Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 13/2003:

 

A

gegn

Fangelsismálastofnun ríkisins

 

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 31. mars 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru B, f.h. A, sem barst 16. október 2003, óskaði kærandi eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Fangelsismálastofnun ríkisins bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við veitingu reynslulausna úr fangelsi. 

Kæran var kynnt Fangelsismálastofnun ríkisins með bréfi, dags. 25. nóvember 2003. Var þar, með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, óskað eftir afstöðu Fangelsismálastofnunar ríkisins til kærunnar og er umsögn stofnunarinnar dagsett 26. nóvember 2003. Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir ítarlegri upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins með bréfi, dags. 3. desember 2003, og er sú umsögn dagsett 22. desember 2003. Kæranda voru kynntar umsagnir Fangelsismálastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 2. janúar 2004. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Í máli þessu telur kærandi, að Fangelsismálastofnun ríkisins mismuni föngum á grundvelli kynferðis við veitingu reynslulausna skv. 40. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og brjóti þannig gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. 

Um framkvæmd veitinga reynslulausna úr fangelsi hér á landi fer eftir 40.–42. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og reglugerð um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993. Í 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga kemur fram sú meginregla að þegar fangi hefur afplánað tvo þriðju hluta refsitímans geti Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðið að fanginn skuli látinn laus til reynslu. Í 2. mgr. 40. gr. laganna er ákvæði sem heimilar stofnuninni að veita reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans ef sérstaklega stendur á. Í reglugerð um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993, eru nánari ákvæði um túlkun framangreindra ákvæða.

Af hálfu Fangelsismálastofnunar ríkisins er ekki fallist á að við veitingu reynslulausna hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000.

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er því haldið fram að það fyrirkomulag hafi verið viðhaft við veitingu reynslulausna úr fangelsi að konum sé almennt veitt reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsivistar. Körlum sem afpláni dóma vegna brota sem greind eru í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993, sé hins vegar ekki veitt reynslulausn fyrr en eftir að hafa afplánað tvo þriðju hluta refsitímans. Að mati kæranda virðist ekki vera höfð hliðsjón af brotaflokki kvenna við ákvarðanir á reynslulausn skv. 3. mgr. 5. gr. tilvísaðrar reglugerðar. Kærandi telur þetta fara gegn 40.–42. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og reglugerð um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993. Fram kemur hjá kæranda að við veitingu reynslulausna beri að meta hvert tilvik sjálfstætt og með tilliti til aðstæðna hverju sinni. Óheimilt sé að gert sé upp á milli fanga á grundvelli kynferðis við veitingu reynslulausnar og sé það brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kærandi tekur fram að hann geti ekki stutt mál sitt skriflegum gögnum þar sem fangar hafi ekki fengið aðgang að gögnum sem færi sönnur á kæruefnið, en byggt sé á frásögnum fanga að því er þetta varðar.

 

IV

Sjónarmið Fangelsismálastofnunar ríkisins

Fram kemur í greinargerð Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 26. nóvember 2003, að skv. 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, geti Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðið að fangi sé látinn laus er hann hafi afplánað tvo þriðju hluta refsitímans. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar megi stofnunin veita reynslulausn að afplánuðum helmingi refsitímans ef sérstaklega standi á. Í reglugerð um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993, séu nánari ákvæði um túlkun framangreindra ákvæða. Fangelsismálastofnun ríkisins fari í einu og öllu að gildandi lögum við afgreiðslu reynslulausnarbeiðna refsifanga, án tillits til kynferðis beiðenda, og séu forsendur í kærunni í öllum efnisatriðum rangar.

Kærunefnd jafnréttismála leitaði eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins um hvort rétt sé að konum sé almennt veitt reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsivistar, án tillits til ákvæða 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um veitingu reynslulausna kvenna árin 2002 og 2003, skipt eftir brotaflokkum í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993. Stofnunin upplýsti að reynslulausnarbeiðnir refsifanga væru afgreiddar samkvæmt gildandi lögum án tillits til kynferðis beiðenda. Beiðnir kvenfanga séu því afgreiddar með sama hætti og beiðnir karlfanga. Órökstudd fullyrðing kæranda um mismunun varðandi afgreiðslu reynslulausnarbeiðna karla annars vegar og kvenna hins vegar sé því röng. Fram kom að árin 2002 og 2003 hafi tveimur kvenföngum verið veitt reynslulausn vegna brota er féllu undir ákvæði 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma. Í öðru tilvikinu hafi verið um að ræða erlendan ríkisborgara er veitt hafi verið reynslulausn að afplánuðum helmingi refsitímans en hún hafi afplánað fangelsisrefsingu fyrir meiriháttar fíkniefnabrot. Hafi það verið í fullu samræmi við þá meginreglu að erlendum ríkisborgurum sem vísað er úr landi að lokinni afplánun sé veitt reynslulausn að afplánuðum helmingi refsitímans að öðrum skilyrðum fullnægðum. Eigi það jafnt við um kven- og karlfanga. Í hinu tilvikinu hafi verið um að ræða konu er dæmd hafði verið fyrir meiriháttar líkamsárás og hafi henni verið veitt reynslulausn að afplánuðum tveimur þriðju hlutum refsitímans.

 

V

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort föngum sé mismunað eftir kynferði við veitingu reynslulausnar úr fangelsum hér á landi þannig að það brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Í máli þessu ber að líta til 22. gr. laganna, en þar segir í 1. mgr. að hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil.

Kærandi telur að Fangelsismálastofnun ríkisins mismuni föngum eftir kynferði við veitingu reynslulausna úr fangelsi. Hann telur að konum sem afplána dóma fyrir manndráp, ofbeldis- eða kynferðisbrot, meiriháttar fíkniefnabrot, brennu eða annað almennt hættubrot, rán, eða annað afbrot sem er sérlega gróft brot, sé almennt veitt reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsitímans, en körlum sem afplána refsivist fyrir sömu brot sé ekki veitt reynslulausn fyrr en eftir að hafa afplánað tvo þriðju hluta refsitímans.

Um framkvæmd veitinga reynslulausna úr fangelsi hér á landi fer eftir 40.–42. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og reglugerð um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993. Í 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga kemur fram sú meginregla að þegar fangi hefur afplánað tvo þriðju hluta refsitímans geti Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðið að fanginn skuli látinn laus til reynslu. Í 2. mgr. 40. gr. laganna er ákvæði sem heimilar stofnuninni að veita reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans ef sérstaklega stendur á. Í reglugerð um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993, eru nánari ákvæði um túlkun framangreindra ákvæða.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 er að finna nánari reglur um veitingu reynslulausnar. Þar kemur fram að ýmsar aðstæður geta leitt til þess að fangar fái ekki reynslulausn, svo sem ef fangi á ólokið máli í refsivörslukerfinu, ef fangi er síbrotamaður, auk þess sem sérreglur gilda um afplánun blandaðra skilorðsdóma.

Upplýst hefur verið í málinu að á árunum 2002 og 2003 hafi tveimur kvenföngum verið veitt reynslulausn vegna brota sem falla undir ákvæði 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma. Af greinargerð Fangelsismálastofnunar ríkisins verður ekki annað ráðið en að beiðnir kvenfanga um reynslulausn úr fangelsi séu afgreiddar með sama hætti og beiðnir karlfanga, sbr. nánar hér að framan.

Um heimildir Fangelsismálastofnunar ríkisins til að veita föngum lausn úr refsivist áður en refsitími er liðinn eru eins og áður er rakið ákvæði í almennum hegningarlögum og í reglugerð um fullnustu refsidóma. Í málinu liggur einnig fyrir á hvern hátt Fangelsismálastofnun ríkisins afgreiddi beiðni þeirra tveggja kvenfanga sem óskuðu eftir reynslulausn á árunum 2002 og 2003. Að áliti kærunefndar jafnréttismála er því ekkert fram komið í máli þessu sem bendir til þess að við veitingu reynslulausna mismuni Fangelsismálastofnun ríkisins föngum eftir kynferði þannig að varði við almennt bann við mismunun í skilningi laga nr. 96/2000.

Samkvæmt framansögðu er það álit kærunefndar jafnréttismála að Fangelsismálastofnun ríkisins hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Ása Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta