Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 8/2002

 

A

gegn

Akureyrarbæ

 

-----------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 21. febrúar 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með bréfi, dags. 4. október 2002, sem barst kærunefnd jafnréttismála, 8. október sama ár, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar hjá Akureyrarbæ, brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. 

Kæran var kynnt Akureyrarbæ með bréfi, dags. 5. nóvember 2002. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 var óskað eftir upplýsingum um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna og upplýsinga um hvaða kröfur voru gerðar til umsækjanda varðandi menntun og starfsreynslu. Þá var óskað eftir starfslýsingu deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar og upplýsingum um kyn og fjölda í stjórnunarstöðum hjá Akureyrarbæ. Jafnframt var óskað upplýsinga um  hæfnisröð umsækjenda, hafi þeim verið raðað, menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans. Afrit af umsókn hans og fylgigögnum, hvað hafi ráðið vali á honum og annað sem kærði teldi til upplýsinga um málið.

Með bréfi bæjarlögmanns Akureyrarbæjar, dags. 20. nóvember 2002, bárust svör við framangreindum fyrirspurnum.

Með bréfi, dags. 25. nóvember 2002, var kæranda kynnt umsögn Akureyrarbæjar og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 4. desember sama ár.

Málið var tekið fyrir á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 16. desember 2002, með bréfi, dags. 20. desember 2002, var óskað eftir upplýsingum frá kærða um persónuleikapróf sem umsækjendur fóru í og hvaða áhrif niðurstöður þess höfðu á val í umrædda stöðu, upplýsingum um menntun þess sem áður gegndi starfi deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar, upplýsingum um skipurit stjórnkerfis kærða og samþykkt bæjarstjórnar Akureyrarbæjar sem vísað er til í auglýsingu um starfið. 

Með bréfi dagsettu sama dag var óskað eftir afritum af prófskírteinum kæranda og frekari upplýsingum og staðfestingum varðandi störf kæranda sem B.

Umbeðnar upplýsingar bárust frá kæða með bréfi dags. 3. janúar 2003 og frá kæranda með bréfi dags. 7. janúar 2003.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Starf deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 14. júlí 2002 og í Vikudegi 17. júlí sama ár. Umsóknarfrestur var til 28. júlí 2002. Fram kom í auglýsingunni að starfið heyrði undir félagssvið og að deildarstjóri hefði yfirumsjón með rekstri íþrótta- og tómstundamannvirkja, samskiptum við félagasamtök o.fl. Einnig komu fram menntunar- og hæfniskröfur og vísað til þess að gerð væri krafa um menntun sem myndi nýtast í starfi, reynsla af stjórnun og rekstri, þekking á sviði íþrótta, æskulýðs- eða tómstundamála og hæfni í mannlegum samskiptum. Þá kom fram í auglýsingunni að tekið yrði tillit til samþykktar bæjarstjórnar Akureyrar um jafnréttismál við ráðningu í starfið.

Umsækjendur um starfið voru 34, 26 karlar og 8 konur. Ráðgjafar og ráðningarfyrirtækið Mannafl, sem annaðist úrvinnslu umsókna fyrir kærða, tók kynningarviðtöl við 23 umsækjendur. Eftir að fyrirtækið hafði greint umsóknir og lagt mat á menntun og reynslu voru tekin sérfræðiviðtöl við fjóra umsækjendur, þ. á m. voru kærandi og sá sem ráðinn var. Viðstödd þessi viðtöl voru auk viðkomandi umsækjanda, sviðsstjóri félagssviðs Akureyrarbæjar, formaður íþrótta- og tómstundaráðs og ráðgjafi Mannafls. Þrír af framangreindum umsækjendum fóru í persónuleikapróf, þar á meðal kærandi og sá er starfið hlaut.

Mannafl tilkynnti kæranda, með bréfi dags. 21. ágúst 2002, að hún hefði ekki verið ráðin í starfið.  Kærandi fékk þær upplýsingar frá Mannafli að fyrirtækið hefði skilað greinargerð til íþrótta- og tómstundaráðs Akureyrar um þrjá umsækjendur, meðal annarra kæranda og þann sem fékk starfið. Kærandi óskaði þá eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni sem svarað var með bréfi kærða dagsettu 2. september 2002. Kærandi undi ekki við þær skýringar og kærði því ráðningu í starf deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar hjá Akureyrarbæ til kærunefndar jafnréttismála þann 4. október 2002. Sú kæra er til úrlausnar í máli þessu.

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Akureyrarbær hafi brotið gegn 1. mgr. 22. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að ráða karl sem deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar. Kærandi hafi mun meiri menntun og reynslu í umrætt starfi og þá séu einnig fleiri  karlmenn meðal deildar- og verkefnastjóra hjá kærða.

Kærandi telur að gengið hafi verið framhjá sér við ráðningu í starfið bæði þegar litið sé til starfsreynslu og menntunar. Kærandi hefur starfað í rúm sjö ár sem B, fyrst sem B í D en síðan sem B í E. Sem slíkur starfar hún fyrir 10 sveitarfélög. Með vísan til þessa telur kærandi sig hafa mikla reynslu og þekkingu á stjórnun og rekstri á sveitarstjórnarstigi. Hún kveðst hafa kynnt sér starf deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar samkvæmt starfslýsingu þeirri sem fylgdi greinargerð kærða og telur að um lík störf sé að ræða. Bæði störfin séu fyrst og fremst stjórnunarstörf á sveitarstjórnarstigi. Hún telur sig hafa meiri reynslu af stjórnun og rekstri á þessu sviði en sá sem starfið fékk, miðað við þær upplýsingar sem fram hafi komið um starfsreynslu hans.

Þá telur kærandi menntun sína mun meiri en þess sem starfið hlaut. Hún er með BA próf í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið 21 einingu á sviði uppeldis- og kennslufræða í Háskólanum. Að auki hefur hún sótt ýmis námskeið sem tengjast núverandi starfi hennar, svo sem á sviði barnaverndar, um samskipti á kvennavinnustöðum og vernd persónuupplýsinga auk stjórnunarnámskeiðs.

Kærandi segir það skjóta skökku við að ekki hafi verið krafist háskólamenntunar. Þá telur hún það rökleysu að slíkt hafi verið gert til að gefa starfandi íþrótta- og tómstundafulltrúum á landinu tækifæri til þess að sækja um starfið. Engar opinberar upplýsingar liggi fyrir um menntun íþrótta- og tómstundafulltrúa á landinu jafnframt því sem engin þeirra hafi sótt um starfið. Telur kærandi það einnig sérkennilegt að gera ekki meiri kröfu til menntunar deildarstjóra á jafn umfangsmiklu sviði eins og hér um ræðir, sérstaklega með vísan til þess að aðrir deildarstjórar á félagssviði hjá kærða séu með háskólamenntun. Svo hafi einnig verið með þann sem áður gegndi stöðunni. Telur kærandi því öll rök standa til þess að menntunarkrafa sú sem til var vísað í auglýsingu kærða feli í sér að umsækjendur þyrftu að hafa háskólapróf. Þá er á því byggt af hálfu kæranda að sé starfslýsing deildarstjóra, sem fylgdi með umsögn kærða, skoðuð komi í ljós að ekki sé lögð sérstök áhersla á íþróttir frekar en önnur æskulýðs- og tómstundamál, enda sé fyrst og fremst um stjórnunarstarf að ræða á sveitarstjórnarstigi. Telur kærandi því áherslu kærða á að íþróttamál séu fyrirferðarmikil og hve mikil áhersla sé lögð á samningagerð við íþróttafélög eigi ekki við rök að styðjast.

Kærandi kveðst hafa starfað við hlið íþrótta- og tómstundafulltrúa D síðastliðin sjö ár og þannig fylgst með málaflokknum, sérstaklega málefnum ungmenna og aldraðra sem og vímuvarnamálum. Þá beri hún einnig ábyrgð á tómstundamálum fatlaðra í sínu starfi. Kærandi kveðst hafa stundað íþróttir af fullum krafti frá unga aldri og verið keppnismanneskja í ýmsum greinum.

Kærandi vísar sérstaklega til fundargerðar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 3. september 2002 þar sem bókað er að í hópi deildar- og verkefnastjóra hjá kærða séu 5 konur og 15 karlar. Einnig vísar hún til upplýsinga frá menntamálaráðuneytinu, þar sem fram kemur að íþrótta- og tómstundafulltrúar á landinu eru 42, þar af 32 karlar og 10 konur.

Kærandi bendir á að í auglýsingu um starfið hafi verið gerð krafa um hæfni í mannlegum samskiptum. Hún kveðst hafi fengið góða umsögn í þeim efnum. Kærandi segir að hæfni í mannlegum samskiptum eigi ekkert skylt við „strategíska“ hugsun, stífni og ósveigjanleika. Ef eftir slíku hefði verið óskað hefði átt að taka það fram í  auglýsingu, en ekki tilgreina hæfni í mannlegum samskiptum. Þá bendir kærandi á að hæfni í mannlegum samskiptum sé sérstaklega mikilvæg þegar um samningagerð sé að ræða. Telur kærandi sig því einnig að þessu leyti betur fallna til að sinna umræddu starfi heldur en þann sem starfið hlaut.

 

IV

Sjónarmið kærða

Kærði greinir frá því að gerð hafi verið krafa um að umsækjandi uppfyllti alla þá þætti sem fram komu í auglýsingu um starfið að einhverju leyti. Ekki hafi verið gerð krafa um háskólamenntun, en gerð hafi verið krafa um reynslu af stjórnun, rekstri og þekkingu á sviði íþrótta, æskulýðs- og tómstundamála, auk hæfni í mannlegum samskiptum.

Þá kemur fram hjá kærða að ekki sé til starfslýsing deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar. Kærði segir óundirritað skjal sem ber yfirskriftina „Starfslýsing“ ekki hafa verið lagt fram við ráðningarferlið enda ekki staðfest sem starfslýsing og hafi því ekkert gildi sem slík. Skjal þetta hafi verið notað við niðurröðun í launaflokk árið 2000. Af því megi glöggva sig á starfinu og því hafi það verið lagt fram í málinu.

Kærði tekur fram að á þeim tíma sem ráðningin fór fram hafi verkefna- og deildarstjórar hjá kærða verið 19. Þar af hafi verið 14 karlar og 5 konur. Á félagssviði, sem starfið heyrir undir, sé kynjahlutfall jafnt í stjórnunarstörfum, þrír karlar á móti þremur konum. Á næsta stigi þar fyrir neðan samkvæmt skipuriti séu síðan mun fleiri konur en karlar þannig að á félagssviði séu þrjár konur stjórnendur á móti hverjum karli. Á því er byggt af hálfu kærða að horfa eigi einvörðungu til þessa sviðs við úrlausn máls þessa og að skylda hans sem atvinnurekanda til að jafna hlut kynjanna einskorðist við þá deild eða svið sem viðkemur hverjum og einum ráðningarvaldshafa en félagsmálaráð ráði í stjórnunarstörf á félagssviði ásamt sviðsstjóra.

Á því er byggt af hálfu kærða að kærandi og sá sem ráðinn var hafi, ásamt þriðja umsækjandanum, best uppfyllt þær hæfniskröfur sem gerðar hafi verið og hefðu haft reynslu sem nýttist í þeim verkefnum sem tilheyra starfinu. Þeim hafi ekki verið raðað frekar í greinargerð Mannafls og þá hafi sviðsstjóri og meirihluti íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrar ekki raðað þeim frekar en kom fram í vali þeirra.

Kærði greinir frá því að sá sem ráðinn var hafi árið 1996 lokið námi í íþróttafræðum frá J íþróttalýðháskólanum í Svíþjóð, auk þess sem hann hafi sótt ýmis námskeið. Skólinn sé skilgreindur sem íþróttalýðháskóli í umboði íþróttasambands sænska ríkisins. Í vitnisburði skólans um þann sem ráðinn var komi fram að hann hafi stundað 80 eininga nám í íþróttaráðgjöf og að um námið gildi sameiginleg námsáætlun með skólum fyrir tómstundastjórnendur. Þar kemur einnig fram að braut fyrir íþróttaráðgjafa sé ætlað að fræða um og þjálfa þá eiginleika sem þörf er á við að skipuleggja, stjórna, meta og þróa starfssemi á sviði íþrótta og annars tómstundastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar, sveitarfélaga, samtaka og fyrirtækja. Menntunin á að veita grundvallarþekkingu fyrir starf íþrótta- og námsráðgjafa hjá sérsamböndum og svæðasamböndum á sviði íþrótta og ráðgjafa á vegum íþróttafélaga. Menntunin á auk þess að leggja grunn að ráðgjafastörfum á sviði íþrótta og tómstunda í fyrirtækjum og sveitarfélögum og á stofnunum. Inntak og umfang námsins felst að miklum hluta í stjórnun, skipulagi og starfsemi íþróttahreyfinga. Fram kom hjá kærða að menntun þess sem ráðinn var hafi haft mikið að segja um ráðningu hans með vísan til ofangreindra atriða. Kærði telur ljóst að nám hans falli mjög vel að þeirri hæfniskröfu að hafa menntun sem nýtist í starfi.

Kærði kveður starfsreynslu þess er starfið hlaut hafa annars vegar falist í störfum tengdum íþróttum og hins vegar við stjórnun innan framsækinna tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja. Hann hafi unnið við skíðaþjálfun og  starfað á skíðasvæðinu í F í Svíþjóð, þar sem hann hafi verið yfirmaður afþreyingardeildar árin 1993 til 1994 og verið framkvæmdastjóri G árin 1996 til 1999. Þá hafi hann verið yfirverkefnastjóri viðskiptaumsjónar hjá H árin 1999 til 2000, þar sem hann hafi haft umsjón með og borið ábyrgð á tíu manna deild og verið sölu- og markaðsstjóri I árin 2000 til 2002. Hann hafi einnig setið í nefndum og ráðum innan íþróttahreyfingarinnar, ásamt því að þjálfa og halda fyrirlestra og námskeið fyrir þjálfara og iðkendur skíðaíþróttarinnar. Þessa stjórnunarreynslu taldi kærði falla vel að þeirri hæfniskröfu að búa yfir reynslu af stjórnun og rekstri. Kærði taldi þekkingu þess sem ráðinn var á íþróttamálum óumdeilda og falla vel að hæfniskröfum um þekkingu á sviði íþrótta- æskulýðs- og tómstundamála.

Kærði greinir frá því að misjafnar skoðanir séu um hæfni þess sem ráðinn var í mannlegum samskiptum. Þær séu jákvæðar en einnig að hann eigi það til að vera of ákafur og skynja ekki umhverfi sitt. Í umsögnum segi að hann sé mjög skipulagður og „strategískur“ í hugsun, hafi góða yfirsýn, sé kraftmikill, drífandi og klári þau verkefni sem hann taki að sér. Þessa eiginleika telur kærði nýtast vel í bæjarfélaginu á sviði íþrótta- og tómstundamála og að þeir stangist á engan hátt á við kröfuna um hæfni í mannlegum samskiptum.

Kærði kveður ákvörðun um að setja ekki háskólamenntun sem skilyrði hafa verið meðvitaða. Það hafi verið gert þar sem talið var að einhverjir starfandi íþrótta- og tómstundafulltrúar á landinu væru ekki með háskólamenntun og að reynsla af íþrótta- og tómstundamálum myndu geta skipt miklu við valið. Sérmenntun á háskólastigi í stjórnun íþrótta- og tómstundamála sé ekki algeng hér á landi og því var reynt að höfða til breiðs hóps með auglýsingunni.

Kærði telur að við val á starfsmanni sé það oft almennt viðmót og heildarmyndin, en ekki einstakir þættir, sem verða til þess að viðkomandi er valinn í starfið. Á því er byggt af hálfu kærða að þegar allar hæfniskröfur séu vegnar varðandi þá þrjá umsækjendur um starfið, sem helst komu til greina standi menntun, þekking og reynsla þess sem ráðinn var upp úr er laut að  verkefnum deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar að það hafi þar með haft afgerandi áhrif á val hans í starfið.

V

Niðurstaða

Markmið jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti. Með hliðsjón af því skal stuðlað að því að jafna tækifæri kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Atvinnurekendur gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra. Þeir skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, einnig skulu þeir vinna sérstaklega að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 13. gr. laga nr. 96/2000.

Kærandi byggir kæru sína á því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis þegar ráðið var í starf deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar hjá Akureyrarbæ í ágúst 2002. Telur kærandi að með því að ganga framhjá henni og ráða karl í starfið hafi jafnréttislög verið brotin á sér, þar sem karlinn sem ráðinn var hafi haft mun minni menntun en hún, auk þess sem reynsla hans hafi verið takmarkaðri. Vísar kærandi í þessu sambandi til 1. mgr. 22. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000.

Kærði hefur haldið því fram að við ráðningu í starfið hafi eingöngu átt að líta til skiptingar milli kynja í stjórnunarstörfum innan félagssviðs Akureyrarbæjar, en innan þess sviðs sé kynjahlutfall jafnt meðal æðstu stjórnenda. Kærunefnd hafnar þessum rökum kærða og bendir á að í jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar sem samþykkt var í bæjarstjórn 15. desember 1998 komi fram í grein 2.1.1., í kaflanum um stjórnkerfi og starfsmannastefnu Akureyrarbæjar, að þegar ráða á í stjórnunarstörf innan bæjarkerfisins verði unnið að því að jafna hlut kynjanna, bæði innan bæjarkerfisins og utan. Vísað var sérstaklega til þessarar áætlunar í auglýsingu um starf deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar. Áætlun þessi er í samræmi við markmið jafnréttislaga, sbr. 1. gr., sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2000. Það er því álit kærunefndar að skoða hefði átt allar sambærilegar stjórnunarstöður innan stjórnkerfis Akureyrarbæjar þannig að fram hefði farið heildarmat á kynjahlutfalli sambærilegra stjórnunarstarfa í öllu bæjarkerfinu eins og jafnréttisstefna kærða kveður á um. Hefði það verið gert er ljóst að verulega hefði hallað á konur í því sambandi. Í ljósi þess hefði þurft veigamikil rök fyrir því að ráða karl til starfans fremur en konu.

Í auglýsingu um starf deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar var óskað eftir starfsmanni með menntun sem myndi nýtast vel í starfi, reynslu af stjórnun og rekstri, þekkingu á sviði íþrótta-, æskulýðs- eða tómstundamála svo og hæfni í mannlegum samskiptum.

Kærandi lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1986, BA prófi í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands árið 1991 og hlutanám í uppeldis- og menntunarfræði við Universitá degli studi di Firenze, í Flórens á Ítalíu 1993-1994 sem Erasmus nemi. Þá hefur kærandi lagt stund á nám í uppeldis- og kennslufræði við Háskóla Íslands árið 1994-1995, en ekki lokið réttindanámi. Jafnframt hefur hún sótt ýmis námskeið einkum í tengslum við starf sitt, svo sem um vernd persónuupplýsinga, kynferðisbrot gegn börnum, samskipti á kvennavinnustöðum og lagt stund á sérstakt stjórnunarnám.

Sá sem starfið hlaut hefur lokið tveggja ára námi í íþróttafræðum frá J íþróttalýðháskólanum í Svíþjóð árið 1996. Um er að ræða 80 eininga nám í íþróttaráðgjöf. Skólinn er skilgreindur sem íþróttalýðháskóli í umboði íþróttasambands sænska ríkisins. Einnig kemur fram að hann hafi sótt ýmis námskeið án þess að frekari grein sé gerð fyrir þeim.

Í auglýsingu um starfið var ekki gerð krafa um háskólamenntun, en gerð krafa um að menntun myndi nýtast í starfi. Að því leyti stóð kærandi, sem hefur háskólamenntun á sviði uppeldis og menntunarmála, framar þeim sem ráðinn var. Almennt verður að telja að meiri menntun sé til þess fallin að auka hæfni starfmanna og hún nýtist starfsmanni beinlínis í starfi.  Með vísan til þess sem að framan er rakið um menntun kæranda og þess sem ráðinn er, er það álit kærunefndar að kærandi teljist hæfari en sá sem ráðinn var að þessu leyti.

Í bréfi kærða, dags. 20. nóvember 2002, kemur fram að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um að setja háskólamenntun ekki sem skilyrði í auglýsingunni. Það hafi verið gert þar sem talið var að einhverjir starfandi íþrótta- og tómstundafulltrúar á landinu væru ekki með háskólamenntun og  að slík starfsreynsla myndi geta skipt miklu við ráðningu í starfið. Þá segir í greinargerð kærða að sérmenntun á háskólastigi í stjórnun íþrótta- og tómstundamála sé ekki algeng hér á landi og því hafi  verið reynt að höfða til breiðs hóps með auglýsingunni. Það er skoðun kærunefndar að áðurnefnd ákvörðun um efni auglýsingarinnar eigi ekki að draga úr möguleikum kæranda, sem hefur háskólamenntun sem nýst hefði í starfi, til að fá starfið.

Í auglýsingunni var einnig gerð krafa um reynslu af stjórnun og rekstri. Kærandi hefur starfað í fimm ár hjá K hf., fyrst í bókhaldi og við sölu einingabréfa, en síðar sem aðalbókari og starfsmannastjóri. Frá árinu 1995 hefur hún starfað sem B í D þar sem hún hefur sinnt félagsþjónustu, skólaþjónustu, barnavernd og málefnum fatlaðra í E. 

Sá sem var ráðinn starfaði um tveggja ára skeið á skíðasvæðinu í F, Svíþjóð sem yfirmaður afþreyingardeildar. Hann var framkvæmdastjóri G um fjögurra ára skeið, yfirverkefnastjóri viðskiptaumsjónar hjá H um tveggja ára skeið og sölu- og markaðsstjóri I frá árinu 2000 til 2002.

Af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu kemur fram að bæði kærandi og sá sem ráðinn var hafa nokkra reynslu í stjórnun og rekstri og standa þau nokkuð jöfn að því leyti. Kærandi hefur hins vegar sjö ára reynslu af stjórnun og rekstri innan stjórnsýslunnar sem sá sem ráðinn var hefur ekki. Ætla verður að sú reynsla hefði nýst henni vel í því starfi sem um ræðir, sérstaklega þegar horft er til inntaks starfsins eins og kærði hefur skilgreint það.

Í umsókn um starfið var gerð krafa um að umsækjendur hefðu þekkingu á svið íþrótta- æskulýðs- eða tómstundamála. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hefur í starfi sínu sem B samskipti við lögreglu, heilsugæslu, leikskólateymi, öryrkjateymi, öldrunarnefnd, starfshópa um vímuefnavarnir, auk þess sem hún hefur starfað við hlið íþrótta- og tómstundafulltrúa D. Fram kemur að kærandi hafi stundað íþróttir frá unga aldri og keppt í ýmsum íþróttagreinum.

Sá sem starfið hlaut hefur, eins og áður er nefnt, menntun á sviði íþrótta- og tómstundamála og hefur starfað við þá málaflokka, m.a. sem framkvæmdastjóri G. Hann hefur setið í nefndum og ráðum innan íþróttahreyfingarinnar ásamt því að hafa þjálfað, haldið fyrirlestra og námskeið fyrir þjálfara og iðkendur skíðaíþróttarinnar.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður fallist á það með kærða að sá sem var ráðinn hafi meiri þekkingu á íþróttamálum. Hins vegar má ætla að kærandi og sá sem ráðinn var hafi staðið nokkuð jafnt að vígi hvað varðar reynslu af tómstundamálum.

Í heildarmati á hæfni kæranda og þess sem starfið hlaut, með hliðsjón af starfsreynslu þeirra, sýnist ótvírætt að reynsla í stjórnun innan stjórnsýslunnar á sviði félgasmála vegi þyngra en almenn stjórnunarreynsla  og þekking á íþrótta- og tómstundamálum. Þá verður að ætla að auðvelt sé afla sér vitneskju og þekkingar á þeim sviðum eftir því sem á reynir í starfi.

Í auglýsingu um starfið var lögð áhersla á hæfni í mannlegum samskiptum. Í bréfi Akureyrarbæjar, dags. 25. nóvember 2002 kom fram að misjafnar skoðanir séu um hæfileika þess sem starfið fékk í mannlegum samskiptum. Í greinargerð Mannafls dags. 14. ágúst 2002 er greint frá því kærandi eigi almennt auðvelt með mannleg samskipti. Með hliðsjón af framangreindu sýnist ótvírætt að ekki hafi hallað á kæranda hvað hæfni í mannlegum samskiptum áhrærir. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærandi teljist hæfari en sá sem starfið hlaut til að gegna stöðu deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar. Þá er óumdeilt að konur eru í minnihluta í sambærilegum stjórnunarstöðum hjá kærða. Bar kærða að gæta þess við ráðninguna að velja konu, enda teldist hún a.m.k. jafnhæf eða hæfari en sá karl, sem eftir stöðunni leitaði, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2000.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr.laga nr. 96/2000 er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef máli er vísað til kærunefndar og leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu í starf, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðuninni, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000. Þykir kærða ekki hafa tekist á málefnalegan hátt að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Það álit kærunefndar jafnréttismála að Akureyrarbær hafi við ráðningu í stöðu deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar hjá Akureyrarbæ brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Akureyrarbæjar að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

Ragnheiður Thorlacius

Björn L. Bergsson 

Stefán Ólafsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta