Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 676/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 676/2020

Miðvikudaginn 7. júlí 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 22. desember 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. ágúst 2020, um upphafstíma örorkumats kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti tvisvar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, annars vegar með rafrænni umsókn 26. júní 2020 þar sem sótt var um greiðslur frá 1. janúar 2019 og hins vegar með rafrænni umsókn 15. júlí 2020 þar sem sótt var um greiðslur frá 16. júlí 2018. Með örorkumati, dags. 10. ágúst 2020, var umsókn kæranda samþykkt og gildistími ákvarðaður frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2024. Með tölvubréfi 11. ágúst 2020 var óskað eftir rökstuðningi fyrir upphafstíma framangreindrar ákvörðunar var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. ágúst 2020. Með tölvubréfi 25. ágúst 2020 var farið fram á frekari rökstuðning fyrir kærðri ákvörðun og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 31. ágúst 2020. Leiðréttur rökstuðningur var veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. október 2020. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu þar sem örorkumat var ákvarðað varanlegt frá 1. maí 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. desember 2020. Með bréfi, dags. 4. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 21. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. janúar 2021, var greinargerð Tryggingastofnunar send umboðsmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 26. apríl 2021, gaf úrskurðarnefnd velferðarmála kæranda kost á að leggja fram sjúkraskrá frá þeim læknum sem kærandi leitaði til á tímabilinu 1. janúar 2017 til 31. desember 2019. Með tölvubréfi 3. júní 2021 barst sjúkraskrá frá Heilsugæslunni C vegna umbeðins tímabils. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júní 2021, voru framangreind gögn send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er farið fram á að upphafstími örorkumats verði ákvarðaður frá 16. júlí 2018.

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um að meta örorku kæranda frá 1. apríl 2020 þar sem læknisfræðileg skilyrði um örorkulífeyri nái lengra aftur í tímann líkt og færð verði rök fyrir.

Málavextir séu þeir að sótt hafi verið um örorkulífeyri frá 1. janúar 2019 fyrir kæranda með umsókn, dags. 26. júní 2020. Önnur umsókn hafi verið send inn send mánuði seinna þar sem óskað hafi verið eftir mati frá 16. júlí 2018.

Samkvæmt reglum Tryggingastofnunar sé hægt að sækja um örorkulífeyri mest tvö ár aftur í tímann og hafi því tímabilið verið miðað við það tímamark, enda ljóst að kærandi hafi verið óvinnufær töluvert fyrir þann tíma. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2020, hafi læknisfræðileg skilyrði um örorkulífeyri verið samþykkt og gildistíminn ákveðinn frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2024.

Ekki sé fallist á þessa ákvörðun Tryggingastofnunar þar sem kærandi hafi verið óvinnufær löngu fyrir 1. apríl 2020. Með tölvupósti 11. ágúst 2020 hafi verið óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar og jafnframt hafi verið óskað eftir þeim gögnum sem hafi legið að baki ákvörðuninni. Rökstuðningur hafi borist með bréfi, dags. 17. ágúst 2020, og þar segi orðrétt: „Umsækjandi er óvinnufær samkv læknisvottorði frá 9.mars 2019. Greiðslur eru miðaðar við fyrsta dag næsta mánaðar. Þarna sé hrópandi misræmi í rökstuðningi örorkumatsins og matsins sjálfs. Samkvæmt rökstuðningi hafi kærandi verið óvinnufær frá 9. mars 2019 en matið sjálft miði við 1. apríl 2020. Vegna þessa misræmis hafi aftur verið óskað eftir rökstuðningi með tölvupósti 25. ágúst 2020 og aftur hafi verið óskað eftir gögnum málsins en þau hafi ekki borist með fyrri rökstuðningi. Rökstuðningur stofnunarinnar hafi borist 31. ágúst 2020 og segi þar orðrétt: „Samkvæmt læknisvottorði varð umsækjandi óvinnufær 09 mars 2019.“ Umboðsmaður kæranda hafi þá hringt og óskaði eftir nánari útskýringum á þessu en illa hafi gengið að fá svör en að lokum hafi borist sú skýring að um hafi verið að ræða ritvillu hjá Tryggingastofnun og að stofnunin hafi miðað við að kærandi hafi verið óvinnufær frá 9. mars 2020 en ekki 2019 líkt og hafi komið fram í fyrri bréfum. Þetta hafi verið staðfest í bréfi, dags. 21. október 2020, en engin gögn hafi borist með rökstuðningnum og því hafi umboðsmaður kæranda óskað aftur eftir gögnum með tölvubréfi 28. október 2020. Engin svör hafi borist og því hafi umboðsmaður kæranda ítrekað beiðnina með tölvubréfi 11. nóvember 2020. Þann 13. nóvember 2020 hafi honum borist svar með tölvubréfi á þá leið að nauðsynlegt væri að skila inn formlegri beiðni á formi Tryggingastofnunar. Umboðsmaður kæranda hafi skilað inn formlegri beiðni ásamt umboði þann 18. nóvember 2020 og hafi svar ásamt gögnum borist með bréfi, dags. 7. desember 2020.

Í málinu liggi fyrir skýrsla læknis vegna umsóknar um örorkubætur. Á bls. 2 í skýrslunni komi fram að kærandi hafi haft einkenni vitrænnar skerðingar undanfarin fimm ár og þá hafi rannsóknir á minnismóttöku leitt í ljós skerðingu á allri vitrænni starfsemi og að hann sé án vafa með taugahrörnunarsjúkdóm, líklegast Alzheimer eða Lewy body. Jafnframt segi að heilabilunarsjúkdómurinn sé ekki lengur á vægasta stigi og því sé ljóst að heilabilunarsjúkdómurinn hafi verið til staðar í einhvern tíma fyrir skoðun. Þá komi fram á bls. 11 í skýrslunni að kærandi hafi ekki unnið í X ár. Einnig segi þar, að mati læknis sem hafi skoðað kæranda, að færni hans nú hafi verið svipuð í að minnsta kosti eitt ár aftur í tímann en líklegast sé það lengri tími, eða allt að tveimur árum. Umrædd skoðun hafi farið fram 5. ágúst 2020. Þannig liggi fyrir að samkvæmt mati skoðunarlæknis hafi kærandi verið óvinnufær í það minnsta frá 5. ágúst 2019 en líklegast frá 5. ágúst 2018. Eins og áður segi telji umboðsmaður kæranda að hann hafi verið óvinnufær frá 16. júlí 2018 sem séu tvö ár aftur í tímann frá umsókn um örorku. Loks segi að hægt væri að rökstyðja þetta mat frekar með því að fá gögn frá heimilislækni eða öldrunarlækni í D. Fyrir liggi einnig vottorð [læknis öldrunarlækningadeildar Landspítala, dags. 9. júní 2020. Þar komi fram að kærandi teljist kominn á stig heilabilunar. Samantekt á mati taugasálfræðings samkvæmt vottorðinu sé sú að kærandi sé með verulega skert minni fyrir sögu en að minni fyrir orðalista sé á jaðarsvæði. Óyrt minni sé verulega skert. Þar sé að finna ítarlegri niðurstöðu á skoðun en í niðurlagi komi fram að heilabilunin sé komin af fyrstu stigum. Þannig liggi í augum uppi að heilabilun kæranda sé ekki nýtilkomin líkt og niðurstaða Tryggingastofnunar virðist hafa gert ráð fyrir. Í vottorðinu komi vissulega fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 9. mars 2020 en það sé sá dagur sem hann hafi leitað í fyrsta skipti á minnismóttökuna á Landakoti og miði læknirinn óvinnufærnina við þá dagsetningu. Hins vegar sé ekki rétt að miða við þá dagsetningu en ljóst sé af öðrum gögnum málsins að kærandi hafi verið óvinnufær mun lengur. Jafnframt gefi það augaleið að þrátt fyrir að vottorðið miði við 9. mars 2020 hafi ástand kæranda valdið óvinnufærni löngu áður en hann hafi komið til skoðunar til öldrunarlæknis.

Við vinnslu málsins hafði umboðsmaður kæranda samband við E heimilislækni. Kærandi og eiginkona hans hafi fyrst leitað til E þegar grunur hafi vaknað um að ekki væri allt með felldu varðandi getu kæranda. Samkvæmt vottorði E, dags. 16. nóvember 2020, hafi kærandi leitað til hans í apríl 2019 og hafi hann þá þegar verið metinn óvinnufær, annars vegar vegna andlegra einkenna og hins vegar vegna stoðkerfiseinkenna. Kærandi hafi leitaði aftur til E á árinu 2019 og hafi þá verið deginum ljósara að um væri að ræða alvarlegan heilasjúkdóm, annað hvort Lewy body eða Alzheimer en einnig hugsanlega Parkinsons. Í lok vottorðsins komi fram að mikilvægt sé að tekin sé til greina afturvirk óvinnufærni hjá kæranda. Þá liggi einnig fyrir tilkynning um úrskurð frá X lífeyrissjóði, dags. 27. ágúst 2020, en samkvæmt honum sé orkutap kæranda metið 100% frá 31. desember 2018. Með vísan til alls framangreinds sé það mat kæranda að það liggi í augum uppi að tímabil óvinnufærni og þannig tímabil réttinda kæranda til örorkulífeyris nái mun lengra aftur í tímann en ákvörðun Tryggingastofnunar kveði á um. Eins og gögn málsins beri með sér hafi kærandi verið kominn töluvert langt í heilabilunarsjúkdómi sínum þegar hann hafi loks leitað til öldrunarlæknis þann 9. mars 2020. Þannig sé ljóst að umræddur sjúkdómur hafði verið til staðar og kominn langt á veg löngu fyrir þá dagsetningu. Þá liggi einnig fyrir, eins og fram komi í vottorði E, að kærandi hafi verið var metinn óvinnufær frá apríl 2019 en það hafi verið fyrst þá sem grunur hafi vaknað um að kærandi þjáðist af einhvers konar sjúkdómi. Fyrir það hafði hann einnig glímt við stoðkerfiseinkenni til lengri tíma og einnig verið óvinnufær sökum þess. Það sé fullljóst að kærandi hafi verið orðinn óvinnufær að minnsta kosti tveimur árum áður en hann hafi farið fyrst á fund með öldrunarlækni þann 9. mars 2020. Hins vegar gera reglur Tryggingastofnunar ráð fyrir því að ekki sé hægt að sækja um örorkulífeyri lengra en tvö ár aftur í tímann og sé því miðað við tímamarkið þann 16. júlí 2018, en það sé tveimur árum áður en seinni umsókn um örorkulífeyri hafi verið send inn til Tryggingastofnunar.

Farið sé fram á að úrskurðarnefndin endurmeti ákvörðun Tryggingastofnunar um tímabil óvinnufærni og réttindi kæranda til örorkulífeyris. Jafnframt sé gerð sú krafa að tímabil örorkulífeyris sé metin afturvirk til 16. júlí 2018.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun um að miða gildistöku örorkumats vegna umsóknar um örorkulífeyri við 1. apríl 2020 en ekki 16. júlí 2018.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. janúar 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að ákveðið hefði verið að samþykkja afturvirkar greiðslur örorkulífeyris frá 1. maí 2019.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Staðlinum sé skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum sé fjallað um líkamlega færni og þurfi að fá 15 stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lúti að andlegri færni. Þar leggist öll stig saman og þurfi tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna stofnist réttur til bóta frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Í 4. mgr. 53. gr. segi að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Við örorkumat Tryggingastofnunar hafi legið fyrir skoðunarskýrsla, dags. 10. ágúst 2020, umsókn, dags. 26. júní 2020, og læknisvottorð, dags. 9. júní 2020. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um örorkulífeyri hefði verið samþykkt með vísan til þess að læknisfræðileg skilyrði um örorkulífeyri væru uppfyllt. Gildistími örorkumatsins hafi verið ákveðinn frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2024.

Rökstuðningur vegna framangreindrar ákvörðunar hafi verið veittur með bréfum, dags. 17. og 31. ágúst 2020. Í þeim bréfum hafi verið vísað til þess að samkvæmt læknisvottorði hefði umsækjandi verið óvinnufær frá 9. mars 2020 að telja (misritað hafi verið 9. mars 2019). Greiðsluréttur örorkulífeyris miðist við 1. dag næsta mánaðar, eða 1. apríl 2020, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. janúar 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að upphafstíma örorkumats hefði verið breytt og afturvirkar greiðslur örorkulífeyris hafi verið samþykktar frá 1. maí 2019.

Í umsókn um örorkulífeyri, dags. 26. júní 2020, hafi verið sótt um greiðslur frá 1. janúar 2019. Mánuði síðar hafi verið sótt um greiðslur frá 16. júlí 2018.

Í læknisvottorði F, [...], dags. 9. júní 2020, sem hafi fylgt með umsókn um örorkulífeyri, segi að kærandi hafi haft versnandi einkenni vitrænnar skerðingar í að minnsta kosti fimm ár sem lýsi sér meðal annars í skammtímaminnisskerðingu, verkstoli, svefntruflunum, ofskynjunum og skertri rýmisskynjun. Hann týni hlutum, missi úr orð, endurtaki sig, haldi ekki þræði í samtali, sé hægari í athöfnum og hreyfingum. Hann geti ekki lesið á klukku eða farið eftir tæknilegum upplýsingum. Fari frá hálfkláruðum verkum og sé viðkvæmur fyrir álagi.

Viðtal og skoðun hjá skoðunarlækni hafi farið fram þann 5. ágúst 2020. Í skýrslu skoðunarlæknis segi undir liðnum heilsufars- og sjúkrasaga að kærandi sé að sækja um örorkumat vegna heilabilunar en taugasálfræðilegt mat bendi til þess að hann sé annaðhvort með Alzheimer eða Lewy Body. Að áliti öldrunarlæknis sé hann talinn vera með slíka vitræna skerðingu að það komi í veg fyrir störf á almennum vinnumarkaði. Eiginkona og sonur svari fyrir hann en innsæi í eigin mál sé ekki til staðar. Að sögn hafi kærandi verið óvinnufær lengi en muni ekki hversu lengi.

Við mat á örorku samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar, sbr. reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat, hafi kærandi fengið sex stig vegna líkamlegrar færniskerðingar og nítján stig vegna andlegrar færniskerðingar. Á þeim grundvelli hafi hann uppfyllt skilyrði til greiðslu örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. laganna.

Samkvæmt 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skuli bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Í læknisvottorði, dags. 9. júní 2020, sé óvinnufærni kæranda miðuð við 9. mars 2020 og hafi við ákvörðun um óvinnufærni hans verið miðað við þá dagsetningu samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar. Hafi því ekki verið fallist á umsókn um afturvirkar greiðslur frá 16. júlí 2018.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. janúar 2021, hafi kæranda hins vegar verið tilkynnt að samþykktar hafi verið afturvirkar greiðslur frá 1. maí 2019. Sú ákvörðun hafi verið tekin með hliðsjón af upplýsingum í læknisvottorði heimilislæknis hans, E, dags. 16. nóvember 2020, þar sem segi að kærandi hafi haft einkenni vitrænnar skerðingar undanfarin fimm ár og að rannsóknir á minnismóttöku Landsspítala hafi leitt í ljóst skerðingu á allri vitrænni starfsemi. Í vottorðinu segi að kærandi hafi komið á stofu til læknis þann 19. apríl 2019 og hafi þá verið óvinnufær vegna andlegra einkenna með skerðingu, auk stoðkerfiseinkenna.

Í málinu liggi ekki fyrir önnur læknisfræðileg samtímagögn sem staðfest geti að heilabilun kærandi hafi fyrir apríl 2019 verið komin á það stig að jafngildi þeirri færniskerðingu sem vísað sé til í 18. gr. laga um almannatryggingar, sbr. reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Að mati Tryggingastofnunar séu því ekki forsendur fyrir því að fallast á frekari afturvirkni greiðslna en frá 1. maí 2019 að telja, sbr. 1. mgr. 53. gr. laganna.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að miða upphafstíma örorkumats við 1. maí 2019, áður 9. mars 2020, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar kröfu um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris. Við upphaf þessa kærumáls var kærð ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að upphafstími örorkumats kæranda skyldi vera 1. apríl 2020. Í kjölfar nýs læknisvottorðs, sem lagt var fram með kæru, endurskoðaði Tryggingastofnun örorkumatið með ákvörðun, dags. 21. janúar 2021, og var upphafstími örorkumatsins ákvarðaður frá 1. maí 2019. Í kæru er þess krafist að upphafstími örorulífeyris verði 16. júlí 2018.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal sækja um allar bætur samkvæmt þeim lögum. Örorkubætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. nefndrar 53. gr. skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berast Tryggingastofnun.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Örorkustaðallinn er byggður upp af stöðluðum spurningum sem varða líkamlega og andlega færni viðkomandi. Almennt er leitað eftir svörum og mati umsækjanda sjálfs á þeim spurningum sem í staðlinum eru. Enn fremur liggur fyrir skoðunarskýrsla læknis sem á grundvelli skoðunar og viðtals við umsækjanda fyllir út staðalinn. Umsækjandi fær stig eftir færni sinni. Til að metin verði 75% örorka þarf að ná fimmtán stigum í líkamlega hluta staðalsins eða tíu stigum í andlega hlutanum eða sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er í undantekningartilvikum hægt að meta viðkomandi án staðals, en svo var ekki í tilviki kæranda.

Við mat á því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði örorku aftur í tímann, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, horfir úrskurðarnefndin til þess hvers eðlis sjúkdómur eða fötlun viðkomandi er. Margs konar líkamleg fötlun er þess eðlis að hún kemur fram strax við fæðingu eða til dæmis við slys þannig að viðkomandi uppfyllir ótvírætt skilyrði örorku. Í öðrum tilvikum eru veikindi eða fötlun þess eðlis að þau eru hægt versnandi eða breytileg frá einum tíma til annars, svo sem ýmis andleg veikindi og hrörnunarsjúkdómar. Úrskurðarnefndin horfir einnig til þess hvort fyrir liggja samtímagögn, svo sem læknisvottorð eða mat annarra sambærilegra sérfræðinga, sem séu það ítarleg og skýr að byggja megi á þeim mat á örorku þó svo að eiginlegt formbundið mat hafi ekki farið fram.

Kærandi var talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati, dags. 10. ágúst 2020. Örorkumatið er byggt á skýrslu G skoðunarlæknis, dags. 5. ágúst 2020, þar sem kærandi hlaut sex stig í líkamlega hluta staðalsins og nítján stig í andlega hlutanum. Gildistími örorkumatsins var ákvarðaður frá 1. apríl 2020. Endurskoðaður upphafstími 75% örorku var ákvarðaður af hálfu Tryggingastofnunar frá 1. maí 2019 með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 21. janúar 2021.

Í málinu liggja fyrir, auk umsóknar kæranda, tvö læknisvottorð F, dags. 9. mars og 9. júní 2020, skoðunarskýrsla G skoðunarlæknis, dags. 5. ágúst 2020, og læknisvottorð E, dags. 16. nóvember 2020.

Í læknisvottorði F, dags. 9. júní 2020, er tilgreind sjúkdómsgreiningin Unspecified dementia. Í vottorðinu kemur fram það mat læknisins að kærandi hafi verið óvinnufær frá 9. mars 2020. Um sjúkrasögu kæranda segir:

„Undirrituð hitti A og einkonu hans í fyrsta sinn á minnismóttökunni á Landakoti í mars 2020. Þar kemur fram að hann hefur verið með versnandi vitræn einkenni í a.m.k. 5 ár. Skert rýmisskynjun, almennt hægari, skamtímaminnisskerðing, verkstol, sveiflur í einkennum og ofskynjanir. Einnig grunur um svefntruflun. telst kominn á stig heilabilunar. Hann týnir hlutum, endurtekur sig og missir út orð. Heldur ekki þræði í samtölum, er viðkvæmur fyrir álagi. Er hægari í hugsun og hreyfingum. Einnig framtakslaus og fer frá hálfkláruðum verkefnum á heimilinu (þetta er nýtt). Virðist með skerta rýmisskynjun. Virðist ekki geta lesið á klukku lengur. Getur alls ekki tileinkað sér nýja tækni/upplýsingar.

Rannsóknir á minnismóttökunni leiddu í ljós víðtæka skerðingu á öllum sviðum vitrænnar getu og er hægt að segja með óyggjandi hætti að um taugahrörnunarsjúkdóm sé að ræða. Klíníska myndin er þó ekki alveg ljós varðandi hvort Lewy sjúkdómur eða Alzheimer sjúkdómur sé undirliggjandi, en áframhaldandi eftirlit mun væntanlega leiða það í ljós.“

Í samantekt á mati taugasálfræðings á vitrænni getu segir í vottorðinu:

„Fram kemur verulega skert tafarlaust minni fyrir sögu en minni fyrir orðalista er á jaðarsvæði. Óyrt minni er verulega skert. Minnisgeymd yfir tíma er misjöfn, í lagi fyrir sögu og mynd en slök fyrir orðalista. Stýring er skert á slóðarprófi B og klukkuprófi, hraði virðist vera mjög skertur sem og sjónúrvinnsla. Athygli virðist vera mjög slök. Ekki kemur fram orðagleymska en merkingarflæði er slakt. Námskúrva er í flatara lagi. Tímaáttun er slök, innsæi fremur slakt. Þar sem skerðing er svo víðtæk er erfitt að draga ályktanir um orsök. Alzheimersjúkómur kemur til greina en hæging hugarstarfs er þó meira áberandi en algengt er. Hæging hugarstarfs er sameiginleg fyrir vaskular sjkd og Lewysjúkdóm. […] Teikning er betri en algengt er í Lewysjkd. þó frammistaða sé vissulega skert og fram komi nokkur bjögun sjónrýmdarskyns. Hann er aðeins skjálfhentur við teikningu og myndin er fremur lítil en við skrift kemur ekki fram titringur né mikrografía. Fékk konsúlt hjá H taugasálfræðingi og telur hún líklegra að þetta sé Alzheimersjúdkómur en Lewysjúkdómur. Heilabilun er komin af fyrstu stigum.“

Í læknisvottorði E, dags. 16. nóvember 2020, segir:

„Undirritaður þekkir vel til A og hann margoft komið á stofu til undirritaðs út af ýmsum heilsufarsvandamálum. Hann hefur nú verið greindur með alvarlegan og hratt vaxandi minnissjúkdóm. Við skoðun á gögnum mínum get ég vottað að hann var hjá mér í apríl 2019 og var þá þegar óvinnufær vegna andlegra einkenna með skerðingu auk stoðkerfiseinkenna. Síðar á árinu 2019 urðu minnisvandamál æ ljósari þar til greining var staðfest nú snemma á þessu ári.

Allt bendir til hratt vaxandi Lewy body sjúkdómsins og hugsanlega einnig Parkinsons sjúkdóms. Mikilvægt að tekin sé til greina afturvirk óvinnufærni hjá þessum duglega manni.“

Í skoðunarskýrslu G, dags. 5. ágúst 2020, segir um mat hans á því hve lengi færni kærandi hafi verið svipuð:

„Um er að ræða mann sem hefur ekki unnið í 5 ár. Hann leitar með konu sinni f 2-3 árum vegna þessara einkenna til heimilislæknis (grunur vaknaði hjá aðstandendum) og vildu þá að sögn sækja um örorku. Hann segir að heimilislæknir hafi þá ekki gert mikið úr hans vandamálum þá (sonur staðfestir), bæði talað um að hann væri svo fjölhæfur en einnig talað um Virk. En síðan gerist ekki meira fyrr en hann fer á eigin vegum til öldrunarlæknis á stofu (D) sem skoðar hann og vísar á Minnismóttökuna á Landakoti þangað sem hann kemst nú í vor. Heilabilunargreining frá því í vor. Þannig að áliti undirritaðs skoðunarlæknis er færni talin hafa verið svipaða og nú amk 1 ár aftur í tímann en líklega gæti það verið lengri tími, allt að 2 árum. Ef þörf krefur þá væri hægt að styðja þetta mat skoðunarlæknis frekar með því að fá gögn frá heimilislækni og síðan frá umræddum öldrunarlækni í D.“

Undir rekstri málsins var lögð fram sjúkraskrá frá Heilsugæslunni C fyrir tímabilið 1. janúar 2017 til 31. desember 2019. Samkvæmt sjúkraskránni leitaði kærandi reglulega til læknis vegna líkamlegra vandamála á árunum 2017 og 2018, svo sem vegna verkja í hnjám og hægri öxl. Í samskiptaseðli E heimilislæknis, dags. 11. júní 2018, kemur fram að kærandi ætti að þola vinnu með léttara líkamlegu álagi. Ekkert er minnst á hugsanleg andleg vandamál fyrr en í samskiptaseðli E, dags. 24. apríl 2019.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur upphafstíma örorkumats kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ljóst er að kærandi uppfyllti læknisfræðileg skilyrði örorku þegar skoðun skoðunarlæknis fór fram 5. ágúst 2020. Tryggingastofnun miðaði upphafstíma örorkumats kæranda við 1. maí 2019, þ.e. fyrsta dag næsta mánaðar eftir að óvinnufærni var staðfest samkvæmt læknisvottorði E, dags. 16. nóvember 2020. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála liggja ekki fyrir gögn sem staðfesta að kærandi hafi uppfyllt læknisfræðileg skilyrði örorku fyrir þann tíma.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. janúar 2021 um að upphafstími örorkumats kæranda skuli vera 1. maí 2019.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þess efnis að upphafstími örorkumats A, skuli vera 1. maí 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta