Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 55/2012

Fimmtudaginn 23. maí 2013

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. apríl 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. apríl 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður), dags. 12. apríl 2012, þar sem hún var krafin um endurgreiðslu útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði vegna mánaðanna október 2011 til janúar 2012 ásamt viðbættu álagi.

Með bréfi, dags. 30. apríl 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 14. maí 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. maí 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 2. ágúst 2012.

I.  Sjónarmið kæranda.

Í kæru greinir kærandi frá því að hún hafi orðið bakveik í kjölfar fæðingar barns síns og ekki getað sinnt barninu fyrstu mánuðina. Því hafi kærandi enn átt rétt til fæðingarorlofs á því tímamarki sem hún hafi lofað vinnuveitanda sínum að hefja störf á ný. Þar sem kærandi hafi ekki fengið dagmömmu- eða leikskólapláss hafi hún viljað vera í hlutastarfi en engar upplýsingar um heimildir til töku fæðingarorlofs á móti hlutastarfi hafi verið að finna á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs í apríl 2012. Kærandi hafi því haft samband við sjóðinn þar sem henni hafi verið bent á að hefja störf í 60% starfshlutfalli og taka 40% fæðingarorlof á móti. Þetta hafi verið samþykkt af Fæðingarorlofssjóði og vinnuveitanda kæranda. Bæði kærandi og vinnuveitandi kæranda hafi talið að um væri að ræða 60% starfshlutfall miðað við vinnustundir. Kærandi hafi því unnið eins nálægt því og hægt var en hún hafi unnið vaktavinnu svo starfshlutfallið hafi verið aðeins breytilegt. Kærandi sé mjög ósammála þeim útreikningum Fæðingarorlofssjóðs að hún hafi verið í 88–98% starfshlutfalli á tímabilinu.

Kærandi vilji að tekið verði tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana og annarra launahækkana sem til komu frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að því tímabili sem endurkrafan snúist um. Laun kæranda fyrir dagvinnu hafi hækkað um 13%, þ.e. úr X kr. í X kr. Kærandi vilji að tekið verði tillit til þess að starf kæranda og þar með vinnutími hafi gjörbreyst frá viðmiðunartímabili Fæðingarorlofssjóðs. Þar sem kærandi hafi ekki fengið dagmömmu- eða leikskólapláss hafi hún verið bundin við að vinna einungis kvöld- og helgarvinnu eða utan hefðbundins dagvinnutíma. Kærandi vilji að launin á umræddu tímabili verði borin saman við sambærilegt fullt starf þannig að hlutfallið milli dagvinnukaups annars vegar og kvöld- og helgarkaups hins vegar sé sambærilegt. Kærandi vilji að viðmiðunartímabil fyrir útreikning fæðingarorlofs verði leiðrétt. Það sé ekki samræmi milli þess hvað Fæðingarorlofssjóður telji fullt starf við útreikning viðmiðunarlauna annars vegar og hvað sjóðurinn telji fullt starf fyrir tímabilið október 2011 til janúar 2012 hins vegar. Kærandi vilji að upplýsingar um töku fæðingarorlofs á móti hlutastarfi séu settar á heimasíðu sjóðsins.

Kærandi hafi ekki kært útreikning Fæðingarorlofssjóðs á viðmiðunarlaunum hennar þegar hún hafi sótt um fæðingarorlof eða þegar hún hafi þurft að breyta tilhögun fæðingarorlofsins. Kærandi hafi talið það ekki breyta neinu að sjóðurinn hafi talið hana vera í fullri vinnu á viðmiðunartímabilinu. Kærandi hafi auk þess verið veik og mjög erfitt hafi verið að mega ekki halda á eða annast nýfætt barn sitt fyrstu mánuðina. Á þeim tíma hafi kærandi ekki verið að hugsa út í útreikninga Fæðingarorlofssjóðs á viðmiðunartekjum hennar. Nú sé kærandi hins vegar að missa rétt sinn til fæðingarorlofs vegna rangra útreikninga Fæðingarorlofssjóðs á viðmiðunarlaunum kæranda.

Starf kæranda hafi breyst þannig að sá hluti vinnutíma kæranda sem fram fór á hefðbundnum dagvinnutíma fór úr 64% í 7,5%, sá hluti vinnutíma kæranda sem fram fór á kvöldin fór úr 9,5% í 45% og sá hluti vinnutíma kæranda sem fram fór um helgar fór úr 26% í 46% auk þess sem hún hafi farið úr því að vinna 0,5% á stórhátíðarkaupi í 1,5%.

Kærandi krefjist þess að upplýsingar um töku fæðingarorlofs á móti hlutastarfi verði settar á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi með bréfi, dags. 20. mars 2012, vakið athygli kæranda á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hennar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir tímabilið október 2011 til janúar 2012. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafi hún verið að fá laun frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hún þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Bréf hafi borist frá kæranda þann 27. mars 2012 bréf frá vinnuveitanda kæranda, dags. 23. mars 2012, ásamt umbeðnum launaseðlum. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 12. apríl 2012, ásamt sundurliðun ofgreiðslu þar sem hún hafi verið krafin um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir tímabilið ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á samkvæmt skrám RSK, fyrirhugaðri töku fæðingarorlofs með barni fæddu Y. desember 2010 og innsendum gögnum og skýringum að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði skv. 9. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og f-lið 8. gr. laga nr. 74/2008, nú 10. mgr. 13. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 136/2011, sbr. og 2. mgr. 15. gr. a ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. sé fæðingarorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra á vinnumarkaði til fæðingarorlofs og í 10. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008 og a-lið 16. gr. laga nr. 120/2009, sem hafi verið í gildi við fæðingardag barns kæranda, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna sem umfram sé og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um sé að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysis-tryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við og aldrei skuli taka mið af hærri fjárhæð en sem nemi þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt fortakslausu ákvæði 9. mgr. (nú 10. mgr.) 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og 8. gr. laga nr. 74/2008, sbr. 3. gr. laga nr. 136/2011, skuli greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem séu hærri en nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar séu fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris. Í athugasemdum með 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, segi orðrétt:

Talið er mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim er ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda er eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Er því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þegar foreldri hefur hærri tekjur en hámarkstekjurnar sem lagt er til að verði miðað við skv. 3. mgr. þá er gert ráð fyrir að hærri greiðslur en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr sjóðnum. Þó er heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geta orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geta talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Með þessum hætti er verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem er aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Er með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.

Í athugasemdum með 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segi orðrétt:

Lögin um fæðingar- og foreldraorlof gera ráð fyrir að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þó er heimilt að taka tillit til ákveðinna breytinga á launakjörum foreldra skv. 9. mgr. 13. gr. laganna. Þykir mikilvægt að tekið sé fram að eingöngu sé verið að miða við greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi. Ástæðan er einkum sú að foreldrar kunna að eiga rétt á eingreiðslum frá vinnuveitendum á ákveðnum tíma árs sem koma til framkvæmda meðan foreldri er í fæðingarorlofi en er ætlað fyrir lengra tímabil en nemur fæðingarorlofstíma foreldris. Dæmi um slíkar greiðslur eru bónusgreiðslur sem koma til framkvæmda við árslok en miðast við frammistöðu starfsmanns eða velgengni fyrirtækis á hluteigandi ári.

Í athugasemdum við 4. gr. laga nr. 90/2004 sé umfjöllun um hvað átt sé við með upphafsdegi fæðingarorlofs. Þar komi meðal annars fram að reynt hafi á þetta atriði í erindum til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þar sem foreldrar hafi ekki viljað líta heildstætt á rétt sinn til fæðingarorlofs. Hafi feður viljað miða við síðara tímamark en fæðingu barns, þ.e. við þann tíma sem þeir sjálfir hefji töku orlofs. Sú skýring hafi þótt brjóta gegn þágildandi lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, (nú lög nr. 10/2008), í ljósi þess að karlar ættu hægara um vik en konur að vinna sér inn réttinn eftir að barnið fæðist. Þessu til stuðnings hafi verið á það bent að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Því hafi þótt rétt að hafa samræmi milli ákvæða laganna þannig að um sömu viðmið væri að ræða enda tilgangur laganna að líta heildstætt á rétt foreldra til fæðingarorlofs. Þegar um væri að ræða fæðingarorlof vegna fæðingar hafi því verið gert ráð fyrir að miðað væri við áætlaðan fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Með 8. gr. laga nr. 74/2008 hafi því verið breytt í fæðingardag barns í stað áætlaðs fæðingardags barns.

Í samræmi við framangreint sé við mat á núgildandi 10. mgr. 13. gr. ffl. (var áður 9. mgr. 13. gr. ffl.) ekki heimilt að taka tillit til hugsanlegra breytinga á launum foreldris eftir fæðingardag barns. Einungis sé heimilt að taka tillit til hugsanlegra launabreytinga á því tímabili frá því að viðmiðunartímabili skv. 2. eða 5. mgr. lýkur og fram að fæðingardegi barns.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, komi fram hvaða laun skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt ákvæðinu skuli telja til launa hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeninga, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, sé stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld séu skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald sé frekari upptalning á því hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. sé upptalning á því hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi. Við mat á því hvaða greiðslur vinnuveitenda megi fara með og hvaða greiðslur megi ekki fara með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sé því nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar hvaða greiðslur það séu sem sjóðurinn telji með þegar fundið sé út meðaltal heildarlauna foreldris.

Í 15. gr. a ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni hafi foreldri fært rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Ekki hafi komið fram nein rök sem gefi tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Með umsókn kæranda, dags. 3. nóvember 2010, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hennar sem fæddist Y. desember 2010. Sex tilkynningar hafi borist frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og hún verið afgreidd í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hennar dags. 31. ágúst 2011.

Á viðmiðunartímabili kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. hafi viðmiðunarlaun hennar verið X kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að fæðingu barnsins höfðu þau lækkað í X kr. Miðað hafi verið við viðmiðunartímabil kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. við mat á hugsanlegri ofgreiðslu skv. 9. mgr. (10. mgr.) 13. gr. ffl. Enga heimild sé að finna í ffl. eða í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, að taka tillit til launabreytinga foreldris eftir fæðingardag barns við mat á hugsanlegri ofgreiðslu.

Í október 2011 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hún hafi því fengið sem svari 90% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda sínum í mánuðinum og hefði því mátt þiggja 10% greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir október 2011 sé því X kr. útborgað.

Í nóvember 2011 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hún hafi því fengið sem svari 100% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda sínum í mánuðinum og hefði því ekki mátt þiggja neina greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir nóvember 2011 sé því X kr. útborgað.

Í desember 2011 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hún hafi því fengið sem svari 88% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda sínum í mánuðinum og hefði því mátt þiggja 12% greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir desember 2011 sé því X kr. útborgað.

Í janúar 2012 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hún hafi því fengið sem svari 91% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda sínum í mánuðinum og hefði því mátt þiggja 9% greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir janúar 2012 sé því X kr. útborgað.

Í skýringum kæranda sem hafi borist þann 27. mars 2012 hafi komið fram að þar sem hún hafi ekki getað útvegað barni sínu plássi á leikskóla eða hjá dagmömmu hafi hún einungis unnið kvöld- og helgarvinnu þegar faðirinn hafi verið búinn í dagvinnu sinni. Í skýringum vinnuveitanda, dags. 23. mars 2012, komi meðal annars fram að á þessu tímabili hafi kærandi unnið í hlutastarfi og þar sem hún hafi verið með barn heima hafi hún nánast aldrei unnið á dagvinnutíma, aðeins á kvöldin og um helgar. Það útskýri að einhverju leyti hærri launagreiðslur.

Eins og að framan hefur verið rakið sé fæðingarorlof skv. 1. mgr. 7. gr. ffl. leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

Í 9. mgr. 13. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, komi fram eins og áður segi sú fortakslausa regla að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem séu hærri en nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna skv. 2. mgr. skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í athugasemdum við 9. mgr. 13. gr. ffl. sé svo enn frekar hnykkt á því en þar komi fram að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem séu umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og að tilgangur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sé aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki.

Framangreindu ákvæði hafi lítillega verið breytt á árinu 2008, sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008. Við hafi bæst setningin: „Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“ Í athugasemdum við þá breytingu komi þó áfram fram sú fortakslausa regla að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem séu umfram mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Breytingin hafi því fyrst og fremst virst hafa átt að taka til eingreiðslna og annarra slíkra greiðslna frá vinnuveitendum sem foreldri geti átt rétt á á ákveðnum tíma árs og komi til framkvæmda meðan foreldri sé í fæðingarorlofi en sé ætlað fyrir lengra tímabil en nemi fæðingarorlofi foreldris, sbr. framangreindar athugasemdir með ákvæðinu og tilvitnað dæmi.

Við mat á hugsanlegri ofgreiðslu geri ákvæðið þannig ráð fyrir að litið sé til hvers almanaksmánaðar fyrir sig og hlutfalls fæðingarorlofs í hverjum mánuði og þess hvort greiðslur frá vinnuveitanda séu hærri en sem nemi mismuni greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltali heildarlauna foreldris á viðmiðunartímabili skv. 2. eða 5. mgr. 13. gr. ffl., eftir atvikum að teknu tilliti til launabreytinga fram að fæðingu barns ef um það sé að ræða. Ljóst sé að ákvæðið opni því ekki á það að foreldri geti valið að vera í fæðingarorlofi hluta dags eða hluta mánaðar og lagt niður vinnu þann tíma en síðan bætt upp það tekjutap sem af því hlýst með frekari vinnu, til dæmis yfirvinnu, seinni hluta sama dags eða mánaðar eða með aukavinnu, bónusþóknunum, árangursþóknunum og öðrum slíkum greiðslum vegna þeirrar vinnu sem unnin hafi verið innan tímabilsins og það leiði þannig til þess að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði komi í raun til viðbótar við greiðslur frá vinnuveitanda að hluta eða öllu leyti. Með þeim hætti væri enda tilgangi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sem sé aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki og að allar greiðslur sem séu umfram mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum, ekki náð.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda X kr. útborgað að viðbættu 15% álagi X kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði X kr., sbr. greiðsluáskorun til hennar ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 12. apríl 2012.

 

III. Athugasemdir kæranda

Í athugasemdum kæranda kemur fram að í bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda þar sem henni hafi verið tilkynnt um hugsanlega ofgreiðslu úr sjóðnum hafi komið fram að heimilt væri að taka tillit til launabreytinga vegna breytinga á störfum foreldris. Fæðingarorlofssjóður hafi þrátt fyrir það ekki tekið tillit til þeirra breytinga sem urðu á störfum kæranda þegar hún fór að vinna mun meiri kvöld- og helgarvinnu en áður.

Kærandi hafi talið að miða ætti starfshlutfall við vinnustundir en ekki launagreiðslur. Kærandi bendi á að hún hafi til dæmis einungis unnið tveimur tímum minna í desember 2011 en í nóvember 2011 en samkvæmt útreikningum Fæðingarorlofssjóðs hafi hún verið í 98% vinnu í nóvember en 88% í desember.

Kærandi telji það ósanngjarnt að henni sé gert að greiða 15% álag þar sem hún hafi fylgt ráðleggingum starfsfólks Fæðingarorlofssjóðs við töku fæðingarorlofs á umræddu tímabili. Kærandi krefjist því þess að 15% álag verði fellt niður.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur vegna tímabilsins frá október 2011 til janúar 2012 úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns hinn Y. desember 2010, auk 15% álags.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi hafi þegið of há laun frá vinnuveitanda sínum á framangreindu tímabili á sama tíma og hún þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hún hafi fært starfshlutfall sitt niður til samræmis við töku fæðingarorlofs. Þetta hafi kærandi gert í samráði og samkvæmt leiðbeiningum starfsfólks Fæðingarorlofssjóðs. Kærandi hafi talið að henni bæri að færa starfshlutfall sitt niður miðað við vinnustundir en ekki laun. Auk þess byggir kærandi á því að viðmiðunarlaun hennar hafi ekki verið rétt út reiknuð, þar sem ekki hafi verið tekið tillit til launahækkana og breytinga á störfum hennar þegar hún kom aftur til starfa eftir fæðingarorlof. Þá byggir kærandi á því að fella eigi niður álag á endurgreiðsluna, þar sem kærandi hafi fylgt ráðleggingum Fæðingarorlofssjóðs um hlutastarf á móti fæðingarorlofssjóðsgreiðslum.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingarorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 2. mgr. 10. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir meðal annars að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr.

Barn kæranda er eins og fyrr greinir fætt Y. desember 2010. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. er því tímabilið frá júní 2009 til maí 2010. Í greiðsluáætlun, dags. 31. ágúst 2011, sem er í samræmi við staðgreiðsluskrá RSK, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. voru alls X kr. og greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðað við 100% fæðingarorlof væri samkvæmt því X kr.

Laun kæranda lækkuðu úr X kr. í X kr. á tímabilinu frá því að viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. lauk og fram að fæðingardegi barnsins og var því miðað við meðallaun viðmiðunartímabilsins við útreikning á endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs.

Kærandi byggir á því að Fæðingarorlofssjóði hefði borið að líta til þeirra launabreytinga sem urðu vegna þeirra breytinga á störfum kæranda að hún fór að vinna mun meiri kvöld- og helgarvinnu en áður. Í athugasemdum við 4. gr. laga nr. 90/2004, sem breytti ákvæði 13. gr. ffl., segir að mikilvægt sé að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim sé ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Sé því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þó sé heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geti orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geti talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Þá kemur fram í athugasemdunum að með upphafsdegi fæðingarorlofs sé átt við áætlaðan fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., en við 2. umræðu frumvarpsins á Alþingi voru þær breytingar gerðar á frumvarpinu að miða skyldi við raunverulegan fæðingardag barns en ekki áætlaðan. Ljóst er af gögnum málsins að umræddar breytingar á störfum kæranda urðu eftir að barnið fæddist og koma því umræddar launabreytingar kæranda ekki til skoðunar.

Með vísan til framangreinds er rétt að mati úrskurðarnefndar að miða endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð X kr.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við 40% fæðingarorlof í október, nóvember og desember 2011, alls X kr., og 30% í janúar 2012, alls X kr. Samkvæmt launaseðli fyrir októbermánuð fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum í október 2011 að fjárhæð X kr. sem svarar til 90% af meðaltekjum kæranda á viðmiðunartímabilinu en samkvæmt launaseðli fyrir nóvembermánuð fékk hún X kr. sem svarar til 98% af meðaltekjum kæranda á viðmiðunartímabilinu. Þá fékk hún samkvæmt launaseðli fyrir desembermánuð greidd laun frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð X kr. fyrir þann mánuð, sem svarar til 88% af meðaltekjum kæranda á viðmiðunartímabilinu. Samkvæmt launaseðli fyrir janúarmánuð 2012 fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð X kr. fyrir þann mánuð sem svarar til 91% af meðaltekjum kæranda á viðmiðunartímabilinu.

Samkvæmt ákvæði 9. mgr. (nú 10. mgr.) 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og 8. gr. laga nr. 74/2008, skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í athugasemdum við 4. gr. fyrrnefndra laga nr. 90/2004 er lögð áhersla á að fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda sé eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta. Með þessum hætti er verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem er aðallega að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Er með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum. Ljóst er að kærandi hefur fengið greiðslur frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hún þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Af gögnum málsins er ljóst að ekki er um að ræða bætur eða styrk frá vinnuveitanda án tillits til vinnuframlags heldur eru greiðslur frá vinnuveitanda laun fyrir það vinnuframlag sem kærandi hefur innt af hendi á tímabilinu frá október 2011 til janúar 2012.

Kærandi var í 40% fæðingarorlofi í október, nóvember og desember 2011 og 30% fæðingarorlofi í janúar 2012 sem fyrr segir. Af hálfu kæranda er byggt á því að hún hafi fært starfshlutfall sitt niður til samræmis við töku fæðingarorlofs.

Með vísan til framangreindrar endurgreiðslureglu 9. mgr. (nú 10. mgr.) 13. gr. ffl. verður litið svo á að þar sem kærandi var í 40% fæðingarorlofi í október, nóvember og desember 2011 og 30% fæðingarorlofi í janúar 2012 var henni einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu 60% af meðaltali heildarlauna í október, nóvember og desember 2011 og 70% af meðaltali heildarlauna í janúar 2012 án þess að greiðslur vinnuveitanda til hennar kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Greiðslur vinnuveitanda kæranda í október 2011 námu hins vegar 90% af meðaltali heildarlauna, í nóvember 2011 námu þær 98% af meðaltali heildarlauna, greiðslur í desember 2011 námu 88% og greiðslur í janúar 2012 voru 91% af meðaltali heildarlauna. Kærandi þáði þannig hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en henni var heimilt skv. ffl. fyrir umrædda mánuði. Með vísan til þessa verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að við mat á hugsanlegri endurgreiðslu skuli miða við unnar stundir en ekki launagreiðslur, þegar um hlutastarf er að ræða. Verður niðurstaða Fæðingarorlofssjóðs um skyldu kæranda til endurgreiðslu því staðfest.

Kærandi krefst þess að upplýsingar um töku fæðingarorlofs á móti hlutastarfi verði settar á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur í nýlegum úrskurðum sínum beint því til sjóðsins að efla leiðbeiningar sínar um töku fæðingarorlofs á móti hlutastarfi. Tilkynning barst úrskurðarnefndinni þann 8. febrúar 2013 þess efnis að ítarlegar upplýsingar sé nú að finna um ofgreiðslur úr sjóðnum og eru þær upplýsingar fullnægjandi að mati úrskurðarnefndar.

Kærandi mótmælir því sérstaklega að henni skuli vera gert að greiða álag á umrædda endurgreiðslu til sjóðsins. Í 2. mgr. 15. gr. a, sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004 og 5. gr. laga nr. 155/2006, segir að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Þá segir jafnframt að fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar, en skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, skal kærandi færa rök sín fram innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst honum. Eins og mál þetta er vaxið hefur kærandi að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að henni verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til endurkröfu Fæðingarorlofssjóðs.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að viðbættu 15% álagi er staðfest.  

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta