Hoppa yfir valmynd

Nr. 333/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 333/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040085

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 24. apríl 2023 kærði […], kt. […], ríkisborgari Bandaríkjanna ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. apríl 2023, um að synja umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kærunefnd feli stofnuninni að veita kæranda ótímabundið dvalarleyfi að uppfylltum skilyrðum 58. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna náms 20. ágúst 2018. Leyfið var endurnýjað einu sinni á þeim grundvelli til 15. júlí 2020. Kærandi fékk næst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar með maka sínum 10. júní 2020. Það leyfi var endurnýjað í tvígang, síðast með gildistíma til 31. desember 2022. Hinn 30. ágúst 2022 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga. Kærandi dvaldi hér á landi á grundvelli 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga á meðan umsókn hennar var til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Hinn 12. apríl 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við maka sinn, sem henni var leiðbeint um í ákvörðun Útlendingastofnunar, og var það veitt 24. apríl 2023 með gildistíma til 31. desember 2023. Maki kæranda er með útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar og er það leyfi með gildistíma til 31. desember 2023.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. apríl 2023, var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað með vísan til þess að slíkt dvalarleyfi myndi veita henni betri rétt en maka hennar sem hún leiði rétt sinn af. Jafnframt yrði gildistími slíks leyfis lengri en maka hennar. Væru skilyrði 4. og 5. mgr. 69. gr. laga um útlendinga þannig ekki uppfyllt. Hin kærða ákvörðun barst kæranda með ábyrgðarpósti 11. apríl 2023. Kærunefnd barst kæra kæranda 24. apríl 2023. Þá barst greinargerð kæranda 8. maí 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að lagagrundvöllur fyrir synjun umsóknar hennar um ótímabundið dvalarleyfi sé ekki með öllu ljós. Af ákvörðun Útlendingastofnunar megi ráða að umsókn kæranda hafi verið synjað með vísan til 4. og mögulega 5. mgr. 69. gr. laga um útlendinga eða lögjöfnunar frá þeim málsgreinum. Kærandi hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli annars ákvæðis í öðrum kafla laganna og því standist lagarök Útlendingastofnunar ekki. Stjórnvöldum sé almennt óheimilt að setja íþyngjandi reglur án skýrrar lagastoðar og Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála séu bundin af lögmætisreglunni. Bagalegt sé að Útlendingastofnun hafi vísað rangt til athugasemda með 69. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt þeim gildi málsgrein 4. mgr. 69. gr. aðeins um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna. Fjölskyldumeðlimur kæranda sem hún leiði rétt sinn af hafi dvalarleyfi sem geti skapað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi og því eigi málsgrein 5. mgr. 69. gr. laga um útlendinga ekki við. Kærandi sem aðstandandi hafi þannig ekki betri eða meiri rétt en sá sem hún leiðir rétt sinn af í skilningi 5. mgr. 69. gr. laganna.

Kærandi telur að þar sem löggjafinn hafi talið þörf á að setja þessa sérstöku reglu í 5. mgr. 69. gr. laga um útlendinga hafi honum verið í lófa lagið að tiltaka það einnig ef aðstandandi ætti ekki að fá ótímabundið dvalarleyfi á undan þeim sem hann leiði rétt sinn af. Þar sem það hafi ekki verið gert sé Útlendingastofnun og kærunefnd óheimilt að setja þá reglu sjálf. Telur kærandi ljóst að Útlendingastofnun hafi farið út fyrir heimildir sínar og að stofnuninni hafi borið að veita henni ótímabundið dvalarleyfi, enda uppfylli hún skilyrði 58. gr. laga um útlendinga.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Í b-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er m.a. mælt fyrir um heimild til að víkja frá því skilyrði að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár. Í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga segir m.a. að heimilt sé í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl samkvæmt 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt.

Eins og fram hefur komið dvaldi kærandi hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga, frá 20. ágúst 2018 til 15. júlí 2020. Í kjölfarið dvaldi hún hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar við maka sinn samkvæmt 1. mgr. 70. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, frá 10. ágúst 2020 til 31. desember 2022. Var það endurnýjað 24. apríl 2023 með gildistíma til 31. desember 2023. Liggur fyrir að kærandi uppfyllir því skilyrði b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um lengd heildardvalar hér á landi.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda má ráða að synjun á umsókn hennar hafi grundvallast á því að skilyrði 4. og 5. mgr. 69. gr. laga um útlendinga hafi ekki verið uppfyllt. Í ákvæði 4. mgr. 69. gr. laga um útlendinga kemur fram að dvalarleyfi fjölskyldumeðlims útlendings, sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis, geti aldrei gilt lengur en leyfi þess sem hann leiðir rétt sinn af. Í 5. mgr. 69. gr. laga um útlendinga kemur fram að dvalarleyfi samkvæmt 70. til 72. gr. geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis nema sá fjölskyldumeðlimur sem dvalarleyfishafi leiðir rétt sinn af hafi dvalarleyfi sem skapar ekki slíkan grundvöll. Í athugasemdum við ákvæði 69. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að meginatriði 4. mgr. ákvæðisins sé að gildistími dvalarleyfa samkvæmt VIII. kafla sé aldrei lengri en gildistími leyfis aðstandanda hér á landi. Jafnframt kemur fram í athugasemdunum að tilgangur 5. mgr. ákvæðisins sé að koma í veg fyrir að aðstandandi geti haft betri rétt en sá sem hann leiðir rétt sinn af.

Fyrir liggur að kærandi lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga. Verður ekki séð að ákvæði 4. mgr. 69. gr. laga um útlendinga eigi við um umsókn kæranda, enda lítur það aðeins að skilyrðum vegna útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 70.-72. gr. laga um útlendinga. Eins er sérstaklega vísað til þess í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga að ákvæði 4. mgr. 69. gr. eigi við um dvalarleyfi samkvæmt VIII. kafla. Ákvæði 58. gr. laga um útlendinga um ótímabundið dvalarleyfi, sem kærandi byggir umsókn sína á, heyrir undir V. kafla laganna og fellur því ekki undir gildissvið 4. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.

Þá verður 5. mgr. 69. gr. ekki skilin á annan veg en að hún takmarki aðeins rétt til útgáfu ótímabundins leyfis ef sá fjölskyldumeðlimur, sem dvalarleyfishafi hafi leitt rétt sinn af, hafi ekki dvalarleyfi sem skapi grundvöll til ótímabundins leyfis. Ljóst er að maki kæranda dvelur hér á landi á grundvelli leyfis sem skapar slíkan grundvöll. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til annarra skilyrða 58. gr. laga um útlendinga en laut að tímalengd dvalar kæranda hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. og b-lið 2.mgr. 58. gr. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

Aðilar stjórnsýslumáls hafa alla jafnan ríka hagsmuni af því að mál þeirra hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum, þótt slíkur hraði megi eðli málsins samkvæmt ekki bitna á gæðum málsmeðferðarinnar og ákvörðunar. Líkt og áður greinir lagði kærandi fram dvalarleyfisumsókn 30. ágúst 2022 og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málinu 3. apríl 2023, eða um 7 mánuðum síðar. Jafnvel þótt játa verði Útlendingastofnun svigrúm til að afla gagna og framkvæma fullnægjandi rannsókn skv. 10. gr. stjórnsýslulaga er ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór fram úr því sem eðlilegt getur talist miðað við eðli máls kæranda og niðurstöðu stofnunarinnar. Fer meðferð þessi í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate is instructed to re-examine her case.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta