Mál nr. 203/2012
Fimmtudaginn 4. desember 2014
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.
Þann 29. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra B og A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. október 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður. Þann 2. nóvember 2012 bárust kærunefndinni röksemdir kærenda og gögn vegna kærunnar.
Með bréfi 7. nóvember 2012 óskaði kærunefndin eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 2. janúar 2013.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 10. janúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Það var ítrekað með bréfi 13. mars 2013. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.
I. Málsatvik
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. janúar 2012 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda.
Kærendur eru fædd 1967 og 1968. Kærandi A býr ásamt tveimur sonum þeirra, fæddum 2004 og 1990, í fasteign kærenda að C götu nr. 1 í sveitarfélaginu D. Fasteign kærenda er 195,4 fermetra þriggja herbergja íbúð í fjöleignarhúsi. Kærandi B hefur búið í Noregi frá október 2009 vegna atvinnu sinnar. Vegna þessa halda kærendur tvö heimili.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 36.383.102 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun. Til helstu skulda var stofnað á árunum 2007-2008.
Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2008. Kærendur keyptu fasteign að C götu nr. 1 í sveitarfélaginu D í maí 2007 en þau áttu fasteign fyrir að E götu nr. 11 í sveitarfélaginu D. Kærendum tókst ekki að selja fasteignina að E götu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sem þau rekja til versnandi ástands í þjóðfélaginu. Eftir að hafa leitað nauðasamninga við Arion banka vegna fasteignarinnar í E götu varð það úr að bankinn tók hana yfir. Að sögn kærenda sitja þau eftir með fasteign sem ekki er fullkláruð en veðsett langt umfram það sem hugsanlega gæti verið söluverðmæti hennar.
Ástæður skuldasöfnunar að mati kærenda, sbr. 8. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), eru atvinnuleysi, tekjulækkun og tvær eignir.
Með bréfi umsjónarmanns 18. maí 2012 var lagt til við umboðsmann skuldara að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á grundvelli 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu ekki skilað inn fullnægjandi gögnum sem sýnt gætu fram á rauntekjur kæranda B í Noregi, sbr. ákvæði 4. tl. 1. mgr. 4. gr. lge. og 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að óskað hafi verið ítrekað eftir nánari gögnum frá kærendum án árangurs. Kærendur veittu umsjónarmanni þær skýringar að þau hefðu ekki fleiri gögn undir höndum enda starfaði kærandi B sjálfstætt í Noregi og hefði þar eigin rekstur með höndum.
Með bréfi 13. júní 2012 var kærendum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Svar barst frá kærendum 18. júní 2012 þar sem kom m.a. fram að fé, sem kærendur hefðu lagt fyrir, hefði verið varið til uppbyggingar atvinnustarfsemi í Noregi. Umboðsmaður skuldara sendi kærendum að nýju póst 19. júní 2012 þar sem kærendum var gerð grein fyrir skyldum sínum á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og jafnframt var farið fram á ýmis gögn. Þá voru kærendur spurð út í búsetu kæranda B í Noregi. Þann 20. júní 2012 mættu kærendur á fund umboðsmanns skuldara. Kærendur sendu umboðsmanni skuldara gögn með tölvupósti 28. júní 2012 um útgjöld í Noregi og kaup á bifreið ytra. Kærendur sendu umboðsmanni skuldara afrit af norsku skattkorti kæranda B 1. júlí 2012 auk ýmissa kvittana. Umboðsmaður skuldara sendi kærendum tölvupóst 9. júlí 2012 þar sem þeim var tjáð að umrædd gögn væru ófullnægjandi og að skýrari gagna væri þörf. Svar barst frá kærendum 10. júlí þar sem veittar voru skýringar á eðli gagnanna, en frekari gögn um tekjur B í Noregi bárust ekki.
Með bréfi til kærenda 15. október 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur gera þá kröfu að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar og heimili þeim að leita greiðsluaðlögunar.
Í kæru taka kærendur fram að í ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. október 2012 sé staðhæft að ítrekað hafi verið óskað eftir ítarlegri gögnum um tekjur B í Noregi án árangurs og kærendur hefðu svarað því til að þeir hefðu ekki frekari gögn undir höndum.
Kærendur hafni þessu alfarið. Kærendur hafi eftir fremsta megni reynt að leggja fram öll þau gögn og skýringar á tekjum B sem tiltæk voru og óskað hafi verið eftir. Í þessu samhengi sé nauðsynlegt að hafa í huga að kærandi B sé ekki launamaður í Noregi heldur sé hann með sjálfstæðan rekstur í eigin nafni. Af þessu leiði að engar eiginlegar launagreiðslur fari fram heldur komi tekjur að frádregnum gjöldum og öðrum kostnaðarliðum rekstursins í hans hlut. Þetta hafi kærandi B tilgreint með tölvupósti 9. júlí 2012 til umboðsmanns skuldara. Slíkt rekstrarfyrirkomulag sé jafnframt vel þekkt hér á landi og ætti því ekki að vera nein nýlunda fyrir umboðsmanni skuldara. Af þessum sökum séu helstu upplýsingar sem hægt sé að byggja á varðandi tekjur kæranda B áætlaðar tekjur hans samkvæmt skattkorti. Skattkort ásamt útskýringum á einstaka liðum þess hafi kærandi B sent í tölvupósti til umboðsmanns skuldara 1. júlí 2012 og komi þar fram allar upplýsingar um tekjur hans það sem af var árinu 2012 sem og upplýsingar um áætlaðar tekjur það sem eftir var af árinu 2012. Auk þess hafi verið að finna í þeim gögnum yfirlit um tekjur, gjöld og eignir hans á árinu 2011.
Jafnframt verði að miða við það að kærandi B sé með starfsemi í öðru landi þar sem um sé að ræða ólíkt skattaumhverfi og regluverk miðað við það sem gerist á Íslandi. Kærendur hafi hvorki menntun né sérþekkingu á þessu sviði og því ekki hægt að gera þá kröfu til þeirra að þau viti hvernig hægt sé að afla sér upplýsinga á sviði skattamála á Íslandi, hvað þá heldur erlendis. Kærendur hafi verið búin að leggja fram öll þau gögn og útskýringar er þau hafi talið tiltæk um tekjur kæranda B í Noregi.
Í ákvörðun sinni 15. október 2012 haldi umboðsmaður skuldara því fram að kærendum hafi verið greint frá því með tölvupósti 9. júlí 2012 að afrit af norsku skattframtali, kvittun vörslureiknings og reikningur vegna húsaleigu, sem kærandi B hafi sent umboðsmanni skuldara með tölvupósti 1. júlí 2012, væru ófullnægjandi gögn. Jafnframt tilgreini umboðsmaður skuldara að kærandi B hafi þá einnig tekið fram að frekari gögn um tekjur hans ytra væru væntanleg en hefðu aldrei borist. Þessar staðhæfingar umboðsmanns skuldara séu alrangar eins og sjá megi á gögnum málsins. Í fyrsta lagi hafi kærandi B aldrei tekið fram að frekari gögn væru væntanleg í tölvupósti sínum 1. júlí 2012. Hið rétta sé að í tölvupósti, sem kærandi B sendi umboðsmanni skuldara 27. júní 2012, taki hann fram að frekari gögn séu væntanleg eftir 5-10 daga. Þessi gögn hafi svo borist umboðsmanni skuldara í tölvupósti 1. júlí 2012.
Í öðru lagi komi ekkert fram um það í tölvupósti til kærenda 9. júlí 2012 að framlögð gögn hafi verið ófullnægjandi og skýrari gagna sé þörf. Í póstinum sé tekið fram að ítarlegar eða greinargóðar upplýsingar þurfi að liggja fyrir um fjárhag skuldara þegar fjárhagur skuldara og atvinnustarfsemi sé svo samtvinnaður eins og raun beri vitni í þessu máli. Kærendur hafi svarað þessum tölvupósti síðar sama dag, 9. júlí 2012, þar sem þau hafi veitt nánari upplýsingar og svör við fyrirspurnum er settar hafi verið fram. Kærendum hafi borist svar frá umboðsmanni skuldara 10. júlí 2012 þar sem þakkað sé fyrir svörin, tilgangur 4. mgr. 2. gr. lge. útskýrður og minnt á að mál þeirra yrði metið heildstætt þegar ákvörðun verði tekin. Ekki sé því annað að skilja á þessu svari umboðsmanns skuldara en að nægar útskýringar og gögn hefðu verið lögð fram af hálfu kærenda, enda hafi ekki verið óskað eftir frekari upplýsingum eða gögnum frá þeim, hvorki í þessum tölvupósti né eftir það. Það sé því með öllu óskiljanlegt á hverju umboðsmaður skuldara byggi það, sem hann haldi fram í ákvörðun sinni 15. október 2012, að kærendum hefði verið sagt að framlögð gögn hafi verið ófullnægjandi og skýrari gagna væri þörf.
Í ákvörðun sinni vísi umboðsmaður skuldara til þess að kærendur hefðu átt að leggja fyrir um 2.927.463 krónur frá því að greiðsluskjól þeirra hófst, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hafi ekki sýnt fram á slíkan sparnað eða lagt fram viðhlítandi gögn um hvers vegna þeir hefðu ekki gert slíkt.
Kærendur hafni slíkum staðhæfingum algjörlega. Í fyrsta lagi hafi kærendur þegar útskýrt og sýnt fram á með ýmsum gögnum að töluverðu fé hafi verið varið til fjárfestinga í atvinnustarfsemi í Noregi. Það sé því alrangt að kærendur hafi ekki lagt til hliðar fjármuni á þessum tíma líkt og umboðsmaður skuldara haldi fram. Hvergi í lge. sé gerð sú krafa að slíkur sparnaður sé í reiðufé og hafi kærendur sett þennan sparnað sinn í fjárfestingar í tækjum og tólum sem skili kærendum tekjum, tekjum sem kærendur hafi þurft að afla sér og fjölskyldu þeirra til framfærslu. Án þessara fjárfestinga hefðu kærendur ekki haft nægar tekjur til framfærslu, hvað þá heldur til sparnaðar. Kærendur telji sig því hafa uppfyllt af fullu það skilyrði sem kveðið er á um í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem umræddir fjármunir séu tiltækir.
Umboðsmaður skuldara hafi tekið fram í ákvörðun sinni að kærendur hafi ekki með fullnægjandi hætti gert grein fyrir því hvað varð um 219.311 NOK innstæðu sem hafi verið á bankareikningi B í lok ársins 2010. Umboðsmaður skuldara telji kærendur því hafa brotið gegn c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.
Kærendur hafni slíkum rökum alfarið. Kærendur hafi þegar gert ítarlega grein fyrir því að umræddir fjármunir hafi verið greiðsla fyrir stórt verk er kærandi B vann við og hafi stærstur hluti þessarar greiðslu verið greiddur verktökum sem kærandi B hafi haft sér til aðstoðar við vinnslu verksins. Kærendur hafi jafnframt þegar gefið umboðsmanni skuldara þær skýringar að kærandi B reki atvinnustarfsemi sína í Noregi í eigin nafni og allar tekjur og gjöld vegna rekstursins fari því inn og út af bankareikningi hans. Vart þurfi að fara mörgum orðum um það að af þeim tekjum sem hljótist af atvinnustarfsemi dragist frá útgjöld sem falli til við að afla þeirra tekna, t.d. kaup á vörum, efni, vélum, tækjum og launum eða verktakagreiðslum.
Um hafi verið að ræða fjármuni sem aldrei hafi tilheyrt kærendum heldur atvinnurekstri kæranda B og því aldrei um að ræða fjármuni sem komið hefðu í hlut lánardrottna kærenda.
Í ákvörðun sinni víki umboðsmaður skuldara einnig að dvöl kæranda B í Noregi og skilyrðum a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Líkt og öðrum staðhæfingum í hinni kærðu ákvörðun hafi kærendur þegar gefið skýringar á henni. Kærendur höfðu á þeim tíma, er kærandi B sótti vinnu til Noregs, orðið fyrir verulegri atvinnuskerðingu og hafi því slík ráðstöfun verið nauðsynleg kærendum til framfærslu sér og fjölskyldu þeirra. Dvöl kæranda B í Noregi hafi því einungis verið hugsuð tímabundin en hafi ílengst sökum óvissu um fjárhagsstöðu kærenda. Í því samhengi nefni kærendur að fjölskylda kæranda B haldi heimili hér á landi og hefðu kærendur, eðli málsins samkvæmt, ekki þann háttinn á að halda heimili í hvoru landi fyrir sig ef ekki væri um tímabundna dvöl að ræða. Einnig vilji kærendur benda á að ákvæðið innihaldi engin skilyrði um að synja beri greiðsluaðlögun vegna þess eins að einstaklingur stundi atvinnu erlendis ef hann að öðru leyti uppfylli skilyrði ákvæðisins, sbr. umfjöllun í greinargerð með frumvarpi er varð að lge.
Kærendur telja umboðsmann skuldara hvorki hafa fullnægt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) né rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. sömu laga.
Umboðsmaður skuldara byggi niðurfellingu á greiðsluaðlögunarheimild kærenda á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og vísi í því samhengi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 30/2011. Umboðsmaður skuldara vísi til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi í þeim úrskurði skýrt ákvæðið með þeim hætti að mikilvægt sé að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Í því samhengi sé einungis um að ræða að skuldara beri að verða við áskorunum um öflun gagna eða upplýsinga sem honum sé skylt að afla eða veita. Kærunefndin ítreki í þessu samhengi að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni í því að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Kærendur segjast ekki sjá hvers vegna umboðsmaður skuldara vísi til þessa úrskurðar í ákvörðun sinni og hvað það sé í þessu samhengi sem hann telji kærendur ekki hafa uppfyllt. Kærendur hafi reynt eftir fremsta megni að veita umboðsmanni skuldara allar upplýsingar og svör við þeim fyrirspurnum er þeim bárust. Kærendur hafi ávallt svarað fljótt og vel öllum fyrirspurnum umboðsmanns skuldara og því sé með engu móti hægt að halda því fram að kærendur hafi ekki tekið virkan þátt eða sýnt viðleitni í að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu og annað eins og fram komi í gögnum málsins. Kærendur hafi veitt umboðsmanni skuldara öll þau gögn og skýringar á þeim er óskað hafi verið eftir og tiltæk voru eða eðlilegt hafi verið að gera kröfu um að kærendur legðu fram, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Síðustu samskipti kærenda við umboðsmanns skuldara áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra hafi verið tölvupóstur 9. júlí 2012 er kærandi B hafi sent starfsmanni umboðsmanns skuldara sem svör við fyrirspurnum sem starfsmaðurinn hafði sent kærendum í tölvupósti fyrr sama dag. Þann 10. júlí 2012 hafi starfsmaður umboðsmanns skuldara sent kæranda Erni tölvupóst þar sem hann hafi þakkað fyrir upplýsingarnar en hafi þó ekki óskað eftir frekari gögnum eða útskýringum.
Af öllum framangreindum ástæðum telji kærendur þá ákvörðun umboðsmanns skuldara að „hafna málinu“ með vísan til 15. gr., sbr. b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., ekki eiga við rök að styðjast og krefjast þess að hin kærða ákvörðun um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. segi að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar sem eigi lögheimili og séu búsettir hér á landi. Í umræddri málsgrein séu tvær undantekningar frá þeirri reglu. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann nýtur frestunar greiðslna. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Komi upp aðstæður eða upplýsingar sem varði þessi atriði við meðferð máls hjá umsjónarmanni beini hann tilkynningu til umboðsmanns skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge.
Hin kærða ákvörðun byggist meðal annars á því að upplýsingar um tekjur kærenda séu óljósar. Við mat á því hvort upplýsingar í greiðsluaðlögunarmáli gefi nægilega glögga mynd af fjárhag eða væntanlegri þróun fjárhags skuldara á tímabili greiðsluaðlögunar verði að hafa í huga tilgang upplýsinganna fyrir framgang málsins. Tekjuupplýsingar séu lykilatriði við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Án skýrra upplýsinga um núverandi tekjur, og þróun tekna að því marki sem unnt sé að afla slíkra upplýsinga, verði greiðslugeta skuldara ekki ráðin. Það stríði gegn tilgangi greiðsluaðlögunarúrræðisins að ekki sé tryggt að þeir sem komi að samningsgerð, n.t.t. kröfuhafar, geti áttað sig á greiðslugetu skuldara. Þess vegna verði upplýsingar um tekjur að liggja fyrir áður en samningur sé borinn undir kröfuhafa.
Upplýsingar um tekjur kæranda B hafi þótt óljósar þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Þrátt fyrir að kærendur hefðu lagt fram gögn frá norskum skattyfirvöldum og önnur gögn, verði ekki séð að með þeim liggi fyrir mánaðarlegar tekjur kærandans.
Um það að kærendur hafi ekki lagt fyrir á meðan frestun greiðslna stóð, þá geti kærendur þess að þau hafi notað þær tekjur sem þau hafi haft umfram framfærslukostnað í fjárfestingar í tækjum og tólum vegna rekstrar kæranda B. Ekki verði miðað við slíka frásögn. Hafi kærendur notað verulega fjármuni til þess að fjárfesta í rekstrarfjármunum erlendis, án þess að geta þess við umsjónarmann eða umboðsmann skuldara, geti d-liður 1. mgr. 6. gr. lge. átt við í málinu, þ.e. að skuldari hafi með ráðnum hug eða grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sínar í málinu. Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara hafi kærendur aðeins tilgreint fasteign og bifreið sína á Íslandi, auk bifreiðar að verðmæti um 300.000 króna vegna rekstrar erlendis. Sé um rekstrarfjármuni að ræða, sem kærandi B noti til reksturs á eigin kennitölu, eigi þeir rekstrarfjármunir að falla undir samning um greiðsluaðlögun til þess að kröfuhafar geti tekið afstöðu til þess hvernig skuli farið með þær eignir skuldarans.
Kærandi B sé nú með lögheimili og sé skattskyldur í Noregi. Þar sé hann með rekstur og íbúð á leigu. Öll þessi atriði torveldi að það sé hægt að varpa nægilega skýru ljósi á fjárhag kærenda. Það sé meðal annars vegna slíkra tilvika sem búsetuskilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. hafi verið sett. Undantekningar frá meginreglu málsgreinarinnar beri að túlka þröngt. Ekki verði séð að athugasemdir umboðsmanns kæranda haggi forsendum hinnar kærðu ákvörðunar að þessu leyti.
Kærendum hafi verið veittar leiðbeiningar um það hvaða upplýsingar þyrftu að liggja fyrir til þess að útbúa mætti endanlegt frumvarp til greiðsluaðlögunar. Upplýsingar um tekjur kæranda B hafi ekki þótt nógu skýrar og því hafi verið óskað eftir því að kærendur veittu frekari upplýsingar og gögn um tekjur. Geti skuldarar ekki sjálfir gert grein fyrir tekjum sínum verði ómögulegt fyrir starfsmenn umboðsmanns skuldara, þar með talið umsjónarmann, að átta sig á hvaða tekjur megi gera ráð fyrir að skuldarar hafi. Að öllu jöfnu muni það vera á ábyrgð skuldara að veita upplýsingar um tekjur sínar og staðfesta þær upplýsingar með gögnum. Það hafi kærendur ekki gert með fullnægjandi hætti, þrátt fyrir leiðbeiningar umboðsmanns skuldara. Um tilvísun kærenda í 10. gr. ssl. sé það að segja að kærendum hafi verið gerð grein fyrir því hvaða atriði í málinu hafi þótt óljós og óskað hafi verið eftir því við þau að lögð yrðu fram gögn sem skýrðu þau atriði. Ekki verði séð að ósanngjarnar kröfur hafi verið gerðar gagnvart kærendum í þessum efnum. Þá verði einnig að hafa í huga að kærendur hafi notið frestunar greiðslna frá október 2010.
Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 30/2011. Í því máli hafi umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála borist gögn frá kærendum, en þau hafi ekki þótt sýna fram á tekjur kærenda með þeim hætti sem nauðsynlegur hafi verið fyrir vinnslu málsins hjá umsjónarmanni. Fordæmisgildi úrskurðarins sé því ekki einskorðað við þau tilvik þar sem skuldari verður ekki við áskorunum um öflun gagna eða upplýsinga. Úrlausnin þýði að b-liður 1. mgr. 6. gr. lge. geti átt við í þeim tilvikum þegar gögn og upplýsingar sem berist umsjónarmanni eða umboðsmanni skuldara varpi ekki ljósi á þau atriði er óljós þykja.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.
Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunarumleitanir sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til lge. segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laganna er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.
Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 2. og 3. tölul. 1. mgr. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar séu eignir og skuldir umsækjenda. Í 4. tölul. segir að í umsókninni skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.
Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Þau gögn sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir vörðuðu tekjur kæranda B vegna atvinnurekstrar hans í Noregi. Það er ljóst að slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar fyrir umsjónarmann til þess að ekki sé óvissa um tekjur og framfærslu kærenda. Eru upplýsingarnar því nauðsynlegar til þess að umsjónarmaður geti gert drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings, þar sem í honum skal tiltaka viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, m.a. upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur skilað afriti af norsku skattkorti kæranda B, þar sem fram koma áætlaðar tekjur hans, kvittun vegna vörslureiknings, reikningum vegna greiðslu til aðila vegna atvinnureksturs kæranda Bog reikningum vegna húsaleigu auk fleiri gagna. Þótt gögn þessi gefi ekki tæmandi upplýsingar um fjárhag kæranda B, þá verður að telja að samkvæmt þeim liggi fyrir nægilegar upplýsingar um tekjur, framfærslu, útgjöld og annað sem í hinni kærðu ákvörðun er talið skipta máli svo unnt sé að meta greiðslugetu hans við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Er það því mat kærunefndarinnar að framlögð gögn kærenda í málinu og skýringar þær sem þau hafa gefið á þeim séu fullnægjandi í skilningi laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í ljósi þessa verður ekki fallist á að skylt hafi verið að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. sem ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á. Er því óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. er samkvæmt framansögðu felld úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir B og A er felld úr gildi.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Eggert Óskarsson