Mál nr. 3/2007
Þriðjudaginn, 27. mars 2007
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 18. janúar 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 16. janúar 2007.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12. desember 2006 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Mér var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna þess að ég fékk ekki greitt laun í nóv/des. 2005 og mars 2006.
Ástæðan er sú að á þessu tíma var ég nýbúinn að stofna fyrirtæki, B og þrátt fyrir að ég hafi alltaf unnið þá hafði fyrirtækið ekki alltaf efni á því að borga mér laun.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingarorlof nr. 95/2000 með síðari breytingum, er það skilyrði fyrir rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóð að foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaðar fyrir fæðingardag barns. Starfshlutfall hvers mánaðar þarf að vera a.m.k. 25% samkvæmt 1. mgr. 3. gr. og 4. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.
Ég hef lagt fram gögn sem sýna að ég hafi verið í 100% vinnu í sex mánuði samfellt fyrir fæðingu barns, skilaði inn launaseðlunum og blaði undirritað af vinnuveitanda v/mánaðanna sem vantar laun.
Jafnframt kemur hvergi fram að ég þurfi að vera í launaðri vinnu.“
Með bréfi, dagsettu 19. janúar 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 31. janúar 2007. Í greinargerðinni segir:
„Kærður er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins/lífeyristryggingasviðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Með umsókn, dags. 19. apríl 2006, sem móttekin var 21. apríl 2006, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá áætluðum fæðingardegi vegna væntanlegrar barnsfæðingar 3. maí 2006.
Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 18. apríl 2006, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 19. apríl 2006 og launaseðlar, dags. 31. janúar og 28. febrúar 2006. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.
Þann 4. maí 2006 og 7. desember 2006 sendi lífeyristryggingasvið bréf til kæranda. Í bréfunum var kæranda gerð grein fyrir að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væri ráðið að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki væri ráðið að hann hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið nóvember/desember 2005 og mars 2006 og var honum gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn til staðfestingar á rétti hans til greiðslna.
Þann 12. desember 2006 barst tölvupóstur frá maka kæranda þar sem kemur fram að hann hafi verið í vinnu allan tímann en fyrirtækið sem kærandi starfaði hjá hafi ekki haft ráð á að greiða honum laun.
Engin frekari gögn bárust frá kæranda og var umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði því synjað með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 12. desember 2006 á þeim forsendum að hann uppfyllti ekki skilyrði um að hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði sex síðustu mánuðina fyrir fæðingu barns hans. Í sama bréfi var kæranda bent á að hann ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.
Í 1. mgr. 1. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, kemur fram að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs og að þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi.
Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.
Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna eru skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum telst starfsmaður skv. lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi, sbr. og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004. Samkvæmt þessu þurfa menn að vinna launaða vinnu til þess að geta talist starfsmenn eða sjálfstætt starfandi samkvæmt lögunum og þar með átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er það og eðlilegt í ljósi þess að Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna taka lögin einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.
Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,
a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.
Barn kæranda er fætt þann 6. maí 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er því frá 6. nóvember 2005 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið 6. nóvember 2005 til 5. maí 2006. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra var kærandi launalaus tímabilin nóvember - desember 2005 og mars 2006. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að mál hans falli undir einn af stafliðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Því var talið að kærandi hefði ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.
Verður því, samkvæmt framansögðu, vart á annað fallist en að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Þá ber að geta þess að í 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 er kveðið á um að foreldri á innlendum vinnumarkaði sem á rétt til fæðingarorlofs, skv. 8. gr. laganna, en uppfyllir ekki framangreint skilyrði 1. mgr. 13. gr. eigi rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr. laganna.
Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun- Fæðingarorlofssjóður ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins/lífeyristryggingasviðs að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafa verið rétta. Ennfremur telur Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður þá ákvörðun að benda kæranda á rétt hans til greiðslu fæðingarstyrks hafa verið rétta.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. febrúar 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.
Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að til þátttöku á vinnumarkaði teljist ennfremur:
a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.
Barn kæranda er fætt 6. maí 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 6. nóvember 2005 fram að fæðingardegi barns. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi ekki fengið greidd laun mánuðina nóvember og desember 2005 og mars 2006. Úrskurðarnefndin telur það skilyrði fyrir greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. og 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að laun hafi komið fyrir starf foreldris í öllum sex mánuðum viðmiðunartímabilsins sem tryggingagjald hafi verið greitt af nema um tilvik sé að ræða sem falli undir upptalningu 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Ekki verður séð að mál kæranda falli undir neinn lið í þeirri upptalningu.
Kærandi uppfyllir þannig ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson