánsþörf námsmanns á námstíma sem teljist samkvæmt reglum lánasjóðsins níu mánuðir. Grunnframfærsla samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins sé þannig ákveðin sem 1/9 af mismuni framfærslugrunnsins, eins og hann sé á hverjum tíma og ráðstöfunartekna námsmanns. Þá byggist útreikningur á grunnframfærslu á þeim ECTS einingum sem námsmaður lýkur. Vinnumálastofnun hafi litið svo á að námsmenn geti ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og þeir njóti greiðslna frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Við gerð verklagsreglna um námsmenn hafi því verið horft til þess að þeir sem stunda lánshæft nám á vorönn og skráðir séu í áframhaldandi nám eftir sumarið, eigi rétt á framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna níu mánuði af árinu. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að það komi ekki til aukins réttar einstaklings til greiðslu atvinnuleysistrygginga ef þeir velja að vera í svo litlu námi að það skerði framfærslu þeirra hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. október 2009. Kærandi nýtti sér ekki þann rétt.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi var skráð í nám skv. c-lið 3. gr. á því tímabili sem hún hefur sótt um atvinnuleysisbætur fyrir. Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst kærandi ekki tryggð og á ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda fékk hún námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna til loka maí 2009. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til álita að meta stöðu hennar sérstaklega samkvæmt 2. eða 3. mgr. 52. gr. laganna.

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. júní 2009 að synja A um atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 27. apríl til 31. maí 2009 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta