Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 287/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 287/2021

Fimmtudaginn 28. október 2021

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. júní 2021, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 26. maí 2021, um að synja beiðni hans um samþykki fyrir því að ráða skyldmenni til starfa sem aðstoðarfólk vegna NPA samnings.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er með samning við Kópavogsbæ í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) sem kveður á um sólarhringsþjónustu, eða 730 klukkustunda aðstoð í mánuði. Með erindi, dags. 13. apríl 2021, óskaði kærandi eftir samþykki Kópavogsbæjar fyrir því að ráða skyldmenni til að starfa sem aðstoðarfólk vegna NPA samnings. Með ákvörðun þjónustudeildar fatlaðra, dags. 26. maí 2021, var þeirri beiðni synjað með vísan til 3. mgr. 13. gr. reglna Kópavogsbæjar um NPA. Í ljósi þess að systkini kæranda hefðu sinnt allri þjónustu við hann var fallist á að þau myndu sinna þjónustunni í einu stöðugildi til 31. desember 2021 en við endurnýjun samnings árið 2022 yrði ekki heimilt fyrir kæranda að ráða móður sína eða systkini sem aðstoðarfólk.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 11. júní 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júní 2021, var óskað eftir greinargerð Kópavogsbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 11. ágúst 2021 og var hún send réttindagæslumanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2021. Rökstuðningur fyrir kæru barst frá umboðsmanni kæranda 14. september 2021 og var hann sendur Kópavogsbæ til kynningar þann sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í rökstuðningi fyrir kæru vísar kærandi til þess að það sé almennt svo að vinnuveitanda sé frjálst að stofna til vinnusambands við launþega sína og haga því eftir því sem lög og reglur kveði á um. Takmarkanir á því hverja megi ráða þurfi þannig að eiga sér stoð í lögum, í samræmi við lögmætisreglu. Þess háttar takmarkanir megi meðal annars finna í VI. kafla laga nr. 38/2018. Í því samhengi sé álitamál um lagastoð fyrir ákvæði 3. mgr. 13. gr. reglna Kópavogsbæjar um notendastýrða persónulega aðstoð, það er að leggja megi til almennt íþyngjandi viðmið hverja NPA notendur megi ráða, umfram það sem kveðið sé á um í VI. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Áðurnefnd regla bæjarins byggi á eftirfarandi málsgrein í handbók félagsmálaráðuneytisins um NPA:

„Í reglum sveitarfélags um NPA skal kveðið á um þátttöku foreldra, maka, systkina eða annarra náinna skyldmenna í aðstoðinni. Í ljósi hugmyndafræði, sem hefur sjálfstætt líf að meginmarkmiði, hníga rök að því að það sé ekki í anda hennar að aðstandendur gegni teljandi hlutverki við NPA nema mikilvægar málefnalegar ástæður séu fyrir þeirri tilhögun.“

Það verði að teljast álitamál, eitt og sér, hvort byggja megi íþyngjandi reglu á málsgrein í handbók. En eins og sjá megi geri orðalagið ráð fyrir þátttöku foreldra og systkina. Samkvæmt þeirri meginreglu að ákvarðanir að félagslegum rétti skuli vera umsækjendum ívilnandi frekar en íþyngjandi sé því enn fremur álitamál hvort sveitarfélaginu sé þar með heimilt að leggja til almenna íþyngjandi reglu, hvar umsækjendum sé ætlað að leggja fram rökstuðning fyrir undanþágu, í stað þess að sveitarfélagið móti sér reglur um til að mynda sértækar ástæður eða aðstæður þar sem grípa megi í sjálfstæði vinnuveitandans og vinnusamband hans við aðstandendur.

III.  Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um sólarhringsþjónustu í formi NPA samnings með umsókn, dags. 24. janúar 2019. Á fundi þjónustudeildar fatlaðra þann 28. febrúar sama árs hafi eftirfarandi bókun verið gerð: „Samþykktir 173 tímar (eitt stöðugildi) í stuðningsþjónustu en umsókn um sólarhringsþjónustu synjað á grundvelli 6. gr. reglna um stuðningsþjónustu þar sem kveðið er á um hámarksaðstoð. Umsókn um NPA samning frestað þangað til frekara mat liggur fyrir.“ Á fundi þjónustudeildar fatlaðra þann 4. febrúar 2020 hafi verið samþykktur NPA samningur upp á 487 tíma á mánuði. Umsókn um 243 tíma hafi verið synjað á grundvelli fjárhagsáætlunar. Þann 15. október 2020 hafi verið kveðinn upp úrskurður af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem synjunin hafi verið felld úr gildi. Á fundi þjónustudeildar fatlaðra þann 26. janúar 2021 hafi umsókn kæranda um sólarhringsþjónustu því verið tekin fyrir að nýju og eftirfarandi bókun gerð:

„Í 3. mgr. 13. gr. reglna um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) fyrir fatlað fólk í Kópavogi segir að aðeins í undantekningar tilvikum sé heimilt að ráða til sín maka, sambýlisaðila eða náinn ættingja sem heldur heimili með notanda og í þeim tilfellum skal umsýsla samningsins ekki vera í höndum notandans. Ákvæði 3. mgr. 13. gr. gilda hins vegar ekki í þeim tilvikum sem foreldrar fatlaðra barna hafa sótt um NPA. Ef notandi ætlar að vera umsýsluaðili þarf hann að sækja um og hafa starfsleyfi til þess, eins og fram kemur í 11. gr. fyrrgreindra reglna Kópavogsbæjar. Í handbók um NPA frá apríl 2019 segir eftirfarandi:

Í ljósi hugmyndafræði NPA, sem hefur sjálfstætt líf að meginmarkmiði, hníga rök að því að það sé ekki í anda hennar að aðstandendur gegni teljandi hlutverki við NPA nema mikilvægar málefnalegar ástæður séu fyrir þeirri tilhögun.

Fyrir liggur að systkini notanda, sem eiga sama lögheimili og hann, sinna allri NPA þjónustu samkvæmt gildandi samningi. Þrátt fyrir að óvenjulegar aðstæður hafi skapast í tíð Covid, sem kunna að réttlæta að einhverju leyti að þjónustu sé sinnt af aðstandendum, verður að telja að það sé ekki í samræmi við hugmyndafræði NPA að það séu alfarið og einungis aðstandendur sem sinna þjónustunni. Telja verður að markmiðinu um sjálfstætt líf verði fremur náð þegar notandi er ekki alfarið háður fjölskyldu og heimilisfólki. Mikilvægt er að tryggt sé að fyrirkomulag þjónustunnar henti vel til þess að mæta stuðningsþörfum notanda ásamt því að stuðla að virku og sjálfstæðu lífi.

Fallist er á að veita notanda sólarhringsþjónustu með því fyrirkomulagi að aðstandendur sinni einungis hluta þjónustunnar en meirihluta þjónustunnar sé sinnt af hálfu annars aðstoðarfólks, sbr. 3. mgr. 17. gr. reglna um NPA. Óskað er eftir því að notandi veiti upplýsingar þar að lútandi þegar ráðningar liggja fyrir.“

Með erindi, dags. 13. apríl 2021, hafi kærandi óskað eftir samþykki Kópavogsbæjar fyrir því að ráða skyldmenni til að starfa fyrir sig sem NPA aðstoðarfólk. Kærandi hafi óskað eftir að ráða bróður sinn, sem hann hafi sagt að ætti lögheimili í sama húsi og hann en búi út af fyrir sig annars staðar í húsinu, sem sé fjölbýlishús á þremur hæðum. Þá hafi kærandi óskað eftir að ráða systur sína og móðurbróður sem hann hafi sagt bæði vera með lögheimili annars staðar og haldi ekki heimili með kæranda. Einnig hafi hann viljað ráða móður sína sem búi með honum í sömu íbúð. Kærandi hafi rökstutt beiðnina þannig að um væri að ræða einstaklinga sem hafi stutt hann og hann gæti treyst þeim. Þeir þekki sögu hans og hann þekki vel til þeirra og þeir veiti honum ákveðið öryggi. Kærandi hafi ekki fengið stuðning annars staðar. Kærandi hafi kveðist geta treyst þeim til að sinna sínum vinnuskyldum í hvívetna og virða hans ákvarðanir og óskir sem verkstjórnanda. Kærandi hafi kveðið þetta fyrirkomulag vera í samræmi við sýn sína á sjálfstætt líf með NPA og það væri hans að ákveða hver, hvar, hvernig og hvenær aðstoð væri veitt. NPA hafi breytt lífi hans til enn frekara sjálfstæðis og opnað dyr sem hann hafi oft komið að lokuðum.

Kópavogsbær tekur fram að í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018 segi að einstaklingur eigi rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi. Í 2. mgr. 11. gr. komi fram að aðstoðin skuli vera skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans. Þá segi í 4. mgr. 11. gr. að ráðherra gefi út reglugerð og handbók um framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, meðal annars um hlutverk og ábyrgð, skipulag og útfærslu, þar með talið viðmið um umfang þjónustu og lágmarksstuðningsþarfir, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila í samráði við sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Sveitarfélög beri ábyrgð á framkvæmd aðstoðarinnar og skulu setja nánari reglur þar um í samráði við notendaráð fatlaðs fólks eða samtök fatlaðs fólks, sbr. 5. mgr. 11. gr. Í 2. mgr. 30. gr. segi að þegar ákvörðun um þjónustu sé tekin skuli hún byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sæki og skuli ákvörðun tekin í samráði við umsækjanda.

Líkt og fram komi í greinargerð með lögum nr. 38/2018 sé notendastýrð persónuleg aðstoð þjónustuform sem byggist á hugmyndafræði um sjálfstætt líf fatlaðs fólks og sé til þess fallið að tryggja mannréttindi þess samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, enda geri það fötluðum einstaklingum kleift að ráða hvar og með hverjum það búi. Þannig stýri hinn fatlaði einstaklingur því hvernig aðstoðin sé skipulögð, hvenær og hvar hún fari fram og hver veiti hana. Þess vegna sé kveðið á um það í 2. mgr. að aðstoðin skuli vera skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans.

Í 2. kafla handbókar félagsmálaráðuneytisins um NPA frá apríl 2019 sé tekið fram að í reglum sveitarfélags um NPA skuli kveðið á um þátttöku foreldra, maka, systkina eða annarra náinna skyldmenna í aðstoðinni. Þar sé sérstaklega tekið fram að í ljósi hugmyndafræði, sem hafi sjálfstætt líf að meginmarkmiði, hnígi rök að því að það sé ekki í anda hennar að aðstandendur gegni teljandi hlutverki við NPA nema mikilvægar málefnalegar ástæður séu fyrir þeirri tilhögun. Í 2. mgr. 2. gr. reglna um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk í Kópavogi segi að NPA feli í sér að fatlað fólk velji sér það aðstoðarfólk sem það kjósi sjálft. Í 3. mgr. 13. gr. reglnanna segi að aðeins í undantekningartilvikum sé heimilt að ráða til sín maka, sambýlisaðila eða náinn ættingja sem haldi heimili með notanda. Í þeim tilfellum skuli umsýsla samningsins ekki vera í höndum notandans.

Fyrir liggi að Kópavogsbær beri ábyrgð á framkvæmd NPA í sveitarfélaginu. Í reglum bæjarins sé byggt á því að fatlað fólk velji að meginstefnu það aðstoðarfólk sem það kjósi sjálft en hins vegar séu gerðar takmarkanir á þátttöku náinna skyldmenna í aðstoðinni. Það sé þannig einungis í undantekningartilvikum heimilt að ráða til sín maka, sambýlisaðila eða náinn ættingja sem haldi heimili með notanda, sbr. 3. mgr. 13. gr. reglnanna. Ákvæði þetta hafi skírskotun í handbók félagsmálaráðuneytisins um NPA og hugmyndafræði sem hafi sjálfstætt líf að meginmarkmiði.

Eins og áður greini hafi kærandi óskað eftir samþykki fyrir því að ráða til sín fjögur skyldmenni, móður sem búi í sömu íbúð, bróður sem búi í annarri íbúð í sama húsi, systur sem búi annars staðar og móðurbróður sem búi annars staðar. Ekki hafi legið fyrir að aðrir aðilar yrðu fengnir til að sinna einhverjum hluta þjónustunnar. Kærandi hafi þannig óskað eftir því, þvert gegn fyrri niðurstöðu Kópavogsbæjar frá 26. janúar 2021, að aðstandendur sinntu alfarið þjónustunni og meirihluta þjónustunnar yrði sinnt af hálfu móður og systkina. Fyrir liggi að systkini kæranda hafa alfarið sinnt NPA þjónustunni hingað til. Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærandi hafi lagt fram um umrædda aðstandendur sé einungis móðir hans sem haldi heimili með honum, hinir þrír búi annars staðar. Hins vegar sé ekki hægt að horfa fram hjá því að kærandi búi með móður sinni og óski eftir að systir hans og bróðir sinni NPA á heimili móður þeirra allra, þar sem systkinin hafi bæði átt lögheimili þar til nýlega.

Líkt og vikið hafi verið að byggist ákvæði 3. mgr. 13. gr. reglna Kópavogsbæjar á því að það sé ekki í anda hugmyndafræði, sem hafi sjálfstætt líf að meginmarkmiði, að aðstandendur gegni teljandi hlutverki við NPA nema mikilvægar málefnalegar ástæður séu fyrir þeirri tilhögun. Telja verði að sömu sjónarmið eigi við um systkini kæranda í máli þessu og eigi almennt við um nána ættingja sem haldi heimili með kæranda, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglnanna, það er að það sé ekki í anda hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf að systkini sinni NPA á heimili móður sinnar og kæranda. Verði því að líta svo á að aðstæðum systkina kæranda í máli þessu megi jafna við þær aðstæður sem fram komi í 3. mgr. 13. gr. reglnanna. Verði því að líta svo á að kæranda sé því einungis heimilt að ráða þau til sín í undantekningartilvikum. Kópavogsbær ítreki það sem fram hafi komið í bókun á fundi þjónustudeildar fatlaðra að líta verði svo á að markmiðinu um sjálfstætt líf verði fremur náð þegar notandi sé ekki alfarið háður fjölskyldu og heimilisfólki. Mikilvægt sé að tryggja að fyrirkomulag þjónustunnar henti vel til þess að mæta stuðningsþörfum notanda ásamt því að stuðla að virku og sjálfstæðu lífi. Í tilvikum þar sem allt aðstoðarfólk fatlaðs einstaklings séu aðstandendur sem búi, eða hafi búið á sama heimili og viðkomandi sé jafnframt erfiðleikum háð að tryggja að þjónustan sé með þeim hætti að verið sé að veita nauðsynlegan stuðning til þess að skapa skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2018. Það sem fram hafi komið af hálfu kæranda sé fyrst og fremst að nefndir aðstandendur hafi stutt hann og þekki sögu hans, hann þekki þau og geti treyst þeim. Ekkert hafi komið fram um að hann hafi reynt að fá aðstoð frá öðrum og það hafi ekki gengið né annað sem leiði til þess að líta verði á að um svo sérstakar aðstæður sé að ræða að rétt sé að gera undanþágu. Verði þannig að telja að ekki séu efni til að fallast á að kæranda sé heimilt að ráða móður sína, bróður eða systur. Ekki sé ástæða til að gera athugasemd við ráðningu móðurbróður.

Í ljósi þess að systkini kæranda hafi sinnt allri NPA þjónustu fyrir kæranda samkvæmt gildandi samningi hafi með hinni kærðu ákvörðun verið fallist á aðlögunartímabil þar sem systkini notanda geti sinnt NPA þjónustu fyrir hann en það færi fram með einu stöðugildi til 31. desember 2021, en við endurnýjun samningsins 2022 yrði aftur á móti ekki heimilt fyrir kæranda að ráða móður sína eða systkini sem aðstoðarfólk.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Kópavogsbæjar frá 26. maí 2021 um að synja beiðni kæranda um samþykki fyrir því að ráða skyldmenni til starfa sem aðstoðarfólk vegna NPA samnings.

Markmið laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal þjónusta samkvæmt lögunum miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð og fleira.

Í 11. gr. laga nr. 38/2018 er fjallað um notendastýrða persónulega aðstoð en þar segir í 1. mgr. að einstaklingur eigi rétt á slíkri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi.  Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. skal aðstoðin vera skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans. Í 4. mgr. 11. gr. kemur fram að ráðherra gefi út reglugerð og handbók um framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, meðal annars um hlutverk og ábyrgð, skipulag og útfærslu, þar með talið viðmið um umfang þjónustu og lágmarksstuðningþarfir, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila í samráði við sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Þá segir í 5. mgr. ákvæðisins að sveitarfélög beri ábyrgð á framkvæmd aðstoðarinnar og setji sér nánari reglur um hana. 

Reglugerð nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð var sett með stoð í ákvæði 11. gr. laga nr. 38/2018. Í 8. gr. reglugerðarinnar er fjallað um leit að aðstoðarfólki. Þar segir að notanda standi til boða tvær leiðir við ráðningu aðstoðarfólks. Annars vegar að leita til umsýsluaðila sem aðstoði notendur við að auglýsa eftir aðstoðarfólki fyrir hönd notanda og annast umsýslu og starfsmannahald á grundvelli einstaklingssamnings um NPA. Aðstoðarfólk sé á launaskrá hjá þeim umsýsluaðila. Hins vegar að leita sjálfur að aðstoðarfólki hafi hann til þess starfsleyfi. Notandinn ráði sjálfur aðstoðarfólk á grundvelli einstaklingssamnings um NPA og annist umsýslu vegna hans.

Í 2. kafla handbókar félagsmálaráðuneytisins um NPA frá apríl 2019, sem gefin var út á grundvelli 4. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018, kemur meðal annars fram að það sé undir hverju sveitarfélagi komið og á ábyrgð þess hvaða leiðir það fari við framkvæmd NPA, innan ramma laga og reglugerða. Þá er einnig tekið fram að í reglum sveitarfélags um NPA skuli kveðið á um þátttöku foreldra, maka, systkina eða annarra náinna skyldmenna í aðstoðinni. Í ljósi hugmyndafræði, sem hafi sjálfstætt líf að meginmarkmiði, hnígi rök að því að það sé ekki í anda hennar að aðstandendur gegni teljandi hlutverki við NPA nema mikilvægar málefnalegar ástæður séu fyrir þeirri tilhögun.

Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum er sveitarfélögum falið að útfæra nánar framkvæmd NPA með setningu reglna þar um. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er sú útfærsla að meginstefnu lögð í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Þá segir meðal annars í 2. mgr. 35. gr. laga nr. 38/2018 að nefndin úrskurði um hvort ákvörðun hafi verið efnislega í samræmi við lögin og reglur sveitarfélaga settum á grundvelli þeirra.

Kópavogsbær hefur sett reglur um NPA á grundvelli laga nr. 38/2018 og reglugerðar nr. 1250/2018. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna segir meðal annars að NPA feli í sér að fatlað fólk velji sér það aðstoðarfólk sem það kjósi sjálft. Í 13. gr. reglnanna er fjallað um aðstoðarfólk en þar segir meðal annars að umsýsluaðili/notandi beri ábyrgð á ráðningu aðstoðarfólks í samvinnu við notanda. Þá segir í 2. mgr. 13. gr. reglnanna að samþykki notanda sé forsenda fyrir ráðningu aðstoðarfólks. Í 3. mgr. 13. gr. reglnanna kemur fram að aðeins í undantekningartilvikum sé heimilt að ráða til sín maka, sambýlisaðila eða náinn ættingja sem haldi heimili með notanda. Í þeim tilfellum skuli umsýsla samningsins ekki vera í höndum notandans. 

Líkt og að framan greinir óskaði kærandi eftir samþykki fyrir því að ráða skyldmenni sín sem aðstoðarfólk, nánar tiltekið móður sína, bróður, systur og móðurbróður. Kærandi býr á heimili móður sinnar, bróðir hans býr í sér íbúð í sama húsi og þau en systir hans og móðurbróðir eru búsett annars staðar. Ekki var gerð athugasemd við ráðningu móðurbróður og því kemur einungis til skoðunar hvort ráðning móður kæranda og systkina hans sé innan þess ramma sem Kópavogsbær hefur sett með reglum um NPA.

Kópavogsbær hefur vísað til þess að ákvæði 3. mgr. 13. gr. reglnanna byggist á því að það sé ekki í anda hugmyndafræði, sem hafi sjálfstætt líf að meginmarkmiði, að aðstandendur gegni teljandi hlutverki við NPA nema málefnalegar ástæður séu fyrir þeirri tilhögun. Verði að telja að sömu sjónarmið eigi við um systkini kæranda, það sé ekki í anda þeirrar hugmyndafræði að systkinin sinni NPA á heimili móður þeirra og kæranda. Jafna megi aðstæðum systkinanna við þær aðstæður er fram komi í 3. mgr. 13. gr.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreinda afstöðu Kópavogsbæjar. Í þeim reglum sem sveitarfélagið hefur sett eru eingöngu lagðar takmarkanir á það að heimilismenn verði ráðnir til að aðstoða einstakling með NPA. Þar sem systkini kæranda halda ekki heimili með honum var Kópavogsbæ ekki heimilt að synja beiðni hans um samþykki fyrir því að ráða þau til starfa sem aðstoðarfólk.

Hvað varðar móður kæranda er ljóst að hún heldur heimili með honum og kemur því til skoðunar hvort heimilt sé að veita undanþágu þannig að kærandi geti ráðið hana til starfa. Við það mat kemur til skoðunar, líkt og Kópavogsbær hefur vísað til, hversu miklu hlutverki hún kemur til með að gegna við NPA. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að slíkt mat þurfi að fara fram og þá með hliðsjón af niðurstöðu máls þessa um að kæranda sé heimilt að ráða systkini sín sem aðstoðarfólk. Við það mat þarf að vega og meta rétt kæranda til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum, sbr. markmiðsákvæði laga nr. 38/2018, og rétt hans til að skipuleggja aðstoðina á hans forsendum og undir verkstýringu og verkstjórn hans, sbr. 2. mgr. 11. gr. þeirra laga.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Kópavogsbæjar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 26. maí 2021, um að synja beiðni A, um samþykki fyrir því að ráða skyldmenni til starfa sem aðstoðarfólk vegna NPA samnings, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta