Mál nr. 17/2017 Úrskurður 17. mars 2017
Mál nr. 17/2017 Eiginnafn: Karma
Hinn 17. mars 2017 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 17/2017 en erindið barst nefndinni 14. mars 2017.
Sótt er um eiginnafnið Karma sem kvenmannsnafn en það er á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Til þess að fallist sé á eiginnafn og það fært á mannanafnaskrá verður öllum skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn að vera fullnægt.
Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 er kveðið á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Í þessu ákvæði felst ekki bann við því að nafn sé hvorutveggja karlmannsnafn og kvenmannsnafn. Það á til dæmis við um eiginnöfnin Blær og Auður. Ef nafn telst hins vegar einvörðungu vera annaðhvort karlmannsnafn eða kvenmannsnafn í íslensku máli leiðir hins vegar af 2. mgr. 5. gr. að slíkt nafn má ekki gefa einstaklingi af gagnstæðu kyni. Nafnið Karma var leyft sem karlmannsnafn í máli nr. 39/2016. Nafnið hefur hins vegar ekki öðlast hefð sem karlmannsnafn í íslensku máli og beygist samkvæmt algengri beygingu kvenkynsnafna en sjaldgæfri hjá karlmannsnöfnum. Það er því ekkert sem kemur í veg fyrir það að það verði einnig notað sem kvenkynseiginnafn.
Eiginnafnið Karma (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Körmu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Karma (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.