Mál nr. 221/2012
Fimmtudaginn 18. desember 2014
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 28. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. nóvember 2012 þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var hafnað.
Með bréfi 3. desember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. janúar 2013.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 1. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 12. febrúar 2013.
Athugasemdir kærenda voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 14. febrúar 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 27. febrúar 2013. Var hún send kærendum með bréfi 4. mars 2013. Engar frekari athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1951 og 1961. Þau eru gift og búa í eigin 212 fermetra einbýlishúsi að D götu nr. 13 sveitarfélaginu E.
Kærandi A starfar hjá X en kærandi B vinnur sjálfstætt við smíðar. Ráðstöfunartekjur þeirra eru 348.882 krónur á mánuði að meðaltali.
Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2006 þegar fyrirtæki þeirra Y ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Um sama leyti hafi kærandi A tekið lán til að greiða ýmis minni lán og skuldir sem hún hafi yfirtekið vegna Y ehf. Kærandi B hafi gengist í ábyrgð fyrir láninu. Undanfarin ár hafi öll laun kæranda A farið í að greiða afborganir af láninu. Telja kærendur að umrætt lán og tekjulækkun kæranda B undanfarin ár séu helstu ástæður fjárhagserfiðleika þeirra.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 41.472.459 krónur en þar af falla 3.778.441 króna utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2009.
Kærendur lögðu fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 25. mars 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. nóvember 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur gera ekki eiginlegar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Að því er varði synjun umboðsmanns skuldara á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. bendi kærendur á að auknar skuldir þeirra á árunum 2007 til 2009 hafi átt sér stað að undangengnu greiðslumati lánveitanda eða ítarlegri könnun á fjárhag kærenda. Hvað áhættu varði sé alltaf falin áhætta í því að takast á hendur skuldbindingar og eins taki fjármálafyrirtæki áhættu þegar þau láni út peninga en áhættan hafi verið metin þegar greiðslumöt og fjárhagskannanir hafi farið fram. Í ljósi fjárhæða telji kærendur að áhættan hafi verið óveruleg.
Varðandi ógreidda vörsluskatta hafi kærendur rætt við innheimtumann ríkissjóðs um að semja um greiðslu skuldarinnar en slíkt sé í biðstöðu á meðan umsókn um greiðsluaðlögun sé til meðferðar.
Í nóvember 2007 hafi kærendur tekið myntkörfulán vegna bifreiðakaupa, árið 2008 hafi þau tekið lán hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 4.248.000 krónur og árið 2009 hafi þau tekið nýtt lán hjá Sparisjóði Vestmannaeyja að fjárhæð 1.820.000 krónur. Umboðsmaður skuldara telji vafa á að kærendur hafi getað staðið við skuldbindingar sínar þótt greiðslugeta þeirra hafi verið jákvæð er síðastgreinda lánið var tekið.
Vinna kæranda B sem verktaki við smíðar hafi að 90% leyti farið fram utan sveitarfélagsins E þar sem lítil sem engin verkefni sé að fá á svæðinu. Samgöngur í þessum landshluta séu ekki þannig að mögulegt sé að kærandi B geti stundað vinnu sína án bifreiðar og því hafi kærendur þurft að eiga bifreið. Lánveitandi hafi talið að kærendur myndu standa við skuldbindingar sínar.
Kærendur hafi keypt hús foreldra kæranda B árið 2005 en það sé núverandi heimili þeirra. Á árinu 2008 hafi kærendur tekið fyrrnefnt lán hjá Íbúðalánasjóði til að sinna viðhaldi á húsinu. Hafi það verið til að koma í veg fyrir frekari eignarýrnun og skakkaföll sem hefðu getað orðið þeim dýrkeyptari en lántaka. Kærendur hafi farið í greiðslumat vegna lánsins og hafi það verið mat Íbúðalánasjóðs að þau hefðu greiðslugetu.
Árið 2009 hafi kærendur tekið lán hjá Sparisjóði Vestmannaeyja en þá hafi greiðslugeta þeirra verið orðin mun verri og farið að bera á vanskilum vegna stopulla starfsskilyrða kæranda B. Hafi það verið mat sparisjóðsins að lána kærendum 1.820.000 krónur til að greiða upp vanskil bæði hjá sjóðnum og öðrum kröfuhöfum. Hafi sparisjóðurinn kannað fjárhagsstöðu kærenda af þessu tilefni.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé vísað til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt því ákvæði sé umboðsmanni heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Einnig vísi umboðsmaður til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt því ákvæði sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldanna var stofnað. Hafa beri í huga að hér sé um heimild umboðsmanns skuldara að ræða en ekki skyldu og því liggi sú spurning í loftinu hvort huglægt mat liggi að baki ákvörðuninni að einhverju leyti. Það sé mat kærenda að umboðsmaður skuldara hafi hvorki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að þau hafi stofnað til mikilla fjárhagslegrar áhættu þegar þau juku skuldir sínar né að kærendur hafi vísvitandi aukið skuldir sínar á þeim tíma er þau hafi ekki haft greiðslugetu.
Kærendur gera athugasemd við málsmeðferð umboðsmanns skuldara. Í framhaldi af bréfi umboðsmanns til þeirra 10. október 2012, þar sem þeim hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu, hafi þau haft samband við starfsmann embættisins. Hafi þau fengið þessi svör í tölvupósti: „Þú getur svarað andmælabréfinu en á meðan staðan er óbreytt hafi það lítið upp á sig.“ Telji kærendur að ef frekari gögn hefðu hjálpað til við ákvarðanatöku, hefði átt að segja þeim það. Af fyrrnefndum orðum megi ætlað að það hefði ekkert haft upp á sig.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Í ákvæðinu sé tekið fram að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til atvika sem þar séu talin upp í stafliðum a‒g.
Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.
Samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi árin 2007 til 2009 í krónum:
Tekjuár | 2007 | 2008 | 2009 |
Ráðstöfunartekjur kærenda á mánuði | 309.918 | 246.664 | 426.877 |
Framfærslukostnaður kærenda* | 98.700 | 114.300 | 125.900 |
Greiðslugeta á mánuði | 211.218 | 132.364 | 300.977 |
Afborganir af skuldum | 189.000 | 247.000 | 287.000 |
Greiðslustaða eftir afborganir af skuldum | 22.218 | -114.636 | 13.977 |
Eignir kærenda | 8.984.679 | 11.953.658 | 11.745.757 |
Skuldir kærenda | 18.471.392 | 25.195.278 | 28.299.093 |
Nettóeignastaða kærenda | -9.486.713 | -13.241.620 | -16.553.336 |
*Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður samkvæmt neysluviðmiði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fyrir utan kostnað vegna síma, hita, rafmagns og fasteignagjalda.
Þrátt fyrir að kærendur hefðu lítið sem ekkert svigrúm til frekari skuldbindinga á árinu 2007 hafi þau tekið myntkörfulán vegna bifreiðarkaupa í nóvember 2007. Árið 2008 hafi þau tekið íbúðarlán vegna endurbóta og viðhalds á fasteign sinni að fjárhæð 4.248.000 krónur.
Á árinu 2009 hafi kærendur enn aukið við skuldir sínar og tekið lán að fjárhæð 1.820.000 krónur. Eftir afborganir af því láni hafi greiðslugeta kærenda verið 13.977 krónur á mánuði en þá hafi ekki verið gert ráð fyrir kostnaði vegna hita, rafmagns, fasteignagjalda og síma en ekki sé óvarlegt að áætla að fjárhæð þess kostnaðar hafi verið hærri en sem nam greiðslugetunni.
Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi umboðsmaður skuldara sent kærendum ábyrgðarbréf 10. október 2012 um hugsanlega synjun á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Hafi kærendum verið veittur 15 daga frestur til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja það gögnum. Ekkert skriflegt svar hafi borist.
Af því sem að ofan hafi verið rakið verði ekki séð að kærendur hafi getað greitt mánaðarlegar afborganir skulda og framfleytt sér með þær tekjur sem þau höfðu á tilgreindum árum. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna megi ráða að kærendur hafi tekið fjárhagslega áhættu með því að auka skuldir sínar á árunum 2007, 2008 og 2009 án þess að svigrúm hafi verið til þess. Þau hafi því verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.
Varðandi beitingu heimildarákvæðis 2. mgr. 6. gr. lge. vísist til þess sem fram komi í frumvarpi til lge. þar sem segi að aðstæður sem taldar séu upp í ákvæðinu eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Kærendur geti þess í kæru að þau hafi staðist greiðslumat viðkomandi fjármálafyrirtækja. Ekki verði af gögnum málsins séð að kærendur hafi haft svigrúm til að standa við þessar skuldbindingar á grundvelli uppgefinna tekna. Þá hafi kærendur ekki lagt fram gögn eða skýringar sem sýni fram á hærri tekjur en skattframtöl beri með sér, en eins og komið sé fram hafi kærendur ekki svarað bréfi embættisins frá 10. október 2012.
Að því er varði d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. bendi umboðsmaður á 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt þessum ákvæðum geti það varðað refsingu að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum.
Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga hafi umboðsmaður skuldara sent kærendum ábyrgðarbréf 19. júní 2012. Þar hafi komið fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Tollstjóra hafi hvílt á kæranda B skuldir vegna opinberra gjalda frá árunum 2007 til 2012 en skuldirnar hafi verið vegna vangoldins virðisaukaskatts og vangoldinnar afdreginnar staðgreiðslu launagreiðanda samtals að fjárhæð 6.074.885 krónur. Þar sem um áætlanir hafi verið að ræða hafi kærendur verið hvött til þess að fara fram á leiðréttingu ef áætlunin væri ekki rétt. Að öðrum kosti yrði byggt á fyrirliggjandi gögnum og umsókn kærenda um greiðsluaðlögun að öllum líkindum synjað á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hafi kærendur í kjölfarið farið fram á leiðréttingu áætlananna. Samkvæmt núverandi gögnum sé virðisaukaskattskuld kæranda B samkvæmt álagningu að fjárhæð 3.671.643 krónur og stafi hún frá árunum 2007 til 2012 og áætlun vegna staðgreiðslu launagreiðanda frá 2012 sé að fjárhæð 106.798 krónur.
Samkvæmt þessu þurfi að meta hvort virðisaukaskattskuld að fjárhæð 3.671.643 krónur nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Í ljós þess að eignastaða kærenda sé neikvæð um 29.601.094 krónur sé það mat embættisins að skuldin sé ekki smávægileg miðað við fjárhag kærenda.
Að því er varði ógreidda vörsluskatta kveðast kærendur hafa reynt að fá innheimtumann ríkissjóðs til að semja um skuldina. Af því tilefni taki umboðsmaður fram að við ákvarðanatöku geti embættið aðeins tekið mið af skuldastöðu samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Hafi það því ekki þýðingu í sjálfu sér hvort kærendur geti komist að samkomulagi við innheimtumann ríkissjóðs utan greiðsluaðlögunar seinna meir.
Kærendur telji að embætti umboðsmanns skuldara hafi átt að leiðbeina þeim betur um hvort frekari gögn hefðu haft áhrif á ákvörðun embættisins. Umboðsmaður vísi til þess að í andmælarétti felist meðal annars að málsaðili eigi kost á að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér málsgögn, tjá sig um efni máls og fyrirliggjandi upplýsingar í því og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald taki ákvörðun í máli hans. Undantekningar séu fyrst og fremst þegar afstaða og rök aðila liggi fyrir í gögnum málsins. Embætti umboðsmanns skuldara hafi viðhaft þá framkvæmd að senda öllum umsækjendum í greiðsluaðlögunarmálum, þar sem vafi ríki um málsatvik og fyrir hendi séu aðstæður sem leitt geti til synjunar, svokallað andmælabréf. Bréfið sé til að kynna aðilum þann vafa og eftir atvikum staðreyndir sem uppi séu.
Í fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum embættisins við kærendur komi fram að kærendur hafi verið upplýst um að á meðan vörsluskattskuld væri óbreytt væri lítið hægt að gera. Geti það ekki verið hlutverk stjórnvalds að draga dul á mikilsverðar aðstæður í máli eða gefa falsvonir þegar fyrir liggi að aðstæður séu með þeim hætti að leitt geti til synjunar. Sú staðreynd að kærendum hafi verið gefinn kostur á að leggja fram gögn í málinu og láta álit sitt í ljós geti í sjálfu sér aldrei falið í sér fyrirheit um að ný gögn myndu hafa áhrif á niðurstöðu máls.
Eins og mál þetta sé vaxið liggi fyrir skuld vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 3.671.643 krónur sem numið hafi 8,8% af heildarskuldum kærenda. Þrátt fyrir að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimildarákvæði hafi þessi staðreynd verið sá þáttur synjunar sem hafi verið hvað óumdeildastur enda liggi fyrir fordæmi bæði Hæstaréttar Íslands, Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness þar sem skattskuldir hafi verið metnar umtalsverðar miðað við heildarskuldir í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 hafi niðurstaðan verið sú að skuldara hafi verið synjað um greiðsluaðlögun samkvæmt samhljóða ákvæði eldri laga vegna virðisaukaskattskuldar að fjárhæð 1.780.437 krónur. Í dóminum hafi farið fram heildarmat á aðstæðum skuldara þar sem fjárhæð vörsluskattskuldar hafi verið borin saman við fjárhag hans, þ.e. eigna- og skuldastöðu. Vísi rétturinn meðal annars til þess að skuldin hafi verið 8,3% af heildarskuldum skuldarans en ekki verði séð að það eitt hafi ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins. Hæstiréttur vísi einnig til þess að vörsluskattskuldin, sem numið hafi 1.780.437 krónum, hafi ein og sér verið allhá auk þess sem samanburður á fjárhæð skuldarinnar við fjárhag skuldara að öðru leyti hafi þótt leiða í ljós að fjárhagur hans væri ekki slíkur að skuldin gæti talist smávægileg með hliðsjón af honum.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 2. maí 2012 segi að leggja skuli strangan mælikvarða á hvenær skuldbindingar með háttsemi er varði refsingu eða skaðabótaskyldu nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Því þyki dómnum ljóst að telja verði skuldbindingu sem nemi 5,7% af heildarskuldum háa í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en umrædd skuld hafi verið að fjárhæð 574.568 krónur.
Sama eigi við í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. desember 2012 en þar hafi skuldbinding sem numið hafi 5,4% af heildarskuldum verið talin há í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Eins og mál þetta sé vaxið hefði embætti umboðsmanns skuldara átt að leiðbeina kærendum betur með hvaða hætti hefði mögulega verið hægt að hreyfa við andmælum enda hafi upplýsingar sem verið hafi kærendum í óhag verið lagðar til grundvallar. Mistök þessi leiði þó að mati embættisins ekki til þess að ákvörðunin verði ógild.
Með vísan til þess sem komið hafi fram sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærendur gera athugasemd við málsmeðferð umboðsmanns skuldara. Þau vísa til þess að í framhaldi af bréfi umboðsmanns til þeirra 10. október 2012, þar sem þeim hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu, hafi þau haft samband við starfsmann embættisins. Hafi þau fengið þær upplýsingar í tölvupósti að þau gætu svarað bréfinu en á meðan staðan væri óbreytt hefði það lítið upp á sig. Telji kærendur að ef frekari gögn hefðu haft áhrif á ákvarðanatöku, hefði átt að segja þeim það. Af fyrrnefndum orðum verði ráðið að það hefði verið tilgangslaust.
Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótar gögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi skylda varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru.
Með bréfum umboðsmanns skuldara til kærenda 19. júní og 10. október 2012 var kærendum boðið að tjá sig skriflega um efni málsins innan frests og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Í bréfinu frá 19. júní 2012 var ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. rakið ásamt ákvæðum 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Var kærendum bent á að samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra skuldaði kærandi B virðisaukaskatt og staðgreiðslu að fjárhæð samtals 6.074.885 krónur. Byggðist fjárhæðin á áætlunum en kærendur voru hvött til að óska eftir leiðréttingu ef þau teldu álagninguna ekki í samræmi við skattskyldu. Í bréfinu kom fram að umboðsmanni skuldara bæri að synja um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. ef fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara. Í bréfinu 10. október 2012 voru ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. rakin ásamt fjárhagslegum ráðstöfunum kærenda. Einnig kom fram að með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. og fyrirliggjandi gagna yrði að teljast sennilegt að kærendum yrði synjað um greiðsluaðlögun. Þá kom fram að embættið byði upp á ráðgjöf vegna umsóknar um greiðsluaðlögun og aðstoð við ritun greinargerða sem og almenna ráðgjöf umsækjendum að kostnaðarlausu.
Tölvupóstsamskipti áttu sér stað á milli starfsmanns embættis umboðsmanns skuldara og kæranda A 17. október 2012. Þar greindi starfsmaðurinn frá því að ekki sé hægt að samþykkja umsókn kærenda vegna vörsluskatta. Þá segir: „Þú getur vissulega svarað andmælabréfinu en á meðan að skuldin er til staðar hefur það því miður ekkert upp á sig.“ Starfsmaðurinn ítrekaði þetta í tölvupósti 18. október. Í tölvupósti 19. október benti starfsmaðurinn á að hægt væri að kæra ákvörðun umboðsmanns til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Í öðrum tölvupósti sama dag greindi starfsmaðurinn frá því að „...það kemur fyrir að nefndin hefur komist að annarri niðurstöðu að loknu heildstæðu mati og tekið sérstakt tillit til félagslegra aðstæðna.“
Það liðu tæpir fjórir mánuðir á milli framangreindra bréfa umboðsmanns skuldara frá 19. júní og 10. október 2012 til kærenda. Lágu því ekki fyrir nýjar upplýsingar um hag kærenda þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Skipti það sérstaklega miklu máli þar sem þau lagaákvæði sem um ræðir eru heimildarákvæði og því þarf að meta aðstæður í hverju tilviki fyrir sig á þeim tíma er ákvörðun er tekin. Að mati kærunefndarinnar er þetta annmarki á meðferð málsins og ekki í samræmi við lögbundinn andmælarétt kærenda.
Þegar slíkur annmarki er á málsmeðferð lægra setts stjórnvalds og aðili kærir ákvörðun til æðra stjórnvalds, fer um áhrif annmarkans eftir málsmeðferð æðra stjórnvaldsins. Við meðferð málsins hjá kærunefndinni var aðilum veitt færi á að gera athugasemdir, sbr. bréf kærunefndarinnar til kærenda 1. febrúar og 4. mars 2013. Þegar æðra stjórnvaldið veitir málsaðila andmælarétt um alla þætti máls hefur verið bætt úr þeim annmarka sem varð á meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara. Brotið telst því ekki verulegt og varðar ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Að þessu virtu er það mat kærunefndarinnar að andmælaréttur kærenda hafi verið virtur fyrir nefndinni og því sé ekki efni til að fella ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til b-, c- og d-liða.
Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.
Sú skuldbinding sem umboðsmaður skuldara vísar til í þessu sambandi er skuld vegna virðisaukaskatts samtals að fjárhæð 3.671.643 krónur frá árunum 2007 til 2012. Skuldin er vegna álagningar.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrir liggur að kærandi B skuldar virðisaukaskatt. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara voru kærendur spurð að því hvort þau teldu áætlunina endurspegla rétta skattskyldu. Einnig var þeim bent á að þau gæti farið fram á leiðréttingu álagningar teldu þau svo ekki vera. Loks var þeim bent á að heimilt væri að synja umsókn um greiðsluaðlögun vegna vanskila á virðisaukaskatti. Leiðréttingarskýrslur kæranda B leiddu til lækkunar á virðisaukaskattskuld hans og nemur hún nú þeirri fjárhæð sem að ofan er getið. Af þessu leiðir að ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt eiga við um kæranda B sem virðisaukaskattskyldan aðila.
Að því er varðar nefnda virðisaukaskattskuld verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi B bakað sér skuldbindingu í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.
Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um liðlega 28.500.000 krónur þegar tekið hefur verið tillit til virðisaukaskattskuldar. Tekjur þeirra nema alls 348.882 krónum á mánuði. Skuld sem kærandi B hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nemur 3.671.643 krónum með vöxtum eða 8,8% af heildarskuldum kærenda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi B hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er getur varðað refsingu eins og tiltekið er hér að framan.
Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir