Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 549/2020 - Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 549/2020

Fimmtudaginn 28. janúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. mars 2020, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. mars 2020, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. október 2020. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. desember 2020, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust ekki. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 20. janúar 2021, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust samdægurs.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ávallt sinnt þeirri skyldu sinni að mæta til Vinnumálastofnunar eins og eðlilegt og rétt sé að krefjast. Allt önnur staða hafi á hinn bóginn  verið á þeim tíma sem boðað hafi verið til hópfundar föstudaginn 28. febrúar 2020. Kærandi hafi talið það mikið óráð að mæta innan um hóp fólks þegar alvarlegar fréttir hafi verið búnar að berast vikum saman um alvarlegan sjúkdóm sem herjaði á fólk og þessi alvarlegi vágestur hafi þá þegar skotið rótum á Íslandi. Talsverður fjöldi Íslendinga hafi verið kominn í sóttkví og augljós hætta á smitum. Ekki þurfi annað en að líta á fréttir frá þessum tíma til að sjá að kórónaveiran hafi verið farin að herja á líf og velferð fólks og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi sent út viðvaranir. Á þessum tíma hafi kærandi reglulega annast tæplega níræða ömmu sína í veikindum hennar með því að hitta hana og sendast fyrir hana. Kærandi hafi gætt sín mjög í samneyti við annað fólk á þessum tíma í kjölfar frétta um þennan alvarlega faraldur, enda hættulegur, meðal annars eldra fólki og veikum. Kærandi hafi á þessum tíma sýnt sérstaka aðgát sem hann hafi ekki þorað að tala um, enda lítið gert úr þessu og hann hafi verið gagnrýndur fyrir viðbrögð sín. Það hafi verið taktlaust og enginn myndi leyfa sér slíkt í dag. Vegna þessa hafi viðbrögð kæranda við að mæta á hópfundinn verið nokkuð villandi, enda sjónarmið hans hjá mörgum talin óeðlileg og að engu hafandi.

Kærandi tekur fram að á þessum tíma hafi verið farið að vara við að hópar hittust og borið á því  að fólk varaðist að fara inn í hópa ókunnugs fólks vegna smithættu. Það hafi verið mat kæranda, vegna þeirrar stöðu sem hafi verið í, að varasamt væri að mæta inn í hóp ókunnugs fólks til hópvinnu. Enginn efist í dag um að slíkt hafi verið fullkomlega réttmæt viðbrögð og annað væri nú metið sem algert ábyrgðarleysi. Það að vera beittur harkalegum viðurlögum fyrir að mæta ekki á hópfund þar sem hann hafi reynt að sýna ríka aðgát en verið sviptur í kjölfarið rétti til trygginga í tvo mánuði telji kærandi ranga ákvörðun sem sé andstæð öllu meðalhófi, feli í sér mjög íþyngjandi ákvörðun og geti alls ekki gengið í bága við hagsmuni Vinnumálstofnunar að sé leiðrétt. Á þessum tíma og allt fram á þennan dag hafi ríkt fordæmalausar aðstæður og enginn geti efast um að ákvörðun að forðast hópfund hafi verið fullkomlega réttmæt og að öllu leyti í samræmi við lagaskyldu um smitvarnir. Þess megi geta að kæranda hafi liðið mjög illa þegar hann hafi tekið þá ákvörðun að forðast hópfundinn, enda lítill skilningur á slíkum aðstæðum og víða ekki vilji til að horfast í augu við stöðuna.

Kærandi vísar til skyldu einstaklinga samkvæmt lögum nr. 19/1997 um sóttvarnir. Þegar grafalvarlegur smitsjúkdómur hafi verið farinn að herja á þjóðfélagið telji kærandi að með ákvörðun sinni hafi hann reynt að fylgja eftir skýrum kröfum laganna þess efnis að sýna sem mesta varúð og reyna að gera sér allt far um að sýkjast ekki með því að mæta ekki á boðaðan hópfund með fjölda fólks sem hann hafi ekki þekkt, enda um líf og heilbrigði að ræða. Þegar kærandi horfi til baka telji hann að mjög alvarlega hafi verið brotið á honum með sviptingu á tryggingarétti. Það geti kærandi ekki látið átölulaust og því sendi hann þessa kæru. Skýr krafa hafi verið gerð af stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum um að landsmenn sýndu ríka aðgát og að við værum öll almannavarnir, það sé vont að vera refsað fyrir það.

Vilji svo ólíklega til að það standi til að hafna endurskoðun þeirrar íþyngjandi ákvörðunar sem hafi verið tekin telji kærandi eðlilegt að fá læknisfræðilegt álit á því hvort sú ákvörðun hans að mæta ekki til hópfundar hafi verið í ósamræmi við framangreinda lagaskyldu.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. mars 2020 um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. mars 2020, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 27. október 2020. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Hvorki bárust athugasemdir né gögn frá kæranda. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta