Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 162 Hjálpartæki

Miðvikudaginn 8. ágúst 2007

  

162/2007

  

 

A

v/B

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur.

 

Með ódags. bréfi mótt. 21. maí 2007, kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um hjálpartæki vegna sonar hans B.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru að með umsókn sem móttekin var hjá Tryggingastofnun 14. febrúar 2007 var sótt um styrk til kaupa á salernisstoð, baðstól og belti í bifreið fyrir B.  Sjúkrasaga samkvæmt umsókn er:

 

„Sótt hefur verið um bað- og salernishjálpartæki fyrir B ásamt stuðningsbeltum í bíl. Þetta er samkvæmt reglum HTM um úthlutun hjálpartækja og nýtist B þegar hann er hjá móður sinni.

Hér að neðan er sótt um annað sett af þessum tækjum fyrir B til að nota þegar hann er í umsjá föður síns - en foreldrar hans eru fráskildir með sameiginlegt forræði yfir drengnum. Faðir hans mun oft á tíðum sækja drenginn í skólann hans þegar B fer til hans og að sama skapi mun hann skila honum aftur í skólann. Því er flókið að þurfa að taka umrædd hjálpartæki með sér - auk þess sem t.d. salernisstoðir eru veggfastar og því ekki hægt að taka þær með.

Þykir réttlætismál að hreinlætishjálpartæki fyrir börn sem búa á tveimur heimilum séu staðsett á báðum stöðum - þar sem flutningur hjálpartækja að öðru leyti er töluverður.

Beðið er um að HTM skoði þetta mál af sanngirni og veiti undanþágu frá núverandi reglum.”

 

Umsókn var synjað með bréfi Tryggingastofnunar dags. 30. mars 2007.  Ástæða synjunar var sú að nú þegar hafi verið samþykkt leyfilegt magn viðkomandi hjálpartækja til umsækjanda og greiðsluþátttaka því ekki heimil.

 

Kærandi óskaði rökstuðnings Tryggingastofnunar og er hann dags. 25. apríl 2007.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

,,Aðstæður eru þannig að ég og móðir hanns erum fráskilin og á hann lögheimili hjá henni en er mikið hér hjá mér, þ.e aðra hvora helgi frá föstudagi til mánudags auk þess næ ég í hann á miðvikudögum og fer með hann í skóla á fimtudagsmorgni, einnig dvelur hann mikið í fríum frá skóla hjá mér má því segja að hann eigi heima hjá mér um 45 % af tíma sínum.

Ég hef lagt áherslu á það við hann [...] að þau ættu heima hjá okkur báðum. Það er honum fyrir bestu að hafa okkur bæði til staðar og í raun eftir allt sem á hefur dunið í lífi hans síðustu mánuði tel ég að hann verði að njóta þess að koma til mín. Finnst mér hart að upplifa það að ég sé skilgreindur sem annar aðstandi að hálfu tryggigarstofnunar en ekki sem foreldri sem annast vill barnið sitt.

Tel ég að sú túlkun á reglugerð sem fram kemur í rökstuðningi hjálpartækjamiðstöðvar standist ekki þar sem talað er um auka tæki fyrir aðstandendur, tel ég að ef ég er talinn sem aðstandandi og móðir hans eigi allan rétt en ég engan, séu brotnar bæði jafnræðisreglur og mannréttindi á syni mínum, sem hlýtur að eiga kröfu á að bæði heimili hans sé þannig búin að hann geti dvalið þar og hann geti notið samvista við bæði foreldri þrátt fyrir fötlun sína.

Tel ég að í reglugerðini sé átt við hjálpartæki fyrir ömmu, afa og aðra sem oft annast börn en ekki foreldra sem annast börn sín.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 29. maí 2007 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 7. júní  2007.  Þar segir m.a.:

,,B hefur fengið ýmis hjálpartæki samþykkt frá TR s.s. belti og sæti í bifreið, sjúkrarúm, hjólastól, standgrind, baðstól, stoðir við salerni, einnota hjálpartæki, spelkur og skó. Umsókn um auka salernisstoð, baðstól og belti í bifreið var synjað þar sem hann hefur þegar fengið þau tæki samþykkt. Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. rg. nr. 460/2003 kemur skýrt fram að ekki sé veittur styrkur til að kaupa (auka)hjálpartæki til að hafa á heimili aðstandenda ef viðkomandi býr annars staðar og því var umsókninni synjað. B er með lögheimili hjá móður sinni og hafa öll þau hjálpartæki sem hann hefur fengið samþykkt verið afgreidd til nota þar, en þó hann búi einnig hjá föður er gert ráð fyrir að þau tæki sem eru flytjanleg (þ.á.m. baðstóll og bílbelti) fari á milli staða. Stoðir við salerni er hins vegar veggfastur búnaður, en kostnaður við þær eru um 26.000 kr. Talið er að þörfum B til sjálfbjargar og öryggis, sbr. 1. mgr. 3. gr. rg. nr. 460/2003, sé vel mætt með fyrrgreindum hjálpartækjum.

Bent skal á að fjölmargir notendur hjálpartækja búa við svipaðar aðstæður eins og hér um ræðir.”

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 11. júní 2007 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Athugasemdir bárust 29. júní 2007 og hafa þær verið kynntar Tryggingastofnun.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar umsókn um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna auka hjálpartækja fyrir tæplega níu ára gamlan dreng til að nota þegar hann dvelur hjá föður sínum.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru leggur faðir áherslu á að drengurinn eigi heima hjá báðum foreldrum þó hann eigi lögheimili hjá móður og hann dvelji um 45% af tíma sínum hjá föður. Telur faðir að orðalag í reglugerð þar sem talað er um aðstandanda eigi ekki við foreldra, heldur sé  átt við t.d. afa og ömmur.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að umsókn kæranda hafi verið hafnað á grundvelli 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2003 þar sem komi skýrt fram að ekki sé veittur styrkur til að kaupa auka hjálpartæki til að hafa á heimili aðstandenda ef viðkomandi býr annars staðar. Drengurinn sé með lögheimili hjá móður og hafi öll hjálpartæki sem hann hafi fengið samþykkt verið afgreidd til nota þar, þó hann búi einnig hjá föður.

 

Samkvæmt 33. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er það hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins að veita styrk til að afla hjálpartækja sem nauðsynleg eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð.

 

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. skal ráðherra setja reglugerð um greiðslur samkvæmt greininni. Gildandi reglugerð er nr. 460/2003.

 

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2003 segir:

 

„Tryggingastofnun ríkisins greiðir styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda fólki að takast á við athafnir daglegs lífs.  Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Hjálpartækið verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að bæta möguleika viðkomandi einstaklings til að sjá um daglegar athafnir. Styrkur er ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ.á m. útivist og íþróttir). Þá er ekki veittur styrkur til að kaupa tæki sem fólk notar almennt nema þegar um er að ræða aukabúnað eða séraðlögun. Ennfremur er ekki veittur styrkur til að kaupa (auka) hjálpartæki til að hafa á heimili aðstandenda af viðkomandi býr annars staðar eða á heimavist skóla.“

 

   Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er stjórnvöldum heimilt að takmarka kostnaðarþátttöku við kaup á hjálpartækjum samkvæmt lögum um almannatryggingar enda séu reglur þar að lútandi settar með stoð í lögum. Ennfremur verða reglurnar að vera á málefnalegum rökum reistar og á jafnræðisgrundvelli. Ákveðnu fé er varið af fjárlögum hverju sinni til að standa undir bótum almannatrygginga. Um takmarkaða upphæð er að tefla og því mikilvægt að tryggt sé að aðeins séu greiddar bætur þegar skilyrði nauðsynjar samkvæmt lögunum eru uppfyllt.

 

Að mati úrskurðarnefndar búa málefnaleg rök að baki því að takmarka styrki til kaupa á hjálpartækjum við eitt eintak af hverju nauðsynlegu hjálpartæki þó vissulega séu aðstæður oft svo að það myndi auðvelda daglegt líf þeirra sem þurfa á tækjunum að halda að fá úthlutað fleiri sams konar hjálpartækjum. Þá er það mat úrskurðarnefndar að túlka verði orðalag reglugerðar þar sem talað er um aðstandanda svo, að átt sé við þá sem standi að bótaþega og ekki sé unnt að undanskilja foreldra, sbr. almenna málnotkun t.d. á eyðublöðum grunnskóla þar sem foreldrar eru tilgreindir sem aðstandendur barna sinna. 

 

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að fara verði að orðalagi reglugerðar og ekki sé heimilt að samþykkja umsókn um auka hjálpartæki vegna B og er synjun Tryggingastofnunar staðfest.

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins, frá 23. febrúar 2007, á umsókn um styrk til kaupa á auka hjálpartækjum fyrir B, er staðfest.

 

 

F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

__________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta