Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 500/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 500/2022

Þriðjudaginn 13. desember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 11. október 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. október 2022 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá 13. júlí 2022 með umsókn 7. september 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. október 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að ekki þættu rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing teldist vart vera í gangi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. október 2022. Með bréfi, dags. 12. október 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda samdægurs með bréfi úrskurðarnefndar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að rökstuðningur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir synjun á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri sé að ekki þættu rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing teldist vart vera í gangi eins og væri.

Kærandi sé ósátt við þessa niðurstöðu Tryggingastofnunar því að hún hafi vissulega verið í virkri starfsendurhæfingu allt frá því hún hafi farið í veikindaleyfi í lok janúar 2022. Ástæða veikinda hennar séu afleiðingar kæfisvefns, þ.e. þreyta og orkuleysi frá því hún vakni að morgni og þar til hún sofni á kvöldin. Kærandi hafi farið í kæfisvefnsrannsókn árið 20xx og hafi þá verið með kæfisvefn á vægu stigi og ekkert hafi verið að gert. Árið 20xx hafi hún farið aftur í rannsókn en þá hafi blóðþrýstingurinn verið orðinn mjög hár og enn meiri þreyta og orkuleysi. Þá hafi mælingar sýnt kæfisvefn, 28,6 öndunarhlé á klukkustund, sem sé nálægt alvarlegum kæfisvefni. Hún hafi fengið kæfisvefnsvél en hafi ekki getað notað hana, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Kærandi hafi verið með hreyfiseðil frá X 2021 til að sporna við hreyfingarleysi og fá stuðning. Aukin hreyfing hafi ekki skilað henni betri heilsu og hafi hún að lokum farið í veikindaleyfi í X 2022. Leiðbeiningar frá Landspítalanum varðandi meðferð kæfisvefns séu þær að viðkomandi sem sé of þungur létti sig.

Þegar kærandi hafi farið í veikindaleyfi í X 2022 hafi eina úrræðið, sem hún hafi getað séð að myndi hjálpa sér að vinna á kæfisvefninum, verið að létta sig. Það sé engin starfendurhæfingaraðili sem taki á þessum málum nema bíða í mánuði eða ár eftir offitusviði B. Kærandi hafi farið á lyf en það hafi haft óæskilegar aukaverkanir svo að hún hafi hætt á því eftir að hún hafi farið inn í sextán vikna matarprógramm hjá C í D í X. Árangurinn hafi verið mjög góður en hún hafi lést um XX kíló og sé enn að léttast þar sem hún haldi sig enn við prógrammið. Kærandi sé búin að léttast um XX% af upphaflegri þyngd. Einnig hafi hún getað hreyft sig meira, gert styrktaræfingar og farið í göngur þegar hafi liðið á vorið.

Þann X júlí hafi kærandi loksins treyst sér til að fara í 40% starf og gangi það þokkalega þó að orkan sé af skornum skammti. Hún vonist til að geta hækkað starfshlutfallið fljótlega og komast í fullt starf þegar á líði. Einnig hafi hún aftur fengið hreyfiseðil til að fá stuðning frá hreyfistjóranum og auka hreyfingu. Þegar hún hafi verið búin að aðlagast 40% starfi, sem sé viss starfsendurhæfing, hafi hún byrjað í vatnsleikfimi á B tvisvar í viku og sé einnig komin á námskeiðið […] hjá E. Það sé ekki inni í endurhæfingaráætluninni, enda hafi hún ekki verið endurnýjuð þar sem kærandi hafi beðið eftir svari frá Tryggingastofnun frá því í byrjun júlí en þá hafi öll gögn átt að vera komin. Samhliða sé kærandi í göngum úti í heilnæmu lofti, stundi hugleiðslu og haldi sig við heilnæmt mataræði og haldi áfram að léttast.

Þann 6. október 2022 hafi hún farið aftur í kæfisvefnsrannsókn hjá Heilsugæslunni í F til að sjá hvort kæfisvefninn hafi minnkað. Niðurstöður sýni að kæfisvefninn hafi minnkað miðað við mælingu í nóvember 2020. Nú sé kærandi í þeim hópi að vera með vægan kæfisvefn, mæling hennar í dag séu þrettán öndunarhlé að meðaltali á klukkustund en vægur kæfisvefn sé fimm til fimmtán. Einnig hafi hún getað minnkað til muna blóðþrýstingslyf, eða úr 10 mg í 2,5 mg. Heimilislæknir kæranda hafi fylgt henni vel eftir og geti staðfest árangur hennar með nýju læknisvottorði.

Með synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurhæfingarlífeyri finnist kæranda vera gert lítið úr þeirri vinnu sem hún hafi verið í til að koma sér aftur til heilsu og til vinnu aftur. Kærandi óski eftir því að umsókn hennar verði endurskoðuð með framangreindum útskýringum.

 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að mál þetta varði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. október 2022 þar sem kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri með þeim rökum að ekki þættu rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing hafi vart talist vera í gangi á tímabilinu.

Ágreiningur málsins lúti þannig að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem segi að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Greinin hljóði svo:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá tiltaki 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar og í 8. gr. sömu reglugerðar komi fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Í sömu reglugerð sé að finna ákvæði um upplýsingaskyldu greiðsluþega sem og endurhæfingaraðila til framkvæmdaraðila, sem sé Tryggingastofnun, þegar aðstæður breytist sem geti haft áhrif á greiðslur endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni, sbr. einnig 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar.

Þá sé í 37. gr. almannatryggingalaga, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um endurhæfingarlífeyri, meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfi eftir ásamt reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans og þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri í fyrsta skipti með umsókn, dags. 7. september 2022. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 7. október 2022, með þeim rökum að ekki þættu rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk endurhæfing hafi vart talist vera í gangi. Kærandi hafi því ekki verið talin uppfylla skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem segi að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði. Kærandi hafi því ekki lokið rétti sínum til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris og ekki sé að sjá að endurhæfing með utanumhaldi fagaðila geti ekki komið kæranda að gagni í baráttu hennar við sjúkdómavanda sinn.

Við mat á umsóknum um endurhæfingarlífeyri styðjist tryggingalæknir og annað starfsfólk Tryggingastofnunar ríkisins við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við synjun á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri þann 7. október 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri, dags. 7. september 2022, læknisvottorð G, dags. 29. júní 2022, og endurhæfingaráætlun H, dags. 1. júlí 2022.

Í læknisvottorði G heimilislæknis, dags. 29. júní 2022, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 7. október 2022 komi fram að kærandi sé greind með vefjagigt (e. fibromyalgia) (M79.7), kæfisvefn (e. sleep apnoea) (G47.3), háþrýsting (e. hypertension) (I10) og offitu (e. obesity) (E66). Tildrögum, gangi og einkennum sjúkdóms kæranda sé lýst þannig að kærandi hafi farið í veikindafrí frá vinnu þann X 2022 og að kærandi hafi þá verið orðin óvinnufær vegna þreytu. Enn fremur segi að þessa þreytu hafi mátt rekja til kæfisvefns og vefjagigtar. Þá segi að með breyttu mataræði og aukinni hreyfingu hafi kæranda tekist að léttast talsvert. Kæranda líði betur, kæfisvefninn hafi skánað, þreytan minnkað og að kærandi hafi stefnt á að byrja í hlutastarfi í júlí í 40% starfshlutfalli. Um framtíðarvinnufærni segi að kærandi sé vel fær um að sinna hlutastarfi en að óvíst sé hversu hratt kærandi nái að auka starfshlutfallið þannig að nær sé fullu starfi. Sem tillaga að meðferð segi í læknisvottorðinu að kærandi skuli halda áfram breyttu mataræði og auka við hreyfingu. Í þeim tilgangi segi að kærandi sé að hefja meðferð hjá hreyfistjóra og í sundleikfimi á B.

Í endurhæfingaráætlun, dags. 1. júlí 2022, sem útbúin hafi verið af H, hreyfistjóra á Heilsugæslunni í F, og hafi líka legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 7. október 2022, sé hvorki fjallað um markmið og tilgang endurhæfingar kæranda né hvernig kærandi endurheimti starfsorku með endurhæfingunni. Hvað vanda kæranda varði og fyrirhugaða endurkomu á vinnumarkað sé ekkert sagt. Þá sé ekki tiltekið hvert tímabil virknieflandi aðgerða sé. Innihaldi endurhæfingar kæranda sé lýst þannig að kærandi fari í 15 mínútna gönguferðir og geri styrkjandi æfingar og teygjur tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Hugleiði sjö sinnum í viku, sinni garðvinnu eftir þörfum og fari í sundleikfimi í haust.

Í athugasemdum kæranda sem hafi fylgt með kæru, dags. 11. október 2022, segi að kærandi sé byrjuð að stunda vatnsleikfimi á B, auk þess sem hún stundi nú námskeiðið […] á vegum E. Þessar upplýsingar gefi, að mati Tryggingastofnunar, ekki tilefni til endurskoðunar á fyrri ákvörðun þar sem engar nýjar upplýsingar um innihald endurhæfingar kæranda komi þar fram sem breytt gætu því mati Tryggingastofnunar að virk endurhæfing teljist vart vera í gangi hjá kæranda.

Í læknisvottorði G heimilislæknis, dags. 21. október 2022, sem borist hafi til Tryggingastofnunar sama dag, sé hliðstæðar upplýsingar að finna og í læknisvottorði, dags. 29. júní 2022, nema að því leyti að í því yngra segi að kærandi stundi námskeið á vegum E, auk þess að vera í reglulegu eftirliti hjá heimilislækni. Þessar nýju upplýsingar gefi, að mati Tryggingastofnunar, ekki tilefni til endurskoðunar á fyrri ákvörðun þar sem enn verði ekki séð að virk starfsendurhæfing teljist vera í gangi hjá kæranda.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins. Þá sé helst skoðað hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs og hvort endurhæfing sú sem sé reynd sé virk, markviss og líkleg til þess að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Tryggingastofnun vilji undirstrika að endurhæfingarlífeyrir samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 661/2020 taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu undir handleiðslu fagaðila þar sem tekið sé markvisst á þeim heilsufarsvanda sem valdi óvinnufærni hverju sinni. Jafnframt skuli endurhæfingaráætlunin miða að því að taka á vanda viðkomandi hverju sinni og innihalda endurhæfingarþætti sem séu til þess fallnir að styðja við þá nálgun. Endurhæfingarlífeyrir sé samkvæmt framangreindu bundinn ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verði til að greiðslur séu heimilar. Þeirra á meðal sé skilyrði um að viðkomandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati Tryggingastofnunar. Óvinnufærni ein og sér veiti þannig ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Að mati sérfræðinga Tryggingastofnunar hafi ekki þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing kæranda hafi vart talist vera í gangi á tímabilinu. Þá hafi endurhæfingaráætlun ekki þótt nógu ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda hafi virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsufarsvanda kæranda vart virst vera í gangi.

Tryggingastofnun telji það því vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri að svo stöddu þar sem mat Tryggingastofnunar sé að endurhæfing kæranda hafi hvorki verið nægjanlega umfangsmikil né markviss á umdeildu tímabili þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð geri kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Þá sé einnig horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu möguleg, auk þess árangurs sem þau meðferðarúrræði gætu skilað. Kærandi hafi því ekki uppfyllt á þeim tímapunkti skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Að öllu samanlögðu hafi þau gögn sem fyrirliggjandi hafi verið þegar kærð ákvörðun hafi verið tekin ekki gefið tilefni til að ætla að kærandi uppfyllti skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem segi að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði.

Vert sé að taka fram að verði breyting á endurhæfingu kæranda eða aðstæðum þá geti kærandi ávallt lagt inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesti virka þátttöku í starfsendurhæfingu og verði málið þá tekið fyrir að nýju eins tekið hafi verið fram í niðurlagi synjunarbréfs Tryggingastofnunar þann 7. september 2022. Að því sögðu vilji Tryggingastofnun benda á að kærandi hafi nú þegar hafið nýtt umsóknarferli með afhendingu nýs læknisvottorðs.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja um endurhæfingarlífeyri, sé rétt. Sérstaklega í ljósi þess að kærandi hafi ekki virst vera í virkri endurhæfingu sem tæki á heilsufarsvanda hennar á því tímabili sem sótt hafi verið um. Sú niðurstaða sé byggð á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 7. október 2022 þess efnis að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. október 2022 um að synja umsókn kæranda um greiðslur endurhæfingarlífeyris. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærandi uppfylli skilyrði um endurhæfingarlífeyri, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð var sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Í læknisvottorði G, dags. 29. júní 2022, segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„Fibromyalgia

Obesity (bmi >=30)

Kæfisvefn

Háþrýstingur“

Í sjúkrasögu segir:

„X ára kona með vefjagigt (I, gigtarl. greindi hana), kæfisvefn, ofþyngd og háþrýsting. Vinnur sem X hjá […].Er komin í veikindafrí frá X sl í samráði við atvinnurekanda, var búin á því líkamlega. Mikil þreyta. Verið með kæfisvefnsvél en ekki getað vélina, ekki getað notað góm. Var með 41 í BMI í janúar og byrjaði þá á Saxenda en hætti vegna aukaverkana. Hins vegar breytt matarræðinu og hefur léttst talsvert og BMI lækkkað frá 41 í 35. Líður betur og mun byrja í hlutastarfi í X. Er að byrja hjá hreyfistjóra og í sundleikfimi.“

Í niðurstöðu rannsókna segir:

„Lítur vel út, búin að grennast, […]. Er skárri af kæfisvefninum, er minna þreytt á morgnana.Þyngd: 95,5 kg Hæð: 165 cm. BMI=35“

Í samantekt segir:

„Núverandi vinnufærni: 0% frá 26.01.22 en planið er að byrja í 40% starfi X nk.

Framtíðar vinnufærni: Tel vera góða möguleika á að hún snúi aftur í vinnu í hlustastarf í næsta mánuði en óvíst hve hratt hún nær að trapa upp starfshlutfallið.

Samantekt: Mikil þreyta vegna kæfisvefns og vefjagigtar en nú betri eftir þyngdartap.“

Í tillögu að meðferð segir:

„Áfram breytt matarræði en þarf að auka við hreyfingu, er að byrja hjá hreyfistjóra og í sundleikfimi á B.“

Þá liggur fyrir læknisvottorð G, dags. 21. október 2022, þar sem fram kemur að kærandi sé auk þess á námskeiði hjá E […] ásamt því að fara í gönguferðir þrisvar sinnum í viku. Þá sé hún í reglulegu eftirliti hjá heimilislækni. Kærandi sé búin að vera í 40% starfi frá X síðastliðinn en hafi ekki tekist að auka starfshlutfallið og muni ekki geta það fyrir áramót. Allar líkur séu á því að hægt verði að auka vinnufærni en óvíst sé hve hratt.

Í endurhæfingaráætlun H hreyfistjóra, dags. 1. júlí 2022, segir:

„Hefur nú skuldbundið sig til þess að taka þátt í endurhæfingaráætlun miðað við núverandi getu og er svohljóðandi:

  1. Gönguferðir 15 mín í senn, 2x/viku í 4 vikur, síðan 2-3x/viku.
  2. Styrkjandi æfingar og teygjur, 2x/viku í 4 vikur, síðan 2-3x/viku.
  3. Hugleiðsla 7x/viku.
  4. Garðvinna eftir þörfum.
  5. Sundleikfimi í haust.

Áætlun verður endurskoðuð í byrjun ágúst.“

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris séu uppfyllt. Í kærðri ákvörðun Tryggingastofnunar segir að ekki hafi þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing teldist vart vera í gangi. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við líkamlega færniskerðingu sem orsaki skerta vinnugetu.

Það er mat úrskurðarnefndar að endurhæfing kæranda sé hvorki nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Úrskurðarnefndin lítur meðal annars til þess að ekki verði ráðið af endurhæfingaráætluninni hvernig þeir endurhæfingarþættir, sem lagt var upp með, eigi að stuðla að endurkomu kæranda á vinnumarkað. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. október 2022 um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta