Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 49/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 49/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. febrúar 2014, tilkynnti stofnunin kæranda, A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 47.117 kr. auk 15% álags að fjárhæð 7.068 kr. eða samtals 54.185 kr. fyrir tímabilið 1. maí til 19. október 2011 þar sem kærandi hefði ekki á þeim tíma uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hefði fengið skráninguna: ofgreitt vegna tekna. Vinnumálastofnun endurupptók málið í kjölfar framlagningar frekari gagna og á greiðsluseðli, dags. 21. maí 2014, kemur fram að kærandi skuldi 3.089 kr. Kærandi hafði þá þegar kært fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. maí 2014, og af síðara bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. júlí 2014, má ráða að hann vill ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og verður því litið svo á að hann hafi lagt fram kæru þar að lútandi. Kærandi er ósammála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að gera honum að greiða 3.089 kr. að efni til og hann telur einnig að birtingarháttur stofnunarinnar hafi verið ófullnægjandi og biður um að mál hans verði tekið til efnislegrar meðferðar. Enn fremur telur hann að Vinnumálastofnun hafi ekki reiknað atvinnuleysisbætur hans rétt og að hann eigi vangreiddar atvinnuleysisbætur inni hjá stofnuninni frá árinu 2011. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri niðurstöðu stofnunarinnar í samræmi við greiðsluseðilinn.

Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. júlí 2014, greinir hann frá því að Vinnumálastofnun segist hafa tilkynnt honum ákvörðun sína með birtingu greiðsluseðils á „mínum síðum“ á heimasíðu sinni 21. maí 2014. Aðgangsorðið hafi ekki virkað þegar hann hafi reynt að fara inn á „mínar síður“ í apríl og hafi hann talið sig hafa verið tekinn af skrá og aðgenginu lokað, vegna þess að aldurs hefði verið náð til ellilauna og tekjutryggingar. Það síðasta sem kæranda hafi getað dottið í hug væri að starfsfólk Vinnumálastofnunar léti sér það nægja að tilkynna endurálagninguna á „mínum síðum“ nær þremur árum eftir að hann hafi farið af bótum, án þess að láta hann vita af því á annan hátt. Öll samskipti þessa máls hafi verið í formi tölvupósta.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 23. júní 2014, kemur fram að mál kæranda hafi verið endurupptekið vegna nýrra gagna. Hafi niðurstaða endurupptökunnar legið fyrir 21. maí 2014. Skuld kæranda hefði að mestu verið felld niður þar sem ný gögn hafi sýnt fram á að greiðslur til kæranda frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna hafi verið úttektir á séreignasparnaði hans. Samkvæmt 9. mgr. bráðabirgðaákvæðis VIII við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, skuli úttekt á séreignarsparnaði samkvæmt ákvæðinu ekki koma til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Kæranda hafi verið tilkynnt að eftirstöðvar skuldar hans næmu 3.089 kr. Fram kemur að kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun Vinnumálastofnunar með birtingu greiðsluseðils þess efnis á „mínum síðum“ hans á heimasíðu stofnunarinnar 21. maí 2014.

2.      Niðurstaða

Mál þetta snýst um innheimtu atvinnuleysisbóta sem greiddar voru kæranda og Vinnumálastofnun taldi ofgreiddar, samkvæmt greiðsluseðli stofnunarinnar, dags. 21. maí 2014, að fjárhæð 3.089 kr. Greiðsluseðillinn var sendur kæranda rafrænt á „mínar síður“.

Kærandi krefst þess að atvinnuleysisbætur hans fyrir árið 2011 verði reiknaðar að nýju og honum verði greiddar vangreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið afskráður af atvinnuleitendaskrá 18. október 2011. Hann fékk sent innheimtubréf 5. febrúar 2014 vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. maí til 19. október 2011. Hann skilaði frekari gögnum í kjölfarið og með tölvupósti frá Vinnumálastofnun var honum tilkynnt að mál hans yrði endurupptekið og að skuld hans myndi lækka töluvert. Kæranda var síðan tilkynnt niðurstaða Vinnumálastofnar, með birtingu greiðsluseðils á „mínum síðum“ kæranda á heimasíðu Vinnumálastofnunar 21. maí 2014. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að kærandi skuldaði 3.089 kr.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða var ekki hægt að gera ráð fyrir því að kærandi fylgdist með „mínum síðum“ löngu eftir að hann hætti að þiggja atvinnuleysisbætur enda var það annar samskiptamáti en notaður hafði verið í samskiptum við kæranda, þar sem stuðst hafði verið við tölvupósta. Það var því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fullnægjandi birtingarháttur að birta kæranda greiðsluseðilinn eingöngu á „mínum síðum“ með þeim hætti sem gert var, þar sem kærandi gat ekki vitað að hann þyrfti áfram að kynna sér þá slóð. Af framangreindu leiðir að hinni kærðu ákvörðun er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.

 Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. maí 2014 í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 3.089 kr. fyrir tímabilið 1. maí til 19. október 2011 er vísað frá. Vinnumálastofnun taki málið til nýrrar meðferðar.


Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta