Nr. 353/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 16. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 353/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18050032
Beiðni […] og barna hennar um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 30. mars 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2017, um að synja umsóknum […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefnd kærandi), og barna hennar, […], fd. […], […], fd. […] og […], fd. […], um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 3. apríl 2017. Þann 8. apríl 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 28. apríl 2017. Þann 22. maí 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn. Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kæranda og barna hennar var synjað af kærunefnd þann 8. júní 2017. Þann 3. júlí 2017 barst kærunefnd kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar um að brottvísa kæranda frá landinu. Úrskurður kærunefndar, dags. 22. ágúst 2017, þar sem sú ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest var birtur kæranda þann 4. september 2017. Síðan hafa kærunefnd borist fjórar beiðnir frá kæranda um endurupptöku mála hennar og barna hennar, n.t.t. þann 14. ágúst 2017, 10. október 2017, 8. desember 2017 og 23. janúar 2018. Kærunefnd synjað þessum beiðnum með úrskurðum dags. 31. ágúst 2017, 26. október 2017, 11. janúar 2018 og 8. mars 2018.
Þann 11. maí 2018 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins og sama dag barst kærunefnd greinargerð kæranda. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 16. júlí sl. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 19. júlí 2018 ásamt talsmanni sínum. Þá bárust nefndinni viðbótarathugasemdir kæranda ásamt frekari gögnum þann 2. ágúst 2018.Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar byggir aðallega á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hennar og barna hennar hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í sameiginlegri endurupptökubeiðni kæranda og barna hennar heldur kærandi því fram að aðstæður fjölskyldunnar hafi breyst verulega. Eiginmaður kæranda og barnsfaðir hafi [...]. Þann 9. maí síðastliðinn hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá lögreglu að eiginmaður hennar hafi þá verið staddur á Ítalíu. Staða kæranda og barna hennar hafi versnað mikið eftir [...], en hann hafi verið fyrirvinna fjölskyldunnar og mikilvirkur þátttakandi í uppeldi barna sinna. Í dag sé kærandi [...] móðir með þrjú börn.
Þá er í endurupptökubeiðninni bent á að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og að íslenskum stjórnvöldum beri að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Þá er vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Kærandi heldur því fram í greinargerð að það sé andstætt íslenskum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda að senda þrjú ung börn úr landi með [...] móður sinni. Sú heild sem fjölskyldan áður var sé ekki lengur til staðar.
Líkt og fram hafi komið í áliti sálfræðings sem skilað hafi verið inn með fyrri beiðni kæranda um endurupptöku þá þjáist kærandi af andlegum kvillum. Eftir [...] eiginmanns kæranda hafi andleg líðan hennar versnað mikið. Staða kvenna í […] sé bágborin og þær aðstæður sem mæti [...] móður með þrjú börn séu aðrar og verri en aðstæður sem mæta sameinaðri fjölskyldu þar sem báðir foreldrar séu til staðar.
Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hennar og barna hennar verði tekið upp að nýju. Er því farið fram á að mál kæranda og barna hennar verði tekið upp að nýju og þeim verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er farið fram á að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga.
Viðbótarathugasemdir kæranda bárust þann 2. ágúst 2018. Í þeim eru svör kæranda við spurningum kærunefndar í viðtali við hana ítrekuð og frekari útskýringar gefnar. Í athugasemdunum greinir kærandi frá því að á fundi hennar með kærunefndinni hafi hún heimilað nefndarmeðlimum að skoða farsíma sinn að beiðni nefndarinnar. Eftir að hafa skoðað farsímann hafi nefndin vakið athygli kæranda á því að búið var að eyða smáskilaboðum sem og gögnum úr forritinu Whatsapp sem hafi verið eldri en um fjögurra mánaða, en eiginmaður kæranda hafi [...]. Kærunefndin hafi lýst yfir áhuga sínum á að skoða eldri gögn úr farsímanum. Kærandi tekur fram í greinargerð að hún hafi reynt að afla umræddra gagna en án árangurs. Kærandi hafi kannað hvort símafyrirtæki hennar hafi afrit af eldri skilaboðum en svo sé ekki, því til stuðnings vísar kærandi til bréfs, sem fylgdi greinargerðinni, frá símafyrirtækinu. Þá sé farsími kæranda gamall og með lítið geymslupláss og því þurfi hún reglulega að eyða gögnum úr símanum. Til að sýna fram á að hún hafi ekkert að fela sé hún reiðubúin að veita nefndinni aðgang að tölvupósti sínum.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að úrskurður í máli hennar hafi verið byggður á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin og er í því sambandi vísað til stöðu kæranda sem [...] þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sé hann nú staðsettur á Ítalíu.
Í úrskurði kærunefndar, dags. 30. mars 2017, grundvallaðist mat á félagslegum aðstæðum kæranda við endurkomu til […] m.a. á því að eiginmaður hennar myndi fylgja henni og börnum þeirra til heimaríkis en þar var m.a. vísað til þess að eiginmaður hennar ætti þar fjölskyldu. Í ljósi fyrrgreinds úrskurðar kærunefndar er það mat nefndarinnar að þær nýju upplýsingar sem komið hafa fram við meðferð þessa máls, þ.e. að eiginmaður kæranda sé [...] og staða kæranda sé því breytt m.a. að því leyti að kæmi til þess að kæranda yrði snúið aftur til […] myndi hún ekki njóta stuðnings eiginmanns þar, séu þess eðlis, þegar litið er heildstætt á málsatvik og þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar upphaflegur úrskurður féll í máli kæranda, að líta verði svo á að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Til viðbótar við skýrslur sem vitnað var til í úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli kæranda frá 30. mars 2017 nr. 186/2017 hefur kærunefnd lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
[…]
Í framangreindum gögnum kemur m.a. fram að félagslegt kerfi á vegum stjórnvalda í […] hafi lengi vel verið af skornum skammti. Þá hafi einstaklingar í erfiðri félagslegri stöðu, t.d. einstaklingar án atvinnu, þurft að reiða sig á aðstoð fjölskyldumeðlima. Árið […] hafi […] stjórnvöld samþykkt framkvæmdaáætlun […], en tilgangur hennar sé að draga úr fátækt, minnka ójöfnuð og auka lífsgæði […]. Þessum markmiðum skuli m.a. náð með því að koma á fót félagslegu kerfi þar sem hægt sé að sækja um fjárhagsaðstoð. Með aðgerðaráætluninni hafi aðgengi að félagslegri aðstoð hjá […] yfirvöldum aukist en þrátt fyrir það sé slík aðstoð skammt á veg komin.
[…] velferðarráðuneytið […] hafi verið sett á stofn í núverandi mynd árið […] og hafi ráðuneytið það hlutverk að sjá um stefnumótun, samræmingu og eftirlit með félagslegri vernd og málefnum kynjanna og barna. Meginmarkmið stofnunarinnar sé m.a. að stuðla að jafnrétti kynjanna, tryggja réttindi barna, eflingu kvenna og stúlkna auk þess að huga að velferð og afkomu efnalítilla fjölskyldna. Undir velferðarráðuneytið heyri m.a. stofnanir sem haldi utan um lögheimilisskráningu […] og mataráætlanir í skólum […].
Árið […] settu […] stjórnvöld á stofn styrktarsjóðinn […] sem heyrir nú undir velferðarráðuneytið. Tilgangur sjóðsins sé að veita þeim allra fátækustu í samfélaginu aðstoð í formi fjárhagsaðstoðar og sjúkratrygginga. Styrkurinn veiti börnum þessara fjölskyldna möguleika á að afla sér menntunar auk þess að veita fjölskyldunum tækifæri á að standa skil á skuldum sínum. Aðgengi að […] sé þó bundið við sárafátækar fjölskyldur með aldraða, fatlað fólk, munaðarlaus eða viðkvæm börn eða ungabörn undir tveggja ára aldri á sínu framfæri. Styrktarsjóður […] sé fjármagnaður af […] yfirvöldum, Alþjóðabankanum og bresku þróunarsamvinnustofnuninni […]. Einnig séu til staðar aðrar áætlanir á vegum stjórnvalda sem aðstoði fjölskyldur í efnahagslegum vanda við að borga skólamáltíðir og skólagjöld barnanna, en ofangreint […] hafi frá árinu […] tryggt börnum, úr fjölskyldum í efnahagslegum vanda, máltíð í skólanum. Þá sé hægt að sækja um sérstakan styrk sem tryggi öllum aðgengi að skólakerfinu. Sá styrkur hafi verið settur á laggirnar árið […] sem þáttur í að ná þúsundaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í þróunarmálum en í þeim felist aðgengi allra að menntun.
Markmið […] sé að koma á fót heildstæðri lögheimilisskrá […] í því skyni að auðvelda fátækum og viðkvæmum fjölskyldum að njóta félagslegrar aðstoðar […] stjórnvalda Tilgangur skráningarinnar sé að búa til gagnagrunn sem auðveldi stjórnvöldum og einstaklingum að afla sér þeirrar þjónustu sem þau þurfa á að halda. Skráð heimili séu flokkuð eftir því hversu fjárhagslega vel stæðar fjölskyldurnar séu og sé skráningin skyldubundin við umsókn um félaglega aðstoð. Stjórnvöld noti skránna við ákvörðun um veitingu félagslegrar aðstoðar. Þær fjölskyldur sem séu ekki skráðar fái t.a.m. hvorki aðgang að […] né […]. Á heimasíðu […] kemur fram að á síðustu áratugum hafi mikill hagvöxtur mælst í […] og að dregið hafi úr fátækt í landinu. Samkvæmt ofangreindri skýrslu um lífskjör í […] frá ágúst […] hafi um […] þjóðarinnar lifað fyrir neðan fátækramörk árið […] til samanburðar við árið […] þegar […] hafi verið í sömu stöðu.
Samkvæmt ofangreindum gögnum var tryggingarstofnun […] ríkisins […] stofnuð árið […]. Tryggingarkerfinu hafi verið komið á fót í þeim tilgangi að útrýma spillingu í heilbrigðiskerfinu, en fyrir þann tíma hafi einungis þeir sem hafi átt efni á að greiða fyrir þjónustuna haft aðgang að heilbrigðiskerfinu. Tilgangur stofnunarinnar sé að tryggja öllum aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu í […]. Þrátt fyrir að […] stjórnvöld séu treg til að fjármagna geðheilbrigðisþjónustu landsins þá sé slík þjónusta til staðar. Árið 2012 hafi lög um geðheilbrigði verið samþykkt, sem geri ráð fyrir því að stjórnvöld í […] setji upp svæðisbundnar geðheilbrigðisnefndir sem beri ábyrgð á eftirliti með geðheilbrigðisþjónustu landsins. Í […] séu starfrækt […] stór geðsjúkrahús sem veiti einstaklingum með geðræn vandamál viðeigandi meðferð. Einnig séu til bæði einkarekinn og ríkisrekinn sjúkrahús með geðdeildir þar sem einstaklingar með geðræn vandamál geti leitað sér aðstoðar. Þrátt fyrir einhverja bið og tiltekinn lágmarkskostnað þá sé þjónustan í boði fyrir þá sem óski eftir meðferð við veikindum sínum. Lyf séu almennt fáanleg í höfuðborgum og á þéttbýlissvæðum en erfiðara geti þó verið að nálgast lyf á dreifbýlli svæðum.
Af ofangreindum gögnum verður ekki annað séð en að framfarir hafi orðið á félagslega kerfinu í […] á undanförnum árum þar sem stjórnvöldum hafi tekist að örva hagvöxt, draga úr fátækt og bæta stjórnarhætti landsins.
Í úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli kæranda og barna hennar frá 30. mars 2017 byggði kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún og fjölskylda hennar búi við afar bágar efnahagslegar aðstæður í […] og fái ekki aðstoð frá stjórnvöldum. Að mati kærunefndar hafa þau gögn sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd varðandi andleg veikindi sín og stöðu sinnar sem einstæðrar móður, og skýrslur sem gefnar hafa verið út frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, ekki breytt fyrra mati kærunefndar á þeim þáttum sem máli skipta vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur því að kærandi og börn hennar hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og með vísan til framangreindrar umfjöllunar um félagslegan stuðning í […], litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda, öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska.
Þá er ekkert fram komið í málinu og þeim gögnum sem liggja fyrir um heimaríki kæranda sem bendir til þess að aðstæður kæranda og barna hennar þar falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríki en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Almennt er viðurkennt að bið umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir niðurstöðu mála sinna geti reynst mörgum mjög erfið. Ef niðurstaðan er neikvæð og einstaklingi er gert að snúa aftur til heimaríkis kann álag vegna yfirvofandi brottflutnings að valda kvíða, þunglyndi eða annars konar andlegum kvillum. Ljóst er að þær miklu breytingar sem felast í þvinguðum brottflutningi leiða til þess að einstaklingar í þessari stöðu eru örvæntingarfullir og fyllast jafnvel vonleysi. Gögn málsins gefa til kynna að andleg veikindi kæranda tengist fyrst og fremst synjun stjórnvalda á umsókn hennar um alþjóðlega vernd hér á landi og fyrirhuguðum brottflutningi. Þá benda gögn málsins ekki til þess að kærandi hafi fyrri sögu um andleg veikindi.
Kærunefnd óskaði eftir nýjum upplýsingum um heilsufar kæranda með tölvupósti dags. 19. júní sl., en tvö sálfræðiálit frá tveimur sálfræðingum bárust kærunefndinni þann 16. júlí 2018. Í báðum vottorðum kemur fram að kærandi hafi verið látin svara DASS spurningalista sem meti alvarleika einkenna þunglyndis, kvíða og streitu. Niðurstöðurnar hafi sýnt mjög alvarleg einkenni allra þessa þriggja þátta. Þá hafi skimunarlisti [...]. Einnig kemur fram að kærandi eigi mjög erfitt með svefn sem hafi áhrif á líðan og úthald kæranda, en kærandi sé ávallt þreytt og uppgefin. Það óöryggi sem fylgi synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og sú ábyrgð sem hvíli á kæranda sem [...] móðir með þrjú börn hafi valdið kæranda miklum kvíða.
Á grundvelli framangreinds er það mat kærunefndar að gögn málsins beri það ekki með sér að þau andlegu veikindi sem kærandi glími við séu ekki lífshættuleg og er þá m.a. litið til þess að samkvæmt gögnum málsins dvelur hún á heimili fjölskyldunnar jafnframt sem hún hefur fengið tilvísun á lyf við kvíða og svefnleysi hjá lækni. Þá er ljóst af ofangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér að kæranda stendur til boða geðheilbrigðisþjónusta í […] vegna andlegra veikinda hennar þurfi hún á slíkri þjónustu að halda í heimaríki.
Kærandi hefur greint frá erfiðum efnahagslegum og félagslegum aðstæðum sínum í heimaríki verði henni gert að snúa aftur til […]. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum. Kærandi og börn hennar eru […] ríkisborgarar og samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið sé öllum ríkisborgurum […] tryggður aðgangur að skólakerfinu í landinu. Þótt gögn málsins beri með sér að skortur á fjármunum hjá hinu opinbera takmarki að einhverju leyti félagslega aðstoð í […] liggi fyrir að umsækjendum um alþjóðlega vernd sem sé snúið aftur til […] standi til boða ýmis konar aðstoð af hálfu hins opinbera. Þá sé til staðar kerfi sem eigi að stuðla að því að velferð barna sé tryggð þar í landi.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Samkvæmt ofangreindum gögnum stendur kæranda til boða ýmis þjónusta og félagsleg úrræði sem einstæð móðir við endurkomu til heimaríkis. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barna hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að kærandi og börn hennar teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því telur kærunefnd, að teknu tilliti til hagsmuna barnanna, að aðstæður þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Kærandi og börn hennar lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. febrúar 2016. Niðurstaða kærunefndar í því máli, dags. 30. mars 2017, var að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja þeim um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Úrskurður kærunefndar var birtur þeim þann 3. apríl 2017. Í tengslum við þá endurupptökubeiðni sem hér er til umfjöllunar hafa ekki komið fram röksemdir eða gögn sem raska fyrri niðurstöðu kærunefndar um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þegar ofangreindur úrskurður kærunefndar var birtur hafði mál kæranda og barna hennar verið í málsmeðferð hjá stjórnvöldum í tæpa 14 mánuði. Líkt og áður hefur komið fram er það mat kærunefndar að atvik máls kæranda hafi breyst verulega og fallist hefur verið á endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þar af leiðir að nýr úrskurður kærunefndar er kveðinn upp í dag. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða við lög um útlendinga.
Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu verður því ekki veitt nema skýrsla hafi verið tekin af umsækjanda um alþjóðlega vernd, að ekki leiki vafi á hver umsækjandi sé og að ekki liggi fyrir ástæður sem geti leitt til brottvísunar umsækjanda. Þá verður dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. Hvað varðar börn kæranda þá telur nefndin að rétt sé að túlka skilyrði a-liðar 2. mgr. 74. gr. í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Að mati kærunefndar eru börn kæranda það ung að árum að ekki sé raunhæft að ætla að þau hafi myndað sér skoðun sem þýðingu gæti haft í þessu máli. Af þeim sökum er óraunhæft að ætlast til að tekin hafi verið skýrsla af þeim. Þegar litið er til gagna málsins er það mat kærunefndar að kærandi og börn hennar uppfylli skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Það er enn fremur mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að ákvæði 2. mgr. 74. gr. gildi ekki um kæranda og börn hennar af ástæðum sem raktar eru í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Af því leiðir að úrskurður kærunefndar um brottvísun kæranda og endurkomubann hennar, dags. 22. ágúst 2017, er einnig endurupptekinn. Í ljósi niðurstöðu kærunefndar í dag er ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda, dags. 30. júní 2017, felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Fallist er á beiðni kæranda og barna hennar um endurupptöku á máli þeirra.
Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar varðandi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eru staðfestar. Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda og endurkomubann er felld úr gildi.
The appellant‘s and her children’s request for re-examination of their cases is granted.The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permits for the appellant and her children based on Paragraph 2 of Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children related to their applications for international protection and residence permit based on Paragraph 1 of Article 74 are affirmed. The decision of the Directorate regarding the appellant’s expulsion and re-entry ban is vacated.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Þorbjörg Inga Jónsdóttir Anna Tryggvadóttir