Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Landspítala

 

Ráðning í starf. Stjórnvald. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun L um að ráða karl í starf yfirlæknis heila- og taugaskurðlækninga. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að L hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 21. apríl 2023 er tekið fyrir mál nr. 12/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru sem barst 14. ágúst 2022 kærði A ákvörðun Landspítala um að ráða karl í starf yfirlæknis heila- og taugaskurðlækninga. Kærandi telur að kærði hafi með ráðningunni brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var send kærða með bréfi, dags. 30. ágúst 2022, þar sem óskað var eftir afstöðu hans til kærunnar. Greinargerð kærða, dags. 30. september 2022, barst þann dag og var send kæranda til athugasemda sama dag. Kærunefndinni bárust athugasemdir kæranda, dags. 16. október 2022, og voru þær sendar kærða 18. s.m. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 1. nóvember 2022, og voru þær kynntar kæranda 2. s.m.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærði auglýsti starf yfirlæknis heila- og taugaskurðlækninga laust til umsóknar með auglýsingu á starfatorgi og heimasíðu kærða 3. desember 2021. Í auglýsingunni kom m.a. fram að yfirlæknir væri leiðtogi og hefði þríþætta ábyrgð sem stjórnandi, þ.e. faglega ábyrgð, starfsmannaábyrgð og rekstrarábyrgð. Hann sinnti daglegum störfum sérfræðilæknis með gæsluvaktabyrði en auk þess gegndi yfirlæknir mikilvægu hlutverki í kennslumálum og við uppbyggingu vísindastarfs. Næsti yfirmaður væri forstöðumaður skurðlækningakjarna á aðgerðasviði. Tekið var fram að heila- og taugaskurðlækningar væri lítil sérgrein og þátttaka yfirlæknis í daglegu starfi væri skilyrði. Leitað væri eftir sérfræðilækni með víðtæka reynslu í heila- og tauga­skurðlækningum og hæfni til að vera í forystu fyrir þjónustu við sjúklinga, umbótastarf, öryggismál og uppbyggingu mannauðs í nánu samstarfi við forstöðumann, fram­kvæmdastjóra og annað starfsfólk. Væri gerð krafa um helgun í starfi yfirlæknis. Helstu verkefni og ábyrgð voru tiltekin sem fagleg ábyrgð á uppbyggingu, skipulagi og þróun heila- og taugaskurðlækninga, þ.m.t. kennslumál og vísindastarf, fjárhagsleg ábyrgð, þ.e. ábyrgð á rekstrarkostnaði einingarinnar, starfsmannaábyrgð, þ.e. ábyrgð á uppbyggingu mannauðs og daglegri stjórnun starfsmanna í einingunni, og almenn sérfræðilæknastörf í daglegri starfsemi sérgreinarinnar. Hæfniskröfur voru tilgreindar sem íslenskt sérfræðileyfi í heila- og taugaskurðlækningum en víðtæk reynsla í heila-, mænu- og bakskurðaðgerðum auk bakvaktahæfni væri nauðsynleg. Þá var gerð krafa um leiðtogahæfileika og getu til að leiða umbótastarf og breytingar auk færni í stjórnunarhlutverki, þ.e. faglega ábyrgð, starfsmannaábyrgð og fjárhagslega ábyrgð. Jafnframt var gerð krafa um reynslu af kennslu og vísindastörfum og sýn til framtíðar á þeim sviðum. Gerð var krafa um jákvætt viðmót og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og frumkvæði og metnaði til að ná árangri. Tekið var fram að fullt starf væri bundið við sjúkrahúsið eingöngu, sbr. grein 3.2.4 í gildandi kjarasamningi lækna og ríkisins, og að tekið væri mið af jafnréttisstefnu Landspítala við ráðningar á spítalanum.
  5. Alls bárust átta umsóknir um starfið en sjö umsækjendanna voru taldir hæfir í umsögn stöðunefndar lækna og voru þeir boðaðir til viðtals við matsnefnd spítalans. Að loknum viðtölum var einum umsækjandanum boðið starfið sem hann þáði.
  6. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 22. mars 2022 sem var veittur með bréfi, dags. 31. s.m.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  7. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf yfirlæknis heila- og taugaskurðlækninga.
  8. Kærandi tekur fram að hún sé reyndur skurðlæknir og næstráðandi á stærstu heila- og taugaskurðdeild Danmerkur. Hún sé stjórnandi hryggjarteymis (e. Head of spine) sem sé stærra en deildin á Íslandi. Hún sé stefnumótandi í þróun meðferða í hryggjarteymi, ábyrg fyrir gæðastjórnun, ásamt mörgum fleiri stjórnunarverkefnum.
  9. Tekur kærandi fram að hún sé „speciale ansvarlig overlæge“ en starfsheitinu hafi verið breytt í „ledende overlæge“ 1. júní 2022 í kjölfar nýrra kjarasamninga en starfið sé óbreytt. Hafi hún gegnt þessu starfi í tíu ár. Þá hafi hún mikla stjórnunarreynslu, hafi sótt mörg námskeið í stjórnun, tekið þátt í mörgum vinnuhópum, bæði innan stofnunarinnar og utan, auk þess að vera klínísk virk. Hafi hún unnið daglega að gæðamálum. Þá hafi hún nýlega tekið þátt í að flytja deildina, sem hún starfi á, á nýjan spítala. Taldi hún að sú reynsla kæmi að góðum notum á nýjum Landspítala.
  10. Kærandi bendir á að í rökstuðningi fyrir ráðningunni komi fram að helstu rökin hafi verið þau að sá sem fékk starfið hafi áður gegnt svipaðri stöðu. Bendir kærandi á að í því felist að verið sé að breyta leikreglum eftir á þar sem ekki hafi verið gerð krafa í auglýsingunni um að hafa gegnt sambærilegri stöðu. Gerð hafi verið krafa um reynslu af stjórnun sem hún hafi í ríkum mæli. Jafnframt hafi hún gegnt sambærilegri stöðu og auglýst var.
  11. Kærandi bendir á að það hafi vakið athygli hennar að sá sem var ráðinn hafi ekki mikla reynslu í aðgerðum á baki sem séu meira en helmingur af aðgerðum deildarinnar, auk þess sem hann sé kominn á þann aldur að geta neitað vöktum. Hafi bæði þessi atriði verið tiltekin sem skilyrði við ráðningu í starfið.
  12. Tekur kærandi fram að hún hafi verið boðuð í viðtal þar sem enginn ágreiningur hafi verið um hæfni hennar. Hafi hún, þegar eftir því var leitað, gefið upp upplýsingar um meðmælendur sína en henni til mikillar furðu hafi aldrei verið leitað til þeirra.
  13. Kærandi telur að stigagjöf matsnefndar sé í litlu samræmi við umsögn stöðunefndar. Sérstaklega veki stigagjöf fyrir vísindastörf athygli í samanburði við aðra umsækjendur og sé matið á þessum þætti beinlínis rangt. Hafi hún birt sambærilegan fjölda greina og sá sem var ráðinn og haldið fjölda fyrirlestra. Þá hafi hún verið með fleiri nýlegar birtingar og sé vel virk í rannsóknum og kennslu.
  14. Kærandi tekur fram að varðandi þann matsþátt sem varðar sýn á starfið og forystu um uppbyggingu sjái hún ekki mikinn mun á sínum svörum og þess sem var ráðinn. Stigagjöfin sé hins vegar ekki í samræmi við það og telur hún því matið á þessum þætti rangt.
  15. Bendir kærandi á að þrátt fyrir að munur sé á henni og þeim sem var ráðinn í matsþættinum stjórnun og leiðtogahæfileikar hafi hún lagt stund á stjórnunarnám og lokið námskeiðum í gæðastjórnun, stjórnun á skurðstofugangi og almennri stjórnun. Starfi hún í dag sem „funktionsleder“ á skurðstofugangi ásamt því að gegna stjórnunar­stöðu á heila- og taugaskurðdeildinni í Árósum. Sá sem fékk starfið hafi lagt stund á stjórnunarnám á netinu með þremur vinnustofum (surgical leadership Harvard). Telur hún að þessi námskeið beri að leggja að jöfnu.
  16. Kærandi tekur fram að hún hafi lokið evrópska sérfræðináminu en ekki sé sérstakt sérfræðipróf í Danmörku eins og í Svíþjóð. Þá bendir hún á að nokkur munur sé á námi í Svíþjóð og Danmörku. Í Svíþjóð sé mikið lagt upp úr því að stunda rannsóknir og ljúka doktorsprófi meðan á sérfræðinámi stendur. Í Danmörku sé slíkt ekki gert samhliða störfum eða sérfræðinámi og því nauðsynlegt að taka sér frí frá því í þrjú ár. Hafi hún valið að tileinka sér færni í skurðaðgerðum og meðhöndlun sjúklinga. Þá bendir hún á að starfið sem um ræðir sé ekki prófessorsstaða heldur starf klínísks læknis sem stjórnanda.
  17. Kærandi bendir á að umrætt starf sé sambærilegt því sem hún gegni í Danmörku. Hún beri faglega ábyrgð, beri ábyrgð á gæðastjórnun og flæði á deildinni. Starfsmannamál vinni hún í nánu samstarfi við yfirmann sinn sem hægt sé að líkja við forstöðumann skurðlækningakjarna á aðgerðasviði. Telur hún að matsnefndin hafi misskilið starf hennar í Danmörku og skýri það niðurstöðu í stigatöflunni. Þá bendir hún á að í auglýsingu hafi verið óskað eftir færni í stjórnunarhlutverki en ekki sambærilegri reynslu. Telur kærandi að hún sé ekki eftirbátur þess sem fékk starfið í stjórnunar­reynslu, námi í stjórnun eða færni.
  18. Kærandi bendir á að í auglýsingu hafi verið óskað eftir að sá sem yrði ráðinn gæti sinnt vöktum og almennum störfum. Tekur kærandi fram að hún sé með flestar aðgerðir á sínum aðgerðalista, hafi fleiri hundruð heilaaðgerðir á ferilskránni. Þá hafi hún framkvæmt langt yfir 120 aðgerðir árlega og flóknari aðgerðir eftir því sem hún hafi verið lengur í starfi. Telur hún sig vel færa til að sinna öllum störfum á deildinni. Veki það athygli að þessu sé ekki gert hátt undir höfði í stigatöflunni.
  19. Kærandi tekur fram að hún hafi undanfarin ár sérhæft sig í flóknum hryggjar­aðgerðum, mænuæxlum og aðgerðum á börnum með meðfæddan galla á hrygg. Ekki séu til staðar læknar á Íslandi sem hafi sérhæft sig í þessum aðgerðum og taldi hún sér það til tekna að geta aukið öryggi sjúklinga að þessu leyti og þróað nýjar meðferðir hjá kærða. Virðist það hins vegar ekki hafa haft neitt vægi í stigatöflunni.
  20. Að lokum tekur kærandi fram að hún telji sig á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu a.m.k. jafnhæfa þeim sem var ráðinn. Hafi því mistök verið gerð við ráðninguna.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  21. Kærði telur að ekki hafi verið leiddar að því líkur að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns eða annarra þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf yfirlæknis heila- og taugaskurðlækninga.
  22. Kærði tekur fram að sá sem var ráðinn í starfið hafi verið talinn hæfastur umsækjenda til að gegna því. Hafi hann verið talinn uppfylla öll hæfisskilyrði sem lögð voru til grundvallar við ráðninguna. Hann hafi íslenskt sérfræðileyfi í heila- og tauga­skurðlækningum, víðtæka starfsreynslu sem sérfræðilæknir, breiða reynslu og þjálfun í öllum heila- og taugaskurðaðgerðum, lokið doktorsprófi og eins árs stjórnunarnámi. Þá hafi hann verið yfirlæknir heila- og taugaskurðdeildar Sahlgrenska sjúkrahússins í Gautaborg og gegnt því starfi um tæplega sex ára skeið. Hafi hann reynst vera eini umsækjandinn sem hafi gegnt sambærilegu starfi og því sem var auglýst. Þá hafi hann haft góða reynslu í umbóta- og gæðastjórnun og skýra sýn á uppbyggingu, þróun og skipulag sérgreinarinnar. Leggi hann áherslu á samstarf í rannsóknum og klínískri vinnu, teymisvinnu og góð samskipti. Hafi framangreind sjónarmið verið lögð til grund­vallar við ákvörðun um ráðningu hans í það starf sem um ræðir.
  23. Tekur kærði fram að stöðunefnd lækna hafi metið kæranda ásamt sex öðrum umsækjendum hæfa til að gegna starfinu. Kærandi hafi mikilvæga reynslu sem næs­tráðandi á stærstu heila- og taugaskurðdeild Danmerkur en það beri að skoða sem hluta af stærri heild þegar kemur að samanburði á umsækjendum og heildstæðu mati á hæfni þeirra.
  24. Kærði fellst ekki á að hafa breytt kröfum til starfsins eftir á. Telja megi augljóst að þegar rætt sé um starfsreynslu sé reynsla af sambærilegu stjórnunarstarfi talin hafa vægi umfram aðra starfsreynslu, einnig umfram stjórnunarreynslu á lægri stjórnunarstigum.
  25. Kærði tekur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um aðgerðir sem umsækjendur hafi framkvæmt sé ljóst að kærandi hafi mikla reynslu í hryggjaraðgerðum en hafi virst hafa eitthvað minni reynslu af öðrum aðgerðum, t.d. á höfði. Samkvæmt upplýsingum um aðgerðir sem sá sem fékk starfið hefur framkvæmt sé ljóst að hann hafi breiða og víðtæka reynslu af þeim aðgerðum sem framkvæmdar eru á viðkomandi rekstrar­einingu. Hann uppfylli því fyllilega kröfur og væntingar og það sem til þarf í starfinu. Kærði fellst ekki á að þessi þáttur sem slíkur ætti að leiða til þess að kærandi teldist hæfari umsækjandi en sá sem var ráðinn í starfið.
  26. Kærði bendir á að samkvæmt grein 4.1.3 í kjarasamningi lækna sé þeim heimilt eftir 55 ára aldur að hafna því að taka vaktir sé ekki um annað samið. Í grein 3.3.4 í sama kjarasamningi sé kveðið á um launaþrep til handa þeim læknum sem semja um að ganga vaktir eftir 55 ára aldur. Í því máli sem hér er til umfjöllunar er sérstaklega tilgreint í auglýsingu um starfið að gæsluvaktir fylgi starfinu og því litið á það sem ráðningarforsendu að yfirlæknirinn sinni gæsluvöktum. Hafnar kærði því að sá sem var ráðinn hafi ekki uppfyllt ráðningarforsendur á þeim forsendum að hann hafi náð 55 ára aldri.
  27. Tekur kærði fram að sá sem var ráðinn hafi fengið hæsta mat samkvæmt stigagjöf matsaðila en kærandi hafi verið í sjötta sæti af þeim sjö sem komu í viðtal og stöðunefnd lækna taldi hæfa. Sá sem var ráðinn í starfið hafi haft starfsreynslu, menntun og stjórnunarreynslu sem yfirlæknir umfram kæranda. Aðrar upplýsingar og gögn sem liggi fyrir í málinu verði ekki talin til þess fallin að breyta því mati að hann hafi verið hæfastur umsækjenda.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  28. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu karls í starf yfirlæknis heila- og taugaskurðlækninga.
  29. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórn­sýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  30. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í það starf sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  31. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endur­skoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  32. Í auglýsingu um starf yfirlæknis heila- og taugaskurðlækninga kom fram að yfirlæknir væri leiðtogi og hefði þríþætta ábyrgð sem stjórnandi, þ.e. faglega ábyrgð, starfsmanna­ábyrgð og rekstrarábyrgð. Tekið var fram að yfirlæknir sinnti daglegum störfum sérfræðilæknis og starfinu fylgdi gæsluvaktabyrði. Þá var tekið fram að yfirlæknir gegndi mikilvægu hlutverki í kennslumálum og við uppbyggingu vísindastarfs. Jafn­framt var tekið fram að þátttaka yfirlæknis í daglegu starfi væri skilyrði en leitað væri sérfræðilæknis með víðtæka reynslu í heila- og taugaskurðlækningum og hæfni til að vera í forystu fyrir þjónustu við sjúklinga, umbótastarf, öryggismál og uppbyggingu mannauðs í nánu samstarfi við forstöðumann, framkvæmdastjóra og annað starfsfólk.
  33. Í auglýsingunni var gerð krafa um íslenskt sérfræðileyfi í heila- og taugaskurð­lækningum. Víðtæk reynsla í heila-, mænu- og bakskurðaðgerðum auk bakvaktahæfni var talin nauðsynleg. Þá var gerð krafa um leiðtogahæfileika og getu til að leiða umbótastarf og breytingar auk færni í stjórnunarhlutverki. Jafnframt var gerð krafa um reynslu af kennslu og vísindastörfum og sýn til framtíðar á þeim sviðum. Að lokum var gerð krafa um jákvætt viðmót og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og frumkvæði og metnað til að ná árangri í starfi.
  34. Í samræmi við 36. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, var aflað álits stöðunefndar lækna um umsækjendurna sjö um starfið. Voru þessir umsækjendur metnir hæfir og var þeim í framhaldinu boðið í viðtal af matsnefnd kærða.
  35. Af gögnum málsins má ráða að matsnefndin hafi skilgreint sex hæfnisþætti út frá aug­lýsingu um starf yfirlæknis og hafi viðtalsspurningar tekið mið af þeim. Í viðtölum var notaður staðlaður viðtalsrammi og voru sömu spurningarnar lagðar fyrir alla umsækj­endurna. Þeir sex þættir sem lágu mati nefndarinnar til grundvallar voru í fyrsta lagi sýn á starfið og viðhorf gagnvart hlutverkinu, í öðru lagi forysta um uppbyggingu, skipulag og þróun heila- og taugskurðlækninga, í þriðja lagi kennsla og vísindastörf, í fjórða lagi stjórnun og leiðtogahæfileikar, þ.m.t. umbætur, í fimmta lagi jákvætt viðmót og góð hæfni í mannlegu samskiptum og í sjötta lagi frumkvæði og metnaður til að ná árangri.
  36. Eftir viðtal við alla sjö umsækjendurna stóð einn umsækjandi framar hinum umsækj­endunum að mati matsnefndar. Í framhaldinu var það niðurstaða framkvæmdastjóra að loknu heildstæðu mati á öllum gögnum málsins og þeim sjónarmiðum sem leggja bæri til grundvallar við ráðningu í starfið að ráða þann umsækjanda. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um hæfniskröfur í lögum sé það kærða að ákveða þær í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni spítalans að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þessar hæfniskröfur hafi verið málefnalegar.
  37. Hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni umsækjandans sem var ráðinn hafi verið heildstætt mat á öllum matsþáttum. Byggði kærði mat sitt einkum á upplýsingum í umsóknum, þ.m.t. fylgigögnum, frammistöðu í viðtali, niðurstöðu matsnefndar auk álits stöðunefndar. Af matsblöðum sem liggja fyrir í málinu má ráða að sá sem var ráðinn hafi fengið fleiri stig fyrir matsþætti hjá matsnefndinni en kær­andi. Verður ekki annað ráðið en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak þessara þátta. Að mati kærunefndar verður heldur ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvað félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á mál­efnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Í því sambandi er þó rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöf er það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
  38. Eins og áður segir voru samræmdar spurningar lagðar fyrir umsækjendur í viðtölum og fengu upplýsingar sem komu fram í þeim vægi í mati kærða. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að upplýsingar í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum eða að ómálefnalegt hafi verið að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram.
  39. Með vísan til framangreinds og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækj­anda sem var ráðinn hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði lagði áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ekki verður talið að það hafi verið ómálefnalegt að byggja á því að sá sem var ráðinn hafi áður gegnt sambæri­legu starfi og hann var ráðinn til að gegna hjá kærða enda hluti af heildarmati á hæfni hans.
  40. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í starf yfir­læknis heila- og taugaskurðlækninga hafi að öðru leyti verið ómálefnalegt eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að mat kærða á umsækjendum, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  41. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf yfirlæknis heila- og tauga­skurð­lækninga. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Landspítali, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf yfirlæknis heila- og taugaskurðlækninga.

 

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta