Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 421/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 421/2022

Þriðjudaginn 11. október 2022

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. ágúst 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 17. ágúst 2022, um að synja umsókn hennar um lán til tryggingar húsaleigu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 15. júlí 2022, sótti kærandi um lán frá Reykjanesbæ til tryggingar húsaleigu. Umsókn kæranda var synjað 19. júlí 2022 og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjanesbæjar þá ákvörðun 17. ágúst 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 19. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjanesbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjanesbæjar barst úrskurðarnefndinni 9. september 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs og voru þær kynntar Reykjanesbæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. september 2022. Athugsemdir bárust frá Reykjanesbæ 29. september 2022 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. september 2022. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa þann 19. júlí 2022 sótt um lán hjá Reykjanesbæ til tryggingar á íbúð sem hún hafi fengið skyndilega. Kærandi hafi ekki fengið nein svör og ekki vitað hvert hún ætti að snúa sér. Kæranda hafi verið sagt að fundur yrði í vikunni á eftir, eða strax eftir verslunarmannahelgi. Kærandi hafi beðið þangað til og svo fengið þau svör að nefndarfundurinn yrði ekki fyrr en 17. ágúst 2022 sem hafi verið miður því að henni hafi verið skylt að greiða trygginguna fyrir íbúðinni. Annars hefði kærandi endað á götunni og barnavernd hafi verið búin að tala um að börn hennar yrðu þá fjarlægð. Kærandi hafi þá eðlilega borgað trygginguna og þá í þeirri trú að hún fengi endurgreitt frá Reykjanesbæ í kringum 17. ágúst þar sem hún ætti alveg rétt á þessu. Það að borga trygginguna hafi sett kæranda í mínus og hún hafi fengið lán hér og þar hjá fólki í kringum sig með loforð um að borga til baka þar sem hún hafi hvergi fengið þau svör að hún ætti ekki þennan rétt. Kærandi hafi síðan fengið synjun sem hún skilji ekki en svo virðist sem það sé vegna þess að hún hafi borgað trygginguna. Það gleymist þó að hún hafi beðið eftir svari í mánuð. Sveitarfélagið hafi ekki getað hjálpað kæranda við að fá íbúð og geti ekki heldur aðstoðað með tryggingu sem kærandi skilji ekki. Kærandi hafi ekki sótt um styrk heldur lán sem hún myndi borga til baka á þessum 36 mánuðum sem hún hafi til þess að borga.

Kærandi tekur fram að skólaganga barna hennar sé að hefjast og hún eigi ekki eina einustu krónu til þess að standa undir því. Kærandi hefði aldrei borgað trygginguna á undan ef hún hefði vitað að henni yrði neitað aðeins með vísan til þess en mögulega hefði hún þá endað á götunni. Kærandi viti hvað hún og börn hennar eigi rétt á og þetta geti ekki talist eðlilegt. Kærandi óski því eftir að mál hennar verði skoðað betur.

Í athugasemdum kæranda er tekið fram að Reykjanesbær reyni að fría sig ábyrgð í málinu. Ekki hafi verið minnst á lán vegna tryggingar frá árinu 2018, enda hafi hún ekki haft minnsta grun um það hefði verið lán. Það sé fyrst núna sem hún hafi vitneskju um eitthvert lán. Þá hafi það ekki verið nefnt við kæranda þegar henni hafi verið tilkynnt um niðurstöðu ákvörðunar í ágúst. Þegar kærandi hafi sótt um aðstoð vegna tekjumissis og biðar eftir örorku hafi henni ekki verið sagt að hún þyrfti að borga til baka í heilu lagi. Á meðan hafi hún ekki getað borgað leigu sem hún hafi orðið að borga upp og hún hafi sýnt fram á það. Þarna hafi kærandi þurft að velja og hafna hvað ætti að borga strax og hvað ekki. Hún hafi sent þrjá tölvupósta varðandi það en ekki fengið nein svör frá mars til ágúst. Það hafi síðan farið í innheimtu en mögulega hefði kærandi getað borgað það og byrjað að borga það fyrr ef hún hefði yfirhöfuð fengið svör varðandi það. Ekki sé hægt að sakast við kæranda með þetta. Kærandi viti að hún eigi rétt á þessu eins og hver önnur einstæð móðir. Kærandi sé ein, enda sé móðir hennar að leita sér að húsnæði og þurfi að nota sitt í það. Ekki sé hægt að telja þær tekjur með. Allt sem kærandi fái frá móður sinni þurfi hún að borga til baka. Á bankareikningi kæranda 9. september 2022 séu 700 kr. því að í september hafi hún þurft að greiða það sem hún hafi fengið lánað í ágúst. Hefði kærandi fengið trygginguna hefði hún getað borgað þessa greiðslu sem hún hafi samið um með trygginguna. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið 540.000 kr. útborgað sé hún í mínus þar sem hún hafi borgað 585.000 kr. í ágúst og að auki þá aðstoð sem hún hafi fengið í ágúst. Það dæmi gangi alls ekki upp. Kærandi hafi ekki heldur getað borgað neina reikninga núna en það sé bara vegna þess að hún hafi átt von á aðstoð frá Reykjanesbær í þetta skiptið. Síðast þegar kærandi hafi beðið um aðstoð hjá barnavernd varðandi húsnæðismál hafi verið hótað að taka börnin af henni. Þess vegna hafi kærandi borgað trygginguna með leigunni en hún hafi viljað fá íbúðina, þrátt fyrir að hún sé alltof lítil. Kærandi hafi óskað eftir aðstoð varðandi húsnæði en nú viti hún til þess að öðrum sé úthlutað íbúðum hingað og þangað eftir að ekki hafi verið hægt að aðstoða hana. Nú ætli Reykjanesbær ekki heldur að aðstoða hana vegna láns sem hún hafi verið tilbúin að borga með mánaðarlegum greiðslum. Einnig hefði verið hægt að taka hitt lánið með. Það sé klúður sveitarfélagsins að ræða það ekki við kæranda þar sem hún hafi ekki haft hugmynd um það. Kærandi hafi verið tilbúin til alls til þess að fá þessa aðstoð. Kærandi viti um fólk sem hafi fengið miklu hærri lán hjá Reykjanesbæ og því séu þessi svör svolítið furðuleg.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er tekið fram að hún uppfylli öll þau skilyrði sem Reykjanesbær hafi vísað til. Hún hafi ætlað að láta Reykjanesbæ leggja inn á leigusalann og hann myndi endurgreiða það sem hún hafi greitt þegar hún hafi fest íbúðina. Varðandi lánið frá 2018 hafi kæranda verið sagt að það væri innifalið í leigunni.

Í umsókn kæranda hafi hún einnig sagt að hægt væri að setja allar skuldir saman og hún myndi borga það mánaðarlega. Kærandi harmi að sú greiðsla standi þarna en það hefði verið fínt ef Reykjanesbær hefði kynnt henni það mál frá upphafi svo að hægt hefði verið að gera ráðstafanir með það. Árið 2018 hafi verið mjög erfitt fyrir kæranda. Hún hafi verið ófrísk og hafi alveg gleymt því hvernig þetta hafi farið fram. Kærandi geti þó að minnsta kosti tekið ábyrgð á því en það sama eigi ekki við um alla í málinu.

Kærandi hafi þurft að hringja í sveitarfélagið til að fá upplýsingar um greiðslu lánanna og þar hafi henni verið tilkynnt að hún gæti samið. Ekki hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá félagsráðgjafa. Þessi reikningsdæmi séu ansi skrýtin. Kæranda hafi verið hótað að hún myndi missa börnin frá sér ef hún myndi ekki finna íbúð áður en hún myndi missa hina. Þess vegna hafi kærandi þurft að borga þetta sjálf úr eigin vasa þangað til hún fengi til baka frá Reykjanesbæ. Þrátt fyrir að kærandi sé öryrki eigi hún alveg eins rétt á þessu og aðrir. Kærandi geti vel borgað þessi lán en nú sé hún alveg auralaus í september þar sem hún hafi lent í þessum mínus.

III.  Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi verið skjólstæðingur félagsþjónustunnar í nokkur ár. Þann 15. júlí hafi kærandi sent inn umsókn um fjárhagsaðstoð þar sem hún hafi óskað eftir láni fyrir tryggingu á íbúð. Kærandi sé öryrki og fái greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Við undirbúning erindis til áfrýjunar velferðarráðs hafi verið óskað eftir gögnum um tekjur kæranda og útgjöld. Þar sem kærandi hafi áður sótt um fjárhagsaðstoð hafi verið fyrirliggjandi skattframtal og staðgreiðsluskrá en kærandi hafi einnig sent greiðsluáætlun fyrir árið 2022 frá Tryggingastofnun. Þá hafi kærandi sent í tölvupósti lista yfir útgjöld og skjáskot af einkabanka með skýringum á færslunum. Ein af þeim færslum hafi verið millifærsla að upphæð 585.000 kr. til leigusala hennar, bæði trygging og leiga. Kærandi hafi því náð að greiða leigutrygginguna og leiguna þau mánaðamótin. Auk þess hafi verið kannað hjá innheimtustjóra Reykjanesbæjar hvort kærandi ætti einhver útistandandi lán hjá sveitarfélaginu og hverjar eftirstöðvarnar væru af þeim lánum. Kærandi hafi verið með alls fjögur lán hjá Reykjanesbæ. Eitt þeirra hafi verið lán fyrir húsaleigutryggingu sem hún hafi fengið árið 2018 að upphæð 112.000 kr. Kærandi hafi greittt fjórar afborganir að fjárhæð 6.222 kr. árið 2019 en ekki greitt af því eftir það. Eftirstöðvar lánsins séu 87.112 kr. Kærandi hafi einnig fengið framfærslulán þrjá mánuði í röð að upphæð 174.297 kr. á mánuði frá janúar til mars 2022, alls 522.891 kr. Hún hafi átt að greiða þau lán upp að fullu þegar umsókn um örorku hefði verið samþykkt. Að mati kæranda hafi hún ekki haft tök á því að greiða öll lánin upp í einni greiðslu. Því hafi láninu verið dreift á 36 mánuði og hún hafi átt að byrja að greiða af því þann 1. september. Kærandi hafi enn ekki greitt fyrstu greiðslu af láninu og skuldi því Reykjanesbæ 610.003 kr.

Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi komist að þeirri niðurstöðu að synja bæri umsókn kæranda um lán fyrir húsaleigutryggingu að upphæð 390.000 kr. Þrjár ástæður hafi verið gefnar fyrir því hvers vegna umsókninni hafi verið synjað. Í fyrsta lagi hafi kærandi þegar greitt trygginguna fyrir íbúðinni. Í öðru lagi hafi verið talið að tekjur kæranda væru nægar til þess að geta greitt trygginguna og til að framfleyta henni og fjölskyldunni út mánuðinn en hún sé með samanlagðar útborgaðar tekjur að upphæð 540.733 kr. frá Tryggingastofnun, húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjanesbæ. Einnig hafi verið horft til þess að kærandi og móðir hennar reki saman heimili og deili rekstrarkostnaði. Í þriðja lagi hafi erindinu verið synjað vegna þeirra útistandandi lána sem kærandi hafi fengið hjá Reykjanesbæ og ekki staðið í skilum með.

Í athugasemdum Reykjanesbæjar er vísað til þess að kærandi hafi þann 8. nóvember 2018 skrifað undir léttgreiðslusamning þar sem fram komi að um léttgreiðslusamning sé að ræða og hvernig hann verði innheimtur. Ásamt því hafi kærandi skrifað undir þrjár skuldaviðurkenningar þann 11. janúar 2022, 31. janúar 2022 og 28. febrúar 2022 þar sem fram komi að „ofangreint lán verður greitt að fullu fyrir 01.06.2022, verði umsókn um örorku samþykkt.“

Kærandi sé öryrki og fái greiddan örorkulífeyri. Þar af leiðandi falli hún ekki undir reglur um fjárhagsaðstoð þar sem tekjur hennar séu yfir mörkum. Hún hafi því óskað eftir undanþágu frá reglum um fjárhagsaðstoð sem hafi farið fyrir áfrýjunarnefnd. Í 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð komi fram það skilyrði að önnur lán sem viðkomandi kann að hafa fengið hjá velferðarsviði verði að vera að fullu greidd eða í skilum. Það eigi ekki við um kæranda og þar af leiðandi hafi verið litið svo á að ekki væri hægt að veita undanþágu frá reglum um fjárhagsaðstoð.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjanesbæjar um að synja umsókn kæranda um lán til tryggingar húsaleigu.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 23. gr. reglna Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð er fjallað um lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu og til tryggingar húsaleigu. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að veita þeim sem hafi fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum, í mánuðinum sem sótt er um og þrjá mánuði þar á undan, lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu og/eða til tryggingar leiguhúsnæðis, samanlagt að hámarki 600.000 kr. Í 5. mgr. ákvæðisins kemur fram að aðstoð á grundvelli 23. gr. sé að hámarki veitt einu sinni á ári og að því skilyrði uppfylltu að önnur lán sem viðkomandi kunni að hafa fengið hjá velferðarsviði séu að fullu greidd eða í skilum.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um lán að fjárhæð 390.000 kr. til tryggingar húsaleigu. Umsókn kæranda var synjað og hefur Reykjanesbær vísað til þess að þrjár ástæður hafi verið fyrir þeirri synjun. Í fyrsta lagi hafi kærandi þegar greitt trygginguna fyrir íbúðinni. Í öðru lagi hafi tekjur kæranda dugað til að greiða trygginguna og til að framfleyta fjölskyldunni út mánuðinn. Í þriðja lagi sé kærandi með útistandandi lán hjá Reykjanesbæ sem hún hafi ekki staðið í skilum með.

Samkvæmt gögnum málsins þáði kærandi hvorki fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ í mánuðinu sem hún sótti um framangreint lán né í þrjá mánuði þar á undan. Þá var kærandi ekki í skilum með lán sem hún hafði fengið frá sveitarfélaginu. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 23. gr. reglna Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 19. ágúst 2022, um að synja umsókn A, um lán til tryggingar húsaleigu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta