Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 389/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 389/2016

Fimmtudaginn 6. apríl 2017

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 12. október 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Reykjavíkurborgar, dags. 1. júní 2016, á umsókn hans um félagslega heimaþjónustu í formi beingreiðslusamnings.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. mars 2016, sótti kærandi um þjónustu frá Reykjavíkurborg í formi beingreiðslusamnings, nánar tiltekið 84 tíma á mánuði í félagslega heimaþjónustu, 30 tíma á mánuði í liðveislu og 65 tíma á mánuði í frekari liðveislu. Kæranda var synjað um félagslega heimaþjónustu í formi beingreiðslusamnings með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dagsettu sama dag, á þeirri forsendu að skilyrði 8. gr. reglna sveitarfélagsins um beingreiðslusamning væri ekki uppfyllt. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 1. júní 2016 og staðfesti synjunina á þeirri forsendu að ekki hafi verið fullreynt hvort velferðarsvið Reykjavíkurborgar gæti veitt nauðsynlega þjónustu með viðunandi hætti. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 21. júní 2016 og sendu Reykjavíkurborg með tölvupósti, dags. 22. sama mánaðar, var farið fram á rökstuðning fyrir synjun Reykjavíkurborgar með vísan til 3. mgr. 58. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. október 2016 og greindi frá því að umbeðinn rökstuðningur hafi ekki borist frá Reykjavíkurborg. Kærandi óskaði eftir að nefndin tæki kæru hans til meðferðar, þrátt fyrir að kærufrestur væri liðinn.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 17. nóvember 2016, þar sem fram kom meðal annars að beiðni kæranda um rökstuðning hefði ekki borist. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. nóvember 2016, var bréf sveitarfélagsins sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 30. nóvember 2016, og lagði hann jafnframt fram afrit af áðurgreindu bréfi til Reykjavíkurborgar þar sem farið var fram á rökstuðning vegna synjunar frá 1. júní 2016. Athugasemdir kæranda voru sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. desember 2016, og jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvort beiðni umboðsmanns kæranda um rökstuðning hafi borist sveitarfélaginu. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 17. janúar 2017, var greint frá því að beiðni um rökstuðning hafi ekki borist. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. janúar 2017, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Með tölvupósti þann 25. janúar 2017 lagði kærandi fram afrit af tölvupósti til starfsmanns Reykjavíkurborgar, dags. 22. júní 2016, en honum fylgdi í viðhengi bréf, dags. 21. júní 2016, þar sem óskað var eftir rökstuðningi vegna synjunar sveitarfélagsins. Tölvupóstur kæranda var sendur Reykjavíkurborg til kynningar með tölvupósti starfsmanns úrskurðarnefndarinnar sama dag. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 6. febrúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. febrúar 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. febrúar 2017, og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. febrúar 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í umsókn kæranda um félagslega heimaþjónustu greinir kærandi frá því að hann sé algjörlega háður umönnun og þjónustu eiginkonu sinnar allan sólarhringinn og hafi verið það síðastliðin X ár. Fötlun hans sé mikil og umönnunarþörfin persónuleg og sérhæfð. Hann treysti eiginkonu sinni best fyrir þeim verkum og muni því ekki þiggja þjónustu frá starfsfólki þjónustumiðstöðvar. Kærandi hafnar því alfarið að utanaðkomandi aðilar sinni persónulegum þörfum hans og telur það réttlætismál að fá sömu úrlausn og aðrir sem hafa fengið beingreiðslur.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi sé algjörlega háður umönnun og þjónustu eiginkonu sinnar, en fötlun hans sé mikil og umönnunarþörf persónuleg og sérhæfð. Kærandi treysti eiginkonu sinni best fyrir þeim verkum og vilji ekki þiggja þjónustu frá starfsfólki þjónustumiðstöðvar. Frá árinu 2011 hafi kærandi notið þjónustu í formi beingreiðslusamnings frá Reykjavíkurborg vegna félagslegrar liðveislu og frekari liðveislu. Kæranda hafi verið synjað um þjónustu í formi beingreiðslusamnings vegna félagslegrar heimaþjónustu á þeirri forsendu að ekki hafi verið sýnt fram á að velferðarsvið Reykjavíkurborgar gæti ekki veitt nauðsynlega þjónustu með viðunandi hætti, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamning. Á þjónustumiðstöð starfi starfsfólk sem geti veitt kæranda umbeðna þjónustu og því hafi umsókn hans verið synjað. Reykjavíkurborg bendir á að útfærsla á þjónustu í formi beingreiðslusamnings sé ávallt háð fjárhagsáætlun sveitarfélagsins hverju sinni, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglnanna.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um félagslega heimaþjónustu í formi beingreiðslusamnings.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögunum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í 25. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búi í heimahúsum og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í 26. gr. kemur fram að með félagslegri heimaþjónustu skuli stefnt að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður. Með félagslegri heimaþjónustu er átt við hvers konar aðstoð við heimilishald, persónulega umhirðu, félagslegan stuðning, gæslu og umönnun barna og unglinga, sbr. 27. gr. laganna. Þá segir í 28. gr. laganna að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili, sem fari með heimaþjónustu, meta þörfina í hverju einstöku tilviki.

Lög nr. 59/1992 og 40/1991 veita sveitarfélögum svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd aðstoðar við fatlað fólk. Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum um félagslega heimaþjónustu í Reykjavík og reglum um beingreiðslusamninga við fatlað fólk og forsjáraðila fatlaðra barna í Reykjavík.

Í 1. gr. reglna um beingreiðslusamninga kemur fram að skilyrði fyrir gerð beingreiðslusamnings sé að fyrir liggi faglegt mat starfsmanna velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um að þjónusta í því formi sé hentugt form til að mæta metinni þjónustuþörf viðkomandi. Samkvæmt 2. gr. reglnanna er markmið beingreiðslusamninga að auka val fatlaðs fólks á formi og fyrirkomulagi aðstoðar að undangengnu faglegu mati. Inntak beingreiðslusamnings er að þjónustuþörf notanda sé metin í tilteknum fjölda klukkustunda á grundvelli reglna um félagslega heimaþjónustu í Reykjavík og/eða reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík. Notanda sé í sjálfsvald sett hvernig þjónustu sé háttað og hvenær tíma dagsins hún fari fram innan þeirra marka sem mat á þjónustuþörf setji. Notanda sé þó skylt að gæta að lágmarksréttindum aðstoðarfólks í starfi þeirra. Reglurnar fela í sér heimild til að gera beingreiðslusamning við fatlað fólk að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum í III. kafla í reglunum.

Í 1. mgr. 8. gr. reglnanna kemur fram að beingreiðslusamningur sé gerður á grundvelli faglegs mats á þjónustuþörf, sbr. 6. gr. reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík. Í 2. mgr. 8. gr. segir að þeir notendur sem kunni að vera í forgangi til þess að fá þjónustu í formi beingreiðslusamnings séu þeir notendur sem séu með sérstakar þarfir og sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar geti ekki veitt nauðsynlega þjónustu með viðunandi hætti, svo sem þegar þjónusta sé mjög sérhæfð, veitt utan hefðbundins vinnutíma eða í stuttan tíma í senn. Þá þurfi einnig að liggja fyrir faglegt mat um að þjónusta veitt samkvæmt beingreiðslusamningi sé hentugt form til að mæta þjónustuþörfum viðkomandi, sbr. 1. gr. reglnanna.

Umsókn kæranda um félagslega heimaþjónustu í formi beingreiðslusamnings var synjað á þeirri forsendu að ekki hafi verið fullreynt hvort velferðarsvið Reykjavíkurborgar gæti veitt nauðsynlega þjónustu með viðunandi hætti. Samkvæmt framangreindu stendur kæranda því til boða að fá félagslega heimaþjónustu frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Af hálfu kæranda hefur komið fram að fötlun hans sé mikil og umönnunarþörfin persónuleg og sérhæfð. Hann treysti eiginkonu sinni best fyrir þeim verkum og muni því ekki þiggja þjónustu frá starfsfólki þjónustumiðstöðvar.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hafa verið settar reglur um fyrirkomulag þeirrar þjónustu sem í boði er. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamning er gert ráð fyrir að velferðarsvið geti mætt þjónustuþörf einstaklinga og veitt nauðsynlega þjónustu með viðunandi hætti. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að láta á það reyna hvort velferðarsvið geti mætt þjónustuþörf kæranda. Með vísan til þess verður ekki séð að synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslega heimaþjónustu í formi beingreiðslusamnings hafi verið andstæð þeim reglum sem um hana gilda og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 1. júní 2016, um synjun á umsókn A, um félagslega heimaþjónustu í formi beingreiðslusamnings er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta