Hoppa yfir valmynd

Nr. 238/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 238/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20040028

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. apríl 2020 kærði […], fd. […], ríkisborgari Síle (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. apríl 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 21. nóvember 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 10. febrúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. apríl 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. apríl 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 13. maí 2020. Viðbótargögn bárust 16., 19. og 23. júní 2020. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna almenns ástands í heimaríki sínu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laganna. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur í […]og hafi verið búsettur þar áður en hann hafi yfirgefið heimaríki. […]. Kærandi hafi yfirgefið heimaríki sitt í ágúst 2019 í þeim tilgangi að fara í frí til […] á Spáni, með viðkomu í Brasilíu og Dúbaí. Á meðan á dvölinni á Spáni hafi staðið hafi hafist atburðir í heimaríki sem séu ástæða þess að kærandi óttist ofsóknir þar í landi, en fjölmenn mótmæli hafi átt sér stað gegn stjórnvöldum. Kærandi hafi fylgst náið með þróun mótmælanna í fjölmiðlum og hafi auk þess dreift myndum af þeim í gegnum Instagram síðu sína sem hafi haft yfir 60 þúsund fylgjendur. Kærandi og myndir hans hafi fengið mikla athygli. Mótmælin hafi þróast með þeim hætti að Sílebúar og aðrir stuðningsmenn mótmælanna víðar í heiminum hafi tekið að hópa sig saman sem hafi m.a. gerst í […] þar sem kærandi hafi dvalið. Hinn […] hafi fólk mótmælt í […] og kærandi verið meðal þeirra sem farið hafi fyrir hópnum. Hópurinn hafi gengið undir […] og hafi m.a. skipulagt mótmælin. Auk þess hafi hópurinn boðið upp á lögfræðiaðstoð og sálfræðiþjónustu. Kærandi hafi sjálfur komið því á fót að boðið yrði upp á kennslu í öryggisviðbúnaði t.d. hvernig mætti ganga úr skugga um að yfirvöld gætu ekki hlerað símtæki mótmælenda. Kærandi hafi greint frá því að hann teldi yfirvöld í Síle og á Spáni hafa fylgst með hópnum og að borgaralega klæddir hermenn hafi verið viðstaddir mótmæli til að hafa eftirlit. Kveður kærandi að rannsóknarlögreglan í heimaríki hans hafi í tvígang komið á heimili hans í […]. Fyrra skiptið þann 16. nóvember 2019 og hið síðara 10. desember 2019. Í bæði skiptin hafi fjölskyldumeðlimir kæranda verið staddir þar og verið spurð um kæranda. Einnig hafi þeir eitt sinn komið á vinnustað þar sem kærandi hafði áður unnið en hafði nýlega hætt. Fyrrum herbergisfélagi kæranda í […] hafi jafnframt byrjað að fá athugasemdir á förnum vegi frá fólki af síleskum uppruna um að hann ætti ekki að láta tengja sig við kæranda og skyldi láta koma honum úr húsnæði þeirra. Á þessum tíma hafi umræddum Instagram-reikningi kæranda verið lokað.

Kærandi hafi greint frá því að hann sé andsnúinn núverandi yfirvöldum í Síle, hann hafi verið það alla tíð og hafi ekki farið leynt með skoðanir sínar. Þá hafi systir kæranda einnig orðið fyrir afskiptum yfirvalda vegna þess að hún búi yfir upplýsingum um verkalýðsfélög [...]. Kærandi hafi lagt fram gögn til stuðnings frásögn sinni, þ.m.t. ljósmynd og myndskeið þar sem hann fari fyrir mótmælendunum í […].

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður í heimaríki hans og vísað til alþjóðlegra skýrslna. Þar komi fram að í kjölfar mótmælanna í landinu þann 18. október 2019 hafi farið að berast fréttir af ofbeldi stjórnvalda gagnvart mótmælendum og forsetinn hafi lýst yfir neyðarástandi og virkjað umdeild öryggislög í landinu. Þessar aðgerðir forsetans hafi skert mjög frelsi borgara landsins til friðsamra mótmæla og hafi her landsins m.a. beitt almenna borgara ofbeldi. Í ársskýrslu Human Rights Watch sé vikið sérstaklega að hinu alvarlega ofbeldi sem lögreglan í Síle hafi beitt íbúa landsins í kjölfar mótmælanna. Þúsundir mótmælenda hafi særst, tugir látist og hundruð hafi greint frá misþyrmingum í varðhaldi. Á rétt um mánuði hafi meira en 15 þúsund manns verið hnepptir í varðhald. Jafnvel þó stjórnvöld hafi gripið til einhverra aðgerða til að stemma stigu við þessu ofbeldi vanti enn mikið upp á. Mótmælendur og frumbyggjar í landinu hafi helst orðið fyrir ofbeldinu. Amnesty International hafi flokkað glæpi lögreglu og hers samkvæmt alþjóðalögum og grófum mannréttindabrotum. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sé hinum fjölmörgu mannréttindabrotum lýst og greint frá brotum á grundvallarreglum þjóðaréttar um beitingu opinbers valds af hálfu öryggissveita. Fram kemur að mótmælin hafi haldið áfram á árinu 2020. Í mars hafi 300 manns verið handteknir í átökum sem hafi brotist út í höfuðborginni og a.m.k. þremur öðrum borgum. Auk þess beri heimildir með sér [...].

Kærandi gerir athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun. Stofnunin hafi talið trúverðugt að kærandi hafi tekið þátt í mótmælum en hún fengi ekki séð hvers vegna lögregla ætti að leita hans í Síle vitandi af honum í mótmælum á Spáni. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá stofnuninni að lögregla hafi komið á heimili hans og vinnustað og spurt spurninga um hann, m.a. um hvar hann væri. Þá sé ekki útilokað að lögregla viðhafi eftirlit á fleiri en einum stað enda geti kærandi hafa farið á milli staðanna. Þá komi fram að stofnunin telji ekkert benda til þess að kærandi sé stjórnvöldum kunnur eða að þau hafi eftirlit með honum. Kærandi bendi á að stofnunin hafi lagt til grundvallar að hann hafi tekið þátt í mótmælum og slík þátttaka geti verið til þess fallin að vekja athygli stjórnvalda. Þá hafi stofnunin talið að hann hafi ekki lagt fram gögn um að hann hafi verið í forsvari fyrir hóp mótmælenda í […] en kærandi telji að ljósmyndir og myndskeið sem hann hafi lagt fram styðji frásögn hans hvað það varðar. Þá hafi það komið fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að ljóst sé að lögregla hafi gerst sek um mikið harðræði gagnvart mótmælendum þar í landi en að stofnunin hafi ekki fundið neinar upplýsingar um að einstaklingar sem mótmælt hafi stjórnvöldum í Síle í öðrum löndum séu í sérstakri hættu af hálfu yfirvalda. Kærandi bendi á að verði umsókn hans synjað verði honum gert að snúa aftur til Síle þar sem mótmælendur séu beittir harðræði.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hann sé flóttamaður samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, með vísan til þess að hann óttist ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna. Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar kærandi til þess að hann hafi stjórnmálskoðanir sem séu yfirvöldum í Síle ekki þóknanlegar. Kærandi hafi farið fyrir hópi mótmælenda í […] þar sem stefnu og aðgerðum núverandi yfirvalda í Síle hafi verið mótmælt. Ljóst megi vera af framangreindum heimildum að yfirvöld hafi ráðist af hörku gegn einstaklingum sem hafi tekið þátt í mótmælum. Þá sé ljóst að skoðanir hans séu yfirvöldum kunnar enda hafi hann lýst þeim opinberlega og hafi haldið úti Instagram síðu sem hafi marga fylgjendur. Kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna skoðana sinna verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Sá ótti byggist enn fremur á því að rannsóknarlögregla hafi haft kæranda undir eftirliti og ítrekað komið á heimili hans í leit að honum vegna þátttöku hans í friðsamlegum mótmælum. Þá taki kærandi fram að líta verði til [...]. Kærandi hafi ekki möguleika á vernd yfirvalda í heimaríki sínu.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda sé raunhæf ástæða til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Ljóst sé að grafalvarlegt ástand hafi ríkt í Síle undanfarna mánuði. Að undirlagi yfirvalda hafi lögregla og öryggissveitir ráðist gegn mótmælendum og almennum borgurum með þeim afleiðingum að tugir hafi verið drepnir, þúsundir særst og fólk verið frelsissvipt og beitt ofbeldi. Með hliðsjón af framangreindu sé krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn gagnvart kæranda.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vísar kærandi til þess að hann sé þolandi viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sínu sem yfirvöld verndi hann ekki gegn. […].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað sílensku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé síleskur ríkisborgari. LandaupplýsingarKærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Síle m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Annual Report 2019 – Chile (Amnesty International, 27. febrúar 2020);
  • Chile: Authorities must guarantee human rights during state of emergency (Amnesty International, 19. október 2019);
  • Chile: Amnesty International writes to President Pinera reiterating his human rights obligations (Amnesty International, 21. október 2019);
  • Chile: Amnesty International announces research mission to document grave human rights violations (Amnesty International, 24. október 2019);
  • […];
  • Amnesty International denounces human rights violations to the Inter-American Court of Human Rights (Amnesty International, 11. nóvember 2019);
  • Chile Despertó International Network collects the first results from the collaboration with the European United Left/Nordic Green Left GUE-NGL (Chile Despertó International, 14. nóvember 2019);
  • Chile: Deliberate policy to injure protesters points to responsibility of those in command (Amnesty International, 21. nóvember 2019);
  • Chile extends curfew again as violent unrest paralyzes one of Latin America´s biggest cities (CNN, 22. október 2019);
  • Chile Human Rights Abuses worst since dictatorship: NHRI warns (teleSur, 23. desember 2019); • Chile moves to postpone constitutional referendum amid coronavirus crisis (The Guardian, 19. mars 2020);
  • Chile: International Human Rights Observation Mission Courthouse of Justice of Santiago (World Organisation Against Torture, https://www.omct.org/statements/chile/2019/11/d25596/, 11. nóvember 2019),
  • Chile: Police Reforms Needed in the Wake of Protests (Human Rights Watch, 26. nóvember 2019);
  • Chile: Respect Rights in Protest Response – Investigate Reports of Excessive Force (Human Rights Watch, 22. október 2019);
  • Chile: Police Reforms Needed in the Wake of Protests – Excessive Force Against Demonstrators; Bystanders; Serious Abuse in Detention (Human Rights Watch, 26. nóvember 2019);
  • Chile protests: UN accuses security forces of human rights abuses (BBC News, 13. desember 2019);
  • Chile´s Pinera Declares 90-Day State of Catastrophe Over Coronavirus Outbreak (The New York Times, 18. mars 2020);
  • Concluding observations on the sixth periodic report of Chile (Committee against Torture, 28. ágúst 2018);
  • Explainer: Chile´s inequality challenge: What went wrong and can it be fixed (Reuters, 23. október 2019);
  • Freedom in the World 2019 – Chile (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Freedom in the World 2020 (Freedom House, 2020);
  • […]; 
  • […];
  • Report of the Mission to Chile – 30 October – 22 November (United Nations Office of the High Commissioner, 2019);
  • UN Confirms Serious Human Rights Violations in Pinera´s Chile (Telesurtv.net, 13. desember 2019);
  • United Nations Human Rights Office reports on Chile crisis describes multiple police violations and calls for reforms (United Nations Human Rights Office of the High Commissioner, 13. desember 2019);
  • Violence resurges in protest racked Chile, nearly 300 arrested (Reuters, 3. mars 2020);
  • 18 killed as hundreds of thousands of protesters take to the streets in Chile. Here´s what to know (TIME, 25. október 2019);
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Chile (U.S. Department of State, 11. mars. 2020) og
  • World Report 2019 – Chile (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Síle er stjórnarskrárbundið og fjölflokka lýðræðisríki með rúmlega 18 milljónir íbúa. Síle gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1945. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1972. Í Síle var einræði í valdatíð Augusto Pinochet til ársins 1990 og síðan hafa stjórnvöld verið kosin með lýðræðislegum kosningum. Frá þeim tíma hefur Síle notið hagvaxtar og fátækt lækkað umtalsvert. Stjórnvöld hafa sett á fót áætlanir til að efla aðgengi að menntun, heilsu og húsnæði. Árið 2010 varð Chile fyrsta landið í Suður-Ameríku til að ganga í Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Á undanförnum árum hafa lífsskilyrði og menntun íbúa Síle verið best í Suður-Ameríku. Í skýrslu Freedom House frá árinu 2019 kemur fram að forsetakosningar í Síle hafi almennt verið frjálsar og lýðræðislegar síðustu ár. Þá kemur fram að dómstólar landsins séu almennt séð frjálsir og lausir við pólitísk afskipti og spillingu. Forseti landsins sé kjörinn til fjögurra ára í senn og hann megi ekki sitja lengur en í eitt kjörtímabil samfellt. Sebastian Pinera hafi gegnt starfi forseta á árunum 2010 til 2014 og aftur frá árinu 2017. Á lista Freedom House fyrir árið 2020 sem raðar ríkum eftir því hversu frjáls þau teljist er Síle með 90 stig af 100 mögulegum, ásamt Frakklandi, Möltu og Liechtenstein.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 kemur fram að í Síle […].

Í skýrslunni kemur jafnfram fram að öryggislögreglan (s. Carabineros) ásamt rannsóknarlögreglunni (PDI) beri lagalega ábyrgð á löggæslu, m.a. landamæraeftirliti og almannaöryggi. Innanríkis- og almannaöryggisráðuneytið hafi yfirumsjón með báðum stofnunum. Ríkisstjórnin hafi verkferla til að rannsaka og refsa fyrir misnotkun.

Stjórnarskráin kveði á um tjáningarfrelsi og stjórnvöld virði almennt það frelsi. Sjálfstæðir fjölmiðlar, áhrifaríkt og skilvirkt dómsvald og lýðræðislegt stjórnmálakerfi séu í landinu. Þá leggi stjórnarskrá Síle og landslög bann við handahófskenndum handtökum og varðhaldi og veiti hverjum sem handtekinn sé rétt til að bera lögmæti handtökunnar undir dómstóla.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér brutust út mótmæli í höfuðborg Síle, Santiago, í október 2019 vegna hækkunar á fargjaldi fyrir almenningssamgöngur. Mótmælin hafi fljótt dreifst um allt land og orðið að almennum mótmælum gegn misrétti, háu verði fyrir heilbrigðisþjónustu og menntun. Þann 18. október 2019 hafi ríkisstjórnin ákveðið að lýsa yfir neyðarástandi. Í því hafi m.a. falist takmarkanir á ferðafrelsi og heimildir til að herinn gæti gripið til öryggisráðstafana. Mótmæli hafi haldið áfram þrátt fyrir það og hinn 25. október hafi um 1,2 milljónir manns tekið þátt í mótmælum í Santiago. Hinn 14. nóvember hafi samkomulag náðst við stjórnmálaflokka um að setja af stað ferli til að breyta stjórnarskránni, þ.m.t. fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni í apríl 2020. Atkvæðagreiðslunni hafi síðar verið frestað vegna Covid-19 faraldursins. Mótmæli hafa haldið áfram í landinu í minna mæli og hafi mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna (e. UN High Commissioner for Human Rights) lýst ásökunum um mannréttindabrot af hálfu lögreglu. Í ársskýrslu Amnesty International fyrir árið 2019 kemur fram að á fyrstu tveimur mánuðum mótmælanna hafi meira en 13 þúsund manns slasast og að rúmlega 2.500 kvartanir séu skráðar hjá dómsmálaráðuneyti landsins vegna mannréttindabrota af hálfu stjórnvalda, þar af 1.500 þar sem stjórnvöld séu sökuð um að beita þegna sína pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá komi fram að öryggissveitir hafi notað táragas og beitt vopnum gegn mótmælendum með alvarlegum afleiðingum, s.s. augnskaða og öðru líkamstjóni og í nokkrum tilvikum dauða. Benda heimildir til þess að í byrjun mars á þessu ári hafi mótmæli hafi hafist á ný víða í Síle og 283 hafi verið handteknir og 76 lögreglumenn særst.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að eftirlitssamtök í landinu á sviði mannréttinda, INDH (s. Instituto Nacional de Derechos Humanos) hafi skráð atvik og opnað hafi verið sakamál gegn meðlimum öryggissveita í tengslum við andlát fimm einstaklinga í mótmælunum, þrír hafi verið handteknir og mál höfðuð gegn þeim. Þá hafi fulltrúar öryggissveita endurskoðað heimildir til að beita skotvopnum í mótmælum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveðst vera í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þá sé kærandi […].

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 10. febrúar 2020, kvaðst kærandi hafa verið í fríi á Spáni þegar framangreind mótmæli hafi brotist út í heimaríki hans. Hann hafi verið með Instagram-reikning með um 60 þúsund fylgjendum og þar hafi hann viðrað skoðanir sínar á stjórnmálunum í Síle. Hann hafi jafnframt tekið þátt í mótmælum vegna ástandsins í […] og verið meðal stjórnenda í hinum spænska mótmælahópi […]. Kærandi kvað hermenn frá Síle hafa verið í felum í [...] og þeir hafi fylgst með mótmælunum. Kærandi kvaðst hafa borið ábyrgð á öryggi mótmælendahópsins, m.a. með því að tryggja almennt öryggi, persónuvernd og að stjórnvöld gætu ekki hlerað símasamskipti meðlima hópsins. Þá greindi kærandi frá því að lögreglumenn hafi leitað hans í tvígang í heimaríki, þann 1. nóvember og 10. desember 2019. Þá hafi lögreglan einnig mætt á vinnustað kæranda. Kærandi hafi jafnframt greint frá því að þegar herbergisfélagi hans á Spáni hafi sagt honum að aðilar á götunni hefðu varað hann við að umgangast kæranda, hafi hann ákveðið að flytja úr íbúðinni þar sem hann hafi verið skelkaður. Þá hafi umræddum Instagram-reikningi hans verið lokað.

Kærunefnd óskaði eftir að kærandi legði fram frekari gögn til stuðnings frásögn sinni um umræddan reikning á Instagram. Gögn bárust með tölvupósti þann 26. júní 2020 með skjáskotum af tveimur Instagram- reikningum sem heita […]og […]. Reikningarnir eru opnir með 60 og 30 þúsund fylgjendur. Eigandi reikninganna er ekki nafngreindur eða sýnilegur en kærunefnd leggur til grundvallar að kærandi hafi umsjón með reikningunum og að hann hafi þar lýst yfir stuðningi við mótmælendur í heimaríki. Auk þess hefur kærandi lagt fram myndskeið af opnum persónulegum Instagram-reikningi hans sem sýna hann taka þátt í mótmælum í […] gegn stjórnvöldum í heimaríki. Kærunefnd telur því ljóst að kærandi hafi tekið þátt í framangreindum mótmælum í […].

Kærandi hefur ekki lagt fram frekari gögn sem varpa ljósi á þá hættu sem hann telur sig vera í í heimaríki, umfram aðra borgara, svo sem um komu lögreglu á heimili hans. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að aðgerðir stjórnvalda gegn mótmælendum í heimaríki kæranda hafi beinst að þeim mótmælendum sem hafi tekið virkan og beinan þátt í mótmælum þar í landi. Þær hafa fyrst og fremst verið í formi aðgerða til að hefta, takmarka eða stöðva mótmæli. Þó svo að tilkynningar hafi borist um einstaka geðþóttahandtökur eftir mótmælin benda skýrslur um heimaríki kæranda ekki til þess að stjórnvöld hafi í kjölfarið gripið til aðgerða gegn mótmælendum vegna stjórnmálaskoðana þeirra eða þátttöku þeirra í mótmælum sem geti talist ná því alvarleikastigi að þær feli í sér ofsóknir skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá verður einnig ráðið af gögnum að yfirvöld hafa gripið til aðgerða gegn þeim lögreglu og hermönnum sem gerst hafa sekir um óhóflega beitingu valds við aðgerðir sínar í tengslum við mótmælin. Að því virtu og með hliðsjón af því að kærandi hefur ekki fært fram frekari trúverðug gögn sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af aðstæðum hans í heimaríki, er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana.[…].

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling. Eins og fram hefur komið benda gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér til þess að mótmæli og óeirðir brotist út í heimaríki kæranda í október 2019 og mótmælin haldið áfram í einhverjum mæli á fyrri hluta ársins 2020. Þrátt fyrir það er það mat kærunefndar að ástandið sé ekki slíkt að það sé nægjanlegt eitt og sér til þess að veita beri einstaklingum þaðan viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ástandið nái ekki því alvarleikastigi að falla undir skilgreiningu viðbótarverndar í skilningi 2. mgr. 37. gr. laganna. Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.  

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.Í greinargerð byggir kærandi á því að hann eigi á hættu mannréttindabrot í Síle sem yfirvöld verndi hann ekki gegn. […]. Beri þannig að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá er í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

[…]. Kærandi er menntaður og var að eigin sögn verið starfandi áður en hann yfirgaf heimaríki sitt. Af gögnum málsins verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að staða hans sé slík að tilefni sé til að veita honum dvalarleyfi á grundvelli […]. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki lýst aðstæðum sem gefa til kynna að hann sé í slíkri stöðu að tilefni sé að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til niðurstöðu kærunefndar að framan verður ekki talið að aðstæður kæranda í Síle verði slíkar að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun kom fram að kærandi væri almennt við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 21. nóvember 2019 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin, m.a. ef afleiðingar Covid-19 faraldursins muni vara lengur og vera alvarlegri en gera má ráð fyrir nú. Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta