Mál nr. 257/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 257/2021
Miðvikudaginn 15. desember 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 21. maí 2021, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. febrúar 2021, um að lækka greiðslur tekjutryggingar til kæranda og fella niður sérstaka uppbót til framfærslu vegna upplýsinga um erlendan lífeyri hans.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fær greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 22. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt um að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann fengi greiddan erlendan lífeyri frá C í D. Á grundvelli þeirra upplýsinga hafi bótaréttur ársins verið endurreiknaður og fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð 223.007 kr. Meðfylgjandi var greiðsluáætlun vegna ársins 2021 sem sýndi lækkun á greiðslum tekjutryggingar og niðurfellingu á sérstakri uppbót vegna framfærslu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. maí 2021 og rökstuðningur með kæru barst 8. júní 2021. Með bréfi, dags. 9. júní 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 6. júlí 2021, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 16. ágúst 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags 17. ágúst 2021. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 30. ágúst 2021, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. september 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 10. september 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 14. september 2021. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 23. september 2021, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. september 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 5. október 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 7. október 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. febrúar 2021, um endurreikning bótaréttar ársins sem hafi leitt til lækkunar greiðslna tekjutryggingar og sérstakrar framfærsluuppbótar til kæranda og kröfu að fjárhæð 223.007 kr. vegna ofgreiðslu fyrir janúar og febrúar 2021. Tryggingastofnun byggi ákvörðun sína á upplýsingum frá C, D, um greiðslur sem stofnunin skilgreini sem erlendan lífeyrissjóð.
Með bréfi, dags. 22. febrúar 2021, hafi kæranda verið tilkynnt um að Tryggingastofnun hafi borist upplýsingar um erlendan lífeyri frá C. Greiðslur tekjutryggingar hafi verið lækkaðar og sérstök framfærsluuppbót felld niður frá og með mars 2021, án þess að kæranda væri leiðbeint og honum gefið svigrúm til að koma með gögn sem sýndu fram á annað. Tryggingastofnun tilgreini hvorki á hverju stofnunin byggi ákvörðun sína um að kærandi sé að fá greiddar erlendar lífeyrissjóðsgreiðslur frá C né heldur á hverju sú niðurstaða byggi að þessum greiðslum megi jafna til greiðslna úr skyldubundnum lífeyrissjóðum á Íslandi.
Kærandi hafi óskað eftir því við Tryggingastofnun að fá send gögnin frá C, D, sem stofnunin vísi til í bréfi, dags. 22. febrúar 2021. Tryggingastofnun hafi sent afrit af bréfi frá C, dags. 6. janúar 2021, til kæranda ásamt E-210 vottorði. Í E-210 vottorðinu komi ekkert fram um greiðslurnar, nema mánaðarlega upphæð þeirra. Miðað við þær upplýsingar sem hafi legið fyrir í gögnum málsins verði ekki séð að Tryggingastofnun hafi haft upplýsingar um á hverju greiðslurnar byggi. Þar með séu ekki forsendur til að leggja mat á og sýna fram á að greiðslurnar sem kærandi fái frá D eða hluta þeirra megi jafna til greiðslna úr skyldubundnum lífeyrissjóðum á Íslandi. Eins og fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 10077/2019 beri Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála að „tryggja að viðhlítandi upplýsingar lægju fyrir um þau atriði sem hafa þýðingu við samanburð á bótagreiðslum EES-ríkja og mat á því hvort um jafngildar bætur væri að ræða í skilningi ákvæðisins.“ Ef vafi leiki á að upplýsingar frá samskiptastofnun eða útgáfustofnun E-vottorða séu ekki nægilegar beri Tryggingastofnun að kalla eftir nauðsynlegum upplýsingum áður en ákvörðun sé tekin um að skerða lífeyrisgreiðslur sem stofnunin greiði.
Því sé ekki að sjá að Tryggingastofnun hafi aflað fullnægjandi upplýsinga um greiðslur C til kæranda til að geta tekið afstöðu til þess hvort greiðslurnar til hans væru sambærilegar bætur og greiðslur almannatrygginga, sbr. 2. málslið 4. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í bréfi Tryggingastofnunar, sem vísað sé til í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 10077/2019, komi fram að stofnunin meðhöndli „allar lífeyrisgreiðslur sem eru ákvarðaðar út frá fyrri launum eða vegna greiðslu iðgjalda sem lífeyrissjóðsgreiðslur“. Umboðsmaður Alþingis geri athugasemd við þessa framkvæmd og telji að það kunni að vera tilefni til að taka hana til almennrar athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar umboðsmanns.
Í athugasemdum kæranda frá 16. ágúst 2021 segir að í greinargerð Tryggingastofnunar sé ekki tilgreint á hverju stofnunin byggi þá ákvörðun sína að greiðslur sem kærandi hafi fengið frá C séu þess eðlis að þær skerði greiðslur frá stofnuninni vegna örorku kæranda. Í greinargerð sinni vísi Tryggingastofnun í að fram komi á E-210 eyðublaðinu frá D að greiðslurnar falli undir 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa og að slíkar lífeyrisgreiðslur hafi áhrif við útreikning hjá Tryggingastofnun, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Á E-210 eyðublaðinu sé ekki að sjá að merkt hafi verið við að greiðslurnar falli undir umrædda reglugerð, einungis að um sé að ræða lífeyri vegna örorku sem greiddur sé frá 13. september 2019 og tilgreind mánaðarleg upphæð á hverju ári fyrir sig.
Lífeyrisgreiðslur erlendis frá hafi ekki í öllum tilvikum áhrif við útreikning örorkulífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun. Stofnuninni beri að beita rannsóknareglunni og afla upplýsinga til að fá úr því skorið á hvaða grundvelli greiðslur erlendis frá séu greiddar, hvers eðlis þær séu og hvort þær séu sambærilegar við greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Ekki sé ljóst af gögnum málsins að Tryggingastofnun hafi lagt fullnægjandi grundvöll að þeirri niðurstöðu sinni að jafna megi greiðslunum til kæranda frá D til greiðslna úr skyldubundnum lífeyrissjóðum á Íslandi, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Það sé ekkert í gögnunum sem gefi til kynna að greiðslur til kæranda frá D hafi verið ætlað að tryggja að hann nyti framfærslu í samræmi við tekjur sínar áður en örorka hafi komið til. Enn fremur sé ekkert í gögnum málsins um að greiðslurnar séu ákvarðaðar út frá fyrri launum eða vegna greiðslu iðgjalda.
E-210 vottorðinu frá D hafi einnig fylgt bréf með sömu dagsetningu, þ.e. ákvörðun um veitingu örorkulífeyris ásamt upplýsingum um útreikning. Umboðsmaður kæranda hafi sent póst til lögfræðings hjá Tryggingastofnun og spurt hvort stofnunin væri með þýðingu á bréfinu sem ritað væri á D. Í svari Tryggingastofnunar, dags. 9. júní 2021, komi fram að bréfið hafi ekki verið þýtt þar sem þessi vottorð séu stöðluð á þann hátt að nauðsynlegar upplýsingar eigi að koma fram í sjálfu vottorðinu. Með þeirri ákvörðun að kynna sér ekki innihald bréfsins virði Tryggingastofnun að vettugi þá ríku rannsóknarskyldu sem á stofnuninni hvíli. Markmið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda séu bæði löglegar og réttar. Stjórnvald eigi að sjá til þess að nauðsynlegar og réttar upplýsingar liggi fyrir í máli þannig að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því áður en úrlausn þess komi. Stjórnvaldi beri ekki einungis að afla upplýsinga, stjórnvaldi beri að staðreyna fyrirliggjandi upplýsingar til þess að tryggja að ákvörðun verði tekin á réttum grundvelli. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er hafi orðið að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sé tekið fram að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búi að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Rannsókn stjórnvalda eigi þannig að leiða hið sanna og rétta í ljós í hverju máli.
Þess beri að geta að umboðsmaður kæranda hafi ekki enn fengið sent E-205 vottorð frá D sem óskað hafi verið eftir með tölvupósti í byrjun júní 2021.
Umboðsmaður kæranda hafi nýtt þýðingarvél til að þýða bréf, dags. 6. janúar 2021, yfir á ensku. Í þýðingunni komi meðal annars fram að hluti greiðslunnar sé grunnlífeyrir. Í bréfinu sé einungis vísað til tímabila í tengslum við það hvernig kæranda hafi áunnið sér réttindi í D en ekki að hann hafi áunnið sér inn réttindi í samræmi við launatekjur eða iðgjöld.
Í athugasemdum kæranda frá 10. september 2021 segir meðal annars að komið hafi í ljós að Tryggingastofnun sé ekki með E-205 vottorð í málinu. Um sé að ræða vottorð frá D um tryggingaferil sem Tryggingastofnun geti kallað eftir í því skyni að upplýsa um grundvöll bótaréttinda.
Í athugasemdum kæranda frá 5. október 2021 segir að í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að í „áðurnefndum úrskurði frá C er ekki tekið fram að um grunnlífeyri sé að ræða né heldur er fyllt út í reit 6.10 á eyðublaði E 210 og er sá reitur óútfylltur“ og gefin sé upp ensk þýðing á D […].
Tryggingastofnun taki þarna eina setningu úr lið 6.10 án þess að geta hennar í heild. Eins og fram komi í E-210 vottorði sé yfirskrift fyrir 6.10:
„Fyllist út af stofnunum í F
Mánaðarleg fjárhæð frá lágmarkslífeyris-/bótakerfi: ....................................................
Mánaðarleg fjárhæð frá tekjutengdu lífeyris-/bótakerfi: ...............................................“
Þessi liður eigi ekki við í tilviki kæranda, enda hafi hann aldrei búið eða starfað í F.
Með áðurnefndum úrskurði frá C sé væntanlega átt við bréfið með yfirskriftinni: „[…] (Ensk þýðing: Decision on granting a social insurance invalidity pension)“, en eins og fram hafi komið hafi umboðsmaður kæranda sent fyrirspurn til Tryggingastofnunar um hvort bréfið hefði verið þýtt.
Tryggingastofnun beri að tryggja að ákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Af þeim sökum sé ekki nóg að afla upplýsinga heldur verði að staðreyna hvort þær séu réttar til þess að tryggja að ákvörðun verði tekin á réttum grundvelli.
Rannsóknarskyldan sé talin ríkust þegar á réttindi reyni sem falli undir ákvæði EES-samningsins um fjórfrelsið. Samkvæmt hinum óskráðu meginreglum stjórnsýsluréttar Evrópuréttarins hvíli ríkari og virkari rannsóknarskylda á stjórnvöldum en leiði almennt af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá skuli áréttað að í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009, sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 883/2004, sé beinlínis kveðið á um þá meginreglu að stofnun sem taki við skjali sem útgefið sé af stofnun í öðru EES-ríki skuli biðja útgáfustofnunina um nauðsynlegar skýringar ef vafi komi upp um nákvæmni staðreynda sem lýst sé í útgáfuskjali.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um ofgreiddar bætur, dags. 22. febrúar 2021.
Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé mælt fyrir um endurreikning lífeyrisréttinda og eftirfarandi komi fram í 7. mgr. lagaákvæðisins:
„Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðslu ársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.“
Í 8. tölul. 1. gr. almannatryggingalaga séu tekjur nánar skilgreindar. Í ákvæðinu komi eftirfarandi fram:
„Tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað telst ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum; einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.“
Að auki sé að finna ákvæði í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum.
Lífeyrisréttindi séu tekjutengd og réttindi séu síðan ákvörðuð út frá tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar skili inn til Tryggingastofnunar og beri þeir sjálfir ábyrgð á að áætlun sé sem næst raunverulegum tekjum þeirra. Lögð sé áhersla á að tekjuáætlanir séu sem nákvæmastar svo að hvorki komi til ofgreiðslu né vangreiðslu við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta á hverju almanaksári. Greiðsluþegar geti hvenær sem er breytt sínum tekjuáætlunum rafrænt inn á „Mínum síðum“ hjá Tryggingastofnun.
Með bréfi, dags. 22. febrúar 2021, hafi Tryggingastofnun tilkynnt kæranda um að borist hefðu upplýsingar um erlendan lífeyri frá C í D að fjárhæð 9.203 EUR, sbr. bréf dags. 6. janúar 2021.
Á grundvelli þessara upplýsinga hafi greiðslur til kæranda verið endurreiknaðar. Við endurreikning hjá kæranda hafi ofgreiðsla myndast að fjárhæð kr. 223.007 kr. Í bréfi Tryggingastofnunar hafi einnig komið fram að krafan verði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins sem áætlað sé að fari fram haustið 2022. Jafnframt hafi verið vakin athygli á því að kærandi gæti greitt inn á kröfuna eða óskað eftir öðru greiðslufyrirkomulagi.
Í 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga sé mælt fyrir um endurreikning lífeyrisréttinda og Tryggingastofnun beri að endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna sem einstaklingur fær.
Tryggingastofnun starfi eftir lögum um almannatryggingar og þurfi að sinna lagalegri skyldu sinni og hlutverki með því að taka tillit til þeirra tekna sem fram komi á eyðublaði E-210 frá D, dags. 6. janúar 2021, frá tengistofnun í D. Þessar upplýsingar um greiðslur frá D hafi ekki komið fram á tekjuáætlun kæranda.
Á eyðublaði E-210 (LT), sem sé tilkynning um ákvörðun varðandi umsókn um lífeyri, komi fram að kærandi fái lífeyri fráD. Jafnframt komi fram á eyðublaði E-210 að greiðslur séu ákvarðaðar frá 13. september 2019, sbr. lið 6.5 á eyðublaði E 210 (LT).
Tryggingastofnun beri samkvæmt reglugerð nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum að framkvæma endurreikning. Fram komi í 9. gr. reglugerðarinnar að hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skuli það sem ofgreitt sé dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til. Þetta eigi við þegar tekjur sem lagðar séu til grundvallar bótaútreikningi reynist hærri en það sem getið hafi verið um í tekjuáætlun og að ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukningu eða breyttar aðstæður, sem raunin hafi verið í tilviki kæranda.
Í kæru sé vikið að því að kærandi hafi ekki verið nægjanlega upplýstur um að auknar greiðslur sem hann hafi fengið hefðu áhrif á lífeyri hans. Þess beri að geta að Tryggingastofnun reyni eftir fremsta megni að leiðbeina og upplýsa viðskiptavini sína um breytingar er verði á greiðslum til þeirra og telji stofnunin að bréf það sem kærandi hafi fengið frá Tryggingastofnun þann 22. febrúar 2021 hafi verið í samræmi við lög um almannatryggingar. Kæranda hafi átt að vera ljóst af innihaldi bréfsins að erlendur lífeyrir að upphæð 9.203 EUR sem getið sé um í bréfinu hafi ekki verið inni í fyrri tekjuáætlun frá kæranda og hefðu þar af leiðandi áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun.
Hvað varði það álitaefni að Tryggingastofnun hafi ekki aflað fullnægjandi upplýsinga um greiðslur C beri að geta þess að fram komi í gögnum frá C að greiðslur sem fram komi á eyðublaði E-210 (LT) falli undir 1. gr. EB reglugerðar nr. 883/2001 um samræmingu almannatryggingakerfa. Slíkar lífeyrisgreiðslur hafi áhrif á útreikning hjá Tryggingastofnun, sbr. ákvæði í 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum. Til tekna teljist tekjur eins og þær séu skilgreindar í 16. gr. laga um almannatrygginga þar sem jafnframt sé vikið að því að tekjur sem aflað sé erlendis og séu ekki taldar fram hér á landi skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar frá 30. ágúst 2021 segir að í bréfi frá C, dags. 6. janúar 2021, hafi verið fullnægjandi upplýsingar varðandi endurskoðaða ákvörðun á greiðslum til kæranda varðandi útreikning á örorkulífeyri almannatrygginga. Í því bréfi komi fram að um sé að ræða lífeyri sem greiðist samkvæmt EB reglugerð nr. 883/2004, sbr. a- og b-liði 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar frá 23. september 2021 segir að 1. mgr. 52. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa varði úthlutun bóta. Sú tilvísun sé rétt hvort heldur sem um sjálfstæðar bætur sé að ræða eða hlutfallslegar bætur.
Varðandi rannsóknarregluna telji Tryggingastofnun sig hafa rannsakað mál kæranda á faglegan máta og tekið upplýsta ákvörðun þegar upplýsingar um erlendar greiðslur hafi borist stofnuninni varðandi útreikning á örorkulífeyri almannatrygginga. Í áðurnefndum úrskurði frá C sé hvorki tekið fram að um grunnlífeyri sé að ræða né heldur sé fyllt út í reit 6.10 á eyðublaði E-210 (LT) […], sbr. þýðingu á ensku „The monthly amount is also the basic pension system“.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. febrúar 2021, um að lækka greiðslur tekjutryggingar til kæranda og fella niður sérstaka uppbót til framfærslu vegna upplýsinga um erlendan lífeyri hans.
Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. sömu laga segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Þá segir í 8. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar að tekjur séu einnig sams konar tekjur sem aflað sé erlendis og séu ekki taldar fram hér á landi.
Um upplýsingaskyldu greiðsluþega er fjallað í 39. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæði 1. mgr. 39. gr. laganna hljóðar svo:
„Umsækjanda eða greiðsluþega er rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá er skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.“
Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluárs til grundvallar við bótaútreikning hvers mánaðar. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 39. og 40. gr. Þá segir svo í 6. mgr. 16. gr. laganna:
„Tryggingastofnun ríkisins skal hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 40. gr.“
Í 1. mgr. 40. gr. laga um almannatryggingar segir að Tryggingastofnun sé heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og greiðslur hjá lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis þegar það eigi við með rafrænum hætti eða á annan hátt. Sambærilegt ákvæði er í 2. málsl 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Þá segir í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009 að komi fram upplýsingar frá þeim aðilum sem getið sé um í 1. mgr. 3. gr. eða við eftirlit Tryggingastofnunar sem leiði til breytinga á tekjuáætlun innan ársins og breytingin hafi áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna, skuli stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við þær upplýsingar og upplýsa bótaþega samstundis um breytinguna.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að Tryggingastofnun sé rétt að útbúa nýja tekjuáætlun fyrir greiðsluþega og lækka greiðslur þegar upplýsingar frá erlendum stofnunum um erlendar greiðslur gefa tilefni til. Fyrir liggur að með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. febrúar 2021, voru greiðslur tekjutryggingar til kæranda lækkaðar og sérstök uppbót til framfærslu felld niður.
Um sérstaka uppbót til framfærslu er fjallað í 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laganna er heimilt að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Þá kemur fram að miðað skuli við að tekjur séu undir tiltekinni fjárhæð á mánuði. Í 3. mgr. 9. gr. laganna segir að til tekna samkvæmt ákvæðinu teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð að tekjur kæranda frá D teljast til tekna við mat á því hvort hann eigi rétt á sérstakri uppbót til framfærslu. Því er ekki gerð athugasemd við þá ákvörðun Tryggingastofnunar að fella niður greiðslur sérstakrar uppbótar til kæranda þegar upplýsingar bárust um greiðslur kæranda frá D.
Um tekjutryggingu er fjallað í 22. gr. laga um almannatryggingar. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:
„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatryggingaog lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“
Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki tekjutryggingu og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. D er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá D, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna. Af gögnum málsins verður ráðið að Tryggingastofnun lítur á greiðslur kæranda frá D sem greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af gögnum málsins að kærandi fær greiddan lífeyri frá D. Aftur á móti telur úrskurðarnefndin að ekki verði ráðið af gögnum málsins hvers eðlis sá lífeyrir sé. Úrskurðarnefndin telur því að ekki liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar til að meta hvort umræddur lífeyrir sé sambærilegur bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar eða greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Tryggingastofnun skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af gögnum málsins verður ráðið að Tryggingastofnun hafi ekki rannsakað eðli greiðslnanna nægjanlega áður hin kærða ákvörðun var tekin. Úrskurðarnefndin telur því að stofnunin hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.
Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar til að meta hvort rétt sé að skerða greiðslur tekjutryggingar til kæranda, enda skerða bætur frá D, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna eins og áður hefur komið fram. Úrskurðarnefndin telur því rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til rannsóknar á eðli lífeyrisgreiðslna kæranda frá D.
Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður greiðslur sérstakrar uppbótar vegna framfærslu til kæranda staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að lækka greiðslur tekjutryggingar er felld úr gildi og þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður greiðslur sérstakrar uppbótar vegna framfærslu til A, er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að lækka greiðslur tekjutryggingar til kæranda er felld úr gildi og þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir