Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 32/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 32/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 30. janúar 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem fram komi í fyrirliggjandi gögnum að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra. Hún hafi starfað við að hanna og selja B. Vinnumálastofnun taldi að kærandi hafi vísvitandi látið hjá líða að tilkynna stofnuninni um framangreind atvik. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Þá hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 24. ágúst 2012 til 31. desember 2013 að fjárhæð samtals með 15% álagi 1.389.581 kr. sem verði innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðunum Vinnumálastofnunar og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 10. mars 2014. Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hinar kærðu ákvarðanir.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. september 2010. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 8. janúar 2014, var óskað upplýsinga og skýringa hennar á sjálfstæðri starfsemi hennar við sölu á eigin handverki samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í skýringabréfi kæranda, dags. 13. janúar 2014, kom fram hjá kæranda að hún hefði lært að búa til B árið 1997. Hafi það verið áhugamál hennar síðan þá en ekki hafi verið nein sala í B frá hruni 2008 og hafi hún því ekki haft af því neinar tekjur.

Í kæru kæranda kemur fram að hún hafi lært að B árið 1997 og hafi haft það sem áhugamál síðan og sé ekki að þiggja laun fyrir það. Sýnishorn af vinnu hennar sé á heimili hennar hverju sinni. Áhugamál teljist ekki vera söluvara og sé í mesta lagi um að ræða gjafir til barna og vina. Með því að svipta hana atvinnuleysisbótum á óljósum grunni og með litlum rökstuðningi hafi hún verið svipt einu framfærslunni og þar sem hún hafi lítið getað leyft sér til að vera manneskja sé hún nú komin í þrot. Hún hafi engar tekjur, komin á þennan aldur, fráskilin og sé vegna aldurs ekki fyrsta val við atvinnuleit.

Kærandi óskar eftir því að afgreiðslu þessa máls verði flýtt og að rökstuðningur fylgi þeirri ákvörðun sem tekin verði.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. maí 2014, segir Vinnumálastofnun að fyrir hafi legið meðal annars færslur af fésbókarsíðu kæranda og er henni gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá því að hún setti á fót fésbókarsíðu sína þar sem hún hafi auglýst handverk sitt til sölu, eða 24. ágúst 2012 til 31. desember 2013. Vinnumálastofnun bendir á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna það til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Í 2. málsl. 60. gr. laganna sé tekið á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Fram komi í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda megi ráða að hún hafi starfað við sölu eigin handverks. Á fésbókarsíðunni ,,C“ hafi birst færsla, dags. 21. desember 2013, þar sem segi orðrétt: „Ég er að hanna D ... þau verða vonandi tilbúin um helgi þegar Gallerýið mitt á E verður OPIÐ fyrir ykkur ... Allir velkomnir“. Lögheimili kæranda sé skráð að E, og sé umrætt gallerí því staðsett á heimili kæranda. Á fésbókarsíðu kæranda sé að finna fjölmargar auglýsingar þar sem hún auglýsi listmuni sína til sölu.

Fram kemur að samkvæmt hlutafélagaskrá Creditinfo sé kærandi stofnandi, framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrirtækisins F, sem sett sé í flokk listsköpunar samkvæmt ÍSAT atvinnugreinaflokkuninni. Þá liggi fyrir að fyrirtækið sé með opið virðisaukaskattsnúmer.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að þegar litið sé til fyrirliggjandi gagna í máli þessu sé það mat stofnunarinnar, þrátt fyrir mótbárur kæranda þar um, að hún hafi starfað við hönnun og sölu B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Í ljósi þess hafi sú ákvörðun verið tekin að kærandi skyldi sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina með því að tilkynna ekki um vinnuna. Skipti engu í því sambandi hvort kærandi hafi haft tekjur af starfsemi sinni eða ekki eftir að hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Sé henni því gert að starfa í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún geti átt rétt til atvinnuleysisbóta á ný. Sé henni jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá því að kærandi hafi sett á fót fésbókarsíðu sína þar sem hún auglýsi handverk sitt til sölu eða 24. ágúst 2012 til 31. desember 2013 samtals að fjárhæð 1.289.581 kr. með 15% álagi á grundvelli 20. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. maí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 21. maí 2014. Kærandi nýtti sér það ekki.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að 1. málsl. þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir 2. málsl. ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að 2. málsl. tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Fyrsti málsliðurinn á við í máli þessu.

Af gögnum þessa máls, einkum færslum kæranda á fésbókarsíðu sína, má ráða að hún hafi starfað við hönnun og sölu B samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta án þess að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest og ber kæranda að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda er gert að starfa í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún getur átt rétt til atvinnuleysisbóta á ný.

Vinnumálastofnun kvað kæranda hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 24. ágúst 2012 til 31. desember 2013 sem henni bæri að endurgreiða með 15% álagi að fjárhæð samtals 1.389.581 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Framangreindar dagsetningar virðast byggjast á færslu kæranda á fésbókarsíðu sína. Meðal gagna þessa máls eru færslur á fésbókarsíðu kæranda sem lúta að vinnu hennar þó aðeins frá 13. desember 2012 og til 16. desember 2013. Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 24. ágúst 2012 til 31. desember 2013 er því felld úr gildi. Tekin er sú ákvörðun að kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 13. desember 2012 til 16. desember 2013 ásamt 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lagt er fyrir Vinnumálastofnun að reikna að nýju skuld kæranda í samræmi við framangreint.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. janúar 2014 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 1.389.581 kr. með inniföldu 15% álagi er felld úr gildi.

Kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 13. desember 2012 til 16. desember 2013 ásamt 15% álagi. Lagt er fyrir Vinnumálastofnun að reikna að nýju skuld kæranda í samræmi við framangreint.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta