Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 513/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 513/2020

Þriðjudaginn 16. febrúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. október 2020, kærði A-, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. október 2020 um greiðslu viðbótar við örorkustyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn 23. september 2020 sótti kærandi um barnalífeyri með X börnum sínum. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. október 2020, var umsókn um barnalífeyri synjað á þeim forsendum að hún uppfyllti ekki skilyrði greiðslna barnalífeyris samkvæmt 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem hún uppfyllti ekki læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar. Kæranda var einnig synjað um greiðslu viðbótar við örorkustyrk með þeim rökum að þar sem kærandi nyti ekki greiðslna örorkustyrks uppfyllti hún ekki skilyrði greiðslu viðbótar við örorkustyrk.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. október 2020. Með bréfi, dags. 16. október 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 6. nóvember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. nóvember 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi fari fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja henni um viðbót við örorkustyrk verði endurskoðuð.

Greint er frá því í kæru að kærandi sé metin með 50% örorku en hafi verið synjað um barnalífeyri sökum tekna. Óskað sé eftir svörum við því hvort það sé rétt að barnalífeyrir sé ekki tekjutengdur hjá þeim sem séu með 75% örorkumat en sé tekjutengdur hjá þeim sem séu með 50% örorkumat.

Í lögum um almannatryggingar segi að örorkustyrkur skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir samkvæmt 18. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreikninga fari samkvæmt 16. gr. Þá segi einnig að greiða skuli viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafi börn innan 18 ára aldurs á framfæri sínu og að viðbótin megi ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 20. gr., fyrir hvert barn á framfæri. Á heimasíðu Tryggingastofnunar komi fram að barnalífeyrir sé ekki tekjutengdur og falli ekki niður þó svo að lífeyrisgreiðslur falli niður vegna tekna.

Í athugasemdum kæranda frá 16. nóvember 2020 segi að Tryggingastofnun hafi vísað í lög en sýni aldrei fram á það í reglugerðum að greiðsla barnalífeyris falli niður hjá þeim sem njóti ekki greiðslna örorkustyrks ólíkt hjá þeim sem njóti ekki greiðslna örorkulífeyris sökum tekna þar sem greiðslur barnalífeyris falli þá ekki niður. Vísar kærandi til þess sem kemur fram á heimasíðu Tryggingastofnunar að barnalífeyrir sé ekki tekjutengdur og falli ekki niður þó svo að lífeyrisgreiðslur falli niður sökum tekna.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á greiðslu viðbótar við örorkustyrk.

Málavextir séu þeir að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 14. október 2020, hafi kæranda verið synjað um greiðslu viðbótar við örorkstyrk vegna barna sinna þar sem hún nyti ekki örorkustyrks vegna tekna. Í sama bréfi hafi kæranda einnig verið synjað um greiðslu barnalífeyris með börnum sínum þar sem hún hafi ekki uppfyllt læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 almannatryggingar. Kæranda hafi áður verið sent rangt bréf, dags. 6. október 2020, en þar komi fram að kæranda hafi verið synjað um barnalífeyir þar sem hún væri nú þegar með þær greiðslur.

Í 19. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun skuli veita einstaklingi á aldrinum 18–62 ára örorkustyrk ef örorka hans sé metin að minnsta kosti 50% og hann uppfylli búsetuskilyrði 1. mgr. 18. gr. Slíkan styrk skuli enn fremur veita þeim sem uppfylli skilyrði 1. málsl. málsgreinarinnar og stundi fullt starf ef örorkan hafi í för með sér verulegan aukakostnað. Örorkustyrkurinn skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir samkvæmt 18. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreiknings fari samkvæmt 16. gr. Þá segi í 3. mgr. 19. gr. laganna að greiða skuli viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafi börn innan 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin megi ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 20. gr., fyrir hvert barn á framfæri.

Kærandi hafi sótt um barnalífeyri/viðbót við örorkustyrk með X börnum sínum með umsókn, dags. 23. september 2020. Kærandi sé með samþykktan örorkustyrk frá 1. júlí 2016 en kærandi hafi ekki þegið greiðslur vegna of hárra tekna. Frá sama tíma sé kærandi einnig með samþykkta viðbót við örorkustyrk vegna tveggja eldri barna sinna og frá 1. febrúar 2020 vegna yngsta barnsins en þar sem kærandi hafi ekki fengið greiddan örorkustyrkinn vegna tekna, hafi hún ekki heldur fengið viðbótina greidda. Kærandi sé ósátt við að fá ekki viðbótina greidda.

Viðbót við örorkustyrk vegna barna sé greidd samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar og sé eingöngu greidd þeim sem njóti greiðslna örorkustyrks. Hún sé því eingöngu greidd til viðbótar við örorkustyrk, eins og heiti hennar beri með sér, en ekki sjálfstætt. Tekjur hafi ekki áhrif á viðbótina sem slíka, þ.e. ekki til lækkunar á viðbótinni sjálfri, að öðru leyti en því að falli einstaklingur af greiðslum örorkustyrks af einhverjum ástæðum, meðal annars vegna tekna, hætti viðkomandi einnig að njóta tengdra greiðslna, þar á meðal viðbótarinnar. Barnalífeyrir sé hins vegar greiddur samkvæmt 20. gr. laga um almannatryggingar og gildi aðrar reglur um greiðslur þess lífeyris.

Þar sem kærandi fái ekki greiddan örorkustyrk vegna of hárra tekna, sé ekki heimilt að greiða kæranda viðbótina vegna barna sinna. Af þeim sökum hafi umsókn um greiðslu viðbótar við örorkustyrk verið synjað.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu viðbótar við örorkustyrk með X börnum sínum.

Í 1. málsl. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að Tryggingastofnun ríkisins skuli greiða viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á framfæri sínu.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda um viðbót við örorkustyrk með X börnum sínum á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar um viðbót við örorkustyrk þar sem að hún nyti ekki greiðslna örorkustyrks sökum tekna. Óumdeilt er að kærandi fær ekki greiddan örorkustyrk frá Tryggingastofnun vegna tekna. Miðað við orðlag ákvæðisins er það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að eðli máls samkvæmt geti einstaklingur ekki átt rétt á viðbót við örorkustyrk ef sá hinn sami njóti ekki greiðslna örorkustyrks.

Í kæru eru gerðar athugasemdir við að mismunandi reglur gildi um rétt til barnalífeyris annars vegar og viðbót við örorkustyrk hins vegar. Úrskurðarnefndin vill í þessu sambandi benda kæranda á að fjallað er um barnalífeyri í 20. gr. laga um almannatryggingar og í 2. máls. 1. mgr. kemur skýrt fram að ákvæði laganna um lækkun bóta vegna tekna hafi ekki áhrif á rétt til barnalífeyris, með öðrum orðum er barnalífeyrir samkvæmt 20. gr. ekki tekjutengdur. Sambærilegt ákvæði er ekki í 19. gr. sömu laga hvað varðar viðbót við örorkustyrk og skilyrði greiðslna viðbótarinnar því að greiðslur örorkustyrks séu til staðar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu viðbótar við örorkustyrk staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu viðbótar við örorkustyrk, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta